Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson
orsi@mbl.is
HINN 27 ára gamli Bandaríkjamaður Andy Skurka ferðaðist um miðhálendi Íslands án gps-tækis. Ennfremur var hann með óvenjuléttan búnað, en hann styðst við mjög ákveðið viðhorf til ferðalaga af þessu tagi, þ.e. að ferðast með lítinn en nauðsynlegan búnað og vera fljótur í förum. Hann gekk um 50 km á dag og sem dæmi má nefna að hann notar ekki hefðbundna gönguskó, heldur létta fjallahlaupaskó, og ennfremur er tjaldið hans aðeins 150 grömm að þyngd. Enginn botn er í tjaldinu og það á sinn þátt í hversu létt það er. „Þetta var reyndar ákveðinn galli því þegar ég tjaldaði á öræfum feykti vindurinn sandi undir skörina og inn í tjaldið,“ bendir hann á. En að öðru leyti var tjaldvistin góð og gekk ferðin vel þrátt fyrir nokkurn kulda og bleytu í upphafi.
Andy Skurka á að baki mikla bakpokaleiðangra og á síðustu árum hefur honum tekist að sinna leiðangursmennskunni alfarið og lifað af fyrirlestrahaldi og styrkjum frá framleiðendum útivistarbúnaðar.
Hann var valinn „ævintýramaður ársins“ 2007 af tímaritinu National Geographic Adventure og „maður ársins 2005“ af tímaritinu Bacpaker. Hefur hann lagt að baki 11 þúsund km leið í gegnum sjö ríki í vesturhluta Bandaríkjanna og fleiri tröllauknar gönguleiðir.
„Mér fannst Ísland henta frábærlega í stutta ferð.“ Með „stuttri“ ferð á hann við ferðir sem taka minna en 30 daga. „Myndir og frásagnir af íslenskri náttúru voru mjög ólíkar því sem ég hafði upplifað áður.
Norðan Vatnajökuls var eftirtektarvert að nánast hvergi var skjól að finna og veðrið gat verið býsna slæmt. En á síðari hlutanum, í Kerlingafjöllum og allt inn á Arnarvatnsheiði og loks til Snæfellsness, var veðrið gott.“
Andy notar eingöngu kort og áttavita á ferðum sínum, enda telur hann gps-tækin of þung og geta bilað eins og flest rafmagnstæki. Með kort og áttavita komst hann allra sinna leiða án þess að villast. „En maður þarf alltaf að líta vel í kringum sig og fylgjast vel með því hvar maður er, kjósi maður að notast eingöngu við kort og áttavita.“
Göngumenn á borð við Andy, sem kjósa að ferðast langar leiðir einir síns liðs, eru ekki ýkja margir en í Bandaríkjunum þrífst lítið samfélag þessara ferðalanga og þegar þeir eru ekki í leiðöngrum skiptast þeir á skoðunum á netinu og vita hver af öðrum. „Ég sækist mjög eftir því að læra nýja hluti og ferðast. Besta leiðin til að skoða nýjar slóðir er að ferðast um þær fótgangandi,“ segir hann. Til gamans má geta þess að hann hefur á ferðum sínum fengið athugasemdir um þetta atriði. „Fólk sem heyrir að ég gangi um 50 km á dag spyr forviða hvernig ég geti skoðað umhverfið þegar ég fer svona „hratt“ yfir. En þá er nú fokið í flest skjól ef göngumaður er gagnrýndur fyrir að fara of hratt. Þetta eru ekki nema 5 km á klukkustund,“ segir hann.