— Morgunblaðið/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snæbjörn Jónasson verkfræðingur fetar ekki troðnar slóðir og vinnur að uppbyggingu eyjar rétt utan við strendur Abu Dhabi. Hann kom nýverið í vikuheimsókn til Íslands til að kæla sig niður. Guðný Hrafnkelsdóttir ræddi við hann um líf og starf í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Í Persaflóanum, við strendur Sameinuðu arabísku furstadæmanna, hvílir fjöldi ósnortinna eyja. Flestar eru þessar eyjar í eigu fursta, en einnig hefur færst í vöxt að Hollywoodstjörnur festi kaup á þeim til að dvelja á í fríum sínum. Eyjarnar fyrir utan Abu Dhabi voru áður fyrr undir stjórn furstans Zayed bin Sultan Al Nahyan, sem var mikilll náttúruverndarsinni og hreyfði ekki við eyjunum. Eftir andlát hans erfði sonur hans, Khalifa bin Zayed Al Nayhyan sumar þeirra. Þá stofnaði hann fyrirtækið TDIC til að skipuleggja uppbyggingu á eyjum sínum og öðrum svæðum, með það í huga að auka heimsóknir túrista og fólks í viðskiptaferðum.

Aðaltekjulind arabísku furstanna hefur hingað til verið olía og gas og gætu þeir lifað í vellystingum næstu aldirnar einungis af þeim tekjum sem þeir fá fyrir þær uppsprettur. Nú vilja þeir hins vegar ekki ganga of mikið á náttúruauðlindirnar og renna hýrum augum til ferðamanna. Helsta uppbyggingarverkefni, sem TDIC stendur í þessa dagana og reyndar árin, er eyjan Saadiyat. Bein þýðing á nafninu er Hamingjueyjan, enda á hún að vera sælustaður fyrir bæði túrista og innfædda og þar verður allt sem hugurinn girnist, baðstrendur, listasöfn, golfvellir, verslanir, kaffihús, veitingastaðir, sæfarasafn og svona mætti lengi áfram telja.

Snæbjörn Jónasson útskrifaðist frá Háskóla Íslands sem byggingarverkfræðingur árið 1998 og fór í meistaraprófsnám við University of Washington í Seattle. Hann ætlaði aðeins að vera erlendis í eitt ár, en tæplega tíu árum síðar er hann ekki enn snúinn heim. Hann réð sig til vinnu hjá bandaríska fyrirtækinu Parsons og hefur frá því í september sl. búið og starfað í Abu Dhabi.

Rétt að koma upp úr sandinum

Að íslenskum sið nefndi ég fyrst veðrið, þegar við Snæbjörn settumst yfir kaffibolla. Sólin skein fyrir utan gluggann og undanfarna daga hafði veðrið komist nálægt því að vera eins og á sólarströnd. „Ég er búinn að vera í úlpunni minni allan tímann,“ svaraði Snæbjörn mér, sem er skiljanlegt, enda er í kringum 45 stiga hiti í Abu Dhabi yfir sumartímann og hann orðinn því vanur. Hitinn á svo eftir að fara hækkandi, þótt ótrúlegt sé, og nærri er ólíft utandyra þar til líður á september.

Saadiyat-eyjunni er skipt í nokkur svæði, sem eiga að höfða til mismunandi hópa fólks. Nú þegar er byrjað á fyrsta svæðinu, Saadiyat-ströndinni, 9 km strandlengju. Þar verður einnig golfvöllur, hannaður af golfaranum Gary Player, tíu fimm stjörnu hótel og fimm hundruð einbýlishús. „Við erum rétt að koma upp úr sandinum núna. Við höfum dælt töluverðu magni af aukasandi þar sem golfvöllurinn á að vera til þess að forma hóla.“

Ein ástæða þess að verkið tekur langan tíma er að of heitt er í veðri til að verkamenn geti unnið á daginn. „Lögin segja að verkamenn sem vinna úti megi ekki vinna á milli tólf og þrjú á daginn yfir sumarmánuðina,“ segir Snæbjörn og bætir því við að það sé heldur ekki hægt. „Það eina sem maður gerir utan dyra á þessum tíma er að svitna.“

– En er ekki heimskulegt að byggja á sandi?

„Það mætti ætla að það væri heimskulegt, en þessir menn hafa gert það alla tíð og það hefur gengið vel. Það er nefnilega hægt að stýra sandi,“ svarar Snæbjörn. Hann viðurkennir samt sem áður að það geti verið erfitt að vinna í sandi. Oftar en ekki festast bílarnir á leið í vinnuna og bílastæði og vegir týnast undir sandi. „Þetta er í raun þeirra snjór.“

Einnig hefur verið hafist handa að byggja hraðbrautir og brýr sem tengja Saadiyat við Abu Dhabi annars vegar og hins vegar við eyjarnar í kring. Hraðbrautirnar samanstanda af fimm akgreinum í hvora áttina, enda búist við mikilli umferð um eyjarnar. Það er þó kannski ekki fyrir hvern sem er að aka eftir hraðbrautunum á þessum slóðum. Þó svo að hámarkshraðinn sé 120 km/klst., þá eru myndavélarnar sem fylgjast með umferðinni stilltar á hámarkshraðann 160 km/klst. Meðalhraðinn á brautunum fer þó yfirleitt yfir 200 km/klst., enda tekur lögreglan ekki þátt í hraðaeftirliti. Hún reiðir sig á myndavélarnar.

