Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur
joinhanna@gmail.com
Þrátt fyrir kulda og snjó fann Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ, engan einasta jólasvein á Suðurskautslandinu. Þess í stað léku rostungar, hvalir, selir og mörgæsir við hvern sinn fingur og kættu bæði forvitinn Íslendinginn sem og aðra gesti, sem ákveðið höfðu að verja jólahátíðinni 2006 á þessum skrýtnu slóðum. Allar jólagjafirnar fengu að fljóta með Ingjaldi frá Íslandi til Suðurskautslandsins enda veit hann það mætavel að pakkana ber að opna á hárréttum tíma. Það gerði hann svo í káetunni sinni um borð í chileska farþegaskipinu Antarctic Dream að kvöldi aðfangadags eftir frábæran dag og ljúffenga jólamáltíð í matsal skipsins þar sem saman voru komnir 55 farþegar af fjölmörgu þjóðerni, sem allir voru að láta draum sinn um jól á suðurskautinu rætast.
Suðurskautslandið er fimmta stærsta heimsálfan og er að mestu þakin þykkum ísskildi í kringum suðurpólinn. Heildarflatarmál þessa kalda og syðsta meginlands telur rúma 14 milljónir ferkílómetra. Það er næstum því kringlótt að lögun ef undan er skilinn Suðurskautsskaginn, sem teygir sig í átt að Suður-Ameríku, og þangað var einmitt förinni heitið í þetta skiptið. Ingjaldur flaug frá Íslandi um miðjan desember alla leið til Ushuaia, sem tilheyrir Argentínu og er syðsti oddi Suður-Ameríku, með viðkomu í Kaupmannahöfn, París, Frankfurt, Sao Paulo og Buenos Aires. Lagt var úr höfn í Ushuaia að kvöldi 20. desember og stefnan tekin á Suðurskautslandið. Siglingatími í gegnum Drake Passage, sem er ein erfiðasta sjóleið heims vegna sterkra hafstrauma, reyndist tveir sólarhringar í ágætu veðri. Það átti hins vegar eftir að reyna á sjóveikina þegar menn hrepptu storm á heimleiðinni.
Ferðin á skipinu stóð yfir í tíu daga, þar af fóru fjórir dagar í siglingu fram og til baka. Sex dagar voru svo nýttir í ævintýralegar skoðunarferðir á Suðurskautslandinu, en þar var stoppað á tíu stöðum, akkerinu skutlað út og tvisvar á dag var farið á gúmmíbátum í land og á nærliggjandi eyjar til að skoða dýralífið og náttúrufegurðina. Aðbúnaður um borð var svo með besta móti, sérbaðherbergi í hverri káetu, setustofa og matsalur með fjórréttuðum máltíðum bæði í hádeginu og á kvöldin auk morgunverðar og miðdegishressingar. Skipið lagði farþegum auk þess til útivistarbuxur og jakka, stígvél og öryggisvesti.
Hrjóstrugt landslag
Ingjaldur er mikill áhugamaður um ferðalög og var Suðurskautslandið eina heimsálfan sem hann átti eftir að sækja heim. „Ég hafði lengi haft uppi plön um Suðurskautslandið, en ætli bandarískur gestakennari, sem hingað kom árið 2004 til að kenna námskeið í MBA-námi HÍ, hafi ekki kveikt í mér endanlega, en þá var hann ásamt konu sinni að undirbúa slíka ferð. Ég hitti hann svo á ráðstefnu í Bandaríkjunum að afloknu ferðalaginu. Hann var svo ánægður með ferðina að ég ákvað að drífa bara í þessu. Ég fór á stúfana sumarið 2006 og keypti mér ferð í gegnum bandarísku ferðaskrifstofuna Saga Tours, sem meðal annars hefur selt Bandaríkjamönnum Íslandsferðir. Skipið Antarctic Dream minnir einna helst á síðutogara, en er sérstyrkt til að mæta ís, sem kann að verða á leiðinni. Á jólum er hásumar á Suðurskautslandinu. Ólíkt vetrartíð, þegar frost fer í allt að 50 gráður, er hitastigið yfir hásumarið á þessum slóðum rétt yfir frostmarki og veður er bjart og sólríkt allan sólarhringinn. Ísinn er að mestu bráðnaður á þessum árstíma, en snjór liggur yfir öllu landi nema kannski helst á láglendi. Gróðurfar er þarna mjög hrjóstrugt og minnti einna helst á túndrugróður hátt uppi í íslenskum fjöllum. Brött fjöll taka við af fremur litlu strandlendi og upplifunin er ekki ósvipuð því að sigla meðfram Vestfjörðum á góðum degi.Engir mennskir íbúar eru á Suðurskautslandinu ef frá eru taldir vísindamenn, sem starfa í nokkrum rannsóknastöðvum sem þarna er að finna. Við heimsóttum tvær rannsóknastöðvar, eina breska og hina chileska, og fengum innsýn í rannsóknaheiminn. Í bresku stöðinni var hægt að kaupa póstkort í lítilli búð til að senda til vina og ættingja og voru mín póstkort í þrjá mánuði að berast til viðtakenda á Íslandi. Fyrirlestrar um fyrstu landkönnuðina, dýralíf, gróðurfar og jarðfræði voru svo haldnir á hverjum degi auk þess sem náttúrulífsmyndir af svæðinu voru sýndar í innanhússsjónvarpskerfi sem var um borð í skipinu. Einu sinni fengum við svo að baða okkur í sjávarmálinu og nutum yls frá heitum hver, sem þarna var skammt frá. Ferðalagið var í heild sinni geysileg upplifun og fegurðin ólýsanleg. Ekki skemmdi það svo fyrir að ég náði að sjá Rósariddarann í Parísaróperunni á heimleiðinni daginn fyrir gamlársdag. Ég mæli eindregið með svona ævintýri fyrir alla aldurshópa nema kannski börn undir tíu ára aldri,“ segir Ingjaldur og bætir við að um fimmtán skip frá fjölmörgum fyrirtækjum séu í reglulegum siglingum á þessar framandi slóðir yfir sumartímann, frá nóvember og fram í marsbyrjun. Auk þess að nálgast Suðurskautslandið frá Ushuaia í Argentínu má fara þangað frá Dunediin á Nýja-Sjálandi og frá Suður-Afríku. Þá býður ástralska flugfélagið Quantas upp á tíu til tólf tíma útsýnisflugferðir yfir álfuna.
