Tækniundur Eina sjónvarpið sem blaðamaður sá á Hornströndum var þessi fallegi skjár, sem slær öðrum við.
Tækniundur Eina sjónvarpið sem blaðamaður sá á Hornströndum var þessi fallegi skjár, sem slær öðrum við.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á nokkrum sólríkum dögum á Hornströndum dáðist Pétur Blöndal að náttúrufegurð og kynntist einstöku samfélagi fólks sem hefst þar við sumarlangt.

Veðráttan getur verið köld á Hornströndum og liggja fannir niður undir sjó lengi sumars. En ekkert bendir til slíks þennan sólríka dag í Fljótavík. Hópur göngufólks stígur á land við Kögurhlíðina og eru nokkrir ferjaðir yfir Atlastaðaósinn í Tungu en aðrir halda á Kögur, nyrsta odda Vestfjarðakjálkans. Þar voru áður talin vesturmörk Hornstranda en nú er litið svo á að mörkin séu við Rit, vestan Aðalvíkur.

Daginn sem blaðamaður leggur í hann með gönguhópnum á Hornstrandir birtist frétt í Morgunblaðinu um að margir hafi afbókað ferðir þangað af ótta við hvítabirni. Slíkur ótti er þó ástæðulaus þar sem svæðið hefur verið fínkembt. En samt fer notalegur hrollur um þann sem les í Hornstrendingabók Þórleifs Bjarnasonar að bjarndýr hafi gengið á land, „soltin og grimm, og ráðizt að bjargþrota, þróttskertum íbúum víknanna. Oftast var seigla þeirra og þrek svo mikið, að þeir sigruðu hina grimmu gesti, en stundum sigruðu soltin dýr. Árið 1391 gekk hvítabjörn á land á Ströndum og drap átta menn í Hælavík, reif þá alla í sundur og át suma.“ En kannski hefur sagan vaxið í tímans rás, eins og rithöfundur ýjar að í sundlauginni á Suðureyri að ferð lokinni. „Hann hefur skrámað einn og hrætt annan.“

Fjórar flugbrautir í Fljótavík

Fljótavík er víkin milli Hvestu og Kögurs. Þess er getið í Landnámu að á Atlastöðum í Fljótavík hafi Geirmundur heljarskinn haft bú og Atli þræll hans varðveitt það. Kunn er sagan af því þegar Atli bauð Vésteini Signakappa vetursetu í Fljóti eftir skipbrot þeirra undir Kögri, að Geirmundi forspurðum. Er Geirmundur spurði „hví hann var svo djarfur, að taka slíka menn upp á kost hans,“ þá svaraði Atli: „Því að það mun uppi, meðan Ísland er byggt hversu mikils háttar sá maður mundi vera, að einn þræll þorði að gera slíkt utan hans orlofs.“ Geirmundur launaði honum með því að biðja hann að þiggja frelsi og búið sem hann gætti. Og hefur gestrisni síðan verið rómuð á Hornströndum.

Löngum voru þrír bæir í byggð í Fljótavík en víkin fór í eyði árið 1946 og nú eru þar fáeinir sumarbústaðir og neyðarskýli. Og fjórar flugbrautir! Ingólfur Eggertsson, sem verður áttræður í desember, er að dæla sandi úr Bæjaránni þennan dag til að jafna eina þeirra. Í fjölskyldu flugmanna verður að vera hægt að lenda í öllum vindáttum.

Eftir að hafa vaðið yfir Atlastaðaósinn er komið í Tungu í Tungudal. „Hér er hægt að gleyma sér, fyrir utan að maður klárar alltaf sígaretturnar,“ segir Áslaug Friðriksdóttir sem situr með heimilisfólkinu á pallinum. Það er nýkomið úr veiði og í æsingnum var silungi kastað á bakkann. Þegar vitja átti aflans var hann horfinn. „Refurinn er fljótur að hrifsa allt.“

Fyrsta daginn liggur leiðin frá Tungu eftir göngustíg upp Nónfellið. Þar taka vörður við. Í Tungudal vappar rjúpa með ungana sína í móa. Önnur er samferða fremsta göngumanni drjúgan spöl upp á Tunguheiði. Komið er niður í Rekavík bak Látrum, sem liggur milli Straumness og Hvestu. Og gengið er að tjaldstæðinu að Látrum í Aðalvík, sem liggur milli Rits og Straumness. Gamalt hertjald úr fórum „US Army“ bíður eftir hópnum í Aðalvík, drjúgur tími fer í að koma því upp og þar sest fólk að snæðingi á kvöldin. Þetta verður bækistöðin þrjár nætur.