Nekt vafasöm

En verkið er rétt hafið og áætlað er að það klárist ekki fyrr en að tíu árum liðnum. Á eyjunni mun rísa menningarsvæði, þar sem systursöfn þekktra listasafna rísa. Þeirra á meðal eru Guggenheim Abu Dhabi, hannað af Frank Ghery og Louvre Abu Dhabi, hannað af Jean Nouvel. Þessi söfn verða opnuð á næstu árum, en þau eru þó engin smásmíði enda hafa arkitektarnir fjörugt ímyndunarafl. Gert er ráð fyrir að söfnin sýni verk sem þau fá að láni frá Louvre og Guggenheim auk annarra safna. Þó er nokkuð víst að einhverjar hömlur verði settar varðandi listaverkaval, enda heimamenn flestir múslímar. Því mun væntanlega ekkert sýnt sem misboðið gæti þeim, hvort sem það er nekt eða eitthvað er tengist trúarbrögðum sem þeim gæti mislíkað.

„Svæði sem nefnt hefur verið Wetlands er líka áhugavert. Þar verður annar golfvöllur, sem samanstendur af mörgum litlum eyjum. Ég get ekki séð fyrir mér hvernig einhver eigi að geta klárað hann.“ segir Snæbjörn og glottir. Svæðið er aðeins lokaðra en hin og þar getur fólk komið sem vill fá ró og næði. Þeir sem vilja kaupa íbúðarhús á svæðinu verða þó að hafa eitthvað á milli handanna en reiknað er með því að húsin kosti um 200 milljónir íslenskra króna. Þar verða líka lúxus-hótel og verslunarmiðstöðvar, eins og á hinum svæðunum.

„Það er mjög skrítið að fara inn í verslunarmiðstöðvar í Abu Dhabi. Það lítur allt eðlilega út og þær virðast vera nákvæmlega eins og þær vestrænu. En það er ekki alveg rétt, því að annað slagið eru þuldar upp heilu bænirnar á arabísku í kallkerfið. Að bænalestri loknum er svo haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Snæbjörn um reynslu sína af arabískum verslunarmiðstöðvum. „En eftir nokkrar ferðir þá hættir maður að taka eftir þessu.“

Furstar fara illa með taugarnar

„Furstinn skiptir um skoðun aftur og aftur og það getur vissulega tekið á taugarnar. Deiliskipulagið á stundum til að breytast viku frá viku, allt eftir hans áherslum. Ég þekki arkítekt sem hafði staðið í ströngu við að flytja marmara til Dubai fyrir hótel sem var í byggingu. Þegar loksins var búið að koma marmaranum fyrir á sínum stað á hótelinu og vinna úr honum kom furstinn. Honum þótti hann aðeins of gulur og því þurfti að byrja upp á nýtt.“

Að sögn Snæbjörns kunna furstarnir lítið við að skuldbinda sig. Hins vegar vilja þeir að það sem þeir biðja um gerist strax og líkar alls ekki að bíða eftir hlutunum. „Fursti spyr ekki hvort eitthvað sé hægt eða hversu langan tíma það taki. Fursti spyr hversu mikið það kosti og borgar þá upphæð ef hann er sáttur.“

Ferðamannatímabilið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er frá október og fram í apríl. Þá fer veðrið yfirleitt ekki yfir 30 gráður og er jafnvel eins og íslenskt sumarveður. Yfir sumartímann er hins vegar of heitt fyrir flesta að dvelja á staðnum og þá eru mun færri ferðamenn.

– En hverjir munu dvelja á Saadiyat?

„Það er auðvitað ekki fyrir hvern sem er að dvelja á lúxushótelum eða kaupa sér 200 milljóna króna sumarbústað. En það er líka til nóg af ríku fólki í heiminum sem hefur efni á því. Þeir reikna með að fólk sem nú þegar á tvö eða þrjú heimili um heiminn, kaupi sér eitt til viðbótar þarna.“

Snæbjörn segir að það sé einfaldlega verið að byggja sjálfstæða borg upp frá grunni. Fullgerð mun hún í allt hýsa þrjú hundruð þúsund manns, þar af hundrað og fimmtíu þúsund íbúa. Vonast er til þess að Saadiyat verði aðalaðdráttarafl og menningarmiðstöð Abu Dhabi og efli túristaatvinnuveginn til muna.

Vestrænt yfirbragð að ýmsu leyti

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru vestrænni en nágrannaþjóðirnar að mörgu leyti. Undanfarin ár hafa íbúarnir keppst við að fá það besta úr báðum heimum, þó misvel hafi tekist til.

