Eftir Gerði Steinþórsdóttur
gerdur@flensborg.is
Dyngjufjöll voru snævi þakin og Öskjuvatn ísi lagt 1. júlí árið 1907 þegar
Knebels-leiðangurinn kom inn í Öskju eftir 20 tíma ferð frá Svartárkoti. Leiðangursstjóri var dr. phil. Walter von Knebel, þýskur jarðfræðingur, en sérsvið hans var eldfjallafræði. Einnig voru í förinni vinur hans Max Rudloff málari og Hans Spethmann, ungur jarðfræðinemi. Ögmundur Sigurðsson fylgdi þeim inn í Öskju en hann sneri strax við með hestana og átti að vitja þeirra hálfum mánuði síðar með póst frá Þýskalandi. Þeir höfðu með sér mikinn farangur, m.a. lítinn segldúksbát, strengdan á málmgrind, og skyldi hann notaður við könnun Öskjuvatns, en þeir hugðust dvelja mánaðartíma í Öskju við alhliða jarðfræðirannsóknir.
Næstu daga var blíðskaparveður, snjórinn þiðnaði og ísinn á vatninu bráðnaði. 10. júlí hélt Hans Spethmann norðaustur í Dyngjufjöll um hádegi en hinir héldu í suðvesturátt þar sem báturinn var og ætluðu að kanna Öskjuvatn. Spethmann kom til baka tíu tímum síðar og fann þá ekki í tjaldinu. Um miðnætti fór hann að leita þeirra, gekk meðfram bakkanum og beindi sjónauka út yfir vatnið. Ekki fann hann bátinn og fór að gruna að hann hefði sokkið og mennirnir drukknað. Spethmann dvaldi þarna einn í fimm langa daga uns Ögmundur kom aftur. Þeir náðu sambandi við Svartárkot og báðu um að leiðangur yrði sendur að leita líkanna. Bóndinn í Svartárkoti kom og leitaði heilan dag ásamt vinnumanni sínum en árangurslaust. Spethmann og Ögmundur héldu leitinni áfram til 25. júlí. Á Akureyri komu þeir fyrir lögreglurétt og gáfu skýrslu um „endalok Knebels-leiðangursins“. Þar kemur fram að vatnið sé ekki nema 1-2 gráður og því leggist líkin að botni og fljóti ekki upp. Þeir bíði því eftir að hlýni til að hægt sé að koma af stað leiðangri með bát meðferðis til að kanna vatnið. Það var svo 1. ágúst sem 12 manna hópur fór inn í Öskju ásamt Spethmann og hafði með sér bát sem þeir höfðu fengið á Grænavatni og komu honum inn í Öskju með ærinni fyrirhöfn. Þeir leituðu í fjöllunum og vatninu, en fundu aðeins aðra árina og lok af trékassa og var hvort tveggja óskaddað.
