Þorsteinn Broddason fæddist í Reykjavík, 16.júlí 1948. Hann varð bráðkvaddur við Svarthöfða í Borgarfirði 24.ágúst sl. Foreldrar hans voru Guðrún Þorbjarnardóttir,f. á Bíldudal 10.1.1915 d. 5.6.1959, og Broddi Jóhannesson, f. í Litladalskoti, Lýtingsstaðahrepp, Skagafirði 21.4.1916, d. 10.9.1994. Systkini Þorsteins eru Guðrún, f. 22.8.1941, Þorbjörn, f. 30.1.1943, Ingibjörg, f. 23.6.1950, Broddi, f. 17.10.1952, Soffía, f.4.6.1959. Fyrri eiginkona Þorsteins er Sigríður Magnúsdóttir, f. 8.2.1950. Þau skildu. Börn þeirra eru: Vin f. 19.4.1973 og Daði f. 22.12.1974. Árið 1984 kvæntist Þorsteinn eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðríði Steinunni Oddsdóttur, f. 11.3.1948. Sonur þeirra er Oddur Broddi, f. 12.3.1984. Þorsteinn ólst upp í Reykjavík en fjölskyldan bjó öll sumur í Sumarhúsum í Skagafirði. Móðir Þorsteins lést 1959 og faðir hans kvæntist Friðriku Gestsdóttur 1965. Þorsteinn lagði stund á nám í hagfræði við Lundarháskóla 1973-1979. Þorsteinn sinnti ýmsum störfum en kennsla var honum ávallt hugleiknust og hann sneri ítrekað aftur til kennslustarfa. Síðustu tíu árin var Þorsteinn kennari við Klébergskóla á Kjalarnesi. Útför Þorsteins fer fram frá Neskirkju í Reykjavík þriðjudaginn 1. september og hefst athöfnin kl. 15.

Leiðir okkar Þorsteins Broddasonar lágu fyrst saman þegar hann kom norður í 3. bekk MA. Um þær mundir var sú þjóðtrú útbreidd að sálfræðingar væru ákaflega vanhæfir uppalendur og væru börn þeirra yfirleitt illa upp alin og til vandræða. Við urðum samt góðir vinir og hélst sú vinátta þrátt fyrir að hann væri ekki nema þennan eina vetur fyrir norðan. Seinna fékk hann mig til þess að kenna sér stærðfræði undir stúdentspróf. Í tengslum við það kynntist ég doktor Brodda og Friðriku.

Þorsteinn var meðal maður á  hæð en sterklegur og  hafði menn gjarna undir í sjómanni og krók. Hann hafði yndi af því að koma að venjulegum málum úr óvenjulegri átt, enda var hann skarpgreindur. Góðsemin var þó hans eftirminnilegasti eiginleiki og minnist ég þess ekki að hann hafi talað illa um nokkurn mann. Hann hélt til Svíþjóðar og nam þar þjóðhagfræði  og  hagsögu. Við hittumst gjarnan á kaffihúsum og þá bryddaði Þorsteinn venjulega upp á einhverju forvitnilegu og var þá oft setið lengi. Það voru góðar stundir.

Eftir að Þorsteinn kom heim réðst hann til starfa við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Áður hafði hann kynnst bekkjarsystur minni úr menntaskóa, Guðríði Steinuni Oddsdóttur (Systu), en hún stendur hjarta mínu nær en margar bekkjarsystur mínar, því við höfðum þann sameiginlega löst að mæta þráfaldlega of seint í tíma og áttum því oft samleið. Flutti Systa norður með Þorsteini og settu þau saman heimili þar. Þau bjuggu saman eftir það og áttu soninn Odd Brodda. Fátt hefur mér þótt ánægjulegra en samsnúningur þeirra Þorsteins og Systu og var augljóst að það var báðum til heilla.