Þar sem heimamenn eru múslimar neyta þeir ekki svínakjöts. Hins vegar geta ferðamenn og aðfluttir auðveldlega nálgast það, ýmist á hótelum eða í sumum verslunarkeðjum. Á þeim stöðum eru þó viðvörunarskilti, sem vara múslima við að fara inn.

Eins geta ferðamenn og innflytjendur keypt sér áfengi, bæði í áfengisverslunum og á hótelbörum. Til þess að kaupa áfengi þarf samt fyrst að fá sér áfengisleyfi. Það fæst með því að framvísa vegabréfi, en á því þarf að koma fram hverrar trúar viðkomandi er. Gluggar áfengisverslananna eru allir byrgðir svo múslimar sjái ekki inn. En fyrir handhafa áfengisleyfis eru allir vegir færir.

Gífurlegur fjöldi aðfluttra vinnumanna er í landinu og hafa ráðamenn þess verið harðlega gagnrýndir fyrir misrétti, hvað varðar laun og ýmis önnur kjör. Í stað þess að einn maður móti sandhól á Saadiyat með gröfu, eru tíu til tuttugu erlendir verkamenn látnir vinna sama verk með skóflur að vopni. Verkamennirnir koma flestir frá Suður-Asíu og þeir fá margir hverjir fjörutíu íslenskar krónur í tímakaup.

Mikill munur er einnig á verkfræðingum og öðrum sérfræðingum frá Asíu og frá Vesturlöndunum. Laun Asíubúanna komast ekki nálægt því sem sérfræðingar frá Vesturlöndunum fá.

Vesturlandabúarnir fá einnig betri heilbrigðisþjónustu og eru sendir á sömu sjúkrastofnanir og heimamenn, en Asíubúar njóta ekki þessara fríðinda. Þeir eru yfirleitt sendir á lakari sjúkrastofnanir sem heimamenn myndu aldrei láta bjóða sér upp á.

Ef dauðsfall verður á vinnustað eru greiddar um fimmtíu þúsund dollarar til fjölskyldu Asíubúa, um 3,75 milljónir króna, en nær einni milljón dollara til fjölskyldu Vesturlandabúa, eða um 75 milljónir kr.

Ekki tíðkast að almenningur sé með netið, enda er það dýrt. Aðgangi að því er einnig stýrt og er lokað fyrir sumar síður og einhver forrit. Þannig er ekki hægt að hafa samskipti í gegnum netið með forritinu Skype. Múslimar miða dagatal sitt við tunglið og eru tyllidagar því ekki á ákveðnum dagsetningum. Einu eða tveimur kvöldum fyrir tyllidaginn tilkynna stjórnvöld á hvaða degi hann lendir, en það ræðst af stöðu tunglsins. Einu tyllidagarnir sem miðast við dagsetningar ár hvert eru nýársdagurinn, 1. janúar, og þjóðhátíðardagur þeirra, 2. desember.

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru mjög tæknivædd að sumu leyti, en geta líka verið svolítið gamaldags. Sé debet- eða kreditkort frá þarlendum banka notað í hraðbanka er kvittun í formi sms kominn í síma viðkomandi áður en hann hefur fengið peningana í hendurnar. Heimamenn vilja hins vegar að mikilvægar kvittanir og annað slíkt sé handskrifað og stimplað, því þeir treysta þeirri aðferð betur.

Á öllum almenningsstöðum og vinnustöðum eru bænaherbergi, svo heimamenn geti iðkað trú sína. Bænaherbergin setja austrænan blæ á annars vestrænt útlítandi staði, til að mynda verslunarmiðstöðvar.

Fréttum er stýrt í landinu og sjónvarpsfréttir hefjast alltaf með góðri frétt um fursta. Aldrei er því haldið fram í fréttum að fursti hafi gert eitthvað af sér eða gert nokkuð rangt.

Konur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum njóta ýmissa réttinda sem kynsystur þær í nágrannalöndunum njóta ekki. Fyrir nokkrum árum fengu þær til að mynda leyfi til að aka bíl. Einnig hafa þær færi á að gegna sömu störfum og karlar, velja sér maka og að vera fjárhagslega sjálfstæðar. Hins vegar eru allir ríkisreknir háskólar kynjaskiptir.

Náttúruvernd í olíuríki

Heimamönnum Sameinuðu arabísku furstadæmanna er umhugað um ímynd sína og landsins. Þó svo að aðaltekjulind þeirra sé olía og gas vilja þeir ekki sverta ímynd landsins. Því er þeim umhugað um náttúruna. Af þeim sökum eru enn eyjar við strendur Sameinuðu arabísku furstadæmanna sem eru ósnertar. Sumir furstanna eru harðir náttúruverndarsinnar og neita að fara út í framkvæmdir á sínum svæðum.

Heimamenn óttast einnig, að gangi þeir of mikið á náttúruna og sverti ímynd sína, vilji Hollywood-stjörnurnar og ríka fólkið ekki lengur dvelja á eyjunum í fríum sínum. Ef svo færi gæti það vakið upp illt umtal og túristaiðnaðurinn dregist saman.