Leitin
Ekkert er vitað hvernig slysið bar að höndum. Segldúksbáturinn var lítill og lekur og vegna málmvirkjanna hlaut hann að sökkva er hann fylltist. Spethmann og Ögmundur voru þeirrar skoðunar. Mikið var ritað um Öskjuslysið í þýskum blöðum. Fregnir hermdu að þeir hefðu báðir verið á lífi meira en hálfum mánuði eftir slysið. Aðrir töldu að Spethmann hefði ráðið félaga sína af dögum. Augljóst var að menn áttu erfitt með að skilja og sætta sig við sporlaust hvarf þeirra. Því var það að unnusta von Knebels, Ina von Grumbkow, réðst til Íslandsferðar á næsta sumri í þeirri von að verða einhvers vísari um afdrif unnusta síns, orsakir slyssins og hvernig það bar að höndum. Prússneska vísindafélagið veitti henni styrk til ferðarinnar. Vinur unnusta hennar, dr. phil Hans Reck, tókst á hendur forystu leiðangursins. Hann var jarðfræðingur og sérsvið hans eldfjöll. Þau dvöldust á Íslandi í 11 vikur, frá 24. júní til 9. september. Fylgdarmaður þeirra var Sigurður Sumarliðason. Eftir ferðina skrifaði Ina von Grumbkow bók, sem kom út í Berlín 1909 og ber heitið Ísafold – Reisebilder aus Island . Hún kom út í íslenskri þýðingu Haralds Sigurðssonar bókavarðar, sem lengi sat í stjórn Ferðafélags Íslands, árið 1982, Ísafold. Ferðamyndir frá Íslandi . Bókaforlagið Örn og Örlygur gaf bókina út. Þá voru liðin 75 ár frá Öskjuslysinu. Fyrir framan íslensku þýðinguna er grein eftir Harald sem hann nefnir „Slysið í Öskju 1907“. Þar rekur hann atburðarásina og eftirmál hennar, birtir myndir af þeim von Knebel og Hans Reck. Um þá veit hann töluvert, en um höfund bókarinnar harla lítið: „Því miður reyndist ekki unnt að þessu sinni að skyggnast nánar fyrir um æviferil sögukonunnar. Mér er það eitt kunnugt, að nokkru eftir heimkomuna til Þýskalands giftist hún dr. Hans Reck, samferðamanni sínum.“ Ferðabók Inu von Grumbkow var þó kunn hér á landi. Þannig rekur Ólafur Jónsson efni hennar í hinu mikla verki sínu Ódáðahraun I sem kom út árið 1945. Skömmu eftir útkomu Ísafoldar á íslensku komst Haraldur í kynni við Þorgerði Sigurgeirsdóttur, dótturdóttur Sigurðar Sumarliðasonar, en hún átti í fórum sínum nokkur bréf frá Inu von Grumbkow, sem hún hafði skrifað Jakobi Havsteen, kaupmanni og konsúl á Akureyri og afa hennar. Bréfin birti Haraldur árið 1984 ásamt nokkurri umfjöllun um þau í afmælisriti til Páls Jónssonar, Land og stund, og nefnir einfaldlega „Fimm bréf“. Bréfið til Jakobs er skrifað fyrir ferðina og þar kemur fram að Ina von Grumkbkow telur að unnusti hennar hafi verið á lífi hálfum mánuði eftir að hann var talinn af. Mikillar reiði og tortryggni gætir í garð Hans Spethmann. Hún segir að tilgangur ferðarinnar sé að leita ummerkja manna sem fórust ekki 10. júlí, heldur tóku ljósmyndir 14 dögum síðar. Unnusti hennar hafi skrifað athugasemdir með myndum sem hafi borist henni með farangri hans til Þýskalands. Það sé ekki til neins fyrir Hans Spethmann að ætla að róa þau með fullyrðingum um að hann hafi sjálfur ritað umræddar athugasemdir. Að efni bréfanna til Sigurðar verður vikið síðar.