Steyptu sér fram af brún

Það er fastur liður að sjá ref við tjaldstæðin á Hornströndum. Sú sjón mætir þeim sem er fyrstur á fætur að Látrum. Og selur gægist upp úr hafinu. Úti fyrir byltir hrefna sér í sjónum. Svo skipta álftir vötnunum bróðurlega á milli sín.

Um 80 til 100 íbúar bjuggu að Látrum í Aðalvík þegar flest var á fyrri hluta síðustu aldar og svipaður fjöldi bjó í Sæbóli handan Hvarfnúpsins. Aðalvík lagðist í eyði árið 1952. Veðuröflin eru ekki lengi að brjóta niður mannvirki á Hornströndum, þannig að tóttirnar einar eru eftir af fornum mannabústöðum og allt lauslegt fýkur út í veður og vind. Í einu rokinu fuku raunar hjólbörur af hlaðinu við Tungu og fundust tvo kílómetra í burtu, að sögn Hjálmars Edwardssonar. Og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur aldrei tekist að koma upp bryggju að Látrum sem hafið tortímir ekki í einni hendingu.

Það liggur gamall vegur frá hálfhruninni bryggjunni að Látrum upp á Straumnesfjall. Annan daginn gengur hópurinn upp veginn að ratsjárstöð bandaríska hersins og niður í Rekavík bak Látrum. Það er eitthvað djöfullegt við Straumnesið, hefur einn á orði, jafnvel í sól og blíðskaparveðri. Það finnst glöggt í hafstraumunum utan við nestánna, stórgrýtisurð þar sem Goðafoss strandaði árið 1916. Og jafnvel bandaríski herinn varð undan að síga fyrir vættum fjallsins. Hann reisti ratsjárstöð á fjallinu á árunum 1953 til 1956 en erfitt reyndist og kostnaðarsamt að halda úti rúmlega 100 manna herliði á þessum afskekkta stað og var starfsemin lögð af árið 1960. Enda fannst hermönnum, að því er segir í Árbók Ferðafélags Íslands, „kalt og fáferðugt á Skorum að sögn og undu vistinni illa, steyptu sér fram af brún þegar verst lét.“

Nú er það einmanaleg tófa sem tekur á móti göngufólkinu í Skorum, tveir hrafnar flögra yfir, eina lífsmarkið í dansklúbbnum er rjúpa og í björgunum svífur rita – önnur þó en Rita Hayworth sem heillaði Ameríkanana. Af merkingum má sjá að þarna var „Barber Shop“ en einnig var þar íþróttahús, læknisþjónusta og bíó. Byrjað var að rífa ratsjárstöðina árið 1960 og var svæðið lengi eins og það hefði orðið fyrir loftárás þar til fjárveiting fékkst frá Sölunefnd varnarliðseigna á áttunda áratugnum til að hreinsa til á Látrum. Enda var ástandið óviðunandi með öllu.

„Það var skilið svo mikið eftir af olíu að það var notað á húsin fram yfir 1980,“ segir einn heimamanna. „Og piltar léku sér að því að sprengja tunnur með því að skjóta í þær með riffli. Þeir léku sér líka að því að skjóta í gluggana, því þeir voru skotheldir. Svo var mikið af rusli urðað hér á Hornströndum, tunnur og jarðýtur, og rusli hent fram af klettum.“

Haustið sem byggingarframkvæmdir hófust á Straumnesfjalli stóð til að halda umfangsmiklar heræfingar úti fyrir Hornströndum og komst orðrómur á kreik um að nota ætti björgin í Aðalvík sem skotmörk. Jakobínu Sigurðardóttur, skáldkonu í Garði í Mývatnssveit, varð hugsað til átthaga sinna á Hornströndum og orti meðal annars:

Víða liggja „verndaranna“ brautir.

