Eftir Grétar Júníus Guðmundsson
gretar@mbl.is
Ef ætlunin er að yfirfæra erlend íbúðalán heimilanna til Íbúðalánasjóðs er stærsta vandamálið við hvað eigi að miða. Í fyrsta lagi skiptir máli hvaða gengi erlendra mynta skuli miða við þegar yfirfærslan fer fram. Í annan stað hefur mikið að segja hvenær verðtryggingin mun byrja að gilda.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að blaðið hefði heimildir fyrir því að ákveðið hefði verið að flytja erlend íbúðalán heimila frá viðskiptabönkunum til Íbúðalánasjóðs. Viðskiptaráðuneytið sendi fjölmiðlum tilkynningu í tilefni fréttarinnar. Þar segir: „Rétt er að taka fram vegna fréttar á baksíðu Morgunblaðsins í morgun [í gær] að engar ákvarðanir hafa verið teknar um yfirtöku Íbúðalánasjóðs á íbúðalánum viðskiptabankanna, hvorki í íslenskum krónum né í erlendri mynt.“ Frekari upplýsingar voru ekki gefnar.
Dagsetning skiptir miklu máli
Ef við yfirfærslu erlendra lán til Íbúðalánasjóðs yrði miðað við gengi hinna erlendu lána þegar þau voru tekin, þá yrðu eftirstöðvar þeirra lægri í íslenskum krónum en þau standa í núna, þar sem gengi krónunnar hefur veikst mikið á umliðnum mánuðum. Þá vaknar spurningin hver eigi að bera þann kostnað sem þá stendur út af. Ef miðað yrði hins vegar við gengi gjaldmiðla eins og það er nú er ekki að sjá mikinn ávinning af þessu. Ef hins vegar verður farinn einhver millivegur stendur eftir sú spurning hver beri kostnaðinn.Í annan stað skiptir máli hvenær verðtryggingin á hinum hugsanlega yfirfærðu lánum byrjar að gilda. Ef það yrði þegar lánin voru tekin myndu verðbætur fyrir þann tíma sem liðinn er væntanlega leggjast við upphaflegan höfðustól lánanna. Það er í samræmi við það sem gerst hefur með hefðbundin verðtryggð lán í íslenskum krónum. Ef viðmiðunin yrði hins vegar einhver önnur, þ.e.a.s. eftir að umrædd lán voru tekin, þá myndu hin yfirfærðu lán ekki hafa hækkað eins mikið og önnur verðtryggð lán hafa gert. Hér er því um vandasamt verk að ræða. Vert er að hafa í huga að stjórnvöld hafa ekki gefið til kynna að eitthvað verði gert til að koma til móts við miklar hækkanir á verðtryggðum lánum íbúðaeigenda.
Vandi að gæta samræmis
Umtalsverð aukning varð á gengisbundnum lánum heimilanna á undanförnum árum fram á síðasta ár. Þau námu til að mynda liðlega 20 milljörðum króna í upphafi árs 2006 en tæplega 130 milljörðum í lok árs 2007. Húsnæðislán voru um fjórðungur þeirrar fjárhæðar. Til samanburðar eru verðtryggð íbúðalán heimilanna hjá Íbúðalánasjóði um 600 milljarðar og svipuð fjárhæð hjá bönkum og sparisjóðum.Krónan tók að veikjast á fyrri hluta ársins 2008 og enn frekar eftir bankahrunið í október síðastliðnum, eins og sjá má á þróun gengisvísitölunnar á meðfylgjandi teikningu. Eftirstöðvar gengistryggðra lána og greiðslubyrði þeirra hefur aukist mikið vegna þessa.
Verðbólga hefur aukist mikið á umliðnum mánuðum og árum, eins og einnig má sjá á meðfylgjandi mynd af þróun vísitölu neysluverðs. Eftirstöðvar verðtryggðra lán hafa því hækkað jafnt og þétt, einnig á þeim tíma þegar gengistryggð lán hækkuðu lítið sem ekkert. Ljóst er því að vandasamt getur verið að gæta samræmis eftir lánaformum, ef grípa á til aðgerða til að létta undir með þeim sem eru með íbúðalán.
Gengistryggð lán geta lækkað
MEGINSKÝRINGUNA á aukinni ásókn heimila í erlend lán undanfarin ár er væntanlega að finna í þeim háa vaxtamun sem verið hefur við útlönd, en erlend íbúðalán eru með mun lægri vöxtum en íslensk lán. Erlendu lánin bera hins vegar gengisáhættu þar sem breytingar á gengi krónunnar gagnvart þeim erlendu myntum sem lánin miðast við hafa áhrif á greiðslubyrði lánanna og eftirstöðvar þeirra. Áhrif gengisins á verðtryggð lán í íslenskum krónum eru ekki bein, en þar sem gengisbreytingar hafa áhrif á verðbólguna koma áhrifin einnig fram í aukinni greiðslubyrði þeirra og hækkun á eftirstöðvum.Veigamikill munur á gengistryggðum lánum annars vegar og verðtryggðum lánum hins vegar, er að gengistryggðu lánin ganga til baka ef gengið styrkist. Það gera verðtryggðu lánin ekki.