Skuespilhuset Leikhúsið nýtur sín vel upplýst í húminu. Óperuhúsið er hinumegin við höfnina.
Skuespilhuset Leikhúsið nýtur sín vel upplýst í húminu. Óperuhúsið er hinumegin við höfnina. — Ljosmyndir/Jens Lindhe
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýja Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, Skuespilhuset, var tekið í notkun í febrúar síðastliðnum.

Nýja Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn, Skuespilhuset, var tekið í notkun í febrúar síðastliðnum. Leikhúsið stendur við höfnina, eins og tvö önnur ný menningarhús í borginni, Óperan og Svarti demanturinn, og hafa þessar stofnanir gætt hafnarsvæðið nýju lífi. Arkitektastofan Lundgaard & Tranberg sigraði í opinni samkeppni um hönnun hússins sem um 300 stofur tóku þátt í. Byggingin stóðst allar áætlanir og var kostnaður þar að auki lægri en áætlað hafði verið. Við hönnunina tóku arkitektarnir mið af gömlum vöruhúsum umhverfis, sviðshluti byggingarinnar er úr dökkum hleðslusteini, ofan á henni er létt glerhæð fyrir starfsmenn og yfir öllu rís koparklæddur turn, sem kallast á við gamla turna borgarinnar. Fyrir framan leikhúsið er gangvegur úr eik, þar sem þegar er iðandi mannlíf á góðviðrisdögum.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

HÉR var áður ferjubryggja, héðan sigldu ferjur til Noregs, Póllands og til Bornholm og hér á bryggjunni var gámageymsla. Fólk gekk frá Nýhöfninni en kom svo að þessum vandræðastað, hér slitnaði leiðin að og frá Litlu hafmeyjunni í sundur. Nú er þetta breytt. Hér við Skuespilhuset er búið að leggja drög að gönguleið meðfram allri höfninni, frá Svarta demantinum, bókasafninu, eða úr Nýhöfn, að Litlu hafmeyjarstyttunni.“

Jens Øblom, arkitekt á Lundgaard & Tranberg arkitektastofunni, hefur orðið. Við stöndum við nýjustu perluna í byggingasögu Kaupmannahafnar, Skuespilhuset. Það var vígt í febrúar og stendur nærri Nýhöfninni, á ská gegnt Óperuhúsinu.

Øblom er að útskýra grunnhugmyndirnar að baki leikhúsinu nýja, en það hefur vakið mikla hrifningu borgarbúa. Hann ítrekar mikilvægi þess að með breiðum gangveginum sem krækir fyrir bygginguna, opnist greiðari leið fyrir vegfarendur. „Það eru uppi hugmyndir að setja litla brú við endann á Nýhöfninni, svo fólk þurfi ekki að leggja lykkju á leið sína ef það kemur meðfram sjónum,“ segir hann.

Hönnun og bygging hins nýja leikhúss gekk vel. Lundgaard & Tranberg Arkitektastofan var hlutskörpust í opinni samkeppni sem fram fór árið 2002. Framkvæmdir hófust árið 2004 og byggingin var vígð tæpum fjórum árum síðar. Í leikhúsinu eru þrír salir. Sá stærsti tekur 650 manns í sæti, Hafnarsviðið tekur 250 og Stúdíósviðið um 100. Leikhúsið er 21.000 fermetrar, það var tilbúið á tilætluðum tíma og var ódýrari en áætlun gerði ráð fyrir.

Øblom segir að um 300 arkitektastofur hafa tekið þátt í samkeppninni. „Upphaflega var útboðssvæðið mun stærra, náði nær alla leið að Nýhöfn og að þessu svæði þarna gegnt Óperunni,“ segir hann og bendir út á enda bryggjunnar vestan við leikhúsið, sem enn hefur ekkert verið gert við. „Við skilgreindum svæðið hins vegar strax þannig að við myndum setja bygginguna hér ef við ynnum.