Vart mun sagt um þá,

að þeir hafi óttazt mennskar þrautir

eða hvarflað frá,

þótt þeim engu auðnu muni hyggja

Íslandströllin forn.

Mér er sagt þeir ætli að endurbyggja

Aðalvík og Horn.

Láttu, fóstra, napurt um þá næða

norðanélin þín,

fjörudrauga og fornar vofur hræða.

Feigum villtu sín,

þeim, sem vilja virkjum morðsins níða

vammlaust brjóstið þitt.

Sýni þeim hver örlög böðuls víða

bernskuríkið mitt.

Varð þetta að áhrínsorðum því stórviðri gerði norður á Ströndum og féllu æfingarnar niður. Á Straumnesfjalli verður til orðatiltækið „að gleðja Jakobínu“. Sólsetrið er fallegt þegar komið er niður í Rekavík og þar er gróðursælasti vegur landsins. Vegurinn upp á Straumnesfjall átti fyrst að liggja þar en herinn gafst upp fyrir mýrlendinu. Enn var ósigurinn algjör. Þegar hugsað er tilbaka er erfitt að gera það upp við sig hvort rústirnar af ratsjárstöðinni eigi að fá að standa eða hvort eigi að jafna þær við jörðu. En þó hlýtur að mega hirða ryðgaðar tunnur og fleira sorp sem liggur eins og hráviði um fallega náttúruna.

Skýjafoss upp af brúninni

Þriðja daginn þramma berfættir ferðalangar eftir gullinni strönd í Aðalvík, bakaðir af sólinni, eftir að hafa byrjað daginn á sjósundi. Farið er yfir Stakkadalsósinn á háfjöru og fyrir Hvarfnúp í miðri víkinni, en norðan í honum er gönguleið, Hyrningsgata, sem þykir varasöm. Stiklað er á steinum undir skriðunni. Tæpust er hún í Posavogi, sem dregur nafn sitt af því að maður var að færa barn til skírnar að Stað, bar það í poka og missti niður fyrir hamrana í sjóinn. Nokkuð mál reyndist að finna keðjuna niður í Posavoginn en að öðru leyti gekk ferðin vel.

Við Ellubæ í Sæbóli er fjölskylda að verka kjöt úti á palli. Þau segja allt í lagi að ferðast á bát á þessum afskekktu slóðum. „Ef það er vont veður þá förum við ekki neitt.“ Eitthvað skynsamlegt við það. Og það tíðkast hér eins og annars staðar í sumarhúsabyggðum að það er flaggað. „Fólk verður að vita hvar hægt er að líta í kaffi.“

Bretar reistu varðstöð með fallbyssum á Efri-Darra fyrir ofan Sæból í stríðsbyrjun. Og var henni ætlað að verja skipalestir sem lágu í vari undir Grænuhlíð, 200-300 metra hárri og sæbrattri hamrahlíð. Aðföng voru flutt með togbraut frá Sæbóli upp á fjallsbrún og eftir vegi þaðan að varðstöðinni. Nú liggur gönguleiðin meðfram togbrautinni nánast þráðbeint upp fjallið og reynir það nokkuð á. En það er vel þess virði að skoða Darrann. Þennan dag er mistrið leyndardómsfullt yfir rústum varðstöðvarinnar og stöku rammar af útsýni gefast yfir víðáttu hafsins, jökulfirðina og Djúpið. Sólin speglast í haffletinum og uppstreymið er þvílíkt, að það er sem skýjafoss steypist upp af brúninni.

Þegar gengið er tilbaka kemur hópurinn við á kirkjustaðnum Stað, en unnið er að viðgerðum á kirkjunni. Síðan er genginn Þverdalur, leið sem er síður en svo „greiðfær“ vegna óræktar, upp Þverdalsdrögin og niður í Miðvíkina. Þetta er afar seinfarin leið og hópurinn orðinn örþreyttur þegar komið er að Látrum. Heitir síðan „að fara Þverdalinn“ þegar leitað er langt yfir skammt.

