Leifar af gíg Fallegt útsýni er til Lóndranga úr fjörunni, ekki langt frá vitanum á Malarrifi. Drangarnir eru hluti af gígtappa, botni á gíg, sem þarna hefur verið en sjórinn sorfið burt í tímans rás.
Leifar af gíg Fallegt útsýni er til Lóndranga úr fjörunni, ekki langt frá vitanum á Malarrifi. Drangarnir eru hluti af gígtappa, botni á gíg, sem þarna hefur verið en sjórinn sorfið burt í tímans rás. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landslagið á Snæfellsnesi þykir engu líkt. Ylfa Kristín K. Árnadóttir og Brynjar Gauti Sveinsson könnuðu lífið undir jökli.

MÖRGUM þykir sem óútskýranleg orka liggi yfir nesinu og því er ekki að undra að Snæfellsjökull hefur verið nefndur einn af sjö orkustöðvum jarðarinnar. Svo virðist sem landsmenn geri sér æ betur grein fyrir þeim fjölmörgu náttúruperlum sem á nesinu leynast en straumur ferðamanna þangað hefur aukist nokkuð síðustu árin auk þess sem sumarhúsabyggðin á Arnarstapa hefur risið hratt upp.

Rétt rúm sjö ár eru liðin síðan Snæfellsjökull ásamt ysta hluta nessins var gerður að þjóðgarði og kann það að einhverju leyti að útskýra þennan aukna áhuga. Sjálfur jökullinn, sem er með elstu virku eldfjöllum landsins, hefur hinsvegar hopað en á rétt rúmri öld hefur flatarmál hans minnkað úr 15 ferkílómetrum í 10.

Þegar komið er á Snæfellsnes er upplagt að koma við á Gestastofu á Hellnum en þar er upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins. Þar er að finna fróðleik um náttúru og menningu svæðisins og fólki þannig auðveldað að gera upp við sig hvar það vill byrja og hvert það vill fara.

Meðal þess sem margir kjósa að gera er að ganga milli Arnarstapa og Hellna. Nota margir tækifærið og gæða sér á fiskisúpu á Fjöruhúsinu á Hellnum. Útsýnið úr þessu gamla veiðarfærahúsi er enda stórbrotið, í fjörunni stendur bergraninn Valasnös með hellinum Baðstofu.

Þá er í Dritvík hægt að spreyta sig á steintökum og skoða ryðgað brotajárn úr enskum togara sem strandaði þar fyrir 60 árum. Upplagt er að ganga Svalþúfu að Þúfubjargi og berja hina stórfenglegu Lóndranga augum en þeir tilheyra botni á gíg sem sjórinn hefur sorfið burt.

Frá Lóndröngum er svo hægt að ganga stórgrýtta fjöru, þar sem rekaviður liggur meðal grjótsins og kóngulóarvefir teygja sig milli stærstu steinanna, út að vitanum á Malarrifi.

Bárður Snæfellsás

BÁRÐAR saga Snæfellsáss er Íslendingasaga í ýkjustíl. Mörg örnefni á Snæfellsnesi eru fengin úr sögunni.

Bárður var hálfur maður og hálfur tröll. Hann ólst upp í Noregi en flutti til Íslands eftir að hafa dreymt að þar myndi hann ala aldur sinn. Þegar hann kom að landinu sá hann fjall eitt mikið, „lukt allt ofan með jöklum.“ Hann kallaði það Snjófell en nesið Snjófellsnes. Bárðarlaug kallast tjörnin þar sem Bárður þvoði sér og nefnist Dögurðará svo því þar snæddi Bárður alltaf morgunverð. Eitt sinn reittu bræðurnir Rauðfeldur og Sölvi föðurbróður sinn Bárð til reiði með þeim afleiðingum að Bárður hrinti Rauðfeldi í Rauðfeldsgjá og Sölva fram af Sölvahamri. Eftir það hvarf Bárður í Jökulinn. Sagt er að auðæfi hans séu geymd í Bárðarkistu sem er kistulaga móbergsfjall upp af Saxhólsdal. Margir trúa því að Bárður vaki yfir svæðinu undir Jökli.