Tilraun Broddi hugar stoltur að kartöflugrösunum sem dafna vel í reitnum góða í Langadal og tilhlökkunin er þónokkur eftir uppskerunni.
Tilraun Broddi hugar stoltur að kartöflugrösunum sem dafna vel í reitnum góða í Langadal og tilhlökkunin er þónokkur eftir uppskerunni. — Ljósmynd/Kristín Þórhallsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is Þetta var í raun helber tilviljun.

Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

khk@mbl.is

Þetta var í raun helber tilviljun. Okkur Svavari Helga vini mínum, sem er líka skálavörður hér, fannst kartöflurnar sem ætlaðar voru okkur til manneldis vera orðnar frekar ólystugar því þær voru orðnar svo spíraðar. Svo við ákváðum að hætta að éta þær en prófa frekar að pota þeim niður og freista þess að fá nýjar kartöflur í haust,“ segir Broddi Hilmarsson skálavörður í Langadal í Þórsmörk.

„Við settum þær niður 3. júní og grösin eru þegar farin að spretta, þannig að þetta lítur bara vel út. Hér er engin búfénaður svo við gátum ekki notað skít og urðum að sætta okkur við tilbúinn áburð. En það er góður jarðvegur þar sem við settum niður þessar tuttugu kartöflur, þetta er skriða sem féll úr svokölluðum Múla og moldin því ný og svolítið vikurblönduð.“

Hann segir lítið mál að sinna kartöfluræktinni. „Þetta er hér rétt við sjoppuna svo það er stutt að fara. Hér er búin að vera mikil veðurblíða en síðdegisskúrinn sér stundum um að vökva fyrir okkur kartöflugrösin. Kartöfluræktin ætti að ganga vel þó við séum stödd hér í óbyggðum, því við erum ekki nema rúmum tvö hundruð metrum yfir sjávarmáli.“

Ræktum kannski líka gulrætur

Broddi segist ekki vita til þess að í Langadal hafi áður verið ræktaðar kartöflur. „Það verður því spennandi að sjá hversu góð uppskeran verður í haust. Kristín unnusta mín sem er líka skálavörður hér er vel kunn ræktun og ætti að geta leiðbeint okkur um meðferðina. Við erum að hugsa um að prófa líka að rækta okkar eigin gulrætur ef það er ekki orðið of langt liðið á sumarið en mér skilst að þær séu seinsprottnar. Sendinn jarðvegurinn ætti að henta vel.“

Broddi segir að aðeins hafi borið á því að hundar ferðafólks hafi vaðið í kartöflubeðin og eins hafi börn gert rannsóknir á kartöflugrösunum, af forvitni einni saman. Því stendur til að merkja kartöflureitinn góða svo hann skemmist ekki og frumkvöðlavinna þeirra fari forgörðum sem og tilraunverkefni til að bæta hráefnið í eldamennskunni í óbyggðunum.

Broddi verður í Langadal fram í september en Kristín og Svavar Helgi fara í lok ágúst til náms.

„Ég verð því kannski einn við að rífa upp grösin og borða afrakstur ræktunarinnar, en vonandi verður eitthvað af þessu orðið nógu stórt til að borða fyrr svo við getum öll notið þess að gæða okkur á nýjum kartöflum.“

Beðið eftir lágfótu

Þau Broddi og Kristín voru bæði skálaverðir í fyrra í Langadal og þá eignuðust þau tvær tófur fyrir félaga, en þær héldu til undir húsinu. „Þetta voru skemmtilegar tófur, þó svo að þær geti kannski ekki kallast gæludýr. Þær voru samt ótrúlega spakar og gögguðu á mat þegar þær voru svangar. Við stóðumst það ekki og gáfum þeim að éta, svo þær komust upp á lagið. Við vonumst sannarlega til að þær láti aftur sjá sig þetta sumarið.“