Sólveig Vilhjálmsdóttir fæddist í Torfunesi í Ljósavatnshrepi í Suður Þingeyjarsýslu þann 30. 06. 1914. Hún lést á Dvalarheimilinu Kjarnalundi á Akureyri 25. ágúst síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Vilhjálms Friðlaugssonar, f.22.10.1879 að Hafralæk í Aðaldal í Suður Þingeyjarsýslu, d.13.06.1964 og Lísibetar Indriðadóttur, f.20.04.1873 í Vestri-Krókum, Hálshreppi í Suður Þingeyjarsýlu, d.06.02.1968. Systkini Sólveigar voru.: Jónas, f.16.01.1909, d.03.05.1978, Indriði Kristbjörn f. 16.01.1909, d.03.05.192,4 Friðlaugur Hermann, f.08.06.1910, d.02.12.1998, Björn f. 12.03.1913, d. 19.02.1997, Hallgrímur, f. 11.12.1915, d. 14.09.1981 og Torfi, f. 20.03.1918, d. 16.07.1966. Sólveig giftist 12. júní 1943 Árna Ingólfssyni frá Skálpagerði í Kaupangssveit í Eyjafirði, f. 21. mars 1918. Hann lést 10. 02. 2007. Þau bjuggu fyrstu árin að Strandgötu 9 á Akureyri, en frá árinu 1948 bjuggu þau sér heimili að Víðivöllum 4 þar í bæ. Síðustu æviárin dvöldu þau á Dvalarheimilinu Kjarnalundi. Börn þeirra eru.: 1) Vilhjálmur Ingi, f. 12.10.1945, synir hans og Helenu Dejak eru: a) Vilhjálmur Ingi, f. 19.10.1975, sambýliskona Erla María Lárusdóttir, b) Árni Valur, f.26.08.1981, sambýliskona Sunna Björg Birgisdóttir. Sonur Árna Vals er Ægir Daði, 06.01.2001. 2) Tryggvi, f. 27.09.1948, kvæntur Björgu Sigríði Skarphéðinsdóttur, f.07.05.1950. Börn þeirra eru: a) Vala f. 26.03.1975, gift Friðfinni Gísla Skúlasyni, f. 27.07.1972, börn þeirra eru, Björg Elva, f. 17.07.2002 og Skúl, f. 18.08.2008, b) Heimir f. 17.07.1977, sambýliskona Vala Þóra Sigurðardóttir, f.27.02.1977, börn þeirra eru Dröfn, f. 25.05.1999 og Úlfar f. 03.02.2007, c) Sólveig Ása, f. 10.09.1984. 3) Ingibjörg Bryndís f. 18.01.1953, börn hennar eru: a) Kolbrún Inga, f. 02.06.1971, sambýlismaður Egill Áskelsson, barn þeirra Áskell, f. 15.12.2006, dætur Kolbrúnar eru Þorbjörg Una, f.19.03.2001 og Hrafnhildur, f. 22.12.1989, dóttir hennar er Tinna Ýr Brynjarsdóttir, b) Árni Brynjar Óðinsson f. 6. 12. 1984. Sólveig ólst upp í Torfunesi í Köldukinn og stundaði þar almenn sveitarstörf þar til hún fór til náms við Húsmæðraskólann að Laugum í Reykjadal. Hún stundaði ýms störf, var í kaupavinnu að Húsafelli og vann á saumastofu í Reykavík. Eftir að hún fluttist til Akureyrar hélt áfram að starfa við sauma, en vann einnig hjá Útgerðarfélagi Akureyrar og á Fataverksmiðjunni Heklu. Þótt Sólveig starfði jafnan utan heimilis var húsmóðurstarfið þó ætíð aðalstarf hennar. Útför Sólveigar fer fram frá Höfðakapellu á Akureyri föstudaginn 4. september kl. 13:30.

Nú er þitt ævikvöld liðið elsku amma mín og þú komin til afa á góðan stað. Er ég viss um að þar eru nú fagnaðarfundir. Eftir sit ég sátt og glöð með það að hafa fengið að kynnast þér og dveljast svo mikið hjá þér og afa sem ég gerði frá unga aldri. Þið voruð alltaf til staðar fyrir mig og á ég ykkur mikið að þakka mína velgengni í námi og starfi.

Ákveðni og beinskeytni einkenndu m.a. persónuleika þinn en einnig hlýja og velvild. Þið afi lifðuð samstilltu og hógværu lífi og áttuð traust og gott heimili. Ykkur fannst gaman að ferðast og eru þær dýrmætar minningarnar mínar úr útilegum, berja-og lautarferðum.

Þegar ég var lítil stelpa, var ég oft veik og þá vantaði aldrei kærleika og umhyggju í minn garð né tíma til að sinna mér. Alltaf beið hitapoki í rúminu eftir mér á kvöldin þegar ég gekk til náða svo mér yrði hlýtt á fótunum og alltaf fékk maður heitt kakó og köku eða kleinu fyrir svefninn svo maður sofnaði ekki svangur. Ég gekk í barnaskóla beint á móti húsinu ykkar afa og var það ómetanlegt að geta komið yfir til ykkar í frímínútum eða eftir skóla og fá hlýjar móttökur og gott að borða en aldrei var skortur á mat né brauði á eldhúsborðinu hjá þér. Þegar ég óx svo úr grasi og fór að búa sjálf, kom ég mjög oft í kaffi og spjall þegar stund gafst milli stríða. Veisluborðin hjá þér voru ætíð glæsileg og kökurnar góðar. Súkkulaðikakan þín góða er það sem maður man best eftir ásamt fleiru sem þú galdraðir svo listfenglega fram.

Þú varst einstaklega lagin í höndunum, útsjónasöm og hagnýt húsmóðir. Allt sem þú saumaðir eða prjónaðir, hvort sem það voru útsaumsmyndir eða ullarsokkar, sýnir einstakt og vandað handbragð. Þú saumaðir ófáar flíkurnar á mig í gegnum tíðina og þegar ég komst til unglingsára saumaðir þú hverja tískuflíkina á eftir annarri eftir  pöntun minni. Síðar meir, þegar ég fór að eldast kenndir þú mér handbrögðin  og á ég þér að þakka mína saumakunnáttu í dag.

Blóm og ýmislegt tengt náttúru áttu hug þinn og var garðurinn þinn sunnan við hús alltaf vel hirtur og fallegur. Það var svo gaman að leika sér þar og ekki get ég gleymt öllum fuglunum sem komu daglega á köldum vetrardögum til að borða brauðmylsnuna í snjónum sem þú hafðir safnað saman handa þeim. Já, þær eru margar ljúfar minningarnar sem sitja eftir og væri hægt að telja margt upp til viðbótar. Læt ég hér þó staðar numið að sinni og kveð þig með virðingu og þökk.

Hvíl þú friði elsku amma mín, ég veit að þið afi vakið yfir mér og mínum og við sjáumst síðar.

Þín,

Kolbrún.