Til allrar lukku féllust dómararnir á þessar hugmyndir. Um 80% tillagnanna settu leikhúsið niður á enda bryggjunnar, svo að segja gegnt Óperunni. Dómararnir mátu það eins og við, að þar færi leikhúsið að keppa við Óperuna um athygli og þrengdi um of að höfninni. Á einungis 20 prósent tillagnanna er húsið sett hér – en dómararnir voru sammála okkur.

Annað sem vakti mikla lukku er að byggingin snýr að höfninni og gengur í raun út í hana, en samt fer gönguleiðin fyrir framan og tengir bygginguna við gangandi umferð.“

Menningin við höfnina

Þar sem við stöndum á bryggjunni og virðum fyrir okkur hvað leikhúsið situr laglega þarna á hafnarkantinum, ræðum við um þá þróun að menningarstofnanir Kaupmannahafnar rísa þessi árin við höfnina – rétt eins og í Reykjavík, þar sem Listasafn Reykjavíkur fór í Hafnarhúsið, Sjóminjasafnið er úti á Granda og tónlistarhúsið nýja er í byggingu.

„Þetta er rétt eins og í Amsterdam, Rotterdam, Hamborg og fleiri hafnarborgum, þar sem höfnin hafði einn tilgang en nú er menningin smám saman að færast nær sjónum. Danski herinn var áður með allt þetta svæði gegnt okkur, þar sem Óperan stendur, en nú er þar arkitektaskóli, tónlistarskóli og fleiri listaskólar eru á leiðinni. Allar þessar fallegu hlöðnu byggingar koma frá hernum. Nú eru bara nokkrar iðnaðarlóðir eftir við höfnina, eins og pappírsgeymsla dagblaðanna gegnt leikhúsinu. Það er í raun síðasta verulega góða lóðin hér við höfnina.“

En þá er komið að því að skoða Skuespilhuset betur og við göngum nær. „Í hönnunarferlinu áttum við mjög góð samskipti við ráðamenn Konunglega leikhússins, hugmyndir flæddu bókstaflega á milli okkar,“ segir Øblom. „Það var nokkuð ólíkt ferlinu við byggingu Óperunnar, þar sem A.P. Møller og Chastine eiginkona hans, aðaleigendur Mærsk samsteypunnar, gáfu bygginguna tilbúna. Þar voru ekki mikil samskipti milli gefandans og óperunnar. Hér hefur Konunglega leikhúsinu allan tímann fundist þetta vera þeirra hús, því starfsmenn hafa verið með í ráðum.

Þegar við lýsum byggingunni segjum við hana grundvallast af þremur meginþáttum. Sá fyrsti er gangvegurinn fyrir framan leikhúsið, annar er sviðsbyggingin, meginbyggingin úr hlöðnum steini með þremur leiksviðum, tveimur æfingasviðum og baksviðum, og þriðji þátturinn er þjónustuhæðin eða hæð starfsfólksins. Þar er framkvæmdastjórnin til húsa, búningarými, aðstaða leikara, bókasafn, matsalur og fleira. Þar er mjög góð vinnuaðstaða og stutt að fara á sviðið, bæði fyrir leikarana og tæknimenn. Leikhúsfólkið er mjög ánægt með þessa tilhögun.“

Hann útskýrir þessa meginþætti byggingarinnar enn betur. Gestir ganga inn í leikhúsið af breiðum gangveginum úr eik, efni sem minnir á hafnarmannvirki fyrri tíma og skipasmíðar. Næst gangveginum er framhús leikhússins sem er skýlt af tærum glerveggjum. Það er sem forsalurinn og gangvegurinn fljóti, en eikargólfinu er haldið uppi af viðarsúlum sem halla, eins og þekkist frá Feneyjum.

