Skólafjör Fæstir í Phuketborg voru hrifnir af því að láta mynda sig en þessir grislingar við Wat Puttamongkon-hofið voru meira en fúsir til fyrirsætustarfa.
Skólafjör Fæstir í Phuketborg voru hrifnir af því að láta mynda sig en þessir grislingar við Wat Puttamongkon-hofið voru meira en fúsir til fyrirsætustarfa. — Morgunblaðið/ Bergþóra Njála
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólríkar strendur og ylvolgur sjór dregur milljónir ferðamanna árlega að paradísareyjunni Phuket í Taílandi.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

Hlýtt loftslag og hlýtt viðmót innfæddra einkennir Taíland allt árið um kring. Þeir sem vilja njóta hitans til hins ýtrasta leggja margir leið sína til strandparadísinnar Phuket, lítillar ferðamannaeyjar sem liggur vestan við suðurtanga Taílands. Eyjan er þekkt fyrir langar sólbaðsstrendur meðfram vesturströnd sinni sem eru þó talsvert ólíkar.

Flestir erlendir ferðamenn dvelja í Patong, litlum strandbæ sem hentar vel þeim sem sækjast eftir fjölbreyttri afþreyingu við ströndina, vatnasporti og næturlífi. Meðfram götum eru skemmtistaðir og barir af öllum toga sem og næturmarkaðir þar sem ódýrar eftirlíkingar af þekktri vestrænni merkjavöru á borð við Billabong, Diesel og Guess eru eftirsótt vara meðal túrista.

Meðal afþreyingar í boði er Simon Cabaret þar sem klæðskiptingar troða upp í stórfenglegri dans- og tónlistarsýningu í skrautbúningum sem eru engu líkir. Sagt er um dragg-drottningar Simon kabarettsins að þær taki fegurð raunverulegra kvenna fram og er það ekki fjarri lagi. Vinsældir sýningarinnar eru miklar og iðulega uppselt þrátt fyrir þrjár sýningar á kvöldi yfir háannatímann og tvær á rigningatímanum sem nú er.

Þeir sem óska eftir rólegra umhverfi við sjávarsíðuna hafa úr fjölmörgum öðrum stöðum að velja, s.s. Karon, Kata, Kamala, Surin og Laguna stöndunum sem ku vera mun hentugri fyrir fjölskyldufólk og þá sem eru í leit að afslöppun. Víða eru hótelin byggð í tengslum við heilsulindir þar sem fjölbreytt nudd, dekur og heilsurækt er í boði á verði sem þykir spottprís hvar sem er á Vesturlöndum.

Víraóreiða við götuna

Hvar svo sem ferðamaðurinn er staðsettur á eyjunni er sjálfsagt fyrir hann að heimsækja höfuðborgina Phuket og anda þar að sér götulífinu. Í gamla bænum hið minnsta má sjá verslanir og sölumenn við allar gangstéttir, hvort sem varningurinn er framandi gæludýr í trébúrum, matvæli af öllum toga, listaverk eftir þekktustu listamenn eyjarinnar, varahluti í vélar og verkfæri, sælgæti að hætti heimamanna eða sérútbúnar fötur og pakkningar sem innhalda brýnustu nauðsynjar fyrir munka.

Farartækin eru augljóslega nýtt lengur en hjá meðalmanninum á Íslandi og úttroðnir strætisvagnar bera þess vitni að einkabíll er munaðarvara. Margir ferðast um á litlum vespum og taka þá gjarnan fjölskylduna alla með – ekki er óalgengt að sjá kornung börn hjálmlaus og hlífðarlaus sitjandi fyrir framan ökumanninn á hjólinu.

Húsin í bænum vekja einnig athygli ferðmannsins. Athygli vekur kínversk/portúgalskur bræðingur í arkitektúr margra bygginganna. Þá má sjá gamalkunnugt stef fyrir Íslendinga, bárujárn sem mikið er notað í þök á steinsteyptum húsum. Mörg og jafnvel flest húsanna þyrftu á andlitslyftingu að halda en innfæddur leiðsögumaður upplýsir að málning sé lúxusvara hjá þorra almennings. Rafmagnsvírar og símaleiðslur, auk götulýsingar sem minnir helst á einlitar hvítar jólaseríur, hanga í hálfgerðri óreiðu milli staura framan við húsin og setja sterkan svip á götumyndina.

Lítil og sjarmerandi gata, Soi Romanni, sem liggur milli Thalang og Debuk strætanna, er falleg og skemmtileg andstæða þessa. Hún er meðal þeirra elstu í bænum, friðlýst og nýlega er búið að gera flest húsin við hana upp fyrir tilstilli sérstaks húsaverndunarsjóðs. Við enda hennar stendur Wat Puttamongkon, taílenskt búddahof sem skartar gríðarfallegri framhlið. Hofið deilir lóð með einum stærsta skóla bæjarins og í frímínútum iðar svæðið af lífsglöðum gríslingum í snyrtilegum skólabúningum.

Spádómur í kínversku hofi

Fleiri hof í Phuketborg eru þess virði að heimsækja, ekki síst hof kínverskra taóista sem eru á nokkrum stöðum. Hér skal láta nægja að nefna Put Jaw og Jui Tui sem standa hlið við hlið í jaðri gamla bæjarins. Hið fyrrnefnda er það elsta á Phuket, yfir 200 ára gamalt, og sérlega sjarmerandi, þrátt fyrir smæð sína. Enginn sem það heimsækir má láta hjá líða að hrista stauk sem er fullur af mjóum bambusprikum þar til eitt þeirra dettur upp úr. Prikin eru númeruð og vísar hvert og eitt þeirra til spádóms sem á við þann sem hristir. Aðalbúddahofið á Phuket, Chalong, er hins vegar að finna um átta kílómetra fyrir utan bæinn en það er virtasta og mest skreytta hof eyjarinnar.

Í hnotskurn
» Íbúar eyjarinnar allrar eru rúmlega 300 þúsund.
» Ferðamenn voru 5,5 milljónir árið 2007.
» Eyjan er um 49 km löng og rúmlega 21 km breið.
» Aðalatvinnuvegur heimamanna er ferðamennska en landbúnaður er einnig mikilvægur. Menn rækta aðallega gúmmítré, kókoshnetur, kasjúhnetur og ananas.
» Phuket er fræg fyrir tinnámur sínar sem áður voru helsta lifibrauð eyjarskeggja.
» Um 70% Phuket er fjalllendi.
» Sólríkar sandstrendur þekja eingöngu vesturhlið eyjunnar.