Hér hvílast allir

Fjórða daginn er gönguleiðin hinsvegar þægileg frá Aðalvík til Hesteyrar. Um kvöldið fær hópurinn skýringu á ferðum björgunarþyrlu og flugvéla um svæðið en annar gönguhópur hafði talið sig sjá hvítabirni í Hælavík og lögreglan á Ísafirði uppálagt fólki í Hælavík og á Hesteyri að halda kyrru fyrir á meðan leit stæði yfir. Það fylgir sögunni að þetta hafi líklega verið tvær álftir, sem hafi hreyft sig úr stað. „Nú fljúga hvítabirnir í burtu,“ segir Leifur Eiríksson 101 árs á Hrafnistu hugsi þegar hann heyrir tíðindin. Í Hornvík vaknar Húsvíkingur við hljóðið í þyrluspöðunum þegar þyrla lendir við hliðina á tjaldinu. Hann er beðinn um að halda sig í tjaldinu eða að minnsta kosti hafa varann á.

Um 80 manns bjuggu á Hesteyri þegar flest var. Eftir 1940 fór íbúum að fækka og lagðist staðurinn í eyði árið 1952. En þar eru nokkur hús, sem er vel við haldið. Í Læknishúsinu á Hesteyri grípur Hrólfur Vagnsson í harmóníkuna og spilar fyrir gesti, en þar hefur verið gisting og kaffihús í 11 ár. Sérréttur hússins eru pönnukökurnar, enda kallar Birna Pálsdóttir, móðir Hrólfs, sig „pönnukökumömmu“. Birna byrjaði með veitingasölu fyrir 11 árum en eiginmaður hennar, Vagn Hrólfsson heitinn, var uppalinn á Hesteyri. Hann flutti reyndar fimm ára til Ísafjarðar með foreldrum sínum en þegar pabbi hans drukknaði eftir áramót var hann sendur aftur til Hesteyrar og var þar til fermingar.

Birna og Vagn keyptu barnaskólann með annarri fjölskyldu árið 1967. Læknishúsið stóð hinsvegar autt í 50 ár frá því síðasti læknirinn fór frá Hesteyri árið 1942. „Maðurinn minn leit eftir því fyrir lækninn sem átti húsið og við létum hann vita af áhuga okkar á að kaupa húsið. Svo höguðu örlögin því þannig að þeir féllu báðir frá á svipuðum tíma. Þá hringdi ég í skiptaráðandann og hann sagði húsið ætlað okkur. Við keyptum það því árið 1994.“

Hún segir að straumur ferðamanna á Hesteyri hafi farið stigvaxandi, Ferðafélagið komi tvisvar á ári og talið sé að alls hafi 3-3.500 ferðamenn lagt leið sína á Hornstrandir í fyrra. Þá er skylda að koma við í Læknishúsinu, sem var byggt árið 1901 og er í afar góðu ástandi. „Við komum á vorin og förum á haustin,“ segir Birna. „Hingað höfum við allt að sækja, hér er yndislegt að hugsa um blómagarðinn og svo sækja börnin mín hingað. Maður fer heim með nýja sál á haustin. Hér hvílast allir.“

Pabbi var iðinn að spinna og prjóna

Við árarnar á bátnum í Atlastaðaósnum situr Þórunn Vernharðsdóttir. Hún lætur sig ekki muna um að ferja yfir á annan tug göngumanna þó að hún sé 77 ára gömul. „Það er hart í þessu,“ segir sveitungi hennar brosandi.

