Árni Matthíasson
Mér er það minnisstætt að hafa keypt í Gramminu framúrskarandi skífu hljómsveitar sem hét Green River; skemmtileg rokkskífa þar sem menn steyptu saman nýbylgju og því sem einna helst mætti kalla þungarokk. Útkoman var hrátt melódískt rokk, þó að það hljómi eins og hálfgerð þversögn. Ekki grunaði mig þá að Green River væri að ryðja nýrri tónlistarstefnu braut sem ætti eftir að gera allt vitlaust nokkrum árum síðar.
Grunge verður til
Green River var ættuð frá Seattle, það var Mark McLaughlin sem stofnaði hana og nokkrir skólafélagar hans. McLaughlin, sem fékk snemma viðurnefnið Arm og er einna helst þekktur undir því nafni, hafði reyndar verið í nokkrum hljómsveitum þegar hann stofnaði sína fyrstu alvöruhljómsveit með Steve Turner, Alex Vincent, Jeff Ament og Stone Gossard. Green River gaf ekki út nema tvær stuttskífur og eina stóra plötu, en þó að tónlistin á þeim skífum sé flestum gleymd í dag minnast menn sveitarinnar fyrir það að hún gaf út fyrstu skífurnar af því sem síðar var kallað grunge og ruddi þannig brautina fyrir ýmsar sveitir sem áttu eftir að ná heimsfrægð.Ekki löngu eftir að fyrsta og eina breiðskífa Green River kom út lagði hljómsveitin upp laupana og menn héldu hver í sína áttina. Þrír liðsmannanna, Gossard, Ament og Fairweather, stofnuðu hljómsveitina Mother Love Bone og síðar stofnuðu tveir þeir fyrrnefndu Pearl Jam. Þeir Mark Arm og Steve Turner ákváðu að stofna saman nýja hljómsveit og kölluðu til Dan Peters úr Bundle of Hiss á trommur og Matt Lukin úr Melvins á bassa, en þeir Arm og Turner léku á gítar og Arm söng. Sveitina nefndu þeir síðan eftir bíómynd – Mudhoney.
Fyrsta stuttskífa Mudhoney, Superfuzz Bigmuff , kom svo út í október 1988 og er tilefni þessara skrifa, enda kom viðhafnarútgáfa af henni út um daginn í tilefni af tuttugu ára afmæli hennar.
Skemmst er frá því að segja að Superfuzz Bigmuff seldist lítið sem ekkert, þó að hróður hennar hafi aukist jafnt og þétt. Fyrstu smáskífu Mudhoney var þó betur tekið og vakti hún meðal annars svo mikla athygli á sveitinni í Evrópu, aðallega í Bretlandi, að þar lék hún jafnan fyrir fullu húsi löngu áður en Ameríkanar voru búnir að kveikja á því hvílík gæðasveit hún var.
Seattle-rokksveitaflóð
Fyrsta breiðskífan, samnefnd sveitinni, kom svo út 1989 og í kjölfarið fóru fleiri Seattle-sveitir að láta á sér kræla; nýtt tilbrigði við rokk var komið til sögunnar, það sem menn kölluðu Seattle-rokk og Marc Arm kallaði „grunge“. Helsta hljómsveit sem fylgdi í fótspor Mudhoney var Nirvana, en ekki má gleyma hljómsveitum eins og Soundgarden, Tad og Alice in Chains.Mudhoney og fleiri grungesveitir reyndar voru á mála hjá Sub Pop, en í kjölfar vinsælda Nirvana má segja að allar rokksveitir Seattle-borgar hafi komist á samning hjá stórfyrirtæki og Mudhoney var ein þeirra því 1992 gerði sveitin samning við Reprise-útgáfuna. Þrátt fyrir það náði Mudhoney aldrei teljandi vinsældum og Reprise rifti samningnum 1998. Mudhoney lagði þó ekki upp laupana og er enn að, sendi frá sér þokkalegustu skífu fyrr á þessu ári, The Lucky Ones .
Eins og getið er kom Superfuzz Bigmuff í aukinni útgáfu fyrir stuttu. Ekki er bara að tónlistin hefur verið tónjöfnuð upp á nýtt, heldur eru diskarnir nú tveir og grúi aukalaga á þeim. Upphaflega var Superfuzz Bigmuff sex laga, en á nýju útgáfunni eru hvorki meira né minna en 26 aukalög; prufuupptökur, smáskífur og tónleikaupptökur, annars vega níu lög frá tónleikum í Berlín 1988 og sex sem tekin voru upp í útvarpi sama ár.
Þess má geta að platan heitir eftir uppáhalds skælifetlum þeirra Arm og Turner: Super Fuzz (Univox) og Big Muff (Electro-Harmonix).
Tíska og tónlist
EINS OG rakið er í greininni hér til hliðar er almennt talið að „grunge“-rokk hafi þá fyrst fengið að heyrast á skífum Green River.Sub Pop útgáfan, sem stofnuð var í Seattle 1986, varð fyrst til að gefa út slíka tónlist og var með margar af helstu grunge-sveitum á sínum snærum, í það minnsta þar til þær slógu í gegn.
Allir þekkja Nirvana og Pearl Jam en aðrar helstu grunge-sveitir sögunnar, þó að ólíkar séu og ekki allar frá Seattle, eru Green River, Soundgarden, Mudhoney, Tad, Alice in Chains, Screaming Trees, Mad Season, Babes in Toyland, og Stone Temple Pilots.
Grunge hafði gríðarleg áhrif og þeirra sér stað enn þann dag í dag því enn eru hundruð hljómsveita að spila grunge eða afleiður þess – emo er þannig skilgetið afkvæmi grunge. Áhrifin eru þó ekki bara í tónlistinni þar sem af henni spratt fatatíska, verkamannaskyrtur og slitnar gallabuxur.
Árni Matthíasson