— Morgunblaðið/Ágúst Ingi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borið hefur á því að ungt fólk hafi spurst fyrir um atvinnumöguleika og búsetuskilyrði. Oddný Þórðardóttir oddviti fagnar þessari hugarfarsbreytingu og er bjartsýn á möguleika samfélagsins í Árneshreppi.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

Þetta er ekki fyrsta skýrslan sem er skrifuð um fólksfækkun á landsbyggðinni eða um Árneshrepp sérstaklega. Það eru margir sem lifa á svona skýrslugerð og ekki nema gott eitt um það að segja, en ég held að tími sé kominn til að láta verkin tala. Það eru ekki mörg ár til stefnu, því að óbreyttu lifir þetta sveitarfélag ekki lengi,“ segir Oddný Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps, þegar hún er spurð um nýútkomna skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög sem búa við viðvarandi fólksfækkun.

Oddný býr á Krossnesi ásamt eiginmanni sínum Úlfari Eyjólfssyni. Hún tók við starfi oddvita eftir síðustu kosningar af Gunnsteini Gíslasyni, sem setið hafði í sveitarstjórn í 12 kjörtímabil eða í 48 ár. Gunnsteinn var fyrst kjörinn í sveitarstjórn árið 1958 og var oddviti í 35 ár. Oddný segir margvísleg verkefni á borði oddvita.

„Þó að við séum fámenn hérna erum við með sams konar starfsemi og stóru sveitarfélögin. Vissulega er mælikvarðinn ekki jafn stór, en við rekum skóla, við erum með ýmsar framkvæmdir á okkar vegum og oddviti þarf að sjá um alls konar pappírsvinnu sem fylgir starfsemi sveitarfélags.“

Nú eru 49 manns með lögheimili í Árneshreppi, en síðasta vetur dvöldu þar 33 einstaklingar. Heimilin í sveitinni eru 15 talsins og á 10 bæjum er stundaður sauðfjárbúskapur. Árneshreppur er nyrsta sveitarfélagið í Strandasýslu og afskaplega landmikill. Í suðri nær hreppurinn frá Spena undir Skreflufjalli á milli eyðibýlanna Kaldbaks og Kolbeinsvíkur og að norðanverðu að Geirólfsgnúp fyrir norðan Skjaldabjarnarvík. Flatarmál sveitarfélagsins er 724 km² og er þar minna en einn íbúi á km².

Oddný er ekki svartsýn á framtíð Árneshrepps og segir ýmislegt vera á döfinni. Hún nefnir bætt netsamband í gegnum gervihnött og gerir sér vonir um að það verði komið á næsta ári inn á hvert heimili þar sem er heilsársbúseta.

Betri og öruggari samgöngur eru henni einnig ofarlega í huga en flugið er íbúum í Árneshreppi mikilvægt og lífæð að vetrinum. Nú er flogið til Gjögurs tvisvar í viku og er veginum frá Gjögri í Norðurfjörð haldið opnum í tengslum við flugið. Hótelið í Djúpavík er opið stærstan hluta ársins en samgöngur þangað geta vertíð erfiðar í hvora áttina sem er, einkanlega fyrstu þrjá mánuði ársins.

Nú er kvóti kominn á allt

Syðsta fjárbýlið er í Kjörvogi, skammt frá Gjögri, en síðan er þéttbýlt um miðbik sveitarinnar frá Ávík að Krossnesi, sem er nyrsti bærinn í byggð, eftir að Fell og Munaðarnes fóru í eyði.

„Sauðfjárbúskapur er undirstaða byggðarinnar hér og vonandi tekst okkur að fá ungt fólk inn í þá atvinnugrein á næstu árum,“ segir Oddný. „ Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt og dýrt að komast inn í kerfið og þeir sem hafa flutt í burtu nýta eignir sínar eðlilega yfir sumartímann. Mér finnst þó ekki ómögulegt að ungt fólk fengi að nýta jarðirnar, en þyrfti þá aðstoð við að koma sér þaki yfir höfuðið.

Sömu sögu er að segja af sjávarútveginum. Héðan reru margir bátar fyrir ekki svo löngu og lögðu upp í Norðurfirði. Meðan veiðarnar voru frjálsar eða sóknardagar við lýði voru margir sem vildu gera út frá Norðurfirði enda stutt að sækja fiskinn. Nú er kvóti kominn á allt og auk þess hefur verið klipið af kvótanum á hverju ári,“ segir Oddný.

