Haraldur Brynjólfsson fæddist í Króki í Norðurárdal í Borgarfirði 28. mars 1921. Hann lést á Landakoti 26. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Arndís Ágústína Klemenzdóttir húsfreyja frá Fremri-Hundadal í Dölum, f. 22. apríl 1888, d. 24. sept. 1955 og Brynjólfur Bjarnason bóndi og barnakennari frá Skarðshömrum í Norðurárdal, f. 8. okt. 1882, d. 18. nóv. 1962. Haraldur var fjórði í röð sex systkina, og kveður nú síðastur þeirra. Honum eldri voru þau María Ólafsdóttir, sem var sammæðra hálfsystir, þá Lilja sem lést í febrúar síðastliðnum, og Gísli. Yngri voru þau Ragnheiður og Hjörtur. Haraldur kvæntist 4. júlí 1959 Sigurbjörgu Sigurðardóttur frá Miðbæ á Hellissandi, f. 22. júní 1932. Sigurbjörg átti þá tvö börn sem ólust upp hjá móður sinni og stjúpa í Króki: 1) Sigurður Sveinn Ingólfsson, búsettur á Akureyri, kvæntur Kristínu Steingrímsdóttur. Þau eiga fjögur börn: Sigurbjörgu Ósk, hún á 3 börn, Steingrím, hann á einn son, Tinnu Sif og Söndru Marínu. 2) Ingibjörg Elín Ingimundardóttir, sem búsett er í Kópavogi, gift Kristjáni Kristinssyni, þau eiga tvo syni, Þröst Smára og Harald Sindra, fyrir átti hún tvö börn Sóleyju Kristbjörgu og Stefán Inga sem á eina dóttur. Saman áttu þau Haraldur og Sigurbjörg þrjú börn: 1) Brynjólfur, býr á Akureyri, kvæntur Jóhönnu Kristínu Birgisdóttur. Þau eignuðust tvö börn, Indíönu Írisi, d. í febrúar á síðasta ári og Harald. Fyrir á Jóhanna þríbura, Birgittu Elínu, Fannar Hólm og Hönnu Maríu. 2) Guðrún Jónína, býr í Reykjavík, gift Þorkeli Daníel Jónssyni, þau eiga tvær dætur, Hörpu Valdísi og Ingibjörgu Lilju. 3) Arndís, býr í Kópavogi, gift Ingþóri Sveinssyni. Þau eiga tvö börn, Ingu Dís og Arnór. Haraldur ólst upp í Króki og tók við búi þar eftir lát foreldra sinna. 1978 flutti hann til Reykjavíkur, vann þar í Afurðasölu Sambandsins fyrsta árið en fór þá að vinna í Vökvaleiðslum og Tengi, þar sem hann vann til sjötugs er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Útför Haraldar fór fram frá Áskirkju 2. júní.
Hann pabbi gerði fleira en segja sögur hann var bóndi áður en stóru landbúnaðartækin komu. Þegar bændur voru háðari góðu sumri en þeir eru núna. Eftir að ég fór að muna eftir mér var fyrst litli Kubburinn seinna kom Nallinn, með stærri sláttuvél og ámoksturstækjum, þeir og múgavélin dugðu ágætlega í heyskapnum. Það voru að vísu langir dagar og stuttar nætur. En alltaf nóg hey nema óþurrkasumarið 1969, þá var keypt hey.
Hann mundi tímana tvenna ef ekki þrenna í landbúnaði og fleiru. Húsakynnin breyttust úr torfbæjum í steinhús, skótauið úr sauðskinnsskóm í gúmmístígvél, heyvinnuvélar úr því að vera knúnar af hestum í það að vera knúnar af dráttarvélum.
Hann var líka hárskeri, gamanleikari og eftirherma, grenjaskytta, meðhjálpari og grafari. Hjálpaði lömbum í heiminn á bæjunum í kring, lagaði traktora og fleira sem gekk úr lagi.
1978 flutti fjölskyldan á mölina, áður hafði af fyrirhyggjusemi þeirra hjóna verið byggt sumarhús á smá horni í túnfætinum sem varð til þegar vegur var lagður milli bæjanna. Þar höfum við öll átt okkar ánægjustundir.
Þá fór pabbi að vinna í Afurðasölunni á Kirkjusandi ekki þó lengi því honum bauðst vinna í Vökvaleiðslum og Tengi, þar var hann til sjötugs er hann varð að hætta vegna heilsubrests. Þar undi hann við að snitta og skeyta saman rörum í allskyns vélar og tæki.
Með auknum frítíma gafst tími til ferðalaga bæði innanlands og utan. Þau komu til Svíþjóðar til mín þegar ég bjó þar, var það eftirminnileg ferð fyrir alla. Fórum fimm fullorðin og eitt barn í ferðalag á fólksbíl til Þýskalands í gegnum Danmörk með tjald og allar græjur. Þá eyddu þau 23ja brúðkaupsdeginum í Hamborg. Það var frábær ferð. Ári seinna eignaðist ég son þennan dag, næsta strák átti ég á afmælisdaginn hans og þann þriðja skýrði ég Harald Sindra.
Pabbi kvaddi þennan heim sáttur við Guð og menn, hann var búinn að þakka fyrir sig og biðja fyrir kveðjur til allra, að morgni eins af fallegustu dögum maímánaðar.
Starfsfólki Landakots eru færðar þakkir fyrir góða umönnun hans síðustu mánuðina og mömmu fram að því.
Ingibjörg Elín.