Hin tröllslegu náttúruöfl
Ferðabók Inu von Grumbkow, Ísafold. Ferðamyndir frá Íslandi, hefst á formála, og síðan er ferðasagan rakin í 19 köflum og bera þeir allir heiti. Mjög seint í ferðinni koma þau inn í Öskju og segir frá dvöl þeirra þar í 16. kafla. Orðið ferðamyndir hefur tvöfalda skírskotun, bæði til texta og mynda. Bókina prýða teikningar og málverk, flest þeirra eftir Inu von Grumbkow, en fáein eftir Walther von Knebel. Þá eru fjölmargar ljósmyndir sem teknar voru á ferðalaginu, mest landslagsmyndir. Á aðeins einni mynd er nafngreindur einstaklingur og er það Reck á hestinum Grana. Í texta er oft vísað til myndanna.Í formála gerir höfundur stuttlega grein fyrir náttúru Íslands og Dyngjufjöllum,
Knebels-leiðangrinum, fyrri rannsóknum í Öskju, svo og slysinu. Hún segir frá leitinni sem gerð var og bar engan árangur. „Fyrir okkur sem ekki þekktum Ísland, var svo sporlaust hvarf óskiljanlegt.“ Þess vegna hafi hún ráðist í leitarleiðangur. Á Íslandi séu engar járnbrautir, ekki einu sinni vegir og nær engar brýr yfir hin hættulegu jökulfljót. Eina farartækið á allri eyjunni séu íslensku hestarnir. Hún vill eyða umræðu um segldúksbátinn, en slíkir bátar hafi verið notaðir í mörgum djörfum rannsóknarleiðöngrum. Orsaka slyssins sé að leita í tröllslegum og óræðum sviptingum náttúruaflanna á Íslandi. Um frásögn sína segir hún: „Ég hef framar öllu reynt að lýsa náttúru Íslands rétt, hrikaleik hennar og margvíslegri fegurð. Hún vakti mér margan óvæntan unað og létti mér þung ferðaspor.“ Í lokin þakkar hún stuðning við gerð verksins, segir m.a. að ferðafélagi hennar, herra dr. phil. Hans Reck, hafi gert sér það ómak að kanna frásagnir hennar af vísindalegum viðfangsefnum í jarðfræði og landafræði.
Ferð um Reykjanes
Samkvæmt áætlun var ferðinni skipt í þrjá áfanga. Fyrst var vikuferð um Reykjanes, sem var farin til að kanna hvernig Ina von Grumbkow þyldi langar dagleiðir á hesti, 12 til 15 tíma á dag. Frásögn hennar er bæði vísindaleg og skáldleg. Hún lýsir brennisteinshverunum á Reykjanesi og líkir litbrigðum þeirra við silkiglitvef. Lýsingin gefur tóninn. Reck vann að mælingum og hún að frumdráttum að myndum. Þau safna steinum og hún finnur hraunmola með rispum sem síðan fer í jarðfræðisafnið í Berlín. Eitt kvöldið gengu þau á Keili og horfðu til Snæfellsjökuls. Lýsingar Inu von Grumbkow á náttúrunni höfða til flestra skynsviða. Hún lýsir birkinu, heiðalynginu, mosanum og söng spóans. Hún greinir frá elsku Íslendinga á hestum sínum og segir að þeir hugsi meir um aðbúnað þeirra en eigin hvíld, mat og drykk. Þau gista í tjöldum og oft var kvöldmatur snæddur um miðnætti. Í ferðinni sýndi hún að henni var ekkert að vanbúnaði að ferðast með þessum hætti.
Norður Sprengisand
Annar áfangi var 23 daga ferð um Suðurland og norður Sprengisand til Akureyrar. Þau voru með 20 hesta, þar af 12 áburðarhesta. Á ferð þeirra um Ísland urðu á vegi þeirra um 30 vatnsmikil og straumhörð fljót. Ina von Grumbkow lýsir fólki sem á vegi þeirra verður. Ung stúlka í Skál á Síðu vekur sérstaka aðdáun hennar fyrir það hve snör hún er í snúningum og lipur í hreyfingum. Hún ferjaði þau yfir Skaftá og fylgdi þeim yfir fjall. Í greininni „Fimm bréf“ segir Haraldur Sigurðsson að þessi stúlka hafi verið Guðrún Jónsdóttir sem lengi var kennari við Landakotsskóla. Ina von Grumbkow hafi skrifað henni og boðið henni til dvalar með sér í Þýskalandi skömmu eftir heimkomuna, en hún taldi sig ekki eiga þess kost að þiggja það þótt ítrekað væri. Guðrún þótti afburðakennari og hafði mikil áhrif á nemendur sína.Einn viðkomustaður ferðarinnar var gígaröðin við Laka. Þau gengu á Laka og þarna sér lesandinn Inu von Grumbkow á gangi með bakpoka, prik í hendi og áttavita í vasa. Henni finnst þó hvíld að því að sitja á hestbaki langar dagleiðir yfir auðnir Íslands, sanda, fen og fljót hjá því að skríða átta stundir um hraun og hamraveggi.
