Eftir Hjálmar Stefán Brynjólfsson
hsb@mbl.is
Öxnadalur | Ýmis bæjarfélög kepptust við að halda fjölmennustu hátíðina um verslunarmannahelgina en fullyrða má að sú fámennasta hafi farið fram á Hraundranga í Öxnadal. Þá skemmtu 12 manns sér sl. sunnudag við að komast á tindinn á rétt um 12 klst. frá 10.30 til 22.30. Þegar mest var voru fjórir á toppnum í einu.
Ekkert fjöldamet var slegið í það skipti, þar sem áður höfðu 18 manns farið í hópferð 1991 auk þess sem árið 2003 hafði það gerst að 10 manns voru í einu á toppnum. Hins vegar er líklegt að aldursforseti hópsins, Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri, sé elsti maður sem komið hafi á tindinn en hann er 59 ára gamall. Reyndar fullyrðir Þorvaldur Þórsson fjallgöngugarpur að Ragnar sé sá elsti sem hefur komist á toppinn.
Nicholas Clinch, Finnur Eyjólfsson og Sigurður Waage klifu Hraundranga fyrstir 5. ágúst árið 1956. Eftir það hafa um 100 manns komist á tindinn að sögn Þorvaldar.
„Hrúga en ekki fjall“
„Í sjálfu sér er ekki mikið klifur fólgið í að komast á Hraundranga,“ segir Þorvaldur. „En það er varhugavert því það er mikið laust grjót þarna. Þetta er hrúga sem heldur að hún sé fjall, svo ég leyfi mér að vitna í góðan mann. Þess vegna þarf töluverða reynslu til að fara þarna upp.“Reyndar viðurkenna þeir Ragnar og Þorvaldur að aðeins fjórir í hópnum voru vanir klifurmenn. Þessir fjórir sáu svo um að ferja hina á tindinn og létu þannig gamlan draum þeirra rætast. Fyrir vikið voru vönu klifurmennirnir lengi á fjallinu. Til að mynda var Þorvaldur heila sex tíma á tindinum.
Ferðalangarnir fundu þar enga gullkistu, ekki frekar en brautryðjendurnir fyrir 52 árum, en þeir skráðu hins vegar nöfn sín í gestabókina og gæddu sér á viskíinu sem þar er geymt.
Tröllaskaginn vannýttur
„Tröllaskaginn er yfirhöfuð mjög gott útivistarsvæði,“ segir Þorvaldur, „og ég fullyrði að það eru fá svæði ef nokkur sem eru jafnfjölbreytt. Þar er margt hárra og skemmtilegra fjalla. Á hverju ári fara mörg hundruð manns á Hvannadalshnúk og annað eins á Heklu en þetta svæði stendur eftir sem virkilega gott fjallasvæði sem nánast er ósnortið.“Tröllaskaginn hefur reyndar í seinni tíð orðið æ vinsælla útivistarsvæði, og má sem dæmi nefna að Glerárdalshringurinn, 24 tindar á 24 stundum, er orðinn vel þekktur.