Klukkan er fjögur að morgni í Mexíkóborg. Miguel, annars árs verkfræðinemi við UNAM-háskólann í borginni, hefur sig til fyrir fyrsta tímann sinn. Kennslustundin hefst klukkan sjö. Framundan er rúmlega tveggja klukkustunda bíltúr frá íbúð Miguels í norðurhluta borgarinnar að háskóla hans sunnar í borginni. Bíltúr innan um fjórar milljónir annarra bifreiða í borg, sem sannarlega aldrei sefur. Verkfræðinámið liggur honum mikið á að klára. Af hverju veltir maður fyrir sér. Hann lítur ekki svo á að verkfræðigráðan færi honum tækifæri í heimalandinu, heldur vill hann komast burt. Hvert? Mér til mikillar undrunar svarar hann: „Svíþjóð.“
Ísland heillar hann ekki. Nafnið ÍS-land líklega fráhrindandi fyrir íbúa borgar, þar sem hitastigið að degi til fer nánast aldrei niður fyrir 20°C. Meira að segja í rúmri hæð Hvannadalshnjúks.
Tuttugu milljónir í dalnum
Borgin sjálf liggur ofan í dal kenndum við Mexíkó, umkringd fjöllum sem slíta þennan þéttbýliskjarna frá eyðimörkinni sem handan fjallanna liggur. Þessi fjölmennasti þéttbýliskjarni Vesturheimsins, með 20 milljónir íbúa, hefur fyrir löngu sprengt sín náttúrulegu landamæri og er nú farinn að skríða upp í hæðirnar og hólana umhverfis borgina. Skriða sem myndað hefur magnaða sýn á samspil manns og náttúru þar sem byggðin teygir sig upp í áður ósnortna náttúruna umhverfis borgina. Lega borgarinnar, niðri í dalnum, gerir hana enn viðkvæmari fyrir eigin mengun, þar sem fjöllin mynda skjól fyrir veðri; líkt og Esjan dregur fjallgarðurinn mjög úr úrkomu í borginni, úrkomu sem myndi sía loftið af ryk- og reykmengun. Sprungið samgöngukerfi, útblástur frá verksmiðjum og brennsla á jarðgasi og kolum til raforkuframleiðslu hefur gert Mexíkó að einu mengaðasta svæði heims. Kaldrifjuð afleiðing efnahagssögu landsins.Allt þetta nefnir hann Miguel sem ástæður fyrir yfirvofandi brottför sinni. Þó stendur ein ástæða ofar öðrum. Á hverjum degi eyðir hann fimm klukkustundum í ferðir í skólann og til baka. Ástandið á götum borgarinnar er orðið svo, að yfirvöld eru farin að reisa upphleyptar hraðbrautir ofan á þeim sem fyrir eru. Þrátt fyrir það hreyfist umferðin á annatímum nánast ekki neitt og stundum er talað um samgöngukerfi borgarinnar sem heimsins stærsta bílastæði. Á miðjum breiðgötum og hraðbrautum geta strandaglópar orðið sér úti um dagblað til afþreyingar á leið í eða úr vinnu, kalt vatn, heitar samlokur, snakk, gosdrykki, batterí og einhvers staðar sá ég glitta í límbandsrúllu til sölu.
Út með tannkrem, inn með banka
Á síðustu árum hefur Mexíkóborg gengið í gegnum gríðarlegar breytingar, þungaiðnaður sem eitt sinn setti drungalegan svip á alla borgina hefur færst til úthverfanna og nágrannaborga. Nú starfa einungis um 15% borgarbúa við stóriðju, tala sem árið 1970 stóð í 52%. Hugvísindaiðnaður, á við samskiptatækni, fjármálastarfsemi, tryggingastarfsemi og ýmiss konar þjónustuiðnað, hafa á undanförnum árum verið að taka borgina yfir. Fjármálahverfið Santa Fe er miðpunktur fjármálastarfsemi landsins. Nokkurs konar Wall Street Mexíkó sem hefur á einungis nokkrum árum losað sig við Colgate-tannkremsverksmiðju sem eitt sinn prýddi borgarhlutann og fengið til sín í staðinn háhýsi, höfuðstöðvar fjármálarisa, mexíkanska olíurisans og fimmta stærsta fyrirtæki heims, PeMex, auk ýmissa annarra stórfyrirtækja, með tilheyrandi jakkafataflóði og innrás evrópskra og norðuramerískra merkjavörufyrirtækja, sem sjá starfsmönnum Santa Fe fyrir nauðsynlegum fylgihlutum slíkra borgarhluta.Annar minnisvarði um uppsveiflu síðustu ára er miðbærinn. Svæði sem minnti mig skemmtilega á stræti New York-borgar. Innan um sögufrægar byggingar og nýreist háhýsi er þar að finna dýrar merkjavöruverslanir, Ferrari-umboð, og jú, meira að segja Starbucks-kaffihús. Eins og nafnið gefur til kynna, Centro Historico, er þar einnig gríðarlega sögu að finna. Sögu sem nær allt aftur til tíma Aztekanna sem eitt sinn byggðu þennan dal. Má þar enn finna leifar horfins heims. Heims sem að miklu leyti var þurrkaður út við komu spænsku trúboðanna, sem byggðu kaþólskar kirkjur ofan á eitt sinn stórglæsilegum píramídum og indíánahofum. Situr dómkirkja landsins meðal annars yfir gömlu hofi og grafhýsi Aztekanna. Ýmsar tilraunir borgaryfirvalda til að grafa upp horfinn menningarheim Aztek-indíánanna hafa runnið út í sandinn og liggja nú ýmsar ómetanlegar fornminjar óvarðar gegn áreiti tuttugu milljóna íbúa, mengunar og almennt slæmrar umgengni í borginni. Miðbærinn er að miklu leyti byggður á vatnsgrunni og fenjasvæði. Eru því margar helstu byggingar miðbæjarins, á við forsetahöllina og áðurnefnda dómkirkju, að sökkva í fen undir borginni. Sumar byggingar um allt að tvo sentimetra á ári.