Leiðin yfir Sprengisand tók þrjá langa daga. Frá Nýjadal könnuðu þeir Reck og Sigurður Torfajökulssvæðið. Síðan lá leið þeirra niður í Bárðardal og þaðan til Akureyrar.
Herðubreið sigruð
Þriðji áfangi ferðarinnar var Öskjuferðin. Þau héldu fyrst að Mývatni sem var þægilegasti og fegursti áfangi í allri ferðinni að mati Inu von Grumbkow. Þau skoðuðu Námafjall og Kröflu og gengu á Hverfjall. Frá Mývatni héldu þau að Hrossaborg og til Herðubreiðarlinda þar sem hestarnir voru hvíldir og aflað heys fyrir erfiðasta áfangann. En Herðubreið freistaði Recks. „Enn hafði enginn klifið risaháa móbergsveggina í hlíðum hennar. Enginn mannlegur fótur hafði stigið á koll hennar.“ Þeir félagar komu til baka hreyknir og glaðir, „Herðubreið var sigruð“. Þetta var 13. ágúst.
Hin konunglega gröf
Daginn eftir koma þau í Öskju. Þegar Ina von Grumbkow sér Öskjuvatn í fyrsta sinn, er það ekki sorgin sem fyllir huga hennar heldur hástemmd hrifning: „Sólfáða, silfurglitrandi, mikla, blágræna Öskjuvatn – óvænt, fagurt og mikilúðlegt – léttur andardráttur þess í kvöldgolunni var eins og hamrandi hjarta Dyngjufjalla innan þessara stórlátu hamraveggja. Hér er allt eins og sokkin Paradís, umlukt varnargörðum Ódáðahrauns. Dyngjufjöll eilífðarinnar með víðáttur hinna svörtu beinstirðnuðu hraunstrauma.“ Og lýsingunni lýkur með orðunum: „Hvílíkt vatn – eins og dýrmætur eðalsteinn.“ Um kvöldið sátu þau fyrir utan tjöldin, niðursokkin í að virða fyrir sér þetta furðulega fagra vatn og Ina von Grumbkow skrifar: „Hve konungleg gröf er þeim báðum búin sem hvíla á botni þess.“Í Öskju dvöldu þau í 11 daga. Hér hægir höfundur á frásögninni og ritar dagbók frá 14.- 25. ágúst. Inu von Grumbkow er í mun að kynna fyrir lesendum sínum aðstæður allar á þessum fjarlægu, fáförnu slóðum. Yfir frásögninni hvílir dulúð og trúarleg tilfinning verður sterkari. Kaflinn um Öskju er 25 síður (af 206) og þar er að finna 12 ljósmyndir ásamt uppdrætti Hans Reck af Öskju. Þau skoða umhverfið og ganga kringum Öskjuvatn, sem Ina von Grumbkow kallar Knebel-svatn: „Þrumandi grjótflug úr hinum nærfellt 300 m háa suðurbakka dundi látlaust á vatninu daga og nætur, óháð sól, veðri og hitabreytingum.“ Ógengt var að vatninu nema á einum stað við suðvesturhorn þess. Reck fer niður í Víti sem höfundur nefnir Rudloffs-gíg. Þau byrja að hlaða vörðu úr mislitum gjallmolum og Reck heggur áletrun á grásteinshellu með nöfnum þeirra Walters von Knebel og Max Rudloff ásamt dánarári. Þá skall á hríðarbylur og hörkugaddur sem stóð í 30 klukkustundir.