Meginrými leikhússins eru í massífri byggingu úr hlöðnum steini, sem kallast á við gömlu hlöðnu vöruhúsin í kring. Dökkur hleðslusteinninn á að kalla fram þá tilfinningu að fólk sé að ganga inn í hellislíkan heim með skörpum andstæðum í hönnun og lýsingu. Grófir útveggirnir eru einnig sýnilegir í forsalnum; þetta er þungur heimur sem vísar um leið til fyrri tíma og hefðar í nýtískulegri hönnuninni. Hleðslusteinninn er einnig sýnilegur í hjarta hússins, hellislegum aðalsalnum, sem er eins og höggvinn inn í fjall. Hljómburðurinn þykist hafa tekist afar vel þar, en endurvarpið er ein sekúnda. Sérhönnuð rauð sætin glóa í formrænu samræmi við heildarhönnunina.

Efsta hæðin lýtur allt öðrum lögmálum. Hún skagar út yfir gangveginn og forsalinn, gegnum hana alla ganga stálbitar sem halla saman eins og spil í spilaborg og ytra byrði hæðarinnar er gler í mismunandi grænum litbrigðum. Á daginn er frábært útsýni yfir nágrennið og höfnina af hæðinni en þegar dimmir sést inn á hæðina, hvar starfsfólk er á þönum og að undirbúa leiksýningar.

Þessir meginþættir byggingarinnar eru loks krýndir af koparklæddum sviðsturninum.

Snýst allt um þessa vigt

Øblom hefur strokið lágum og löngum veggsteinunum meðan hann talar. „Þegar við fórum að velja efni og áferð skoðuðum við fyrst vöruhúsin í kring, en þau eru hlaðin úr steini. Þetta er nýmóðins útgáfa af hlöðnu vöruhúsi. Venjulega setjum við gluggana og glerið utan á veggina í þeim húsum sem við teiknum, það er hluti af hinni módernísku hefð. Hér vildum við hins vegar gefa byggingunni ákveðna þyngd og hafa þetta eins og í vöruhúsunum, þar sem gluggarnir sitja djúpt í veggjunum. Þessa vigt gátum við haft í sviðshlutanum.

Það var lengi unnið að þróun þessara hleðslusteina. Við höfðum þá svona dökka því þeir verða að bera þyngdina af þriðju hæðinni. Svona skapa þeir líka andstæðu við vatnið, sem glóir og glitrar þegar bjart er.

Við vildum gæta þess að byggingin skagaði ekki hærra upp en húsin í hring og aukum á lárétta tilfinninguna með því að hafa hleðslusteinana mjög langa og þunna. Gólfin og tröppurnar í húsinu eru líka úr hleðslusteini – þetta snýst allt um þessa miklu vigt.

Kaupmannahöfn hefur verið kölluð „turnaborgin“ og við ákváðum fljótlega að klæða sviðsturninn með kopar. Í koparnum endurtaka sig form úr hleðslusteininum því við vildum að það væri þrívídd í yfirborði turnsins. Það má sjá skuggaleik á turninum og svo fer koparinn strax að fá patínu á sig; það gerist hratt, fljótlega verður hann kominn með grænan blæ sums staðar, brúnan annars staðar. Þannig kallast tónarnir bæði á við hleðslusteinana og glært glerið á efstu hæðinni. Ef þú lítur á sviðsturninn á óperuhúsinu þarna hinum megin þá er hann hafður mjög tvívíður; þannig hefur Óperan haft áhrif á það hvernig við vildum ekki hafa hlutina hér.“ Øblom brosir.

Við göngum fram á eikargólfið framan við leikhúsið og inn í forsalinn, þar sem veitingastaður er í horninu og setið við flest borð. Øblom segir að fyrst hafi kaffihús verið þarna en það varð svo vinsælt að því var breytt í veitingastað. Þá er nú einnig búið að opna útibar á gangveginum framan við húsið, en hann á að vera opinn á sumrin, enda leggja afar margir leið sína að húsinu.

