Skrímsli Það er ótrúlega gaman að taka mát af sálfum sér enda útkoman oft býsna óvænt.
Skrímsli Það er ótrúlega gaman að taka mát af sálfum sér enda útkoman oft býsna óvænt. — Morgunblaðið/Bergþóra Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bergþóru Jónsdóttur í Stafangri begga@mbl.is Vísindaverksmiðjan, eða „Vitenfabrikken“, er eitt heitasta nýmælið í Menningarborginni Stafangri.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur í Stafangri

begga@mbl.is

Vísindaverksmiðjan, eða „Vitenfabrikken“, er eitt heitasta nýmælið í Menningarborginni Stafangri. Að vísu er verksmiðjan ekki til húsa í sjálfum bænum, heldur í nágrannabæjarfélaginu Sandnesi á Jaðri, sem er eins konar Garðabær Stafangurs og tilheyrir safni þess bæjarfélags, Jaðarsafninu.

Vísindaverksmiðjan var opnuð í maí í vor í glænýrri og glæsilegri byggingu eftir arkitektana Askim & Lantto. Byggingin kostaði andvirði eins og hálfs milljarðs íslenskra króna. En það er ekki bara húsið sjálft sem hefur aðdráttarafl, innviðirnir, verksmiðjan sjálf, er ævintýraheimur, þar sem börn, unglingar og fullorðnir geta fræðst og menntað sig í mörgum grundvallarþáttum vísindanna. Aðferðin er einföld; í vísindaverksmiðjunni er hægt að prófa, fikta, gera tilraunir og upplifa, og það er galdurinn sem dregur fólk að. Að því leyti er vísindaverksmiðjan ólík hefðbundnum söfnum. Stór hnöttur svífur eins og í lausu lofti yfir almenningsrými, en inni í honum er geimsýning, eða „planetarium“ þar sem hægt er að skoða stjörnuhimininn, þekkja stjörnumerkin, og spá í það hvaða stjörnur sjást þar sem þú ert stödd í heiminum.

Með annars manns nef

Í vísindaverksmiðjunni er foss, sem sýnir hvernig vatn er virkjað, leir sem hnoða má á hvaða veg sem maður vill, tengdur við tölvu sem býr til hreyfimyndir á skjá úr því sem leirsmiðirnir búa til. Þar eru ýmiss konar eðlisfræðiþrautir, sem verða hrein skemmtun, útfærðar sem leikir. Þverröndóttir speglar fleygaðir með gleri og aðgengilegir beggja vegna, líkt og spegilgluggi sem Ólafur Elíasson gerði fyrir margt löngu, sýna manni hvernig maður lítur út með nef þess sem situr hinum megin við spegilglerið, – eða augu... Þarna getur par sem hyggur á barneignir látið hugann reika um mögulegt útlit barnsins, þegar andlit beggja renna saman í eitt. Handknúin ölduvél býr til alvöru öldugang í stórum tanki; og hægt er að læra að hnýta hnúta, allt frá pelastikki til bindishnúta.

Fyrir þá sem geta ekki séð græjur án þess að opna þær og skoða innvolsið er þarna kjörið tækifæri til að sjá slík tól að störfum innan frá. Innyfli úr tölvu að störfum eru kannski ekki stórbrotin, en það er gaman að sá hvað gerist þegar ýtt er á „enter“-takkann. Einn vinsælasti leikurinn er sá að taka mót af sjálfum sér, að hluta til, eða í heild, með pinnum sem ganga beggja vegna út úr lausum vegg. Þar verða fullorðnir börn, og börn að alls kyns furðuverum þegar kroppunum er þrýst á pinnana öðrum megin, þannig að þeir ganga út hinum megin.

Í Vísindaverksmiðjunni getur fjölskyldan sameinast í skemmtilegum og þroskandi leikjum, sem krefjast fyrst og fremst hugmyndaflugs og þekkingarþorsta. Í Húsdýragarðinum hefur verið gerð tilraun til starfsemi af þessu tagi, en í miklu einfaldara mæli. Lærdómurinn úr heimsókn í Vísindaverksmiðjuna er sá að vísindi og þekking eru fyrir alla, og geta vel verið ofboðslega skemmtileg. Börnin þurfa ekki endilega að átta sig á þeim sannleika strax. Fyrir þeim er lífið leikur, en víst er að það kemur að því að leikur verður lærdómur og jafnvel yngstu hugir hrífast með.