Byggingar Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu stefna að því að hækka fasteignaskatta lítið. Skattarnir kunna þó að hækka eitthvað á næstu árum.
Byggingar Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu stefna að því að hækka fasteignaskatta lítið. Skattarnir kunna þó að hækka eitthvað á næstu árum. — Morgunblaðið/ÁrniSæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

Flest sveitarfélög stefna að því að innheimta ekki meira í fasteignagjöld á þessu ári en á því síðasta, þrátt fyrir að reksturinn á árinu verði mörgum sveitarfélögum þungbær vegna mikils tekjusamdráttar og hækkandi útgjalda.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa haft miklar tekjur af fasteignagjöldum undanfarin ár, einkum og sér í lagi þar sem gjöldin eru reiknuð sem ákveðið hlutfall af fasteignamati.

Fasteignamatið hefur hækkað mikið á undanförnum árum samhliða miklum uppgangi á fasteignamarkaði. Hann var meðal annars tilkominn vegna þess að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ýmist buðu út eða úthlutuðu byggingarlóðum í miklum mæli á sama tíma og bankarnir lánuðu mikið til íbúðarkaupa. Þetta var gert þvert á ráðleggingar Seðlabanka Íslands sem varaði ítrekað við því að þetta hefði þensluaukandi áhrif, eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu.

Greiddu meira 2008 en 2007

Reykvíkingar greiddu rúmlega tíu milljarða til Reykjavíkurborgar í fasteignagjöld á árinu 2007. Í fyrra var hins vegar annað upp á teningnum en þá greiddu þeir 12,7 milljarða. Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun borgarinnar að greiddar verði hærri fjárhæðir á þessu ári eða þrettán milljarðar samkvæmt fjárhagsáætlun. Skatthlutfallið helst þó óbreytt frá því í fyrra.

Íbúar í mörgum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins greiða hærra hlutfall af fasteignamati en íbúar á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði. Á móti kemur að fasteignamat húsnæðis á landsbyggðinni er lægra en á höfuðborgarsvæðinu.

Til samanburðar þurfa eigendur íbúðarhúsnæðis í Reykjavík að borga 0,214 af fasteignamati í fasteignagjöld en algengt er að hlutfallið sé á bilinu 0,3 til 0,45 víða á landsbyggðinni. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarstjórnum heimilt að leggja allt að 0,5 prósent skatt á íbúðarhúsnæði, erfðafestulönd í dreifbýli, jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði. Sama hlutfall gildir um sumarbústaði.

Ríkið greiðir sveitarfélögum 1,32 prósent af fasteignamati í skatt til sveitarfélaga vegna opinberra bygginga. Er þar meðal annars átt við sjúkrahúsbyggingar, skóla, heimavistir og þess háttar.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu var deilt nokkuð um þetta hlutfall þegar fjárlögin voru samþykkt en ríkið vildi að það lækkaði niður í 0,88 prósent. Það hefði þýtt um tveggja milljarða tekjutap fyrir sveitarfélögin. Á endanum varð niðurstaðan sú að hlutfallinu var haldið óbreyttu.

Greiða þarf sama hlutfall af fasteignum eins og iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirkjum, veiðihúsum og mannvirkjum sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Líklegt má telja að sveitarfélög þurfi að grípa til þess ráðs að hækka fasteignaskatta sem hlutfall af fasteignamati á næstu árum í ljósi mikillar niðursveiflu á fasteignamarkaði hér á landi á næstu árum. Spáð hefur verið um 47% lækkun húsnæðisverðs til 2010.

þungar byrðar

INNI í fasteignagjöldum er ekki aðeins fasteignaskattur heldur einnig lóðarleigu- og holræsagjald. Holræsagjaldið er oft um helmingurinn af fasteignamatinu. Í Reykjavík er það 0,105 prósent af fasteignamati en lóðarleigugjaldið er 0,08 prósent.

Sé miðað við að fasteignamat íbúðar sé 20 milljónir greiðir eigandi þess því um 79,8 þúsund á ári í fasteignagjöld. Eins og nafnið gefur til kynna fer það fé sem íbúar greiða í holræsagjald til rekstrar holræsakerfis.

Þessu til viðbótar þurfa íbúar og eigendur húsnæðis einnig að greiða svokallað sorphirðu- og vatnsgjald.

Algengt gjald hjá sveitarfélögum er um 20 þúsund krónur fyrir þetta tvennt.

Að auki þarf að greiða sérstaklega fyrir tunnur sem eru í boði þegar kemur að sorphirðu.