Eins og síld í tunnu Að geta vart þverfótað fyrir mannfjöldanum er varla sú strandstemning sem fólk lætur sig dreyma um.
Eins og síld í tunnu Að geta vart þverfótað fyrir mannfjöldanum er varla sú strandstemning sem fólk lætur sig dreyma um. — Ljósmynd/Ingvar Örn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar þekkja baðstrendur að góðu enda talið nauðsynlegt að hlaða rafhlöðurnar reglulega. Flestir leggja þá leið sína til suðrænna sólarstranda, þar sem sangría og sól er allt sem þarf.

Íslendingar þekkja baðstrendur að góðu enda talið nauðsynlegt að hlaða rafhlöðurnar reglulega. Flestir leggja þá leið sína til suðrænna sólarstranda, þar sem sangría og sól er allt sem þarf. Danmörk, segir Ingvar Örn Ingvarsson, býr hins vegar líka yfir fjölda góðra stranda sem gaman er að heimsækja.

Á baðströndum er það stemningin sem skiptir hvað mestu máli og eru strandirnar oft valdar út frá því hverskonar andrúmsloft þar er að finna. Þannig sækist fólk í strandir sem eru barnvænar, með börum fyrir partýljónin, ofurhreinar og rúmgóðar fyrir þá sem vilja eingöngu sóla sig, nú eða þá klettóttar með nógu af afviknum svæðum fyrir þá ástföngnu.

Ein þekktasta útgáfa baðstrandamenningar er þó líklega seglbrettamenningin sem tröllreið baðströndum Vesturheims upp úr 1960 og enn eimir af víða um heim. Oft vilja Íslendingar þó gleyma hinum vinsælu skandinavísku baðströndum, en þær hafa átt sín frægðartímabil líka, þó þær hafi e.t.v. verið meira í bakgrunni hina síðustu áratugi. Það er hinsvegar margt í boði sem hentar íslenskum ferðalöngum vel.

Á hverju ári leggja þúsundir Íslendinga leið sína til meginlandsins með strandferðaskipinu Norrænu, sem lýkur ferðalagi sínu í Hanstholm á Norður-Jótlandi. Ferðalög af þessu tagi hafa verið vinsæl síðustu ár þar sem þægilegt er að taka fjölskyldubílinn með og njóta alls þess besta sem Evrópu hefur upp á að bjóða á eigin forsendum. Enn fremur er algengt að húsbíla- og hjólhýsaeigendur taki ferðahíbýlin með er ekið er sem leið liggur frá Danmörku og suður á bóginn.

Að leita langt yfir skammt

Fæstir gera sér hins vegar grein fyrir því að rétt hjá Hanstholm eru bestu baðstrendur Danmerkur og það sem meira er þá eru þær afar hentugar fyrir þá sem koma með híbýli sín í eftirdragi.

Þannig má t.d. aka á ströndinni við Løkken og Blokhus þar til álitlegt pláss er fundið og leggja bílnum síðan hreinlega við hliðina. Fjölskyldan með ungu börnin hefur þannig allt innan seilingar, jafnvel salerni þegar börn eða jafnvel hinir fullorðnu eru búnir að súpa nóg af sjó eða öðru og þurfa að létta á sér.

Blokhus er um 80 kílómetra frá Hanstholm og því vel þess virði, eftir að hafa verið innilokaður á Norrænu í nokkra daga, að aka með sitt hafurtask þessa stuttu leið á ströndina – grilla og teygja úr sér andlega og líkamlega áður en lagt er af stað suður á bóginn.

Í Danmörku á leiðinni suður eru reyndar fleiri strandir í boði sem allar bjóða upp á mismunandi stemningu. Þannig eru að sjálfsögðu líka strandir þar sem akstur er bannaður og á það raunar einnig við um Blokhus og Løkken. Á slíkum ströndum er svæðinu skipt þannig að á vinstri hönd er bílfrítt svæði en á hægri hönd má aka frjálst – hefðbundnar umferðarreglur gilda þó reyndar líka á ströndinni.

Fyrir Íslendinga er hin sérkennilega stemming sem myndast er fólk mætir á bílnum sínum á ströndina það sem allir ættu að prófa. Ekki síst þar sem slíkt er víðast hvar ekki leyfilegt, en einnig vegna þess að gagnstætt því sem telja mætti þá skapast hin ágætasta stemning á slíkum stöðum. Stemning sem minnir um margt á bíómyndir sem gerast upp úr miðbiki síðustu aldar þegar flest virtist leyfilegt og þjóðir heims voru ekki jafn-þjakaðar af reglugerðavirki og nú. Þannig er ekki óalgengt að á miðri ströndinni sé búið að girða af strandboltavöll með bílum, oftar en ekki verður til hringur þar sem fólk á ströndinni rúntar um til að sýna sig og sjá aðra. Það má eiginlega segja að stemningunni svipi til þeirrar sem myndast í miðbæ Reykjavíkur, þegar rúnturinn er upp á sitt besta – en þó með sól, sandi og sældarlífi.

Í allt hefur Danmörk 7.300 kílómetra langa strandlengju. Áhætta veðursins vegna er vissulega alltaf til staðar enda veðrið kannski hverfulla á norðlægum slóðum en sunnar í álfunni. Þó ber einnig að hafa það í huga að þar sem Danmörk er afskaplega flatt land, þá eru veðurspár almennt afar áreiðanlegar og oftar en ekki standast veðurspár vikunnar fullkomlega.

Strendur fyrir fréttafíkla

Í Danmörku má finna fjölda stranda sem bjóða upp á mismunandi stemningu. Til dæmis er löng hefð fyrir nektarströndum í Danmörku. Þær eru 21 talsins og eins og gefur að skilja er stemmingin þar afar sérstök og frjálsleg. Nokkrar strendur eru sömuleiðis taldar ákjósanlegar fyrir seglbrettanotkun, enn aðrar hafa séraðstöðu fyrir börn, fatlaða og jafnvel fréttaþyrsta þar sem blaðastandar sjá sólþyrstum fréttafíklum fyrir nauðsynlegu lesefni hvaðan sem er úr heiminum.