„Þú sérð hvað húsið og aðstaðan er orðin vinsæl. Fólki finnst áhugavert að ganga hér um. Þetta er líka afar fallegur staður við höfnina og meira en 180 gráðu útsýni. Hér verður vinsælt að sitja á sumrin í framtíðinni.“

Niður úr lofti forsalarins hangir fjöldi koparröra með ljósauga á endanum, dökkt hleðslugrjótið er í gólfinu og stigar liggja upp í hlaðna veggina, að sviðum hússins. „Í leikhúsi er gjarnan talað um framhús og bakhús, annars vegar fyrir gesti og hins vegar fyrir starfsfólk“ segir Øblom. Hér er ekki mikið pláss fyrir gestina en samt er þetta afar mikilvægt rými. Héðan er gengið í salina – í ævintýraheim leikhússins og hér spjallar fólk saman fyrir sýningar og í hléi.“

Allir vilja kynnast húsinu

Við höldum í skoðunarferð um sviðin þrjú. Allir gangar hússins eru háir og frekar þröngir, enn er hleðslusteinninn í öndvegi. Øblom útskýrir einfaldar lausnir í frágangi og segir jafnframt að hönnuðirnir hafi ekki getað leyft sér neina dýra „stæla“ í fráganginum því húsið var byggt fyrir fé skattgreiðenda.

Sýningar á minni sviðunum tveimur hafa notið mikilla vinsælda í vor. Þau eru keimlík hvað grunnhönnun varðar og áberandi hvar hönnuðir sviðsmynda og tæknimenn geta haft frjálsar hendur. Þannig eru áhorfendasvæðin á léttum grindum sem hægt er að færa til og móta; dyr fyrir áhorfendur eru bæði við gólfið og hátt á veggnum.

„Litlu sviðin eru í raun bara kassar sem tæknimenn hússins geta breytt eins og þeir vilja. Stundum er setið í kringum leikrýmið, stundum eru sætin hátt í salnum, stundum lágt. Við sáum bara til þess að hér væri allt sem þyrfti til að gera þetta að áhugaverðu sýningarými,“ segir Øblom.

Við skoðum einföld baðberbergin þar sem sami rauði liturinn og er á sætunum í aðalsalnum bætist við dökkan lit hleðslusteinanna. Rýmið bakvið sviðið er með ólíkindum rúmgott, með trésmíðaverkstæði og geymslum fyrir leikmyndir þar sem hátt er til lofts. Þá stingum við okkur aftur inn á gang og komum að tveimur veislusölum sem hafa verið sérstaklega hannaðir af listamönnum. Í Danmörku rennur eitt prósent af kostnaðinum við opinberar byggingarframkvæmdir til listamanna sem prýða byggingarnar með verkum sínum. Þarna eru eldhús fyrir móttökur og sérstakur inngangur fyrir konungsfjölskylduna, með lyftu og samkomurými. Þetta er jú konunglegt leikhús og konungsfjölskyldan kaus að halda þeirri hefð að vera með stúku vinstra megin í salnum. Hún er vel búin og öryggisverðir drottningar hafa sérstakt kerfi öryggismyndavéla til að fylgjast með gestum.

Þá er loksins komið að því að reka inn nefið í helgidóm hússins, kjarnann sjálfan, sem er stóri salurinn. Þar er rökkvað inni en við setjumst hljóðlega niður á svölunum, í hárauð flauelssæti, sjáum hvernig dökkir hleðsluveggirnir með ótal útskotum og hrjúfri áferðinni glóa í skini sviðsljósanna. Og fyrir neðan okkur, á bláu sviði hringsnúast dansarar sem áttu að setja upp verk á Gamla sviðinu en fá nú að prófa það á sviði Skuespilhuset – þar vilja nefnilega allir vera þessa dagana, segir Øblom stoltur.