Atburður á vatninu
22. ágúst halda Reck og Sigurður út á vatnið og eru fimm stundir við hita- og dýptarmælingar. Þá nótt fannst Inu von Grumbkow hún heyra regluleg áratog frá vatninu, hún vissi að þau voru blekking – kveðja frá fortíðinni. Næsta dag stígur hún út í bátinn með þeim og þau berast þegjandi um vatnið í hálfa aðra klukkustund. Hér er það sem höfundur gerir upp hug sinn: „Á slysinu 10. júlí er aðeins ein skýring. Óvenjulega mikið skriðuhlaup við suðurbakkann hefur hvolft bátnum. Þeir hafa tæpast gert sér grein fyrir því, hvernig komið var fyrr en öllu var lokið fyrir þeim. Nokkrar mínútur dró vatnið hringa sína á yfirborðið – dyrnar lokuðust hljóðlega.“ Og Ina von Grumbkow heldur áfram: „Aldrei fyrr hef ég fundið ómælissvið sköpunarinnar jafn glöggt og hér í Öskju, aldrei fyrr staðið nær því að þreifa á tengslum okkar við guðlega forsjón.“Í grein sinni fremst í Ísafold dregur Haraldur Sigurðsson upp tregafulla mynd af atviki úti á vatninu sem Ina von Grumbkow greinir ekki frá í bók sinni. Hún hafði með sér kistil sem hún sökkti. Ekki er vitað hvað kistillinn hafði að geyma en þegar hann hvarf undir yfirborðið, hallaði hún sér að Hans Reck og grét hljóðlega. – Til Öskju kom hún einnig með útsaumaðan dúk með skjaldarmerki von Knebels-ættarinnar sem hún setti í hólk og lagði í vörðuna. Ekki getur hún þessa heldur í frásögn sinni en dúkurinn varð lengi áþreifanleg minning um komu Inu von Grumbkow til Öskju.
Hún yfirgaf Öskju með trega, þetta furðulega dýrlega landslag, hún leit stöðugt aftur þar til tárin blinduðu henni sýn. Í þetta sinn lá leið þeirra norður um Jónsskarð. Þaðan héldu þau póstleiðina suður til Reykjavíkur, sem var átta dagleiðir.
Ísafold lýkur Ina von Grumbkow með þeim orðum að gátan sem þau reyndu að leysa sé enn óleyst. „Efnisleifa höfum við leitað árangurslaust, en við höfum fundið að fyrir okkar mannlegu sjónum eru þær aðeins umbúðir lífsins. Hið sanna líf kemur og hverfur ekki með efninu. Endurskin guðlegra sanninda er eilíft.“
Einstök ferðalýsing
Það var árið 1954 að ég kom barn að aldri í Öskju í hópi ferðafólks og heyrði söguna um slysið 1907 og leitina að unnustanum. Við ferðafélagarnir stilltum okkur upp við Knebels-vörðuna fyrir myndatöku og ég hélt á hólknum sem geymdi hinn fagra dúk með skjaldarmerki von Knebel. Síðan þá hefur sagan fylgt mér, dularfull og spennuþrungin. En ferðabók Inu von Grumbkow var mér lengi ókunn. Það var svo árið 1999 að ég tók bókina með mér til Grikklands og las hana á einum degi í Aþenu þegar allt var lokað vegna kosninga. Frásögnin hreif mig, hún býr yfir mikilli fágun og þokka, auk þess að bera svipmót hins menntaða Evrópubúa. Þessi aðalskona hefur bæði verið hugrökk og næm. Hún lýsir jarðfræði og gróðri, veðrabrigðum, litum og formum. Skáldlegar lýsingar hennar ná hæstu hæðum í Öskju.