Sigmund Freud
Sigmund Freud
París. AFP. | Karlar hafa tilhneigingu til að laðast að konum sem svipar til mæðra þeirra í útliti, á sama tíma og konur hrífast gjarnan af mönnum sem svipar til feðra þeirra.

París. AFP. | Karlar hafa tilhneigingu til að laðast að konum sem svipar til mæðra þeirra í útliti, á sama tíma og konur hrífast gjarnan af mönnum sem svipar til feðra þeirra.

Hér er ekki vísað til kenninga Sigmund Freud um dulda kynhneigð sonar til móður samfara hatri á föður, eða sambærilega kynhneigð dóttur til föður, heldur er hér vísað til nýrrar rannsóknar.

Vísindamenn við Pecs-háskólann í Ungverjalandi, undir forystu Tamas Bereczkei, komast þannig að sömu niðurstöðu og sálkönnuðurinn í rannsókn sem náði til 312 Ungverja í 52 fjölskyldum.

Rannsókninni til grundvallar lá kerfi þar sem andlitsdrættir voru flokkaðir í fjórtán mismunandi svæði á andliti hvers þátttakenda.

Sérvalin nefnd bar svo saman andlitseinkenni þátttakenda og fólks sem valið var af handahófi og skar svo úr um hvort líkindi væru með svip þeirra.

Laðast að ólíkum hlutum

Rannsakendur telja karla og konur laðast að ólíkum hlutum andlitsins.

Ástkonur gagnkynhneigðra þátttakenda hafi gjarnan haft svipaða fyllingu í vörunum, munnurinn verið nokkurn veginn jafn breiður og lengd og breidd kjálkans svipuð.

Hjá konunum hafi það aftur á móti verið fjarlægðin á milli munns og augna, lengd andlitsins, bilið á milli augnanna og nefstærðin, sem svipaði til útlits föður þeirra.

Inntur eftir ástæðum þessarar samsvörunar telur Bereczkei að hún kunni að liggja í þróunarsögunni, enda geti of mikil genablöndun, þegar foreldrar eru innbyrðis mjög ólíkir, verið neikvæð í erfðafræðilegu tilliti. baldura@mbl.is