Seinna kynntist ég systkinum Þorseins. Fátt afsannar betur þá kenningu sem nefnd var hér í upphafi um vanhæfi sálfræðinga til uppeldis, en þessi ljúfi systkinahópur. Minningin um þorstein mun fylgja mér þrátt fyrir að nú skilji leiðir um sinn. Hann hafði þann sjaldgæfa eiginleika að ýta manni upp úr hjólförum hverstagleikans með athugasemdum og vangaveltum sem komu mjög á óvart, ekki ólíkt og doktor Broddi gerði oft.

Systu, börnum hans og öllum öðrum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur.

Guðmundur Ólafsson.

Sum störf eru þannig að þau lærir enginn í skóla, heldur af reynslunni og með því að herma eftir góðum fyrirmyndum. Þannig er til dæmis kennarastarfið. Þegar ég kom til starfa við Klébergsskóla vorið 2004, gersamlega reynslulaus og blautur bak við eyrun, tóku mér allir vel en enginn jafnvel og sá sem ég kveð nú með sára sorg í hjarta.

Þorsteinn Broddason var góður vinur, frábær ferðafélagi í mörgum ógleymanlegum skólaferðalögum og sannur lífskúnstner. Hann bjó yfir lúmskum húmor sem var aldrei laus við kærleika. Mér er til dæmis minnisstætt að nokkrum mánuðum eftir að ég kvæntist spurði Þorsteinn mig hvort ekki væri von á barni. Þegar ég svaraði neitandi bauð hann mér afnot af öflugri rafeindasmásjá í eigu skólans til þess að grafast fyrir um orsakir. Svo gladdist hann seinna þegar ég sagði honum af fæðingu dóttur okkar. Þorsteinn kenndi mér flest þau leyndarmál sem greitt hafa götu mína í kennarastarfinu og fæstum þeirra deili ég með öðrum, sérstaklega ekki leyndarmálinu um hvernig maður situr kennarafund án þess að tapa sönsum.

Skyndilegt fráfall Þorsteins var mér mikil sorgarfrétt og ég græt það að hafa ekki hitt hann oftar síðustu misserin. Á sama tíma er ég þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast stórmenni. Fjölskyldu hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Björn Gunnlaugsson

Ég kynntist Þorsteini fyrir 9 árum þegar ég hóf störf í Klébergsskóla á Kjalarnesi. Í vor var mikil óvissa um störf leiðbeinanda þar sem kennarar með grunnskólaréttindi ganga fyrir þegar ráða á í stöður. Það var því ekki víst að Þorsteinn myndi halda áfram kennslu við skólann og var það því enn skemmtilegra að hitta hann í haust þegar við mættum til að undirbúa veturinn.
Þorstein vantaði grunnskólaréttindin en var líklega sá best menntaðasti af okkur. Það var ávallt hægt að leita til hans ef að upplýsinga vantaði eða þekkingu skorti. Sögurnar frá Þorsteini voru ófáar og skondnar og var hann óspar að deila með okkur því sem á daga hans hafði drifið.
Þorsteinn var vinsæll kennari. Hann var laginn við að horfa fram hjá hlutum í umgengi eða hegðun nemenda sem þegar upp er staðið skiptu minna máli. Hjá honum áttu nemendur skjól og leiddi hann þau áfram til mennta. Hann var ánægður þegar fyrrverandi nemendur kíktu í heimsókn, sumir með köku og aðrir með húfu eftir útskrift úr framhaldsskóla. Umhyggja hans náði langt út fyrir veggi kennslustofunnar.
Þorsteinn og sonur minn voru góðir vinir. Hann var okkur góður stuðningur þegar heimilisaðstæður okkar breyttust. Þeir hittust á göngum skólans og ræddu málin og var Þorsteini umhugað um líðan hans. Skólabyrjun í Klébergsskóla var erfið og er Þorsteins sárt saknað. Ég vil votta fjölskyldu Þorsteins, Guðríði, börnum og barnabörnum, mínar samúðarkveðjur.