Ísafold Inu von Grumbkow mun vera eina ferðabók erlendrar konu um Ísland sem þýdd hefur verið á íslensku. Kannski er það hið kvenlega sjónarhorn sem varð til þess að þýðandi bókarinnar, Haraldur Sigurðsson, sá ástæðu til að geta þess að frásögn hennar geti ekki talist í hópi merkustu rita sem útlendingar hafa sett saman um Ísland og ferðir sínar þar. En Haraldur segir jafnframt: „En hún er þeim mörgum mannlegri og geðþekkari. Samfylgd hennar á blöðum bókarinnar er góð. Angurvær tregi lykur um frásögnina og allri viðkvæmni er haldið í hófi. Bókin verður með nokkrum hætti mannleg skírskotun, harmsaga með íslenska öræfanáttúru í baksýn.“
„Ísland á hér marga vini“
Á liðnu ári var nokkuð fjallað um slysið í Öskju í fjölmiðlum enda öld liðin frá því. Meðal annars var endurflutt útvarpsleikrit sem nefnist Feigðarför eftir Þórunni Sigurðardóttur en það var frumflutt 1997. Í sumar eru 100 ár frá komu Inu von Grumbkow til Íslands og tilefni til að vekja athygli á merkri bók hennar. En jafnframt lék mér hugur á að grafast fyrir um örlög höfundarins. Það eitt vissi ég að hún hafi gifst Hans Reck, en varla voru það endalokin. Leit mín leiddi mig fyrst á bréfin, sem Haraldur birti 1984.Fyrsta bréfið til Sigurðar Sumarliðasonar er dagsett 12. október 1908. Hún segir honum frá því sem á daga þeirra hefur drifið frá því þau kvöddu Ísland. Þau hafi verið með mikið safn af fallegum steinum, alla merkta nafni og fundarstað. Þau seldu töluvert af þeim, Reck tók hluta þeirra til einkaafnota og drjúgur hlutur átti að fara til Vísindafélagsins.
Næsta bréf skrifar Ina von Grumbkow Sigurði ári síðar. Það er dagsett 2. september 1909. Þar segir hún honum frá bókinni: „Nú er ég einkum að fást við bók mína um Ísland og að koma henni út í tæka tíð fyrir jólin. Þér er óhætt að treysta því að ég legg ekkert haft á hrifningu mína og mælsku þegar kemur að lýsingu á landi og þjóð. Bókin er að sjálfsögðu rituð á þýsku – því að Ísland á hér marga vini...“ Hún segir að Reck sé að ljúka doktorsprófi frá háskólanum í Berlín. Með bréfinu sendir hún Sigurði málverk af Herðubreið. Sama ár, hinn 12. desember, skrifar hún annað bréf og segir að bókin, Ísafold , hafi komið út fyrir hálfum mánuði. Hún segist hafa sent bókina til frú Havsteen sem skilji þýsku: „Það var mér kært viðfangsefni að rifja upp hvaðeina sem bar við á yndislegri ferð okkar. Þú munt komast að raun um að þín er þar oft getið. Það var svo ánægjulegt að minnast traustrar og ágætrar hjálpar þinnar og skynsamlegrar fyrirhyggju.“
Síðasta bréfið er þó forvitnilegast, því það er skrifað 20 árum eftir slysið, 25. september 1927. Fram kemur að þau hafi dvalist um sjö ára skeið í Afríku. Reck hefur haldið áfram rannsóknum á eldfjöllum og hún getur eldfjallanna Stromboli og Santorini. Bréfinu lýkur svo: „Segið þeim, sem við kynntumst, að jafnvel þótt leiðir okkar liggi ekki framar til Íslands munum við aldrei gleyma eylandinu þínu stóra og fagra. Með bestu kveðju, þín einlæg Ina Reck.“
Örlög höfundar
