Sigga mín var í sumarbústað með vinkonunum fyrir tveimur árum þegar ég fékk allt í einu þá hugdettu að gaman gæti verið að sigla um á skútu með elskunni sinni í heilt ár. Ég hringdi í Siggu þetta kvöld og viðraði þessa snjöllu hugmynd, en stelpurnar bara hlógu að vitleysunni í mér. Sigga tók hugmyndinni hins vegar nokkuð vel og sagði, meira í gríni en alvöru, að við skyldum bara drífa í þessu og fara að skipuleggja um leið og hún kæmi heim úr bústaðnum. Tveimur mánuðum síðar fórum við í fyrsta skipti á seglbát og hér erum við nú á litlu Lóunni og njótum lífsins lystisemda,“ segir Gestur Gunnarsson, sem ásamt spúsu sinni, Sigríði Soffíu Sigurjónsdóttur, áformar að taka rúmt ár í að svala ævintýraþorstanum í útlöndum.
Með pungaprófið upp á vasann og bókina „Sailing for Dummies“ héldu þau af landi brott síðastliðið haust. Þau héldu fyrst til Shanghai í Kína með fjögurra daga viðkomu í London. Í Shanghai bjuggu þau hjá íslenskum frænda Gests og ferðuðust svo um Suður-Kína í heila þrjá mánuði. „Kínverjar eru mjög vinalegir í garð útlendinga, sem eru mjög velkomnir í landið þeirra. Við komum okkur á milli staða með næturlestum á almennu farrými og deildum þá gjarnan klefum með Kínverjum. Sex kojur voru í hverjum klefa, þrjár beggja vegna, og kusum við þá gjarnan efstu kojur þótt plássið hafi aðeins leyft lárétta stellingu. Það gerðist nefnilega einu sinni þegar við sváfum værum blundi í neðstu kojum að Sigga mín fékk horslummu á sig úr efri kojum því Kínverjinn, sem þar lá, hitti ekki í hrákadallinn á gólfinu. Og svo pössuðum við okkur á því að drekka ekki mikið fyrir lestarferðirnar því það er ekki góð tilhugsun að þurfa að nota salerni í kínverskum lestum. Salernið er nefnilega bara gat í gólfi og það eru alls ekki allir sem hitta í gatið á ferð enda er lyktin eftir því.“
Skerið sem synti í burtu
Á jóladag flugu turtildúfurnar til Ítalíu og voru hjá vinum í Lugano í Sviss í þrjár vikur. Stoppað var svo í Róm í viku áður en stefnan var sett á Istanbúl í Tyrklandi í janúarlok.Þau dvöldu í mánuð á hóteli í tyrkneska bænum Fethyie áður en þau komu sér fyrir í Alóunni. „Við þekktum ekki hræðu hér í fyrstu, en nú eru allir orðnir vinir okkar þrátt fyrir að hafnarstarfsmenn hafi undrast mjög aðfarir okkar við að leggja bátnum við bryggju í fyrstu.
Gestur viðurkennir að vissulega hafi þau stundum lent í kröppum dansi úti á sjó. „Við höfum lent í misjöfnu vindafari og miklum sjó, en efst í huganum er skerið góða. Þannig var að Sigga mín var við stýrið og ég eitthvað að bauka frammi á stafni. Allt í einu sé ég hvar sker mikið eitt skagar upp úr sjónum fjórum metrum frá okkur og ég öskra af lífs og sálar kröftum til kafteinsins: „Sigga, Sigga, beygðu, beygðu, sker, sker!“ Sigga beygir auðvitað hart í bak og allt í einu syndir skerið í burtu sem reyndist við betri sýn ekki vera sker heldur risaskjaldbaka,“ segir Gestur og hlær.
Bækistöðvar Gests og Siggu eru í Göcek og þaðan sigla þau á milli fallegra staða í kring. „Við þurfum auðvitað að lifa spart til að geta verið sem lengst í sælunni, en stefnan er að vera hér fram í nóvember. Við kaupum grænmeti sem dugar fyrir vikuna á sunnudagsmarkaðnum og borgum um tvö þúsund krónur fyrir það. Þess á milli er spaghetti með tómatsósu afskaplega vinsæll snæðingur,“ segir Gestur.