Jón Ísberg fæddist í Möðrufelli í Eyjafirði 24. apríl 1924. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 24. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðbrandur Magnússon Ísberg og Árnína Jónsdóttir Ísberg. Systkini Jóns: Gerður, Guðrún, Ari, Ásta, Nína, Ævar, Sigríður og Arngrímur. Nú lifa Ásta, Nína og Arngrímur. Jón kvæntist árið 1951 Þórhildi Guðjónsdóttur Ísberg, f. 1. desember 1925. Börn þeirra eru: 1) Arngrímur, f. 1952, maki Marjatta Ísberg. Börn þeirra eru a) Elsa, b) Þórhildur og c) Vilbrandur. 2) Eggert Þór, f. 1953, maki Sigrún Hanna Árnadóttir. Börn þeirra eru: a) Hildur Helga, b) Jón Þór og c) Árný Björg. 3) Guðbrandur, f. 1955. 4) Guðjón, f. 1957. 5) Jón Ólafur, f. 1958, maki Oddný I. Yngvadóttir. Dætur þeirra eru: a) Guðrún Rósa, b) Ólöf Gerður og c) Salvör. 6) Nína Rós, f. 1964, maki Samson B. Harðarson. Jón varð stúdent frá M.A. 1946, Cand. juris frá Háskóla Íslands árið 1950 og stundaði framhaldsnám í alþjóðarétti við University College í London 1950-1951. Hann var fulltrúi sýslumannsins á Blönduósi 1951-1960 og sýslumaður Húnavatnssýslu 1960-1994. Jón var virkur í fjölmörgum félagasamtökum í sinni heimabyggð, þ.ám. skátafélaginu, skógræktarfélaginu og Lions, og sat nær samfellt í hreppsnefnd Blönduóshrepps frá árinu 1958 til 1982. Hann var gerður að heiðursborgara Blönduósbæjar árið 2004. Útför Jóns fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 3. júlí, kl. 14.

Það var á Jónsmessu sem Jón Ísberg, sýslumaðurinn okkar gamli og góði, kvaddi okkur Húnvetninga hinsta sinni og hvarf inn í veröld æðri vídda. Jón var fæddur í Eyjafirði og lést innan þess héraðs, en í Húnavatnsþingi var starfsvettvangur hans mestan hluta ævinnar.

Og það vantaði ekki að Jón starfaði og það duldist heldur engum að Jón Ísberg var húnvetnskur höfðingi í bestu merkingu þess orðs.

Jón var fæddur 24. apríl og stundum kom það fyrir að afmælisdagurinn hans var jafnframt sumardagurinn fyrsti. Það var Jóni aukið gleðiefni, því hin þjóðlega bjartsýni sem tengist þeim degi, átti rétta samleið með sýn hans á svið tilverunnar.

Jón Ísberg var maður með stórt hjarta og það hjarta sló fyrir margt og marga. Við Skagstrendingar vissum auðvitað að Jón var mikill Blönduósingur, en við vissum líka að hann var ekki síður mikill Húnvetningur og síðast en ekki síst sannur og þjóðrækinn Íslendingur. Það var okkur meira en nóg, enda var drengskapur Jóns öllum kunnur og aldrei dreginn í efa.

Stundum var haft á orði, einkum hér áður fyrr, að það væri talsverður rígur milli Blönduósinga og Skagstrendinga. Eitthvað mun hafa verið til í því og kannski einkum fyrir tilverknað fárra manna sem af einhverjum ástæðum vildu viðhalda slíkum ríg. En sumt stóð þó alltaf öllum ríg ofar, og eitt af því var, að Jón Ísberg var alveg eins og ekki síður sýslumaður okkar Skagstrendinga eins og Blönduósinga og naut fyllsta trausts sem slíkur.

Jón Ísberg var ræktunarmaður lands og lýðs alla ævi. Hann var ávallt með mannlega þáttinn á hreinu í sínu embættisstarfi sem sýslumaður og hugsaði málin út frá því að verða fólki að liði en ekki öfugt. Það var sagt að hann hefði stóra skúffu í skrifborði sínu, þar sem þeir pappírar væru lagðir sem kröfðust sérlega nákvæmrar yfirvegunar með hliðsjón af því að aðgát skyldi höfð í nærveru sálar.

Lögfræðingur nokkur sem þekkti vel til embættismannakerfisins, sagði mér á sínum tíma, að það væru enn tveir sýslumenn starfandi í landinu af gamla skólanum. Annar þeirra væri Jón Ísberg. Það var auðheyrt að í því sambandi var talað um gamla skólann af sérstakri virðingu.

Jón Ísberg var sýslumaður okkar Húnvetninga í 34 ár eftir að hann tók við embættinu að fullu eftir Guðbrand föður sinn. Þeir feðgarnir gegndu því þessu embætti drjúgan hluta síðustu aldar og mörkuðu sín spor í akur mannlífs og menningar í héraðinu. Báðir voru þeir vandaðir og vel hugsandi menn.

Jón Ísberg var heilsteyptur persónuleiki og glöggskyggn á mannlífið og veruleika þess. Hann var ekkert fyrir gyllingar og yfirborðsmennsku,  vildi í öllu vera og var sjálfum sér samkvæmur, og fyrst og síðast maður hugsjóna og framkvæmda. Ávallt var hann boðinn og búinn að leggja hönd að samfélagslegri uppbyggingu í þágu fólksins. Hann var yfirvald sem kunni að þjóna.

Þeir eru margir sem hugsa til Jóns Ísbergs með hlýju og þökk að leiðarlokum.  Minning hans mun lifa í Húnavatnsþingi meðan Blanda sjávar leitar. Ég bið eftirlifandi konu hans, börnum og ættliði öllu, Guðs blessunar um ókomin ár.

Rúnar Kristjánsson