Gleymdu íbúarnir
Ekki hafði ég verið lengi í Mexíkó þegar mér var gerð grein fyrir hinu óskrifaða farbanni til ákveðinna svæða borgarinnar. Þrátt fyrir glæsilegan miðbæ skammt frá og bersýnilegar framfarir síðustu ára eru stórir hlutar borgarinnar, með íbúatölu margfaldri þeirrar íslensku, án rafmagns, rennandi vatns og annarrar grunnþjónustu. Hverfi, sem í áratugi hafa barist við fátækt og örbirgð svo hrikalega, að fá orð fá lýst. Þessi svæði virðast hafa horfið algjörlega úr minni þeirra sem hafa stýrt uppgangi annarra hverfa og svæða borgarinnar, því þau hafa verið óbreytt í áratugi.Það er þó ekki þar með sagt að vandamál borgarinnar séu einangruð á þeim svæðum. Ekki alls fyrir löngu tilkynnti vatnsskömmtunarráð borgarinnar að vegna lítillar úrkomu síðustu regntímabila væru vatnsbirgðir borgarinnar hættulega litlar. Var því ákveðið að grípa til 110 daga vatnsskömmtunar og vatnsflæðið sumstaðar skorið niður um helming. Verkfræðineminn Miguel kunni vissulega ráð við því. Hann sýndi mér m.a. múrstein sem hann hafði sett í vatnskassann á klósetti sínu. Þetta sparar vatn í hvert skipti sem sturtað er niður. Uppvaskið er sparað, pappadiskar og glös notuð eins oft og hægt er, vatninu eftir uppvaskið skvett út á trén og þvottavélin ekki sett í gang fyrr en hún er full. Hver einasti dropi nýttur.
Miguel er þó ekki eini borgarbúinn sem virðist vera búinn að fá nóg af vatnsskorti, hækkandi glæpatíðni, rafmagnsleysi, umferðarhnútum og koltvísýringsútblæstri.
Borgir umhverfis stórborgina hafa á undanförnum árum verið áfangastaður gríðarlegs fólksflótta íbúa Mexíkóborgar sem fengið hafa sig sadda af heimkynnum sínum. Querétaro hefur til dæmis margfaldast að stærð á einungis 15 árum. Þangað hafa þó ekki einungis íbúar flutt, heldur hafa framleiðslufyrirtækin Ford Motors, Bombardier og þýski vörubílarisinn MAN nýlega flutt verksmiðjur sínar þangað.
Querétaro, líkt og þjóðin í heild, reiðir sig á verslun við Bandaríkin. Verslun sem hefur gert borgina að einni þeirri ríkustu í landinu. Þar var fyrsti alþjóðlegi flugvöllurinn lagður árið 2004, sem kveikti enn meiri áhuga fjárfesta á svæðinu. Grunnstoðirnar eru framleiðsla og iðnaður henni tengdur, oft í beinni eigu bandarískra stórfyrirtækja. Vegna þessara sterku tengsla hefur borgin, og landið í heild sinni, ekki farið varhluta af efnahagsástandi nágranna þeirra í norðri undanfarið ár eða svo.
