Hjördís Kristín Hjörleifsdóttir fæddist í Reykjavík 14. febrúar 1929 en lést á líknardeild Landakotsspítala 9. sept. sl. Foreldrar hennar voru Hjörleifur Kristmannsson skósmiður, f. á Akranesi 21.9. 1896 og kona hans Kristín Ingveldur Þorleifsdóttir, f. 31.10. 1895 og uppalin á Þverlæk í Holtum. Systkini Hjördísar eru: Kristmann, f. 6.9. 1920, d. 3.5. 1977, maki Bergþóra Hulda Einarsdóttir, f. 25.1. 1919, d. 2.3. 2002. Helgi, f. 22.8. 1922, d. 3.6. 1994, maki Sigrún Gísladóttir, f. 29.12. 1924, d. 2.10. 1998. Gerður Helga, f. 29.3. 1927. Ásgeir, f. 25.4. 1930, d. 27.11. 1933 og Ásgeir Hörður, f. 13.1. 1937, maki Hjördís Sigurðardóttir, f. 21.9. 1937. Hinn 18.6. 1949 giftist Hjördís Guðjóni Einarssyni fulltrúa, f. 18.6. 1904 en hann lést 20.3. 1984. Þau voru barnlaus. Hjördís og Guðjón störfuðu saman í áratugi á skrifstofu Eimskips, en einnig starfaði hún með systur sinni, Gerði, hjá Ísl. heimilisiðnaði, seinni hluta starfsaldurs síns. Þau hjónin stunduðu íþróttir alla ævi, útivist og hreyfingu alveg fram undir það síðasta. Útför Hjördísar Kristínar fer fram frá Dómkirkjunni mánudaginn 21. sept. nk. kl. 15.
Ein af fyrstu minningum mínum um Hjördísi er þegar hún kom í heimsókn til okkar í Stykkishólm og ég pínulítil að ganga með henni og sýna henni bæinn minn.
Alltaf þegar við fjölskyldan fórum til Reykjavíkur þá gistum við á Framnesveginum hjá Hjördísi. Guðný systir mín bjó þar í tvo vetur þegar hún var í framhaldsskóla í Reykjavík og mér þótti nú ekki leiðinlegt að fara að heimsækja þær. Mér þótti ótrúlega gaman að fá að fara ein til Reykjavíkur og fá að gista hjá nöfnu minni og þá oftast með einhverja vinkonu mína með mér. Alltaf var hún boðin og búin til að stússast í kringum okkur, skutla okkur niður í bæ, í leikhús, bíó og fleira. Ég man þegar hún og mamma fóru með mér og Gísla bróður í sumarbústað á Flúðir og hvað það var gaman hjá okkur þá viku.
Hjördís hafði yndi af útveru og fór mikið í gönguferðir. Þegar ég fór í mína fyrstu hálendis - gönguferð þar sem gengið var á milli skála í nokkra daga þá var Hjördís mín með. Ég var yngst aðeins átta ára og Hjördís elst og gaf engum eftir í göngunni. Við Hjöddurnar vorum nú ánægðar með okkur þá.
Elsku Hjördís, ég man hvað mér þótti sárt að heyra af veikindum þínum, en mér fannst þú bera þig svo vel og alltaf jafn glæsileg. Það er tómlegt að vita til þess að ég eigi ekki eftir að kíkja við í pönsur og spjall á Framnesveginum. Ég mun ávallt minnast þín með mikilli hlýju og söknuði og kveð þig með bæninni sem þú fórst alltaf með, með mér fyrir svefninn þegar ég var lítil.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Þín nafna og vinkona,
Hjördís Pálsdóttir.