Ævar Rögnvaldsson fæddist á Blönduósi 26. apríl 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. apríl sl. Foreldrar Ævars voru Helga Sigríður Valdimarsdóttir, f. 1913, og Rögnvaldur Sumarliðason, f. 1913, þau eru bæði látin. Systkini Ævars eru Ragna Ingibjörg, f. 1933, Sigríður Valdís, f. 1935, Hjördís Bára, f. 1941 og Lýður, f. 1946. Eiginkona Ævars er Elín Sólveig Grímsdóttir, f. 15.10.1938 á Svarfhóli í Geiradal. Foreldrar hennar, Jóney Svava Þórólfsdóttir, f. 1921 og Grímur Grímsson, f. 1903, hann er látinn. Ævar kvæntist Elínu 07.10.1961 og eignuðust þau þrjú börn. 1) Svavar Geir, f. 1959, kvæntur Sigríði Ingu Elíasdóttur, f. 1963, fósturdóttir þeirra er Eygló Inga Baldursdóttir, f. 1998. Börn Svavars frá fyrri sambúð með Margréti Lilju Pétursdóttur eru Pétur Geir, f. 1981 og Linda Rut, f. 1989. Börn Sigríðar Ingu frá fyrra hjónabandi eru Ingibjörg Heba, Björn Elías og Salóme. 2) Jóhann Þór, f. 1960, kvæntur Guðrúnu Dagbjörtu Guðmundsdóttur, f. 1963. Synir þeirra eru Ævar Örn, f. 1983, Hafsteinn Þór, f. 1990 og Daníel Ari, f. 1993. 3) Helga Sigríður, f. 1967, dóttir hennar og Guðmundar Birgis Theodórssonar er Karen, f. 1998. Árið 1958 hóf Ævar nám í trésmíði hjá trésmiðjunni Fróða hf. á Blönduósi. Að námi loknu gerðist hann hluthafi í trésmiðjunni og var það til loka starfsemi hennar. Við eignaskipti í Fróða hf. kom hluti af jarðhæð húseignar trésmiðjunnar að Þverbraut 1. í hlut þeirra hjóna og hófu þau verslunarrekstur í því húsnæði. Verslunina ráku þau í rúm tuttugu ár og sá kona hans um reksturinn en Ævar hóf störf hjá Særúnu hf. árið 1979 og starfaði þar í tuttugu og fimm ár. Hann var um langt árabil félagi í Lionsklúbbi Blönduós. Frá árinu 1967 hafa þau búið í húsi sínu á Mýrarbraut 3. sem Ævar byggði. Ævar verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag, 17. apríl 2009, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku afi, það er sárt að þurfa að kveðja þig svona snemma, en vonandi líður þér betur á þeim stað sem þú ert nú. Ég man sem barn að á hverju sumri komum við fjölskyldan í heimsókn norður og eru það góðar minningar. Ég man að þú kenndir okkur krökkunum öllum að spila og var örugglega spilað 10 tíma á dag, en eftir því sem við eltumst urðu heimsóknirnar alltof fáar. Ég mun minnast þín sem brosmildum og glöðum afa sem allt vildir  fyrir alla gera. Við spyrjum margs en finnum fátt um fullnægjandi svör.

Við treystum á hinn mikla mátt

sem mildar allra kjör.

Í skjóli hans þú athvarf átt

er endar lífsins för.

Þú skilur eftir auðlegð þá

sem enginn tekið fær.

Ást í hjarta, blik á brá

og brosin silfurtær.

Mesta auðinn eignast sá

er öllum reyndist kær.

Þú minning öllu skærar skín

þó skilji leið um sinn.

Þó okkur byrgi sorgin sýn

mun sólin brjótast inn.

Við biðjum Guð að gæta þín

og greiða veginn þinn.

(G.Ó.)

Elsku afi, guð geymi þig. Elsku amma, pabbi, Jói og Helga guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Pétur Geir Svavarsson og fjölskylda.

Elsku afi,

Hve sárt það er okkur að sjá eftir þér,

hér skuggarnir ríkja og dapurlegt er,

nú nótt er í huga og hjarta.

Þín minning mun lifa um ókomin ár,

að endingu hverfur vor tregi og tár,

við öll munum brosið þitt bjarta.

Þótt hugur sé dapur og hrygg okkar sál,

kann Herrann að líkna og slökkva þau bál,

og burtu hann kvíðanum bægir.

Hann syrgjendum veita kann hjálpræðishönd,

hnýta og varðveita vinanna bönd,

og saknaðar logana lægir.

Þú óhræddur gengur á frelsarans fund,

fölskvalaus ætíð var sál þín og lund,

í faðmi hans hvíld þú munt finna.

Huga oss veitir það heilmikla fró,

á himnum þú dvelur í friði og ró,

í umhyggju ástvina þinna.

(Grímur Sigurðsson.)

Elsku afi, guð geymi þig og gefi ömmu, pabba, Jóa og Helgu styrk í sorginni.

Linda Rut Svavarsdóttir og fjölskylda.