Minna fé úr norðri
Þjóðin sjálf hefur fengið sinn skerf af efnahagskreppum. Sú síðasta reið yfir 1994, en ástandið núna virðist ætla að reynast enn erfiðara. Helsta útflutningsafurð landsins er olía, sem flutt er yfir landamærin til Texas. Þar er hún unnin og afurðirnar, plast, bensín, terpentína, gas o.fl., fluttar beint aftur yfir landamærin til notkunar í Mexíkó. Fyrirkomulagið hefur verið harðlega gagnrýnt af almenningi og benda margir á spillingu í kringum olíurisann PeMex og ýmsar kenningar eru um tengsl nýkjörins forseta landsins við olíurisa Bandaríkjanna.Önnur helsta erlenda tekjulind Mexíkó eru peningar, beinharðir seðlar sendir heim, suður yfir landamærin frá ættingjum og vandamönnum starfandi í Bandaríkjunum. Flestir löglega, þó svo að milljónir séu þar ólöglega að störfum. Peningasendingar hafa á einu ári fallið um 2,2%, sem samsvarar rúmum milljarði Bandaríkjadollara. Milljarður dollara, sem eitt sinn hýsti, fæddi og klæddi fátæka ættingja vinnandi Mexíkana í norðri. Olíuverðið hríðlækkar og bandaríski bílamarkaðurinn hefur hrunið, sem hefur mikil áhrif í Mexíkó, þar sem framleiðsla fyrir bílarisana er mikil. Allt þetta hefur sett efnahag landsins á heljarþröm og hann stendur nú á brauðfótum.
Landamæraborgirnar sem liggja að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna eru mikilvægir hlekkir í viðskiptum landanna. Um landamærin í Júarez í Mexíkó og El Paso í Texas streyma til dæmis um tvær milljónir manna mánuð hvern. Önnur mikilvæg landamæraborg er Laredo, þar sem um 8.000 vörubílar streyma í gegn dag hvern, 12 milljónir tunna af olíu, ásamt tugþúsundum sjónvarpa, dvd-spilara, hundruðum tonna af matvælum, meðal þeirra 500 tonn af jalapéno-pipar og 8.000 lítrar af tequila.
Um helmingur allra vöruskipta Bandaríkjanna við Mexíkó fer um þessa einu landamærastöð.
En tequila, olía og tabasco-sósa er ekki það eina sem hér streymir í gegn. Annar blómstrandi iðnaður landsins á upptök sín fyrir sunnan syðri landamæri Mexíkó. Inn um nánast óvarin landamærin í suðri streyma ólöglegir innflytjendur. Flestir á leið þvert yfir fjalllendið og áfram yfir Rio Grande-ána yfir landamærin til Bandaríkjanna. En aukið áhyggjuefni vestrænna þjóða er kókaínið, efni sem framleidd eru í fjalllendum Bólivíu, Kólumbíu og annarra nágrannaríkja landsins í suðri. Fíkniefnin ferðast í gegnum Mexíkó á leið sinni til Bandaríkjanna, sem er heimsins stærsti markaður efnisins. Þessi straumur fíkniefna er iðnaður sem illa hefur tekist að uppræta. Undanfarin tvö ár hafa verið skipaðir yfir 45.000 hermenn og 10.000 nýir lögreglumenn í baráttunni gegn þessari þjóðfélagsvá, stríði sem eiturlyfjakóngarnir heyja með vopnum keyptum löglega í Bandaríkjunum. En baráttunni fylgja ýmis vandamál, eins og ofbeldisaldan sem hefur gengið yfir landið undanfarið, en er þó hvað sýnilegust í landamæraborgunum Ciudad Júarez, Tijuana, Nuevo Laredo og Culiacán. Borgirnar, sem liggja á rúmlega 3.000 km löngum landamærum Mexíkó við Bandaríkin í norðri, voru eitt sinn blómstrandi áfangastaðir bandarískra ferðamanna í leit að góðri kvöldstund, með kúbuvindil og mexíkanska margarítu, en eru nú í blóðugri herkví eiturlyfjasmyglara.
„Gringó“ fær sér bjór
En Mexíkó hefur alltaf verið og mun alltaf vera Mexíkó. Heillandi áfangastaður, þar sem fallegustu baðstrendur heims leynast, þar sem matargerðarlistin náði nýjum hæðum, þar sem Marilyn Monroe drakk sína fyrstu margarítu, þjóðardrykk landsmanna. Veðurfarið er himneskt og andrúmsloftið afslappað. Þrátt fyrir svörtu blettina á landinu þrífst þar menning sem alltof fáir fá að njóta. Þeir sem gera það gleyma því aldrei.Á lokagöngutúr í gegnum Azcapotzalco-hverfi Mexíkóborgar settist ég ásamt hópi heimamanna á veitingastað. Tveir barþjónar viku sér undan áður en sá þriðji afgreiddi hvíta manninn með bjór. Einn barþjónanna heyrðist segja að það ætti að kenna „gringóinum“ að tala spænsku. Þá útskýrði ég fyrir þeim, að hér væri á ferðinni Íslendingur. Eftir að þeir höfðu fullvissað sig um að Ísland væri ekki í Bandaríkjunum átti ég í mesta basli við að komast út. En það hafðist að lokum.
Eftir óumbeðið tequila-skot og kaldan bjór í veganesti.
Í boði hússins.