Þórunn býr að Skjaldabreiðu í Fljótavík í Sléttuhreppi í einn og hálfan til tvo mánuði á sumri en á veturna býr hún í Jöklafold. Svona til að viðhalda stemningunni. Hún flutti með fjölskyldu sinni frá Fljótavík árið 1946 en byrjaði að fara þangað reglulega með börnin árið 1956. Og Þórunn er systir Herborgar eða Boggu í Atlatungu, „sem allir þekkja,“ segir hún brosandi. „Það er ómögulegt að geta hennar ekki.“

Þórunn er fædd 25. janúar árið 1931. Og þakkar dvölinni á Hornströndum það að hún er við hestaheilsu. „Ég vann strax fjölbreytt störf sem krakki og styrktist í öllum líkamanum. Eftir að ég varð fullorðin hugsa ég stundum um hvað við Bogga vorum gamlar þegar við fórum að ná í lömbin. Það voraði svo fljótt í Hlíðum að kindurnar voru reknar fram eftir áður en kom að sauðburði. Við fórum á tveggja daga fresti, náðum í lömbin og mörkuðum. Ég man þegar mamma eignaðist Sigrúnu árið 1940 að við vorum sendar fram eftir. Þá vorum við búnar að gera þetta í svolítinn tíma og höfum verið átta og níu ára.“

Það var því ekki skrítið að Þórunn væri best í leikfimi þegar hún fór 12 ára í skóla á Ísafirði. En um frammistöðu sína vill Þórunn ekkert tala. Hún leyfir sér að rifja upp er hún lærði að synda í lauginni í Reykjanesi. „Ég hafði aldrei komið í vatn áður því engin sundlaug var á Ísafirði. Fyrsta daginn vorum við látin fara fjórum sinnum í laugina og ég fór á flot í fjórða tímanum.“ Þórunn fór í skólann að hausti og kom aftur að vori. Á Ísafirði bjó hún hjá Helgu systur sinni, sem var farin að búa, og lætur vel af dvöl sinni þar.

– Þú hafðir aldrei komið í vatn áður en þó bjóstu við hafið?

„Krakkarnir í Fljótavík fóru aldrei í ósinn eða sjóinn. Manni var kennt það frá upphafi að bera virðingu fyrir þessum ós; hann gat sko tekið líf manns. Svo maður fór nú ekki að vaða í ósnum að óþörfu. Og fór ekki yfir nema það væri háfjara – ef þess þurfti.“

Lífsbaráttan gat verið hörð í Fljótavík og snerist fyrst og fremst um að afla matar. „Við lifðum á fiski og kjöti. Og keyptum korn á Ísafirði. Eins og þetta var þá, þá var róið til fiskjar, fiskur seldur og kjötið saltað. Pabbi sótti stundum birgðir til Aðalvíkur, sérstaklega fyrir jólin. Þangað voru vikulegar ferðir en bátur kom aðeins í Fljótavík um haust og vor.“

Ef eitthvað kom upp á, svo sem þegar móðir Þórunnar var komin með hríðir, þá var hvítu stykki veifað í fjörunni. „Það var bátur úti á víkinni að fiska sem kom óðar í land og tók mömmu með til Ísafjarðar,“ segir Þórunn. „Einangrunin var svona gífurleg.“

Og ekki var mikið um afþreyingu á öræfum. „Skeljar voru leikföngin og mamma sagði sögur,“ segir Þórunn. „Svo las pabbi alltaf húslestra á sunnudögum. Og ef við vorum ekki stilltar eða hljóðar eða fórum að skrafa þá spurði hann okkur út úr. Það kom fyrir,“ segir hún kímin. „Síðan sá pabbi um skepnurnar og var iðinn að spinna og prjóna, lopapeysur og laufaviðsvettlinga, sem er þekkt mynstur hér á Hornströndum.“

Af hverju lagðist byggðin af í Fljótavík?

„Það hafði fækkað svo mikið í hreppnum. Júlíus Geirmundsson á Atlastöðum var orðinn fullorðinn maður, öll börnin flutt í burtu og þau vildu að foreldrar þeirra kæmu líka. Þá voru aðeins tveir fullorðnir karlmenn eftir í Fljótavík sem var of lítið ef þeir hefðu þurft að bjarga sér úti á báti, þannig að við urðum að fara.“

– Þetta gerðist skyndilega.

