Fjöllin hafa vakað Séð yfir Bolungarvík á Ströndum og út í Furufjörð og Þaralátursfjörð.
Fjöllin hafa vakað Séð yfir Bolungarvík á Ströndum og út í Furufjörð og Þaralátursfjörð. — Ljósmynd/Gréta S.Guðjónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau sem verða veðurteppt um hásumar norðan Drangajökuls geta í öllu falli reynt að setja sig í spor þeirra sem byggðu Hornstrandir á árum áður. Sigríður Víðis Jónsdóttir velti fyrir sér hvernig fólk fór að án gerviskinns og górítex-galla.

Þegar börnin í Bolungarvík á Ströndum ólust upp var næsti nálægi skóli þrjár dagleiðir í suðurátt. Þau fóru í farskóla í Reykjarfirði dagleið í burtu.

Yfir sumarið var vistum siglt einu sinni á mánuði á djúpbáti inn í víkina en á öðrum árstímum og í vondum veðrum varð að koma þeim fyrir í Hrafnfirði og selflytja þær á tveimur jafnfljótum yfir endilanga Bolungarvíkurheiðina. Veturnir norður undir heimskautsbaugi voru snjóþungir, norðanáttin ill við að etja.

Sumarið sem allt fauk af túnum í Bolungarvík á Ströndum ákvað heimilisfólk að flytja í burtu. Það var í sama veðri og skipið Pourqois Pas? tók niðri. Þetta var árið 1949 og annar tveggja sveitabæjanna í Bolungarvík þegar farinn í eyði. Erfitt var orðið um alla aðdrætti og byggð annars staðar á Hornströndum að leggjast af. Fólkið flutti í burtu.

Seinna kom það aftur. Í górítex-göllum og með GPS-tæki. Núna þurfti enginn að hokra. Núna mátti ganga um Hornstrandir fólki til ánægju og yndisauka – og síðan sigla aftur heim á leið.

Ísjakar og birkiskógur

Einn þeirra sem ólst upp í Bolungarvík var Vilmundur Reimarsson. Áður en hann lést reisti hann þar skála fyrir ferðafólk, ásamt syni sínum Reimari. Skálinn er byggður úr rekaviði á svæðinu og þar eru kojur, sturta og eldunaraðstaða. Þaðan er upplagt að ganga dagleiðir.

Á sumrin dvelur móðir Reimars, Sigfríður Jóna Hallgrímsdóttir, í Bolungarvík en sjálfur siglir hann ferðamönnum til og frá svæðinu á bátnum Sædísi IS 67. Farið er frá Norðurfirði, þaðan sem eiginlegur vegur norður eftir endar.

Ég slæst í för með hópi af fólki sem skipulagði ferðina sjálft og hafði samband við Reimar upp á siglingu og gistingu. Við eigum heiminn þar sem við drekkum kaffi í Hrafnfirði, virðum fyrir okkur fallega Barðsvíkina og þrömmum á milli rekaviðardrumba í fjörunni í Furufirði. Náttúrufegurðin er stórkostleg. Við erum á 66. breiddargráðu og tökum myndir af ísjökum í Skorarvatni og virðum fyrir okkur tignarlegan Drangajökulinn. Berjalyng og birkiskógur taka við af snjódyngjum og stórgrýti og landslagið breytist stöðugt.

Á sauðskinnsskóm í snjónum

Þótt hásumar sé er víða snjór. Hér vorar seint og haustar snemma. Hvítur snjórinn er fallegur í glampandi sólinni. Við getum ekki annað en velt fyrir okkur hvernig hafi verið að ganga þennan snjó í stormi og stórhríð – á sauðskinnsskóm. Hversu dimmt og drungalegt hlýtur ekki að verða undir þessum bröttu fjöllum á veturna? Þetta getur ekki hafa verið auðvelt.

„Á einhver gerviskinn til að setja á hælana?“ heyrist úr hópnum meðan við virðum fyrir okkur fjöllin. „Nei, ég á bara litlu gerviskinnsplástrana sem eru sérsniðnir til að passa utan um tærnar!“

Við plástrum okkur, bætum sólaráburði á nefið og fáum okkur kaffi. Vilmundur Reimarsson reið barn að aldri í svartaþoku yfir í Hrafnfjörð og út í Kjós að ná í ljósmóður þegar fjölgun í fjölskyldunni stóð fyrir dyrum. Síðar arkaði hann á milli fjarða með póst úr skipinu sem lagði að í Hrafnfirði. Nokkrum áratugum síðar fæ ég mér prótínstöng áður en ég held með göngustaf og GPS-tæki upp á heiðina. Ég er hlægilegt borgarbarn sem veit ekkert um það hvernig á að lifa af í náttúrunni án þar til gerðra tækja og tóla.

Eftirlýst: Sunnanátt

Í veðurblíðunni rýfur ekkert kyrrðina nema fuglasöngur. Við erum utan gemsasambands, utan vegasambands, ein í heiminum. Jafnnorðarlega sest sól ekki á sumarsólhvörfum og það er stórkostlegt að vera stödd á slíkum stað á bjartasta tíma ársins. Þetta er paradís.