Var unnt að afla frekari upplýsinga um Inu von Grumbkow og örlög hennar? Mér var bent á alfræðiorðabók á netinu, Wikipedia . Þar er hægt að lesa margt um Inu von Grumbkow og vísað í heimildir um hana. Hún hét fullu nafni Viktoria Helena Natalie von Grumbkow, síðar Ina Reck. Hún fæddist 15. september 1872 í Övelgönne við Hamborg og lést í Berlín 30. janúar 1942. Hún var af gamalli aðalsætt frá Pommern. Síðan segir frá slysinu í Öskju og ferð hennar þangað, svo og ferðabókinni, sem er lýst með orðinu „faszinierendes Buch“. Fram kemur að hún giftist Hans Reck 9. febrúar 1912 og þess getið sérstaklega að hann hafi verið 14 árum yngri en hún. Þá segir frá dvöl þeirra í Austur-Afríku, Tansaníu, þar sem þau unnu við uppgröft á fjallinu Tendaguru en þar fannst stórmerkileg beinagrind af risaeðlu, sem er til sýnis í Náttúrugripasafninu í Berlín. Í Afríku skrifaði Ina von Grumbkow tvær bækur, sem komu út 1924 og 1925. Báðar flokkast undir ferðabækur og greina frá reynslu hennar í Afríku. Hans Reck fórst í leiðangri í Austur-Afríku, Mósambík, 4. ágúst 1937. Um tíma var hann prófessor við Humboldt-stofnunina í Berlín.Mér hefur fundist kynlegt að hvergi skuli sjáanleg mynd vera af Inu von Grumbkow. Var eitthvað undarlegt við útlit hennar? Hún var orðin 35 ára er hún trúlofaðist von Knebel og fertug giftist hún Reck, sem var 26 ára. Af frásögninni má ráða að hér sé þroskuð kona á ferð. Hún býr yfir listrænum hæfileikum og með ferðabókum sínum skapar hún sér nafn. Bók hennar um Ísland telst meðal klassískra ferðabóka í Þýskalandi, og var endurútgefin árið 2006. Hana má lesa á netinu í fullri lengd.
Einmanaleiki öræfanna
Á Wikipedia segir að Ina von Grumbkow sé fyrsta konan sem hafi tekið þátt í vísindaleiðangri inn á hálendi Íslands. Hver var sýn hennar á íslenska náttúru? Á einum stað skrifar hún: „Sérkenni íslenskrar náttúru er einmanaleikinn í hvers konar myndum. Á Sprengisandi er það stormurinn, í Öskju hvinur snjóbyljanna, kynlegt urg fljótandi vikurhranna og þrumandi gnýr skriðufallanna. Við brennisteins- og leirhverina heyrist ekki mannsins mál fyrir hvæsi og þjótanda, og við ströndina óma orgeltónar brimöldunnar. Við Laka er þögnin þrúgandi eins og í gröf.“ Í mínum huga er ferðabókin óður til íslenskrar náttúru.Í grein sinni „Slysið í Öskju 1907“ skipar Haraldur Sigurðsson atburðinum merkilegan sess: „Í vitund manna varð Öskjuslysið öðrum og meiri óhöppum harmsögulegra og minnisstæðara...Í huga Íslendinga var því valinn staður næst Reynistaðarbræðrum og óförum þeirra á Kili. Einstæður viðburður hefst úr hópi annarra svipaðra til sérstakrar tilvistar í vitund þjóðarinnar, í stað þess að mást úr eins og önnur svipuð tilvik, sem enginn minnist lengur eða lætur sig nokkru skipta. Á fjallvegum landsins hafa margir berað beinin og enginn látið sig skipta, þegar nokkuð leið frá.“
Heimildir:
Haraldur Sigurðsson: „Íslandsferð Inu von Grumbkow 1908. Fimm bréf.“ Land og stund. Afmælisrit til Páls Jónssonar . 1984.
http://de.wikipedia.org/wiki/ina_von_Grumbkow.
Ina von Grumbkow: Ísafold. Ferðamyndir frá Íslandi . Haraldur Sigurðsson íslenskaði. Bókaklúbbur Arnar og Örlygs – 1982.
Ólafur Jónsson: Ódáðahraun I . Norðri 1945.
Höfundur hefur setið í stjórn Ferðafélags Íslands