[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvorugt þeirra hafði migið í saltan sjó þegar þau fengu þá hugdettu að leigja sér skútu í útlöndum og fara að sigla. Jóhanna Ingvarsdóttir fékk hlýjar móttökur um borð í litla 27 feta korktappanum í Tyrklandi hjá skipstjóranum og messaguttanum sem nú láta stjórnast af tómri ævintýraþrá.

Sigga mín var í sumarbústað með vinkonunum fyrir tveimur árum þegar ég fékk allt í einu þá hugdettu að gaman gæti verið að sigla um á skútu með elskunni sinni í heilt ár. Ég hringdi í Siggu þetta kvöld og viðraði þessa snjöllu hugmynd, en stelpurnar bara hlógu að vitleysunni í mér. Sigga tók hugmyndinni hins vegar nokkuð vel og sagði, meira í gríni en alvöru, að við skyldum bara drífa í þessu og fara að skipuleggja um leið og hún kæmi heim úr bústaðnum. Tveimur mánuðum síðar fórum við í fyrsta skipti á seglbát og hér erum við nú á litlu Lóunni og njótum lífsins lystisemda,“ segir Gestur Gunnarsson, sem ásamt spúsu sinni, Sigríði Soffíu Sigurjónsdóttur, áformar að taka rúmt ár í að svala ævintýraþorstanum í útlöndum.

Með pungaprófið upp á vasann og bókina „Sailing for Dummies“ héldu þau af landi brott síðastliðið haust. Þau héldu fyrst til Shanghai í Kína með fjögurra daga viðkomu í London. Í Shanghai bjuggu þau hjá íslenskum frænda Gests og ferðuðust svo um Suður-Kína í heila þrjá mánuði. „Kínverjar eru mjög vinalegir í garð útlendinga, sem eru mjög velkomnir í landið þeirra. Við komum okkur á milli staða með næturlestum á almennu farrými og deildum þá gjarnan klefum með Kínverjum. Sex kojur voru í hverjum klefa, þrjár beggja vegna, og kusum við þá gjarnan efstu kojur þótt plássið hafi aðeins leyft lárétta stellingu. Það gerðist nefnilega einu sinni þegar við sváfum værum blundi í neðstu kojum að Sigga mín fékk horslummu á sig úr efri kojum því Kínverjinn, sem þar lá, hitti ekki í hrákadallinn á gólfinu. Og svo pössuðum við okkur á því að drekka ekki mikið fyrir lestarferðirnar því það er ekki góð tilhugsun að þurfa að nota salerni í kínverskum lestum. Salernið er nefnilega bara gat í gólfi og það eru alls ekki allir sem hitta í gatið á ferð enda er lyktin eftir því.“

Skerið sem synti í burtu

Á jóladag flugu turtildúfurnar til Ítalíu og voru hjá vinum í Lugano í Sviss í þrjár vikur. Stoppað var svo í Róm í viku áður en stefnan var sett á Istanbúl í Tyrklandi í janúarlok.

Þau dvöldu í mánuð á hóteli í tyrkneska bænum Fethyie áður en þau komu sér fyrir í Alóunni. „Við þekktum ekki hræðu hér í fyrstu, en nú eru allir orðnir vinir okkar þrátt fyrir að hafnarstarfsmenn hafi undrast mjög aðfarir okkar við að leggja bátnum við bryggju í fyrstu.

Gestur viðurkennir að vissulega hafi þau stundum lent í kröppum dansi úti á sjó. „Við höfum lent í misjöfnu vindafari og miklum sjó, en efst í huganum er skerið góða. Þannig var að Sigga mín var við stýrið og ég eitthvað að bauka frammi á stafni. Allt í einu sé ég hvar sker mikið eitt skagar upp úr sjónum fjórum metrum frá okkur og ég öskra af lífs og sálar kröftum til kafteinsins: „Sigga, Sigga, beygðu, beygðu, sker, sker!“ Sigga beygir auðvitað hart í bak og allt í einu syndir skerið í burtu sem reyndist við betri sýn ekki vera sker heldur risaskjaldbaka,“ segir Gestur og hlær.

Bækistöðvar Gests og Siggu eru í Göcek og þaðan sigla þau á milli fallegra staða í kring. „Við þurfum auðvitað að lifa spart til að geta verið sem lengst í sælunni, en stefnan er að vera hér fram í nóvember. Við kaupum grænmeti sem dugar fyrir vikuna á sunnudagsmarkaðnum og borgum um tvö þúsund krónur fyrir það. Þess á milli er spaghetti með tómatsósu afskaplega vinsæll snæðingur,“ segir Gestur.

Reynir lítið á rifrildin

Gestur og Sigga námu bæði sálfræði við Háskóla Íslands þegar þau hittust fyrst árið 2004. „Hingað til höfum við aðallega notað sálfræðina hvort á annað því það tekur auðvitað á að vera svona saman allan sólarhringinn,“ segir Sigga og hlær. „En svo talað sé í alvöru reynir ákaflega lítið á rifrildin þótt við höfum ekki nema úr örfáum fermetrum að spila. Það er helst að ég pirrist þegar hann traðkar á tánum á mér í öllu plássleysinu og svo hefur hann loksins skilið sitt hlutverk hér um borð. Þar sem ég er skráður skipstjóri á skútuna er það ég sem ræð. Það gerir Gest minn að messagutta,“ segir Sigga grafalvarleg í bragði og bætir að lokum við: „Við Gestur minn erum sammála um að fólk eigi ekkert að fresta því að lifa lífinu lifandi, eins og svo margir gera. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ef við þolum hvort annað eftir þessa ferð, þá gætum við allt eins gifst, eignast börn og lifað hamingjuríku lífi hér eftir sem hingað til. Það er bara vonandi að kreppan verði búin og einhver vilji ráða okkur í vinnu eftir heimkomuna, en svo stefnum við á framhaldsnám í sálfræði í Bandaríkjunum eftir eitt eða tvö ár.“

Lóa til leigu

„Í fyrstu vorum við alvarlega að spá í að kaupa skútu þar sem við reiknuðum ekki með að nokkur maður væri til í að leigja okkur skútu á viðráðanlegu verði í svo langan tíma, en eftir að þeir Budget-bræður Hasan og Azis í tyrkneska skútubænum Göcek buðu okkur góðan leigu-díl ákváðum við að taka tilboðinu. Við gerðum tíu mánaða leigusamning um 27 feta skútu af gerðinni Aloa sem í daglegu tali gengur undir nafninu Alóan eða korktappinn og hefur heimahöfn í Göcek.“
my.opera.com/gesturg