„Í sveit eins og Árneshreppi er hvert einasta starf dýrmætt og sömuleiðis er það okkur öllum erfitt þegar einhver flytur í burtu. Við þurfum á öllu okkar að halda. Ég get nefnt sem dæmi að við þurfum að smala óhemju stórt landsvæði og það getur orðið erfitt að manna smalamennskur ef okkur fækkar.

Ungt fólk spyr um möguleikana

Sem betur fer held ég að það sé að verða hugarfarsbreyting og ég verð í auknum mæli vör við að ungt fólk spyrst fyrir um búsetu og atvinnu í hreppnum. Ég sé það líka alveg fyrir mér að fólk með margvíslega menntun getur unnið hér fyrir norðan ef nettenging kemst á og samgöngurnar batna. Alls konar fræðimennska kemur til greina og alþekkt er að menn sinni slíku í fjarvinnslu. Allt snýst þetta um vinnu og það þarf að hjálpa ungu fólki sem vill koma hingað.“

Sjálf á Oddný tvo syni. Hilmar Gylfason er búfræðingur að mennt en stundar nú nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Árni Geir Úlfarsson leggur hins vegar stund á íslensku í Háskóla Íslands. Ekki segist Oddný viss um að synir hennar setjist að í Árneshreppi. Útilokar það þó ekki og segir að með bættri nettengingu og öruggari samgöngum breytist svo margt.

Það vekur athygli að allir unglingar frá Árneshreppi, án undantekninga, hafa á síðustu árum farið úr grunnskóla í nám í framhaldsskóla.

Oddný er að lokum spurð hverju þetta sæti:

„Ég held að ein meginástæðan sé sú að þessir krakkar hafa alist upp með fullorðnu fólki þar sem tími er nægur til að tala við börnin og vinna með þeim. Þessum krökkum héðan hefur yfirleitt vegnað vel í lífinu. Þeir byggja á góðum grunni og þurfa snemma að vera sjálfstæðir.“

Tólf ættliðir undir sama fjalli

ÞAÐ er sérstakt að sitja á spjalli með mæðgunum í Bæ í Árneshreppi á Ströndum og hugsa til þess að tólfti ættliðurinn undir þessu sama fjalli, að minnsta kosti, kom í heiminn í ársbyrjun. Heimasæturnar Magnea Fönn, fimm mánaða, og Aníta Mjöll, tæplega tveggja ára, eru yngstar í þessum hópi undir Finnbogastaðafjalli. Eftir 50 ár verður fjallið örugglega á sínum stað, en spurningin er hvernig byggðinni reiðir af á næstu áratugum.

„Maður skyldi aldrei segja aldrei, en ef ég flyt héðan úr sveitinni verð ég alla vega með þeim síðustu til að fara í burtu,“ segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir í Bæ. Hún hefur alla tíð búið á sömu torfunni; fædd og uppalin á Finnbogastöðum, en flutti árið 1972 að Bæ. Þar byrjuðu hún og eiginmaður hennar, Hjalti Guðmundsson, búskap með tengdaforeldrum hennar árið 1972, en Hjalti lést árið 2005.

Nú hefur Pálína dóttir þeirra tekið við búsforráðum ásamt Gunnari Helga Dalkvist Guðjónssyni, eiginmanni sínum. Þau eiga dæturnar Magneu Fönn og Anítu Mjöll. Nöfnin á stelpunum hafa ekkert með fannfergi vetrarins að gera, foreldrunum fannst nöfnin einfaldlega falleg.

Pálína og Gunnar eru yngstu bændurnir í hreppnum, en með stærsta býlið. Í Bæ eru rúmlega 500 fjár, en eingöngu er búið með sauðfé í Árneshreppi.

Ekki lausar við öfund

„Það er yndislegt að vera hérna,“ segir Pálína. „Flestar vinkonur mínar eru ættaðar héðan úr hreppnum og þær hafa skilning á því að ég vilji búa hér í Bæ. Það er reyndar ekki laust við að þær öfundi mig stundum þegar þær eru þreyttar á stressinu og tímaleysinu í bænum.

Það hefur gengið mjög vel með stelpurnar, þær hafa verið hraustar, 7-9-13. Annars kemur læknir hingað á tveggja vikna fresti, en fólk hér um slóðir er ekkert að kvarta nema eitthvað alvarlegt sé að.

