Rannsóknir Erla Björk Örnólfsdóttir heldur sínu striki við uppbyggingu rannsókna á lífríki Breiðafjarðar. Markmiðið er að kortleggja fæðuvef fjarðarins og byggja skynsamlega nýtingu auðlindarinnar á þeim upplýsingum.
Rannsóknir Erla Björk Örnólfsdóttir heldur sínu striki við uppbyggingu rannsókna á lífríki Breiðafjarðar. Markmiðið er að kortleggja fæðuvef fjarðarins og byggja skynsamlega nýtingu auðlindarinnar á þeim upplýsingum. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Það er tilviljun að ég er hér. Þegar ég sá starfið hjá Vör auglýst í byrjun árs 2006 var ég hér heima á milli starfa í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það sótti ég um.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Það er tilviljun að ég er hér. Þegar ég sá starfið hjá Vör auglýst í byrjun árs 2006 var ég hér heima á milli starfa í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það sótti ég um. Það lýsir mér svolítið að ég hef áhuga á mörgum rannsóknarsviðum innan líffræðinnar og hef gjarnan gripið gæsina þegar hún hefur gefist,“ segir Erla Björk Örnólfsdóttir, forstöðumaður Varar sjávarrannsóknaseturs við Breiðafjörð.

Sjávarrannsóknasetrið er með aðsetur í Ólafsvík og hefur verið að byggjast upp hægt og bítandi. Þar eru nú fimm starfsmenn, auk Erlu; sjávarútvegsfræðingur, tveir mastersnemar í líffræði við Háskóla Íslands og tveir rannsóknarmenn. Erla gerir sér vonir um að sá sjöundi bætist við á þessu ári. Vör er algerlega fjármögnuð með rannsóknastyrkjum og öðrum styrkjum frá fyrirtækjum og ríkinu og hefur orðið ágætlega ágengt í starfi sínu.

„Starf mitt hér er mjög fjölbreytt. Þegar ég lít í baksýnisspegilinn sé ég að það hefur verið einstakt tækifæri fyrir mig, að fá þetta starf,“ segir hún.

Skilja samhengi hlutanna

Frá upphafi hafa Erla Björk og samstarfsfólk hennar hjá Vör lagt alla sína krafta í að rannsaka vistkerfi Breiðafjarðar frá grunni, það er að segja svifþörungana og eðlis- og efnafræðilegt umhverfi þeirra. Efnamælingar á sjó eru unnar í samstarfi við Sólveigu Ólafsdóttur hjá Hafrannsóknastofnuninni. Síðan hefur dýrasvif bæst við. „Þetta er grunnurinn fyrir rannsóknum sem tengjast nýtingu sjávarfangs á arðbæran hátt. Það er lokatakmarkið,“ segir Erla og skýrir þetta nánar:

„Við erum að byrja frá grunni vegna þess að þekking á svifþörungum og dýrasvifi í Breiðafirði er takmörkuð. Mér fannst því skynsamlegast að byrja á því. Síðan má prjóna aðra hluti við. Ég tel að stefna eigi að því að þekkja fæðuvefinn í Breiðafirði í heild sinni. Það má til dæmis gera með því að setja upp tölvulíkan þar sem allir lykilþættir lífríkisins eru settir inn, hver étur hvern og svo framvegis. Þegar líkanið er fullgert má svo taka út einstaka þætti og skilja samhengi hlutanna. Þá má reyna að svara spurningum um það hvað ræður því hvaða tegundir eru hér, hversu mikið af þeim og hvernig skynsamlegast er að nýta þær. Ég verð sátt ef ég næ þessu,“ segir Erla Björk.

Grunnrannsóknir af þessu tagi taka langan tíma því að breytileiki lífríkis og umhverfis er mikill frá ári til árs, eins og best sést í veðurfari. Vör er á sínu þriðja rannsóknarári. „Heimamenn göptu þegar ég sagði þeim að í mínum huga væru langtímarannsóknir tveggja til þriggja áratuga vinna,“ segir hún. Á þessu ári kynna starfsmenn Varar raunar frumniðurstöður fyrstu rannsóknaverkefna sinna.

Samhliða grunnrannsóknunum vinnur Vör að þjónustu við fyrirtæki. Helsta verkefnið á því sviði er rannsókn á beitukóngi í Breiðafirði.

Ýtir undir áhuga á náttúrunni

Vör var stofnuð af sveitarfélögum, fyrirtækjum og samtökum sjávarútvegsins, ekki síst í Snæfellsbæ og Grundarfirði, og Háskóla Íslands. „Það skiptir máli að hafa þekkingarsetur á landsbyggðinni, meðal annars vegna þess að þar er vísindafólkið nær rannsóknarefninu, við fáum aðra sýn á verkefnið. Það er líka kostur að við sem vinnum í litlum þekkingarsetrum á landsbyggðinni þurfum að leita samstarfs við aðrar stofnanir um ýmsa hluti og erum þess vegna meðvituð um smæð okkar. Staðsetningin skiptir einnig máli fyrir fólkið á stöðunum.

Ég hef og ætla að vinna þannig að það sé auðveldara fyrir fólk á Vesturlandi að nálgast upplýsingar og komast í tæri við sjóinn. Ég vil miðla þeirri þekkingu um náttúruna sem ég hef aflað mér. Grúsk er skemmtilegt. Ég vil ýta undir áhuga barna og unglinga á náttúrunni,“ segir Erla.

Tvíeflist við viðurkenningar

Vör fékk viðurkenningu sem frumkvöðull ársins á Vesturlandi 2007 og Erla Björk var valin Vestlendingur ársins 2008 af héraðsfréttablaðinu Skessuhorni. Hún reynir ekkert að fela það að henni þykja viðurkenningar úr samfélaginu á Vesturlandi góðar. „Þetta er klapp á öxlina og það er gaman að vita af því að einhverjir hafa tekið eftir því sem við erum að gera og telja það þess vert að vekja á því athygli.

Ég er svo hégómleg að ég tvíeflist við þetta, biddu fyrir þér. Ég verð að gera enn betur en áður til að sýna að ég er þessarar viðurkenningar verð. Það hafa margir samglaðst mér en skemmtilegastar eru kveðjur frá skólasystkinum mínum úr barnaskóla í Borgarfirði. Ein skólasystir sagði að gaman væri að sjá að ég hefði farið í langskólanám og komið til baka. Ég vil gjarnan láta nota mig sem slíka grýlu, ef það verður til þess að fleiri sjái að það er einhvers virði að fara í nám,“ segir Erla Björk Örnólfsdóttir.

Í hnotskurn
» Erla Björk Örnólfsdóttir er 42 ára, fædd og alin upp í Borgarfirði.
» Hún lauk mastersprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1994 og doktorsprófi í sjárvarlíffræði frá Texas A&M University í Bandaríkjunum árið 2002.
» Erla Björk hefur verið forstöðumaður Varar sjávarrannsóknaseturs frá stofnun, 2006. Áður starfaði hún í Bandaríkjunum við rannsóknir á samfélögum svifþörunga og veira er þá sýkja. Þá starfaði hún um tíma á Veiðimálastofnun.