Bára Birgisdóttir.

Fyrir nokkrum dögum barst mér sú sorglega fregn að elskulegur frændi minn Þorsteinn Broddason, hefði orðið bráðkvaddur. Eftir fyrsta áfallið, situr eftir óraunveruleikatilfinning - að hann Steini frændi sé horfinn á braut, það getur bara ekki staðist. Hann sem var maður á besta aldri, ekki nema rétt um sextugt og alltaf svo sprækur og kátur.  Þorsteinn var sá þriðji í röðinni í stórum systkinaflokki, en Broddi faðir hans og afabróðir minn reisti Sumarhús í landi Silfrastaða, snemma á fjórða áratugnum. Steini og systkini hans hafa ávallt verið mikið þar á sumrin og fyrir vikið eru tengslin mjög náin milli fjölskyldnanna og ég tel þau til minna nánustu ættingja. Fyrir um áratug síðan vann ég nokkur sumur í Varmahlíð og bjó þá heima á Silfrastöðum. Steini var mikið í Sumarhúsum á þeim árum og það var alltaf svo gaman að hitta hann, bæði var hann skemmtilegur maður og fróður en einnig afskaplega þægilegur í umgengni. Þau lundareinkenni reyndust honum vel í starfi, en stórum hluta af lífi sínu varði hann við kennslu.

Síðustu árin starfaði hann við Klébergsskóla á Kjalarnesi og kenndi þar einni frænku minni, sem lét þau orð falla þegar hann hætti að hún vorkenndi hinum krökkunum sem fengju ekki Þorstein sem kennara, því hann væri svo skemmtilegur! Það eru ekki amaleg ummæli fyrir kennara í unglingaskóla! Ég hef búið erlendis í rúman áratug og hef því ekki hitt Steina svo oft á þeim árum, síðasta skiptið var þegar ég kom heim í jarðarför Jóns Hallssonar í vor, hann var elskulegur að vanda og mig hefði aldrei órað fyrir því að þetta væru okkar síðustu fundir.  Er nú skarð fyrir skildi í hópi þeirra Broddabarna og ég á eftir að sakna þess sárt að hitta hann ekki aftur. Við Karl Johan viljum votta Steinunni og Oddi Brodda og Daða og Vin ásamt fjölskyldum, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Einnig systkinum Steina og fjölskyldum þeirra og öðrum sem eiga sárt um að binda núna. Við erum hjá ykkur í huganum.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)






Helga Fanney Jóhannesdóttir

Góðum mönnum gefin var
sú glögga eftirtekt.
Að finna líka fegurð þar,
sem flest er hversdagslegt.

(Jóhanna Kristjánsdóttir frá Kirkjubóli.)


Elsku Þorsteinn.
Við munum eftir þegar við hittum þig fyrst. Þú varst fengin til að fást við þennan umdeilda bekk sem hafði gert öðrum kennurum erfitt fyrir en þú varst staðráðinn í að breyta okkur í þann frábæra bekk sem þú sást í okkur. Það eru margar sögur sem koma upp í hugann þegar við sitjum hér saman að rifja upp gamla tímann með þér og vekja þær upp mikinn hlátur en erfitt er að velja aðeins nokkrar sögur til að segja frá.
Við munum þegar þú tókst arabastökkið inn í stofunni. Þú varst að monta þig yfir því að hafa oft tekið arabastökk þegar þú varst yngri og til að sanna mál þitt gerðir þú þér lítið fyrir, stökkst upp og svörtu klossarnir flugu um alla stofuna. Það var einstaklega gaman að mana þig upp í hluti, af því að þú tókst áskorun alltaf vel.
Við strákarnir munum eftir þegar þú bauðst okkur í jeppaferð og pulsur á bæjarins bestu af því að stelpurnar voru í annarri ferð. En þú lagðir líka mikið upp úr því við okkur strákana að koma vel fram við stelpurnar.
Í 7. bekk tókum við þátt í stuttmyndakeppni, þú fórst með okkur í strætó niður í bæ og á leiðinni varst þú alltaf að minna okkur á að hafa ekki of miklar væntingar en þegar við lentum í þriðja sæti varst þú einna stoltastur.
Þú færðir námsefnið að raunveruleikanum og þar með kenndir þú okkur ekki bara námsefnið heldur líka hvernig við áttum að lifa lífinu. Þú hafðir endalausa trú á okkur öllum og varst viss um að við myndum ná langt í lífinu. Þvílík þolinmæði sem þú hafðir og alltaf sástu eitthvað gott í öllum.

