Dans Í bænum Amed voru stúlkur að æfa dans fyrir Ocho ocho-daginn.
Dans Í bænum Amed voru stúlkur að æfa dans fyrir Ocho ocho-daginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mig hefur alltaf langað að fara eitthvert sem er svo langt frá Íslandi að ég geti alveg skilið heimahagana eftir og notið þess að vera í allt öðru umhverfi,“ segir Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir, jógakennari og eigandi Rope Yoga-stöðvarinnar...

„Mig hefur alltaf langað að fara eitthvert sem er svo langt frá Íslandi að ég geti alveg skilið heimahagana eftir og notið þess að vera í allt öðru umhverfi,“ segir Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir, jógakennari og eigandi Rope Yoga-stöðvarinnar Ósk.is, sem bjó ásamt sambýlismanni sínum Daníel Edelstein á indónesísku eyjunni Balí í hálft ár.

Eftir Guðrúnu Huldu Pálsdóttur

gudrunhulda@mbl.is

Guðbjörg Ósk og Daníel eyddu lunganum úr tímanum í smábænum Ubud á miðri eyjunni. „Ubud er hálfgerður jóga- og listabær og er draumastaður til að vera á til að víkka út hugann,“ segir Daníel en þau eyddu fyrsta mánuðinum alfarið í líkams- og hugarrækt.

„Við fórum til að læra jóga betur og æfa það enda fylgir mikil heimspeki og andlegur lærdómur því. Við ákváðum að temja okkur hugarfar Balíbúa sem einkennist af jákvæðni og þakklæti. Það er eitthvað sem fólk í hinum vestræna heimi er í auknum mæli að reyna að temja sér,“ segir Guðbjörg Ósk og tekur sem dæmi hátíðir og fórnir sem Balíbúar færa fyrir góðum dögum.

„Við upplifðum Ocho ocho-dag þar sem hindúar heiðra framliðna og færa þeim fórnir. Þessar fórnir eru síðar brenndar sem er táknrænt merki um hreinsun fólksins af hinu liðna. Daginn eftir er dagur friðar og hvíldar. Þá taka Balíbúar sér frí frá öllu, enginn er á ferli, fólk fastar og hugleiðir framtíðina.“

Andleg þvottavél

Daníel segir margt í hugsunarhætti Balíbúa sem Íslendingar geti tekið sér til fyrirmyndar. „Hugleiðsla er iðkuð daglega og jóga er hluti af eðlilegri hreyfingu þeirra.“ Honum finnst þó jóga hafa færst nær hinu nútímasamfélagi. „Jóga snýst ekki um mann sem situr í lótusstellingu og gerir öndunaræfingar heldur er farið að nota jóga markvisst til streitulosunar og til þess að efla einbeitingu,“ segir Daníel og segir námskeiðið sem þau Guðbjörg Ósk sóttu hafa verið eins og andleg þvottavél.

Eftir námskeiðið leigðu þau hús í mánuð og segjast þau þá hafa lifað hversdagslífi Balíbúa, vaknað með sólinni og haft það náðugt. „Það má segja að taugakerfið hafi farið smám saman á „slow motion.“ Við urðum svo afslöppuð og okkur leið svo vel með fólkinu því við treystum því svo vel. Vegna þess hve mikið Balíbúar trúa á karma er afskaplega lítið um þjófnaði eða glæpi, við fundum aldrei til óöryggis þrátt fyrir að húsið væri glerlaust, hleralaust og opið. Það eina sem við höfðum áhyggjur af var rottan sem bjó með okkur en þegar við spurðumst fyrir um hvernig við gætum losað okkur við hana fengum við þau svör að rottur væru heilagar og bæru góða anda inn á heimilið. Við létum okkur því hafa það að búa með rottu, eðlum og risaköngulóm en það vandist fljótt.“