Umhverfisvæn hitastýring

Ferðinni um leikhúsið lýkur á efstu hæðinni, vinnurými starfsfólks. Þar eru heillandi lausnir í arkitektúrnum. Þetta er afar nýtískulegt svæði, sem markast af breiðum göngum með þykka skáhallandi bita til beggja handa. Tilteknir litir sýna hlutverk eininganna á hæðinni; einn litur fyrir svæði með rennandi vatni, annar fyrir skrifstofur, þriðji liturinn fyrir tæknirými. Þarna vinnur fjöldi fólks, sumir að leikmyndum, leikarar funda með leikstjóra, bókasafnið er afgirt með hænsnaneti og einhverjir eru í lyftingatækjunum. Búningaherbergi leikaranna snúa út að borginni, með gluggum á heilli hlið.

Ferðina endum við í mötuneyti starfsfólks, við fimm metra háa glugga með glæsilegu útsýni. Þarna setjumst við niður í gamaldags stóla, sem hafa verið notaðir í uppfærslum leikhússins, skrautlegir en smellpassa í þennan nýtískulega heim. Þar flytur Øblom lokahluta fyrirlestur síns um bygginguna, um frumlegt og tölvustýrt hitakerfi hússins, þar sem sjór er notaður til að kæla og hiti sólar er fangaður til að hita, rétt eins og hitinn sem áhorfendur í sölunum og ljósabúnaðurinn gefa frá sér. Það eru margar snjallar lausnir í nýja Konunglega leikhúsinu, sem óhætt er að hvetja áhugafólk um byggingalist að skoða.

Metnaðarfyllsta verkefnið

LUNDGAARD & Tranberg Arkitektfirma er ein af kunnari arkitektastofum Danmerkur. Þeir sem vinna á stofunni koma að hönnun bygginga, landlags- og borgarskipulagi, vöru- og húsgagnahönnun. Stofan var stofnuð fyrir rúmlega 20 árum af arkitektunum Boje Tranberg og Lene Tranberg. Starfsmenn eru um 40.

Stofan hefur getið sér gott orð fyrir þátttöku í samkeppnum og fyrir hreina og afgerandi hönnun, þar sem þó er fullt tillit til og unnið með hefðbundin efni og hugmyndir. Iðulega er til þess tekið að skilningur á félagslegri samsetningu og samfélagslegum þörfum einkenni verk arkitektanna.

Lundgaard & Tranberg stofan hefur unnið til ýmissa verðlauna, í Danmörku og á alþjóðlegum vettvangi. Verk þeirra birtast reglulega í bókum og fagtímaritum.

Stærsta og metnaðarfyllsta verkefni stofunnar til þessa er Skuespilhuset, hið nýja konunglega leikhús við höfnina í Kaupmannahöfn; við Kvæsthusbroen, ská á móti nýja óperuhúsinu.

Konunglega leikhúsið

SÝNINGAR Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn fara nú fram í þeim þremur leik- og tónlistarhúsum sem stofnunin hefur yfir að ráða. Gamle Scene, eða Gamla sviðinu, í leikhúsinu við Kongens Nytorv, Óperuhúsinu nýja, þar sem eru tvö svið, og Skuespilhuset með sínum þremur sviðum, en þau síðarnefndu standa svo að segja gegnt hvoru öðru við höfnina.

Eins og gefur að skilja eru óperusýningar flestar í Óperunni, þó Brúðkaup Fígarós eftir Mozart hafi verið sýnt á Gamla sviðinu í vor, en Konunglegi ballettinn hefur undanfarin misseri sett upp sýningar í öllum þremur húsunum.

Samkvæmt starfsmönnum leikhússins sem blaðamaður hitti að máli, kjósa þeir að vissu leyti að líta á Konunglega leikhúsið eins og safn. Þetta sé þjóðleikhús, menningarleikhús, og ber því að setja á svið verk sem önnur leikhús láta kannski eiga sig, af menningarlegum eða sögulegum ástæðum. Verk sem tilheyra þjóðinni og þarf að sýna reglulega.

Einnig beri leikhúsinu að vera framúrstefnulegt og sýna það nýjasta í skapandi leikritun. Leikhúsið þarf að sýna nýtt og gamalt, og höfða til margra og ólíkra leikhúsgesta.