Hlédís Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1967. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu, Snægili 9 á Akureyri, 23. júní 2009. Foreldrar hennar voru Gunnar Indriðason bifreiðastjóri, f. í Lindarbrekku í Kelduhverfi 10. nóvembver 1932, d. 9. desember 2000 og Kristveig Árnadóttir stöðvarstjóri, f. í Skógum í Öxarfirði 25. febrúar 1936. Bræður Hlédísar eru 1) Gunnar Ómar, f. 29. júlí 1954, kvæntur Hrafnhildi Stellu Sigurðardóttur, f. 18. desember 1956. Börn þeirra eru a) Óðinn, f. 26. ágúst 1975, kvæntur Svövu Gerði Magnúsdóttur, f. 20. október 1981. Dætur þeirra eru Karitas Embla, f. 4. mars 2004 og óskírð, f. 6. júní 2009. b) Ósk, f. 10. apríl 1980. c) Ævar, f. 27. maí 1981 og d) Orri, f. 29. mars 1993. 2 ) Árni Grétar, f. 19. október 1955, kvæntur Margréti Sigurðardóttur, f. 7. janúar 1963. Synir þeirra eru Rúnar, f. 22. júlí 1984 og Hilmar, f. 9 mars 1989. Sonur Árna er Gunnar, f. 14. janúar 1980, í sambúð með Brynju Hrafnkelsdóttur, f. 29. september 1982. Árið 1987 hóf Hlédís sambúð með Páli Steingrímssyni, f. 26. nóvember 1965. Þau slitu samvistum. Sonur þeirra er Elvar, f. 30. maí 1989. Hlédís ólst upp hjá foreldrum sínum í Lindarbrekku í Kelduhverfi og bjó þar til 18 ára aldurs. Skólagöngu stundaði hún í Barnaskólanum í Skúlagarði, Miðskólanum í Lundi í Öxarfirði og lauk verslunarprófi frá Framhaldsskólanum að Laugum í Reykjadal 1985. Hlédís flutti til Kópaskers ásamt foreldrum sínum 1985 og flutti síðan árið 1987 til Akureyrar ásamt sambýlismanni sínum, Páli Steingrímssyni. Þau keyptu fyrst íbúð að Smárahlíð 23 og síðan raðhús að Bogasíðu 8. Hún flutti síðan aftur til Kópaskers 1995 og svo aftur til Akureyrar árið 2003. Keypti sér þar sína eigin íbúð að Snægili 9 og bjó þar til dauðadags. Hlédís vann bæði við verslunarstörf og við matvælaframleiðslu. Hún vann lengi hjá fyrirtækjum eins og Versluninni Síðu á Akureyri, hjá Kjarnafæði, hjá Rækjuverksmiðjunni Geflu á Kópaskeri, hjá Fjallalambi á Kópaskeri og að lokum hjá Rækjuverksmiðjunni Strýtu á Akureyri. Síðustu tvö árin stundaði hún vinnu á Iðjulundi sem er verndaður vinnustaður. Útför Hlédísar fer fram frá Garðskirkju í Kelduhverfi í dag, 2. júlí og hefst athöfnin kl. 14.
Hjartað hætti að slá þegar Erla systir hringdi í mig á fallegum sumardegi hinn 23. júní síðastliðinn og sagði mér frá andláti þínu, elsku yndislega Hlédís frænka mín.
Svo ótrúlegt og svona óvænt ung kona í blóma lífsins, 42 ár er enginn aldur og lífið rétt að byrja& og þú átt ungan son hann Elvar yndislega. Mér fannst guð ekki góður og er varla farin að trúa að þú sért farin frá okkur elsku Hlédís okkar.