Vonandi verður skóli enn hér á Finnbogastöðum þegar stelpurnar komast á skólaaldur. Fækkunin hefur verið ótrúlega hröð eins og sést á því að þegar ég var í skólanum vorum við yfir tuttugu. Núna eru tvær stelpur í skólanum og að óbreyttu verða nemendur 1-2 næstu 15 árin. Við verðum að fá fleira fólk hingað til að byggðin fjari ekki út. Ég trúi ekki öðru en að þetta lagist,“ segir Pálína, sem verður leiðbeinandi í skólanum næsta vetur og sér um ýmsa verklega kennslu.

Pálína og Guðbjörg móðir hennar nefna báðar að bætt netsamband myndi breyta mjög möguleikum sveitarinnar. Með slíkri nútímavæðingu mætti bæði stunda vinnu og nám í höfuðborginni frá tölvu á Norður-Ströndum.

Fjarar út hægt og rólega

„Ef ekki kemur ungt fólk inn í þetta samfélag okkar þá fjarar sveitin bara út hægt og rólega, við erum nú ekki beinlínis að yngjast þessir bændur hér,“ segir Guðbjörg.

„Það er bara jákvætt að Árneshreppur sé í umræðunni og vonandi kemur eitthvað jákvætt úr þessum skýrslum. Best væri ef hægt væri að styðja við bakið á ungum bændum svo þeir geti komið sér af stað í rekstrinum. Eins og þetta er núna þá gerist það ekki nema með því að ungt fólk taki við af foreldrum sínum. Ferðaþjónustan er góð eins langt og hún nær en hún er takmörkuð við sumartímann.

Þessi sveit hefur svo margt að bjóða umfram þéttbýlið; kyrrðina, náttúruna, fegurðina. Það er meira að segja fallegt hérna í blindbyl að vetrarlagi. Ég þekki heldur ekki annað, fædd hér og uppalin, hef búið hér alla mína tíð og vildi ekki skipta. Að mínu mati er þetta spurning um fimm ár. Ef ekkert jákvætt gerist á þeim tíma fjarar byggðin út, svo einfalt er það,“ segir Guðbjörg í Bæ.

„Þá væri enginn galdur eftir“

„VISSULEGA var veturinn oft erfiður og langur en ég segi það alveg satt, að ég er farinn að hlakka til næsta vetrar,“ segir skólastjórinn í

Finnbogastaðaskóla, Elín Agla Briem. Skólinn er annar tveggja fámennustu skóla landsins en bæði í Finnbogastaðaskóla og í skólanum í Mjóafirði voru tveir nemendur síðastliðinn vetur.

Elín Agla segir tilviljun hafa ráðið því að hún fluttist norður í Árneshrepp. „Ég sat á kaffihúsi í miðborginni í júní í fyrra og fletti gömlum Mogga. Þá rak ég augun í auglýsingu með fyrirsögninni: „Ertu göldrótt/ur.“ Þannig var auglýst eftir skólastjóra í Finnbogastaðaskóla og eftir samtal við Jóhönnu í Árnesi, formann skólanefndar, var ég ráðin hingað norður og sé ekki eftir því.

Hvort ég er göldrótt? Þessu er ekki hægt að svara, hvorki játandi né neitandi, þá væri enginn galdur

eftir.“

Elín Agla er gift Hrafni Jökulssyni, sem m.a. hefur starfað sem blaðamaður, ritstjóri og skákfrömuður og skrifaði meðal annars bókina Þar sem vegurinn endar og kom út fyrir síðustu jól.

„Við Hrafn komum hingað í apríl í fyrra til að gifta okkur. Ætlunin var að þetta yrði allt mjög einfalt en

þegar fólkið í sveitinni frétti af þessu tilstandi okkar, kom ekki annað til greina en að slá upp veislu. Heimamenn mættu með stórkostlegar veitingar og gerðu sér glaðan dag með okkur. Þannig kynntist ég fólkinu í Árneshreppi í fyrsta skipti og ber eðlilega sterkar taugar til þessa dags og þessa samheldna fólks.“

Fúlgur fjár fyrir einangrun

Elín Agla er heimspekingur frá Háskóla Íslands en fór síðan í framhaldsnám í Englandi. Þar lagði hún m.a. stund á búddísk fræði og heimspeki og bjó um tíma í Búddamiðstöð. Hún segir að búddisminn hafi að mörgu leyti nýst henni síðastliðinn vetur.

