[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Víðis Jónsdóttir er mikill heimshornaflakkari. Hún deilir með okkur sinni uppáhaldsborg. „Í Norwich var ég þjóðfélagslega meðvitaða týpan sem las dagblöð og skólabækur á kaffihúsi,“ segir hún.

Eftir Kristínu Ýri Gunnarsdóttur

kristing@24stundir.is

Hver er uppáhaldsborgin þín?

„Að velja uppáhaldsborg er dálítið eins og að ætla að velja uppáhaldsmatinn sinn, það fer eftir samhengi og í hvaða skapi maður er. Ég gæti sagt Barcelona með öll sín söfn, kaffihús, einstaka sögu og frábæra strönd. Ég gæti líka sagt eitthvað exótískt eins og Mumbai á Indlandi, þar sem andstæðurnar eru gríðarlegar og afar athyglisvert að koma. Ég ætla hins vegar að velja borg í Bretlandi þar sem ég bjó í fyrra og kunni mjög vel við mig. Þetta er borgin Norwich í East Anglia, tvo tíma í lest norðaustur af London.“

Hvernig er andinn þar?

„Ætli það sé ekki óhætt að segja að hann sé afslappaður. Norwich er hálfgerð sveitaborg, að minnsta kosti í augum Lundúnabúa. Þarna búa um 120.000 manns og allt í kring eru grænir akrar og landbúnaðarhéruð, mjög fallegt. Norwich er við austurströnd landsins og vegna legu sinnar var hún mikið veldi hér á árum áður og á tímabili ein af stærstu borgum Bretlands. Í dag er sagan við hvert fótmál í miðborginni og mannlífið skemmtilegt.“

Uppáhaldsveitingastaðurinn?

„Bengal Spice á St. Benedicts Street selur frábæran indverskan mat og á Mambo Jambo má fá ódýran mexíkósk-bandarískan mat. Norwich státar af mörgum sætum og sjarmerandi kaffihúsum og það er algjör skylda að fara á Britons Arms á Elm Hill og fá sér köku eða rétt dagsins. Þetta er kaffihús í eldgömlu húsi þar sem allir veggir eru skakkir og skældir og hægt að lesa blað dagsins í ruggustól við arininn.“

Uppáhaldsbúðirnar?

„Litlu verslanirnar við St. Benedicts Street eru í sérstöku uppáhaldi. Þarna er mikið af tónlistarbúðum, búðum með notuðum fötum og öðru slíku. Inn á milli eru kaffihús og veitingastaðir. Yfirhöfuð er mikið af litlum hverfisverslunum í Norwich, sérstaklega á svæðinu í kringum St. Benedicts og rétt hjá, á Norwich Lanes.“

Hvað keyptir þú þér síðast?

„Ætli það hafi ekki verið bókin Six Chord Song Book í einni af tónlistarbúðunum á St. Benedicts. Þetta er þykk bók með vinsælum partílögum sem öll eiga það sameiginlegt að maður þarf einungis að kunna sex gítargrip til að geta spilað þau. Mjög hentugt.“

Uppáhaldsbarinn?

„Á árum áður var talað um að í Norwich væri ein kirkja fyrir hvern sunnudag ársins og einn bar fyrir hvern dag ársins. Það er sumsé nóg af börum í borginni. Í hverfinu þar sem ég bjó voru til dæmis fimm barir í næsta nágrenni. Í sérstöku upphaldi var Feiti kötturinn – Fat Cat Pub, nálægt Dereham Road. Þetta er gamall, sjarmerandi staður sem er alltaf fullur af fólki og selur eigið brugg. Það jafnast ekkert á við innlit á Feita köttinn eftir skóla eða vinnu.“

Geturðu hugsað þér að búa þar?

„Ég get ekki sagt að ég geti hugsað mér að setjast að í Norwich til frambúðar en það var hins vegar mjög gott að búa þar þetta ár sem ég var í borginni. Ég gæti alveg hugsað mér að búa þar aftur í einhvern tíma.“

Ertu önnur manneskja í annarri borg ?

Já, örugglega. Í Barcelona er ég skjannahvíti Íslendingurinn í leit að besta rauðvínstilboðinu og næstu H&M-verslun. Í Mumbai er ég útlendingurinn sem prúttar um allt eins og óður maður og fyllir minniskortið í myndavélinni á örskotsstundu. Í Norwich var ég þjóðfélagslega meðvitaða týpan sem las dagblöð og skólabækur á kaffihúsi og rölti síðan heim til að ná kvöldfréttunum á BBC.

Hvað finnst þér markvert að sjá í borginni?

Norwich er gömul miðaldaborg með hlykkjóttar götur og ógrynni af kirkjum. Hvergi eru raunar fleiri miðaldakirkjur í neinni borg í Norður-Evrópu og borgin er fræg fyrir þetta. Mér finnst skemmtilegast af öllu að rölta einfaldlega um göngugöturnar í miðbænum og draga í mig mannlífið. Á aðaltorginu er útimarkaður sem hefur verið starfræktur í margar aldir og rétt hjá er þúsund ára gamall kastali sem gaman er að fara inn í. Þaðan er sömuleiðis fallegt útsýni yfir borgina. Síðan verða allir að skoða dómkirkjuna að innan sem utan, rölta meðfram ánni sem rennur í gegnum borgina og stoppa á einhverju af öllum kaffihúsunum og börunum.“

Í hnotskurn
Í þessari borg búa 120.000 manns. Er afslappandi í augum Londonbúa. Er í tveggja tíma fjarlægð frá London með lest