„Við vorum nokkrir félagar staddir í þyrluskíðaferð í Kirgisistan í vetur og fórum að ræða það hvað það væri leiðinlegt að skálinn væri farinn að drabbast niður,“ segir Sveinn Friðrik Eydal Sveinsson, félagi í Íslenska Alpaklúbbnum, en félagar í honum sóttu um síðastliðna helgi fjallaskála í Tindfjöll sem færa á í upprunalegt horf.
„Það var farið að ræða um að það þyrfti að gefa einhverjum skálann sem hefði tök á að gera við hann en við hringdum frá Kirgisistan inn á aðalfund Alpaklúbbsins og sögðum að við ætluðum að taka þetta að okkur,“ segir hann.
Sveinn segir hugmyndina að skálanum hafa kviknað hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal sem hann kallar föður nútímafjallamennsku á Íslandi auk þess sem hann var fjölhæfur listamaður.
Um 1940 fór skíðafólk að flykkjast upp í Tindfjöll um páska og árið 1945 byggðu Fjallamenn, félagsskapur Guðmundar, skálann.
„Seinna eignast Íslenski Alpaklúbburinn þennan skála en hann er meðal fyrstu háfjallaskála á Íslandi og er enn mjög mikið notaður bæði af fjallamönnum og björgunarsveitum. Þarna er magnað fjalllendi og sannkölluð vetrarparadís,“ segir Sveinn.
Hann segir að erfitt hefði verið að gera við skálann þar sem hann var svo ákveðið hafi verið að færa hann til Reykjavíkur. „Um helgina fórum við svo af stað með tvo vörubíla og smágröfu, grófum frá húsinu og stífuðum það af og það var komið í bæinn innan við sólarhring eftir að við byrjuðum.“
Nú á eftir að finna heppilegan stað fyrir skálann þar sem hægt er að vinna við hann auk þess sem viðræður standa yfir um styrki til endurgerðarinnar. Öll vinna við skálann er unnin í sjálfboðavinnu og segir Sveinn markmiðið að skila honum fullkláruðum á sama tíma að ári. fifa@24stundir.is