Adam var þó ekki lengi í paradís. Skyndilega breytist veðrið og hann snýst í norðanátt. „Slæma norðanátt.“ Hornstrandir liggja að sjó – nema hvað – og í norðanáttinni blæs vindurinn beint af hafi.

Okkur er tilkynnt að vegna veðurs sé ekki hægt að sigla með okkur í Reykjarfjörð eins og ætlunin var. Báturinn kemst ekki til og frá landi í ölduganginum. Nú er ekkert annað að gera en að smella sér í regngallann yfir sólbrúnkuna og bíða eftir að hann lægi.

Ég banka upp á hjá Sigfríði og legg fyrir hana hina brennandi spurningu: Er þetta eðlilegt um hásumar?

Hún skellihlær. „Þetta er óttalegt veðravíti. Jú, vittu til, þetta gerist oft! Við erum náttúrlega við opið úthaf hérna. Það er allt svo opið hér á Ströndum.“

Brimið skellur á klettunum neðan við hús Sigfríðar. Inni sitjum við, hlustum á útvarpið og virðum fyrir okkur sjóinn fyrir utan gluggann. Sigfríður útskýrir hvernig hús sem reist hafði verið hinum megin í víkinni fauk fyrir nokkrum árum. „Fauk með öllu – til og með eldavélinni!“

Sjálfur mokaði Reimar sonur hennar snjó út úr gistiskálanum þegar hann vitjaði hans í vetur. Nokkrum árum áður hafði hann einmitt neglt þakið á húsið í hríðarbyl.

Það var á sjálfum 17. júní.

„Hér getur snjóað á öllum árstímum,“ segir hann bara og hlær.

Kakó í veðravíti

Í fjöldamörg ár hefur Sigfríður dvalið í Bolungarvík yfir hásumarið. Sjálf er hún fædd á Dalvík.

„Ég kann vel við mig hérna, hér er gott að vera. En ætli þetta hafi ekki verið óttalegt hokur áður fyrr. Á veturna var allt á kafi í snjó og fátæktin gríðarleg. Þó er sagt að mat hafi aldrei skort í Bolungarvík.“

Ég fæ að nota NMT-símann hjá Sigfríði til að hringja heim og tilkynna að ég sé veðurteppt. Allt í einu koma gerviskinnið og górítexið mér hvergi, ég er agnarsmá miðað við náttúruna – aumingi sem nenni ekki að ganga þrjár dagleiðir í bílinn í Norðurfirði. Og nú er ekkert að gera nema að bíða.

Í norðanáttinni er notalegt að sitja inni í hlýju húsi, spila og syngja með gítar. Hlæja yfir því að vera sólbrennd en veðurteppt – og geta að minnsta kosti virt GPS-punktinn á tækinu fyrir sér.

- „Er ekki hægt að stilla tækið einhvern veginn þannig að það flytji okkur sjálfkrafa í Norðurfjörð?“

- „Blessuð vertu, fáðu þér meira kakó og hættu þessu röfli!“

Síðan förum við í gönguferð í rokinu.

Margra poka ferð

Tveimur sólarhringum eftir að byrjaði að rigna hefur vindinn lægt nógu mikið til að hægt sé að sigla. Það tekur Reimar þrjá tíma að sigla frá Norðurfirði til Reykjarfjarðar og loks til okkar. „Þetta verður margra poka ferð,“ er viðkvæðið og við ferjuð með gúmmíbát í nokkrum hópum út í Sædísina sem bíður fyrir utan.

Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á, stormar og sjóir því grandað ekki fá. Við syngjum alla leiðina suður eftir á skipinu og sjáum að lokum rennblaut glitta í Norðurfjörð, þaðan sem eigendur Kaffi Norðurfjarðar hafa boðist til að hafa opið lengur fyrir okkur.

Íslandið hátt upp úr öldunum rís, eyjan sem kennd er víð ís. Frábær ferð er að baki.

sigridurv@mbl.is

Skemmtilegra en að vera í tölvunni

Hinn tíu ára gamli Villi, sem heitir raunar Vilmundur, dvelur í Bolungarvík á Ströndum í sumar ásamt ömmu sinni Sigfríði og föðurnum Reimari. Þau eru þau einu sem dvelja í víkinni, utan göngufólks.

„Það er miklu skemmtilegra að vera hér en að hanga í tölvunni,“ segir Villi, hress og kátur þótt félagsskap annarra jafnaldra skorti og ekkert sé sjónvarpið, hvað þá nettengd tölva. Villi leikur sér úti frá morgni til kvölds og er duglegur við að rétta hjálparhönd ferðafólkinu sem kemur í Bolungarvík.

Villi þylur upp veðurspána fyrir okkur, færir okkur fréttir og ekur farangrinum til og frá fjörunni á fjórhjóli. Þótt enn sé langt í bílprófsaldurinn finnst honum lítið mál að aka hjólinu – og festir kerru aftan á, bakkar og beygir eins og honum væri borgað fyrir það.

Þetta er þriðja sumarið sem Villi er í Bolungarvík á Ströndum. „Það er bara svo gaman!“

Hægt er að nálgast Reimar Vilmundarson í síma 893 6926. Frá Brú í Hrútafirði eru 222 kílómetrar til Norðurfjarðar.