Við minnumst þín með gleði í hjarta og trú þín á okkur mun hvetja okkur áfram um ókomin ár.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý
og hógvær göfgi svipnum í.
Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt
og hugardjúpið bjart og stillt.
(Höf. ók.)



Við söknum þín,

Árgangur ’87 úr Klébergsskóla.

Áfallið við fráfall Þorsteins er í hróplegu ósamræmi við þann tíma sem ég starfaði með honum. Það voru aðeins örfáir mánuðir, fyrir alltof löngu síðan. En það voru mánuðir sem hafa alla tíð síðan skipt mig miklu máli.

Ég hljóp í skarðið í Klébergsskóla að vori. Var farinn aftur um sumarið. En alla tíð síðan hefur mér fundist skólinn standa á einhverjum fallegasta stað á Íslandi.

Fyrst hélt ég að fegurð staðarins fælist í Esjunni, sterklegu fjallinu sem endurkastar geislum sólarinnar á nýjan hátt á hverjum degi. Svo er ekki. Fegurðin felst í klettunum við sjóinn. Klettunum sem sjórinn er búinn að berja án afláts og mola úr. Klettunum sem sums staðar eru svo viðkvæmir að þeir geta hrunið hvenær sem er. Klettunum sem alsettir eru rispum og rákum sögunnar.

Og þessir klettar og Þorsteinn eru eitt í mínum huga. Það var þangað sem hann dró okkur kennarabusana þegar við fundum að hugurinn var orðinn fullur af ryki og innilofti. Það var þar sem við réttum úr bakinu, önduðum að okkur sjávarloftinu og nutum þess að vera til eitt andartak áður en við héldum aftur til vinnu okkar.

Klettarnir hafa ekki styrk Esjunnar. Þeir molna og hverfa loks í sjóinn með öllum sínum rákum, rispum og sögu. Einn dag eru þeir horfnir.

En það er ekki síst það sem gefur þeim gildi. Fegurð hins hverfula er ætíð verðmætari en þess sem ekkert fær grandað.

En þótt klettar hverfi í hafið þá lifa enn minningar þeirra sem á þeim stóðu og af þeim nutu útsýnisins.

Þorsteinn varðveitti fegurðina og var óspar á hana.

Nú er komið að okkur.

Ragnar Þór Pétursson

Við munum eftir Þorsteini með kaffibollann og góða skapið, hann kenndi okkur ýmislegt. Það eru mikil forréttindi að hafa kynnst slíkum manni. Hann fann til með okkur í sorg og gleði. Hann skynjaði tilfinningar nemenda sinna betur en nokkur annar.

Síðan voru skólaferðirnar ógleymanlegar þegar hann var í góðum gír með okkur í skálanum í Skorradal. Hann sagði okkur margar sögur sem munu nýtast okkur vel í framtíðinni. Þorsteinn var kennari af Guðs náð og hann mun eiga stað í hjörtum okkar allra um ókomna tíð. Hugur okkar er með fjölskyldu hans á þessum erfiðum tímum. Þorsteinn Broddason verður ekki eingöngu í minnum okkar hafður sem kennari heldur líka sem sannur vinur.

Haffi, Gulli og Nökkvi Nemendur í 10. bekk Klébergsskóla