Úr hópferð í einkaþjálfun

Svo heilluð urðu Guðbjörg Ósk og Daníel af eyjunni að þau skipulögðu hópferð til Balí frá Íslandi. „Við skipulögðum heilsu- og lúxusferð sem samanstóð af sjö daga heilsudagskrá þar sem farið var yfir mataræði, labbað var á fjöll og farið í jóga á hverjum degi auk þess sem við kynntum menningu og lífsstíl Balíbúa. Síðan var farið í þrjá daga á lúxushótel og slappað af,“ segir Daníel. Í upphafi segir Guðbjörg að 14 manns hafi skráð sig í ferðina en með versnandi efnahagsástandi á Íslandi í vor hefði þátttakendum fækkað jafnt og þétt. „Að lokum komu ein hjón,“ segir Guðbjörg hlæjandi en segist þó þakklát að þau skyldu hafa komið. „Hjónin voru í einkaþjálfun hjá okkur allan tímann og við fengum að rúlla skipulagðri dagskránni í gegn. Það gekk ljómandi vel og við höfum nú ákveðið að hafa aðra ferð næsta vor.“

Guðbjörg Ósk og Daníel ætla ennfremur að bjóða erlendum ferðamönnum upp á sambærilegar ferðir til Íslands. „Ísland er svo mikil paradís, landið býr yfir svo mikilli fegurð og orku. Á Balí lærðum við hvernig hægt er að setja upp heilsunámskeið. Við viljum laða erlenda ferðamenn til Íslands í heilsuferðir þar sem ferðamenn myndu læra um næringu, hreyfingu, hugarfar í íslensku umhverfi,“ segir Daníel sem segir að með ferðunum fælust tækifæri fyrir orku Íslands að njóta sín án stóriðju. „Með því að bjóða Íslendingum til Balí og erlendum ferðamönnum til Íslands skapast skemmtileg hringrás,“ segir Guðbjörg Ósk.

Spírallinn tákn um hringrás lífsins

Guðbjörg Ósk og Daníel segjast hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá samvitund og samhjálp Balíbúa enda leggja eyjarskeggjar mikið upp úr að hjálpa þeim sem minna mega sín.

„Þeir sem starfa í iðnaði á borð við húsgagnagerð og skartgripahönnun tengja fyrirtæki sín oft við hjálpastarf og gefa hluta af sínum ágóða til góðgerðarmála. Við sáum fjölmargar tegundir og útfærslur af þess háttar starfsemi og hugmyndaflugið virtist endalaust. Okkur langaði að gera eitthvað þessu líkt.“ Þau ákváðu að láta hanna hálsmen til að selja hérlendis. „Hálsmenin eru spírallaga en spírallinn er tákn um hringrás lífsins, þroska og eilífðina. Við fengum fjölmarga Balíbúa í samstarf við okkur sem bjuggu til hálsmenin og pakkningarnar utan um þau. Okkur fannst gaman að geta veitt Balíbúum störf en selja hálsmenin á Íslandi og láta ágóðann renna til íslenskra barna sem þurfa á því að halda. Þannig náðum við að styrkja bæði á Balí og á Íslandi,“ segir Guðbjörg Ósk sem selur hálsmenin gegnum heimasíðu sína og rennur allur ágóði af þeim til „Einstakra barna“ stuðningsfélags barna með sjaldgæfa sjúkdóma.

Í hnotskurn
» Balí er ein af 17.508 eyjum Indónesíu. Á Balí búa rúmlega þrjár milljónir manna.
» Endurreisn ferðamannaiðnaðar Balí er hæg en stöðug eftir lágdeyðu í kjölfar hryðjuverkanna 2002 og 2005.
» Um 93% eyjarskeggja aðhyllast hindúisma en talið er að elsta tegund hindúisma sé á Balí. Íbúar eru sagðir hafa einangrast í trúnni þegar indónesíska þjóðin tók upp múslimatrú.
» Í balískum hindúisma er lögð mikil áhersla á hugleiðslu og jóga auk þess sem trú á karma er í hávegum höfð.
» Hinir yfirveguðu og jákvæðu eyjarskeggjar hafa heillað jógaunnendur um allan heim og má því segja að Balí sé eins konar jógaparadís.