„Já, foreldrar mínir keyptu nýbýlið Geirmundarstaði, sem alltaf var kallað Skjaldabreiða, einu ári áður af Geirmundi Júlíussyni og þá var ekki komið til tals að fara burtu.“

– En þú kemur alltaf aftur?

„Já, ég get ekkert lýst því af hverju. Þegar ég var komin með fjölskyldu þá fannst mér eins og öll þreyta og áhyggjur færi burtu og yfir mig kæmi vellíðan sem ég get ekki lýst. Löngunin var mikil til að koma aftur. Mér þykir sérstaklega vænt um þessa staði.“

Lá við að menn væru ríkir

Nítján eru samankomnir í tvílyftu timburhúsi á Skriðu að Látrum í Aðalvík. Þar hafa hreiðrað um sig með afkomendum sínum hjónin Guðný Eygló Hermannsdóttir, fædd 20. júní 1941, og Sigurður Halldór Geirmundsson, fæddur 29. janúar árið 1930. Hann segist vera „eldgamall“. Og hlær strákslega.

„Okkur finnst gott að koma hingað í ró og kyrrð. Svo hefur maður alltaf eitthvað fyrir stafni,“ segir Guðný.

„Henni fellur aldrei verk úr hendi,“ skýtur Halldór inn í og hlær. „Hún prjónar og heklar og inn á milli hreinsar hún brekkuna með dauða njólanum.“

Hún mótmælir þessu ekki:

„Þess vegna er best að koma á vorin.“

Bæði Halldór og Guðný eru frá Hornströndum. Halldór er fæddur á Skriðu í Látrum og á ættir sínar einnig að rekja til Fljótavíkur. Móðir hans var Guðmunda Regína Sigurðardóttir frá Látrum og faðir hans Geirmundur Júlíusson frá Atlastöðum. Guðný er fædd að Látrum, dóttir Sigurlaugar Friðriksdóttur og Hermanns Árnasonar úr Grunnavík, en það var síðasta byggð í Jökulfjörðum og lagðist hún í eyði árið 1962.

Þau segja að fyrir stríð hafi verið lítið um peninga á Hornströndum og að fólk hafi ekki haft miklar tekjur af afurðum. „En eftir að stríðið byrjaði varð ástandið þokkalegt,“ segir Halldór. „Það seldust allar vörur, fiskur og kjöt hækkaði í verði og það lá við að hægt væri að segja að hér væru menn ríkir.“

En sú gæfa varð einnig banabiti byggðarinnar. „Ég held það sé óhætt að segja það,“ segir Halldór. „Fólk eignaðist pening og vildi byggja stærri báta en það var enginn möguleiki að stækka bryggjuna. Ég vann við hana þegar bandaríski herinn stækkaði hana en hún brotnaði niður á einum vetri. Þá gat 20 tonna bátur lagt að bryggju en nú er bryggjan komin upp á land. Og svo var ekkert frystihús í Aðalvík.“

Það var erfitt fyrir fólk að yfirgefa Hornstrandir. „Fólk kunni ekkert annað, var tregt til að fara og fór með tvær hendur tómar – skildi eignirnar eftir til að grotna niður,“ segir Guðný. „Annars man ég óglöggt eftir lífinu hérna. Veturinn var erfiður og ég man eftir miklum snjó. Bróðir minn vitjaði um kindurnar hér í túni og ég fór oft með honum. Svo var ég næstum runnin út í sjó á sleða!“

„Hún var svo frökk,“ segir Halldór og hlær.

Árið 1953 kom bandaríski herinn í Fljótavík. „Það var svo rosalegt,“ segir Halldór. „Það tók eitt ár fyrir þá að átta sig á því hvernig ætti að leggja veginn upp á fjallið. Þeir rötuðu alltaf beint í dýin, þannig að það voru jafnvel fjórir metrar niður,“ segir hann og hlær. „Svo fór að Íslenskir aðalverktakar tóku við verkinu og lögðu veginn Látramegin.“