Við ólumst upp í sömu sveit, hinu yndislega Kelduhverfi, þar sem bæirnir okkar standa hlið við hlið, náskyldar því pabbi þinn og mamma mín voru systkini. Við börnin á Keldunesbæjunum vorum eins og stór systkinahópur. Það var ótrúleg tihlökkun þegar von var á þér í heiminn, yngst í systkinahópnum og ég passaði þig. Svo fæddist Ari Þór bróðir, litli prinsinn, tveim árum seinna og þið voruð yndisleg saman, alltaf að leika ykkur saman og urðuð rosalega góðir vinir. Það var vinátta sem alltaf hélst mjög sterkur strengur á milli ykkar.
Þið voruð í raun eins og systkini alltaf brallandi eitthvað saman, s.s. sulla við Brunnana og annað skemmtilegt. Bæirnir okkar Höfðabrekka og Lindarbrekka standa mjög nálægt hvor öðrum og stutt að fara til að hitta hvort annað. Foreldrar okkar unnu mikið saman, bæði í búskapnum og öðrum störfum. Svo var símstöðin og pósthúsið hjá ykkur í Lindarbrekku og þar var alltaf nóg að gera. Einnig átti Gunnsi pabbi þinn vörubíl sem hann gerði út og oft fengum við krakkarnir að fara í póstferðir með foreldrum þínum og fleiru skemmtilegu fólki. Þetta var yndislegur tími og algjör draumur að alast upp í sveitinni. Svo rak amma okkar, hún Stína, hótel fyrir Kaupfélag Norður- Þingeyinga á Kópaskeri og þar vorum við barnabörnin sannarlega velkomin bæði í leik og starfi og borðuðum mikinn og góðan mat hjá ömmu. Oft höfum við hlegið að því, að við í fjölskyldunum erum öll tággrönn, þrátt fyrir allan góða matinn sem amma hlóð í okkur.
Já, minningarnar frá uppvextinum eru bara yndislegar og notalegt að hafa núna þegar þú ert farin frá okkur.
Elsku Hlédís.
Skólaárin þín hófust í Skúlagarði og svo fórstu í Lund í Axarfirði eins og börnin í Kelduhverfi gerðu á þessum árum. Þú varst strax mjög dugleg að læra, samviskusöm og dugleg stelpa. Unglingsárin fóru mjög vel í þig og þið Ari Þór alltaf jafn góðir vinir ásamt börnum Gulla tvíburabróður pabba þíns og fjölskyldu sem þau bjuggu á Kópaskeri. Þið Ari Þór, Indriði Þröstur og Kristín Huld, voruð yndisleg saman og brölluðu margt á æskuárunum. Þú fórst í Laugaskóla í Reykjadal, kláraðir verslunarpróf með glans.
Elsku Hlédís, svo tóku fullorðinsárin þín við og þú varst ótrúlega dugleg að vinna og ekki má gleyma er þú aðstoðaðir við sauðburðinn í Höfðabrekku.
Elsku Hlédís, þú varst ótrúlega lífsglöð kona og alltaf í góðu skapi, það er ekki öllum gefið og svo varstu ótrúlega gjafmild og fengum við ættingjarnir að kynnast því og frændrækni þín var yndisleg. Við munum alltaf þakka fyrir að unga fólkið í fjölskyldunni stóð fyrir því síðasta sumar að Lindarbrekkuættin, ættin okkar hittist á ættarmóti í Lindarbrekku í Kelduhverfi þar sem við heiðruðum minningu elskulegra afa og ömmu okkar, Indriða Hannessonar og Kristínar Jónsdóttur. Það var yndisleg helgi sem við áttum saman á æskuslóðum okkar og þú varst hrókur alls fagnaðar og naust þín í botn.
Elsku Hlédís, þær eru óteljandi minningarnar sem fljúga um huga okkar núna á kveðjustundinni og allar eru þær meiriháttar notalegar.
Við fjölskyldan í Höfðabrekku vottum þér, elsku Elvar, Didda, Ómar, Árni Grétar og fjölskyldur, okkar dýpstu samúð og biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Samúðarkveðjur.
Fjölskyldan í Höfðabrekku,
Jonni, Erla, Garðar, Greta, Ari, Þór, Ragnheiður og fjölskyldur.