Heillandi heimar
„Það er hvorki regla hjá mér að vera heima eða í útlöndum á jólum. Ég er hins vegar alltaf til í að breyta til og prófa eitthvað skemmtilegt því á margan hátt eru íslensk jól þrautleiðinleg og íslensku páskarnir þaðan af verri. Það verður bara að segjast eins og er. Ég eyddi jólum og áramótum með vinafólki í Kaupmannahöfn árið 2004 og við endurtókum svo leikinn með því að halda jól og áramót í París í fyrra. Ólíkt íslenskum veruleika iðar París af lífi alla helgidagana. Veitingahúsin eru flest opin auk þess sem leikhúslífið og önnur menningarstarfsemi er á fullu alls staðar,“ segir Ingjaldur spurður um eigin jólahefðir.Af ríflega tvö hundruð löndum sem til eru í heiminum öllum hefur Ingjaldur komið til 150 landa. Hann er síður en svo hættur því næstu ferðaáform beinast að Mongólíu, Norður-Kóreu, Georgíu, Aserbædsjan og Armeníu. „Ég hef á ferðalögunum nokkrum sinnum orðið fyrir miklum hughrifum. Nefna mætti þrjá fossa, sem eru hreint stórkostlegir. Það eru Iguazu-fossarnir á landamærum Brasilíu, Argentínu og Paragvæ, Niagara-fossarnir á landamærum Bandaríkjanna og Kanada og Viktoríufossarnir á landamærum Sambíu og Simbabve. Pýramídarnir í Egyptalandi, Inkaborgin Machu Picchu í Perú, Masai Mara-þjóðgarðurinn í Kenýu og Galapagoseyjar í Austur-Kyrrahafi eru heillandi svæði, en ef ég ætti að nefna uppáhaldsborgina mína þá er New York auðvitað höfuðborg heimsins.“
Ingjaldur ferðaðist í fyrsta skipti til útlanda þrettán ára gamall, þá með farþegaskipinu Heklu til Færeyja, Bergen og Kaupmannahafnar og síðan með Gullfossi til Edinborgar. Sautján ára gamall fór hann næst til Mallorka og London. Hann fékk svo vinnu í þrjú sumur í farskrárdeild Loftleiða með kaupauka, sem fól í sér afsláttarmiða hjá flugfélaginu sem hann notfærði sér í þá daga. Áður en hann settist svo í Ríkisháskólann í Ohio, sem er í borginni Columbus, 22 ára gamall fór hann ásamt þremur vinum í mánaðarreisu til Mexíkó og fékk þá ferðabakteríuna í sig fyrir alvöru. „Það er mjög skemmtilegt að ferðast um framandi slóðir með bakpokann og líklega myndi ég seint kaupa mig inn í það sem í daglegu tali kallast týpísk pakkaferð. Sem betur fer hef ég aldrei lent í neinu misjöfnu á flakki mínu um heiminn ef undan er skilin tilraun til að ræna mig í Rio de Janeiro í Brasilíu. Ég hef svo nokkrum sinnum farið sem fararstjóri með nemendahópa HÍ til útlanda og tvívegis þurft að fara með nemendur á bráðamóttökuna.“
Ingjaldur segist hafa það að reglu að standa vel að undirbúningi ferðalaganna til að hafa það kortlagt hvað hann vilji fá nákvæmlega út úr ferðunum. „Við undirbúninginn hafa Lonely Planet-bækurnar reynst mér vel. Svo er náttúrlega gott að vera snyrtilega klæddur, berast ekki of mikið á, sýna samferðafólkinu kurteisi og vingjarnlegheit og virða svo auðvitað þær hefðir og reglur, sem gilda í hverju landi fyrir sig.“