Snorri Páll Snorrason læknir fæddist á Rauðavík á Árskógsströnd 22. maí 1919. Hann lést á Droplaugarstöðum laugardaginn 16. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Snorri Halldórsson héraðslæknir, símstjóri og oddviti á Breiðabólstað á Síðu f. á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu 18.10. 1889, d. í Reykjavík 15.7. 1943, og Þórey Einarsdóttir f. á Hömrum í Eyjafirði 18.9. 1888 d. 29.3. 1989. Bróðir Snorra var Halldór f. 1924. d. 2007, maki Kristín Magnúsd og áttu þau 1 son, en Halldór átti 2 dætur af fyrra hjónabandi. Hálfsystkini Snorra í föðurætt eru: Sigurbjörg f. 1929. d. 2005, maki Sveinn Ásgeirsson áttu 3 börn. Guðmundur f. 1931, maki Bryndís Elíasd. eiga 3 börn. Egill f. 1936, d. 1994, maki Svana Tryggvad, áttu 3 börn. Hálfsystkini Snorra í móðurætt eru Sóley f. 1931, maki Jón Hilmar Magnúss eiga 7 börn. Svanhvít tvíburasystir Sóleyar, á 1 barn. Rósa Guðrún f. 1936, maki Brynjar Halldórsson, eiga 7 börn. Faðir þeirra er Jón Kristjánsson sjómaður frá Litla-Árskógssandi. Snorri kvæntist 18.9. 1948 Karolínu Kristíu Jónsd. Waagfjörð hjúkrunarkonu f. 19.4. 1923. Þau eignuðust tvö börn: 1) Snorra Páll f. 24.2. 1959, maki Helga S. Þórarinsd. Börn þeirra Þórarinn f. 29.8. 1979. Snorri Páll f. 30.9. 1984. Hulda Dís f. 20.12. 1999. 2) Kristín f. 8.2. 1963, maki Magnús Jakobsson. Börn þeirra: Sandra f. 8.8. 1984, maki Andri Reyr Vignirsson, þau eiga 3 börn, Reynir Páll f. 30.9. 1987, og Kristín Bryndís f. 30.3. 1992. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri, lauk Snorri prófi í almennri læknisfræði við Háskóla Íslands 1949. Var heimilislæknir, aðstoðarlæknir á Vífilsstaðaspítala, síðar aðstoðarlæknir borgarlæknis og aðstoðarlæknir á lyflækningadeild Landspítalans. Snorri fór 1954 til framhaldsnáms í lyflækningum með sérstöku tilliti til hjartasjúkdóma. Vann á Massachusetts General Hospital í Boston og sem framhaldsnemi við Harvard University School þar í borg. Réðist að loknu námi á lyflækningadeild Landspítalans, varð deildarlæknir og síðan yfirlæknir frá 1970 til 1989, er hann hætti störfum. Snorri var lektor við læknadeild HÍ 1959, dósent frá 1966 og prófesor við læknadeild Háskólans frá 1983, kenndi við Hjúkrunarskóla Íslands og við Kennaraskóla Íslands, og var stundakennari við sjúkraþjálfara- og hjúkrunarnámsbrautir við HÍ frá stofnun þeirra. Snorri var meðdómari í sakadómi Reykjavíkur 1957, 1974 og 1975 og bæjarþingi Reykjavíkur 1961 og 1962. Í stjórn LFR 1958 -1964 og LF. Eirar 1959 -1960. Formaður Læknafélags Íslands 1971-1974. Í stjórn Hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna, ritari Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 1952-1954. Var einn af stofnendum Hjartaverndar og sat í stjórn 1964. Í úthlutunarnefnd bifreiða til fatlaðs fólks frá 1964 og í nefnd um eftirgjafir aðflutningsgjalda af bifreiðum til fatlaðra. Í heilbrigðisráði Íslands og var einn af stofnendum manneldisráðs. Í utanfararnefnd (vegna vistunar sjúklinga erlendis), varaformaður úrskurðar- og eftirlitsnefndar vegna ráðgjafar um fóstureyðingar. Evrópuráð styrkti Snorra til námsdvalar í Massachusetts General Hospital og Presbyterian Hosp. í Boston í mars-maí 1960, National Heart Hosp. í London, Ósló, Gautaborg, og Kaupmannahöfn 1964. Hann hefur skrifað fjölmargar greinar í innlend og erlend læknarit og ýmis tímarit um heilbrigðismál. Snorri var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 31. júlí 1980. Snorri verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 26. maí og hefst athöfnin kl. 13.

Snorri Páll var á margan hátt einstakur maður, bæði sem læknir og ekki síður sem manneskja. Í blóma lífsins veiktist hann af mænuveiki og lamaðist að hluta og bar þess merki alla tíð. Hann lét þó ekki bugast en hélt áfram námi sínu í læknisfræði og síðar framhaldsnámi í hjartasjúkdómum við hinar virtustu menntastofnanir bæði austan hafs og vestan. Óhætt er að segja að hann hafi verið meðal best menntuðu lækna í sinni sérgrein á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Ég kynntist Snorra á námsárum mínum í læknadeild og sem kandidat á lyflækningadeild Landspítalans 1954-1965. Ég minnist þess hversu mikla þekkingu Snorri hafði í sínu fagi, sem hann var óspar að miðla okkur kandidötum og öðru samstarfsfólki á deildinni sem varð til þess að ég ákvað að leggja stund á framhaldsnám í hjartasjúkdómum.

Ég minnist þó ekki síður framkomu Snorra við sjúklinga sína, sem hann umgekkst af stakri nærgætni og virðingu og gaf sér ætíð góðan tíma til að hlusta á kvartanir, en sú hlið læknislistarinnar hefur vafalítið mótast af hans eigin reynslu í baráttu hans við alvarlegan sjúkdóm.

Frá árinu 1971 var ég samstarfsmaður Snorra á hjartadeild Landspítalans allt þar til hann lét af störfum 1989. Hann var yfirlæknir deildarinnar en á þessum árum varð mjög hröð þróun í meðferð hjartasjúkdóma á Íslandi og hjartadeild Landspítalans þar í fararbroddi og rekstur hennar og starfsemi til fyrirmyndar á öllum sviðum. Ég minnist Snorra Páls á þessu tímabili fyrir það hversu vel hann fylgdist með öllum nýjungum og vísindarannsóknum og hve mikinn áhuga og ánægju hann hafði af starfi sínu. Hann lagði mikla rækt við kennslu læknastúdenta á deildinni og fór með þá á sérstakan kennslustofugang. Þeir eru margir yngri læknar í dag sem minnast með þakklæti þessarra kennslustunda.

Ég hitti Snorra Pál síðast nú í vetur á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum þar sem hann dvaldi síðustu æviár sín ásamt eiginkonu sinni Karólínu Jónsdóttur hjúkrunarkonu sem var hans stoð og stytta alla tíð. Hann var þá kominn í rafknúinn hjólastól og fór allra sinna ferða á stólnum innanhúss. Þótt líkaminn hefði hrörnað var hugurinn óbreyttur. Við ræddum lengi saman um framfarir og nýjungar í lækningum hjartasjúkdóma og sá áhugi á þekkingu og framförum sem einkennt höfðu Snorra Pál í sínu lífsstarfi hann var sá sami og verið hafði alla tíð.

Ég kveð Snorra Pál með þakklæti og virðingu í huga og við Ingibjörg vottum eftirlifandi eiginkonu hans, börnum og barnabörnum samúð okkar.

Magnús Karl Pétursson