Fljótlega sneru Halldór og Guðný aftur í Aðalvík. Guðný vann í eldhúsinu fyrir Íslenska aðalverktaka og Halldór byrjaði sem verkamaður við veglagninguna en vann svo við að keyra efni upp og niður af fjallinu fram á haust 1958. „Mannlífið á Straumnesfjalli var gott,“ segir Guðný. „Þegar Kanarnir komu var slegið upp veislu og barinn hafður opinn. En nokkrir drukku illa og þá hættu slíkar skemmtanir. Þarna var líka bíó og menningin meiri en á Ísafirði.“

Halldór rifjar upp að Finnbogi Jósefsson frá Fljótavík lagði alla hermennina í sjómanni í fyrstu veislunni. „Þeir höfðu bara gaman af því, karlagreyin sem urðu fyrir því að láta hann vinna sig – allt ungir menn.“

En ratsjárstöðin var skammlíf, enda kallar Halldór hana „herstöðina sem aldrei varð“. Og honum finnst skemmtilegra að tala um afa sinn Júlíus Geirmundsson. Hann bjó á Atlastöðum í Fljótavík og hljóp að morgni til róðra frá Látrum og skokkaði til baka að kvöldi með soðningu fyrir fjölskylduna. „Mér er sagt að það hafi stundum verið 40 til 50 kíló.“

Á Hornströndum kalla menn ekki allt ömmu sína. Nema hún heiti Guðný.

Ætli það hafi ekki verið Vídalín

Í skólahúsinu við Sæból í Aðalvík kemur til dyra Sigurður Markússon tónlistarmaður, sem er þar með sonum sínum á vegum átthagafélagsins. Þeir eru meðal annars að veiða og skoða lítið land sem hann á þar frá gamalli tíð. „Þetta er í fyrsta skipti í 18 ár sem ég kem hingað,“ segir hann. „Það hefur lítið breyst síðan þá – furðulegt hvað þessi staður heldur sér. Helst að það séu fleiri hús.“

Sigurður segir landslagið minna pínulítið á Walt Disney-teiknimynd – gróðursældin í Sæbóli, stöðuvatnið og víkin, háreist fjöllin og hvít ströndin. Og á Darranum. „Þar er maður kominn ansi nærri guðdómnum, að horfa yfir Jökulfirðina og Ísafjarðardjúpið.“

Annar af sonum Sigurðar er í hópi á vegum átthagafélagsins sem er að gera við kirkjuna á Stað. „Hún er illa farin og þarf að gera mikið við hana. Það verður haldið áfram að vinna við hana á vegum félagsins í sumar. Menn leggjast á eitt um að reyna að halda kirkjunni við, einnig prestshúsinu svokallaða og skólanum.“

Sigurður fæddist árið 1927 og bjó fyrstu tíu ár ævi sinnar ýmist í Aðalvík eða á Ísafirði. „Ég fæddist í Aðalvík en berklar lögðu fjölskylduna í rúst má segja. Báðir foreldrar mínir fóru á sjúkrahúsið á Ísafirði og móðir mín dó úr tæringu þar. Faðir minn sneri svo aftur til Aðalvíkur mikið seinna, en hann náði sér aldrei almennilega. En börnin fóru náttúrlega tvist og bast. Þetta er sú tragedía sem var landlæg víða um landið á árunum 1920 til 1930.“

Sigurður fæddist með berkla í hælunum og var ýmist á sjúkrahúsinu á Ísafirði eða hjá fósturforeldrum sínum á Læk. Hann sat tvo fyrstu bekkina í skólanum og man fyrst og fremst eftir kennaranum Þórarni Þórarinssyni. Annars gekk lífið sinn vanagang, bara eins og almennt hjá börnum í sveit. Og það voru húslestrar á hverjum sunnudegi.

– Hvað var lesið?

„Ætli það hafi ekki verið Vídalín.“

Sigurður fór síðan til náms og er menntaður tónlistarmaður, hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík og spilar á fagott í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann segir að það hafi helst verið orgel og harmóníkur í Aðalvík á æskuárum hans.

– Og þú hefur spilað á það?

„Ojá. Svo fór ég sem unglingur í orgelnám til séra Þorsteins prófasts í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Og systir mín átti orgel. Ég var hjá henni svolítinn tíma.“