Ásthildur Símonardóttir fæddist í Hafnarfirði 8. nóv. 1952. Hún lést á heimili sínu, Sléttuvegi 7 í Reykjavík, 28. júní sl. Foreldrar hennar voru Ólöf Helgadóttir, f. 17.9. 1915, d. 2.12. 1992, og Símon Marionsson, f. 5.7. 1913, d. 26.12. 1996. Systkini hennar eru Helgi Magnús, f. 24. feb. 1935, maki Bryndís Gunnarsdóttir, Hanna Jonný, f. 18. sept. 1937, Erla Jónína, f. 2. feb. 1944, Viðar, f. 25. feb. 1945, maki Halldóra Sigurðardóttir, Margrét, f. 18. júlí 1947, maki Nathan Langwald, Þorbjörg, f. 20. jan. 1950, maki Auðunn Karlsson, og Jóhanna, f. 9. júní 1951, maki Vilhjálmur Nikulásson. Sambýlismaður Ásthildar er Sigurður Árni Sigurðsson, f. 1963. Foreldrar hans eru Ragnheiður Thorarensen og Sigurður Hallgrímsson. Ásthildur og Sigurður bjuggu fyrst á Grettisgötu og síðar Sléttuvegi 7, Reykjavík. Ásthildur lauk barnaskólanámi frá Öldutúnsskóla í Hf. og síðan gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla. Síðan lá leiðin í lýðháskóla í Hillerød í Danmörku. Eftir heimkomu stundaði Ásthildur nám í Handíða- og myndlistarskólanum. Árið 1980 lauk hún stúdentsprófi frá öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Þá tók við nám í Háskóla Íslands í félagsfræði og félagsráðgjöf. Lauk hún þar öllum prófum en auðnaðist ekki að ljúka lokaritgerð vegna heilsubrests. Útför Ásthildar fór fram frá Kapellunni í Hafnarfirði 8. júlí.

Í dag kveðjum við elskulega frænku mína, Ásthildi Símonardóttur.  Sorg okkar allra sem til hennar þekktu er mikil.  Ásthildi hef ég þekkt frá því ég var barn að aldri.  Hennar innri fegurð var hrein og  greindin mikil.  Hún  var ávallt tilbúin til að hlusta og miðla hinu góða og  kenna mér.  Þannig kynntist ég frænku minni  fyrst og þannig var hún alla tíð.  Það er margt sem ég hef lært og tekið með mér áfram í lífið frá þessari yndislegu manneskju.

Ásthildur var í mínum huga mikil hetja.  Hún veiktist á unga aldri en veikindi hennar, sem voru mikil og löng og ströng, voru eitthvað sem  hún vildi ekki að aðrir hefðu áhyggjur af.

Ég vil þakka þér, Ásthildur mín, fyrir yndislega kvöldstund sem við áttum viku fyrir andlát þitt.  Í því skemmtilega samtali okkar var komið víða við.  Þú fræddir mig þar af þínum alúðleika og visku  um þá baráttu sem lífið er.  Í mínum huga varst þú Ásthildur mín, sönn hetja.

Ég votta þér Sigurður minn mína dýpstu samúð sem og systkinum og öðrum aðstandendum.  Guð blessi ykkur öll.

Þótt farin þú sért,
og horfin ert burt þessum heimi.
Ég minningu þína,
þá ávallt í hjarta mér geymi.
Ástvini þína, ég bið síðan
Guð minn að styðja,
og þerra burt tárin,
ég ætíð skal fyrir þeim biðja.
(Bryndís Halldóra Jónsdóttir.)

Linda Björg Guðmundsdóttir

Ásthildur var yngst átta systkina að Álfaskeiði 43, Hf.  Álfaskeiðið var barnmörg gata á þeim tíma og léku börnin sér saman, mest í leikjum úti.  Þegar Ásthildur var þriggja ára dró ský fyrir sólu hjá fjölskyldunni.  Lömunarveiki gekk hér á Íslandi og smitaðist Ásthildur af sjúkdómnum.  Erfið ár fóru í hönd og lækning ekki í sjónmáli.  En Ásthildur var sterkur persónuleiki og lét ekki bugast.  Margar aðgerðir gekk hún í gegnum og náði hún sæmilegri heilsu á milli.  Hún ætlaði á fætur og það tókst henni, en síðustu árin þurfti hún hjólastól.

Ásthildur var vel gefin og átti auðvelt með nám.  Lauk hún prófum frá Háskóla Íslands, í félagsfræði og félagsráðgjöf.  Oft var erfitt að komast í skólann, þar sem aðgengi fyrir fatlaða var takmarkað á þeim tíma.