„Að mörgu leyti er þetta eins og að setjast fyrir framan spegil og skoða það sem þú sérð og læra að þekkja sjálfan sig. Í kringum páskana var ég til dæmis ein í skólanum í fimm daga. Það var kafaldsbylur allan tímann, ófært innan sveitar, húsin nánast á kafi í snjó og eðlilega varla nokkur maður á ferð.

Eftir fimm daga einangrun kom Jón Björn í Litlu-Ávík með póstinn. Það var gott að sjá hann en svo var hann rokinn og við tóku tveir dagar í viðbót án þess að ég sæi nokkra hræðu. En veistu, þetta var stórmerkilegt og í útlöndum er fullt af fólki sem borgar fúlgur fjár til að komast í svona aðstöðu.“

En tilheyra hún og Hrafn ekki 101 Reykjavík?

„Núna er staðan þannig að við erum hluti af samfélaginu hérna og eigum ekki annað heimili. Sennilega blundar 101 Reykjavík líka í okkur en við vorum eiginlega búin að fá nóg. Ég er ekki að segja að það sé betra hér og verra annars staðar. Það er einfaldlega svo mikilvægt að hafa fjölbreytni og mismunandi möguleika fyrir fólk til að lifa lífinu.

Auðvitað er ekki alltaf eintóm

sæla að vera hérna; dimmt á vetrum og kalt og ekki hægt að skreppa í bíó. Það er bara svo margt annað.“

Samfélagið má ekki deyja út

Elínu Öglu er umhugað um að byggð haldist í Árneshreppi og nái að dafna á komandi árum. Hún bendir á að lítið þurfi til að styrkja stoðirnar. Með komu fjögurra manna fjölskyldu í hreppinn yrði um 10% fjölgun. Ef börnin væru á skólaaldri þýddi það tvöföldun á nemendafjölda.

„Samfélagið hérna stendur völtum fótum og við þurfum fleira fólk hingað til að viðhalda sögunni, menningunni og lifnaðarháttum sem gengið hafa mann fram af manni. Þetta samfélag má ekki deyja út. Það er svo ótrúlega lítið sem þarf að gera, fyrst og fremst er það betra netsamband, í öðru lagi þyrfti að bæta samgöngur og moka veginn oftar eftir áramót en gert hefur verið og í þriðja lagi bráðvantar hér 2-3 leiguíbúðir. „Flest annað getum við séð um sjálf,“ segir Elín Agla að lokum.

Handverkshúsið Körtminjasafn í einkaeigu

AUKIN ferðaþjónusta er meðal þess sem talið er til tækifæra í atvinnuuppbyggingu í Árneshreppi. Valgeir Beneiktsson, bóndi í Árnesi í Trékyllisvík, og Hrefna Þorvaldsdóttir, kona hans, hafa byggt upp og reka minja- og handverkshúsið Kört og var húsnæði safnsins nýlega stækkað. Hrefna starfar í Kört ásamt dótturinni Rakel Valgeirsdóttur sem stundað hefur nám í þjóðfræði við HÍ.

Minjasafnið er í einkaeigu og einnig eru handverksgripir eftir fólk í sveitinni boðnir þar til sölu. Húsið sjálft er sérstakt og gaman að koma þar við, en það er að mestu byggt úr rekaviði. Opið er alla daga í Kört og þar er einnig rekin upplýsingaþjónusta um Árneshrepp.

MYNDARLEGT kaffihús tók til starfa í Norðurfirði í Árneshreppi í vor. Húsnæðið er í eigu hreppsins, en áður var þar aðstaða fyrir menn sem unnu í sláturhúsinu á staðnum meðan það var rekið og síðar gistu þar sjómenn sem reru frá Norðurfirði.

Húsnæðið hafði staðið autt í nokkur ár, en til að nýta það um leið og störfum var fjölgað var ráðist í endurbætur á húsinu síðastliðinn vetur. Þau Edda Hafsteinsdóttir og Guðlaugur Ágústsson eru með húsnæðið á leigu og reka kaffihúsið. Auk Eddu vinna tvær unglingsstúlkur frá Melum á staðnum. Á þennan hátt tókst að skapa 2-3 störf og hefur kaffihúsið verið vinsælt meðal ferðamanna í sumar og aðsókn verið góð.

Mikil samheldni

MIKIL samheldni er meðal íbúa í Árneshreppi. Elín Agla nefnir dæmi: „Annan hvern laugardag er haldinn saumaklúbbur í sveitinni, sem sannarlega ber nafn með rentu. Þá mæta allir frá Kjörvogi að Krossnesi og gera sér glaðan dag.