Fyrir 25 árum kynntist Ásthildur, yndislegum manni, Sigurði Árna Sigurðssyni, sagnfræðingi.  Stofnuðu þau heimili og nutu félagskapar hvors annars.  Ferðuðust þau talsvert, bæði innanlands og utan.  Naut hún vel þekkingar Sigurðar og sagnfræðikunnáttu.  Ein ferð varð Ásthildi sérstaklega hugleikin, sigling um Miðjarðarhafið með skemmtiferðaskipi.  Varð hún uppspretta margra skemmtilegra samræðna.

Ásthildur hafði samband við marga í gegnum síma og oft voru símtölin löng og að sama skapi innihaldsrík.  Hún átti stóra fjölskyldu og fylgdist hún vel með öllum og hafði myndir af frændsystkinunum nálægt sér.  Ásthildur var sannkölluð hetja, en nú er hennar þrautagöngu lokið.  Kallið kom óvænt og eftir stendur frændgarðurinn fátækari en fyrr.

Við vottum Sigurði Árna okkar innilegustu samúð og hafi hann þökk fyrir alúðina og virðinguna sem hann sýndi henni alla tíð.

Guð geymi þig elsku Ásthildur okkar.

Dóra og Viðar.

Kynnin af Ásthildi, mágkonu Dóru systur, dýpkuðu sýn mína á möguleika manneskjunnar til að taka þátt í lífinu og njóta hverrar góðrar stundar sem gefst. Þrátt fyrir fötlun eftir lömunarveiki, margar erfiðar aðgerðir og  veikindi var hugur hennar sífellt upptekinn af margvíslegum viðfangsefnum og djúpum hugleiðingum. En eindregnastur var þó áhugi hennar á félagsfræði og félagsráðgjöf. Þar fékk hennar eigin reynsla víðtæka skírskotun og rímaði vel við sívakandi áhuga hennar á högum og líðan allra í kringum hana.  Það var aðdáunarvert hvað Ásthildi tókst alla tíð að berjast áfram í viðleitni til betra lífs. Dugnaður hennar, góðar gáfur og aðlaðandi persónuleiki heilluðu alla sem hún kynntist. Studd af Sigurði sambýlismanni sínum bjó hún sér gott og innihaldsríkt líf í samneyti við fjölskyldu og vini.

Systkini Ásthildar hafa misst mikið, systur sem þeim þótti óendanlega vænt um, og sár er missir Sigurðar eftir langa og farsæla sambúð.

Fögur minning Ásthildar mun lifa með okkur

Anna Sjöfn Sigurðardóttir.

Það er sárt að þurfa að kveðja frænku okkar Ásthildi Símonardóttur en við vitum að það er vel tekið á móti henni hinum megin. Ásthildur var yngsta systir móður okkar og ein af stórum systkinahóp. En hún var meira eins og systir okkar en frænka því hún var aðeins fimm og sjö árum eldri en við systurnar. Henni fannst gaman að fá okkur í heimsókn og við nutum þess að fá að leika okkur með henni. Hún kenndi okkur margt sem við nutum góðs af í lífinu. Hún var dugleg að kenna okkur bænir og vers sem við fórum svo með á kvöldin. Hún var mjög ljúf og blíð manneskja og hafði mikinn áhuga á fylgjast með okkur og hvað við værum að gera í lífinu.

Líf Ásthildar var ekki dans á rósum, hún fékk lömunarveikina aðeins tæplega þriggja ára gömul og veikin tók sífellt meiri toll af henni með árunum.  Í okkar huga var hún mikil hetja. Hún barðist við fötlun sína alla tíð, gekkst undir margar aðgerðir og var með stöðuga verki síðustu árin. Trúin skipti hana miklu máli og á henni komst hún ég gegnum erfiðustu kafla lífsins.  En hún lét samt ekki fötlunina aftra sér frá því að gera það sem hugur hennar stóð til, þ.e. að ferðast og mennta sig. Hún var lífsglöð og vildi taka þátt í lífinu.

Félagi Ásthildar og unnusti til margra ára er Sigurður Árni Sigurðsson.  Við þökkum honum fyrir þá miklu umhyggju og styrk sem  hann sýndi henni.

Elsku fallega Ásthildur er komin á öruggan stað og gengur nú heil og þrautalaus í faðm foreldra og annarra ættingja sem hafa tekið á móti henni með útbreiddan faðm.

Elsku Siggi og systkini Ásthildar, guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Ólöf og Helen