Þessi saumaklúbbur stendur undir nafni því konurnar virkilega sauma og prjóna en kallarnir taka í spil. Veitingar eru síðan fram bornar svo borðin svigna. Húsmæður hér í sveit kunna sannarlega að taka á móti gestum. Þessar samkomur eru haldnar á bæjunum til skiptis og eru eftirminnileg mannamót. Sem betur fer er röðin ekki komin að mér alveg strax.“

Urðarköttur og 7 gimbrar

HRAFN Jökulsson heldur úti starfsemi Skákfélagsins Hróksins norðan frá Trékyllisvík og hefur haldið fjölmenn skákmót í sveitinni. Í haust hyggst hann, sér til gamans, vera með 7 gimbrar og lambhrút á fóðrum hjá Guðmundi bónda á Finnbogastöðum.

Hrúturinn hefur fengið nafnið Urðarköttur, nafn sem Finnbogi rammi bar fram á unglingsár.

Finnbogi var borinn út sem ungbarn og var í fyrstu kenndur við urðina þar sem hann fannst og nefndur Urðarköttur.

Hrafn hefur jafnframt falast eftir tveimur gimbrum frá Bæ. Þær eru undan á sem ber nafnið Ill. Hún gekk úti í síðastliðinn vetur með dætrum sínum en til þeirra sást í Drangavík þegar komið var fram á vor.

Árneshreppur í hnotskurn

Byggt á niðurstöðum um Árneshrepp í skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög með viðvarandi fólksfækkun.

Í hnotskurn
» Íbúum fækkaði um 55,8% á tímabilinu 1991-2006.
» Kynjahalli er mikill, karlar voru allt að 55% en konur þá 45% á tímabilinu.
» Karlar voru 28, en konur 22 hinn 1. desember 2006.
» Meðalaldur er 7,8% hærri en landsmeðaltal.
» Skatttekjur íbúa í Árneshreppi eru lágar.
» Þjónustustig mælist lágt, sérstaklega í heilbrigðisþjónustu.
» Landbúnaður og þjónusta eru aðalatvinnugreinar.
» Einangrun vegna lélegra samgangna er helsti veikleikinn.
» Unga fólkið fer í burtu til náms og kemur ekki aftur.
» Ekki er hægt að sameinast öðrum sveitarfélögum vegna samgangna.
» Ekki er 3ja fasa rafmagn en slíkt þarf t.d. fyrir frystigáma.
» Styrkleikar liggja m.a. í samheldni íbúanna, auknum ferðamannastraumi og einstakri náttúru.
» Tækifæri eru í landbúnaði verði bændum gert kleift að vinna kjöt í heimabyggð.
» Tækifæri í sjávarútvegi gætu skapast með aðgangi að kvóta til að leigja út.
» Í Árneshreppi eru 16 fyrirtæki með 26 störf.
» Fjarlægð til næsta stærri þjónustukjarna (Borgarness) er 304 kílómetrar.
» Metár var á hótelinu í Djúpavík árið 2006, hótelið tekur allt að 30 manns í gistingu, en hægt er að útvega gistingu fyrir 50 manns.
» Flugvöllurinn á Gjögri er góður og á að endurbæta hann enn frekar, áætlun 2010.
» Flugið er ríkisstyrkt, fraktin niðurgreidd en ekki fargjaldið.
» Búin eru lítil og jarðir litlar, sláturfé þarf að flytja um langan veg.
» Engir flutningabílar koma að vetrinum, vistir í verslunina eru fluttar smátt og smátt í flugi, m.a. mjólkurvörur.
» Snjóflóðahætta er á veginum. Óttast er að með vegabótum verði flugið aflagt.
» Ástandið í samgöngumálum er í raun einstakt á landsvísu.
» Nettenging er léleg og nánast ekkert gsm-samband.
» Það vantar frumkvöðla og ungt fólk með áhættuþor.
» Mögulegt verkefni væri að fólk tæki börn í sveit yfir veturinn sem vistforeldrar, sem gæti fjölgað í skólanum.
» Tækifæri gætu falist í skattaívilnunum, bættum lánamöguleikum, lánum til samgöngumála og að styrkja ferðaþjónustu, landbúnað og sjávarútveg.

Byggt á niðurstöðum um Árneshrepp í skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög með viðvarandi fólksfækkun.