Jón Magnús Guðmundsson fæddist í Reykjavík 19. september 1920. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 22. apríl sl. Hann var sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar togaraskipstjóra, f. í Reykjavík 12.6. 1890, d. 6.9. 1946, og Ingibjargar Pétursdóttur húsfreyju, f. í Svefneyjum 20.9. 1892, d. 24.12. 1980. Systkini Jóns eru Pétur skipstjóri, f. 18.12. 1917, d. 21.5. 1984, Andrés Hafliði lyfsali, f. 10.7. 1922, Sveinn garðyrkjubóndi, f. 7.6. 1924, d. 27.8. 1986, Þórður vélstjóri, f. 13.4. 1926, d. 12.12. 2004, og Ingibjörg, f. 29.6. 1931, d. 9.9. 1931. Jón kvæntist 26.10. 1951 Málfríði Bjarnadóttur lyfjafræðingi, f. 9.1. 1925. Foreldrar hennar eru Bjarni Snæbjörnsson læknir og alþingismaður, f. 8.3. 1889, d. 24.8. 1970, og Helga Jónasdóttir, f. 21.12. 1894, d. 2.6. 1989. Börn Jóns og Málfríðar eru fimm og fyrir átti Jón eina dóttur: 1) Sólveig Ólöf, f. 19.2. 1949, móðir Ásdís Sigfúsdóttir, f. 27.11. 1919. Maki Pétur Rúnar Guðmundsson, f. 22.2. 1948. Börn þeirra eru a) Guðmundur Hrannar, f. 31.12. 1967, k. Elín B. Gunnarsdóttir, börn þeirra Eva Sólveig, Ásdís Eir og Erla Margrét. b) Birgir Tjörvi, f. 11.5. 1972, k. Erla Kristín Árnadóttir, börn þeirra Kristín Klara og Árni Pétur. c) Ásdís Ýr, f. 17.3. 1976, m. Haraldur Örn Ólafsson, dóttir þeirra Sólveig Kristín. d) Bryndís Ýr, f. 17.10. 1978, m. Jürgen Maier, börn þeirra Ísak Þorri, Freyja og Marta. 2) Guðmundur, f. 28.8. 1952, k. Þuríður Yngvadóttir, f. 11.6. 1952. Börn þeirra eru a) Málfríður, f. 19.7. 1977. b) Yngvi, f. 8.8. 1984, k. Sigrún Melax, dóttir þeirra Þuríður. c) Ingibjörg Ásta, f. 8.8. 1987. 3) Helga, f. 18.6. 1954, m. Magnús Guðmundsson, f. 21.11. 1952. Börn þeirra Jón Bjarni, f. 27.12. 1981, og Árni, f. 4.4. 1985. 4) Bjarni Snæbjörn, f. 6.1. 1956, k. Björg Kristín Kristjánsdóttir, f. 27.12. 1954. Börn þeirra eru: a) Þórður Illugi, f. 23.1. 1980, k. Harpa Rún Eiríksdóttir, börn þeirra Ólafur Jón Guðjónsson og Bjarni Snæbjörn. b) Kristján Sturla, f. 17.1. 1985. c) Málfríður, f. 13.3. 1991. 5) Eyjólfur, f. 30.8. 1960, k. Auður Ósk Þórisdóttir, f. 31.12. 1961. Synir þeirra Snæbjörn Þórir, f. 1.2. 1993, og Þorsteinn Orri, f. 7.9. 1997. 6) Jón Magnús, f. 10.8. 1962, k. Kristín Sverrisdóttir, f. 26.7. 1963. Börn þeirra Hrefna, f. 4.2. 1991, María Helga, f. 9.10. 1993, Jón Magnús, f. 11.6. 1998, og Sverrir, f. 16.6. 2003. Jón flutti með foreldrum sínum að Suður-Reykjum í Mosfellssveit 1926. Að loknu búfræðiprófi 1942 lagði hann stund á alifuglarækt við University of Wisconsin 1945-1947, í Svíþjóð 1949 og Washington 1961. Jón var bóndi á Reykjum í Mosfellssveit 1947-2000 og frumkvöðull í alifuglarækt. Hann var oddviti Mosfellshrepps 1962-1981, hreppstjóri 1984-1990 og varð heiðursborgari Mosfellsbæjar 2000. Jón var mikill hugsjóna- og félagsmálamaður. Hann keppti í íþróttum og var virkur í íþróttahreyfingunni, sat m.a. í stjórn FRÍ um árabil og var sæmdur gullmerki þess og heiðursmerki Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og var heiðursfélagi í Ungmennafélaginu Aftureldingu. Hann starfaði í ýmsum samtökum bænda og var formaður stjórnar Mjólkurfélags Reykjavíkur frá 1977-1999. Jón var mikill hestamaður og sinnti störfum fyrir þeirra samtök, var m.a. í stjórn LH um árabil og sæmdur gullmerki þess. Jón var stofnfélagi í Karlakórnum Stefni og söng með fleiri kórum, m.a. Karlakór Reykjavíkur um árabil. Jón var virkur í frímúrarareglunni og stofnfélagi í frímúrarastúkunni Glitni í Reykjavík. Hann var stofnfélagi í Lionsklúbbi Kjalarnesþings og starfaði í mörgum fleiri félögum. Útför Jóns fer fram frá Langholtskirkju í dag, 7. maí, kl. 13.
Við Jón M. Guðmundsson urðum góðir vinir alla tíð eftir þetta og kom ég oft við á heimili þeirra Málfríðar að Reykjum, ekki síst eftir að hann hætti vinnu og stjórnun við hið mikla og merka kalkúnabú að Reykjum, sem synir hans og fjölskyldur reka í dag.
Um þessar mundir er unnið að útgáfu afmælisrits vegna 100 ára afmælis Aftureldingar. Þar verður Jóns minnst sem frumherja í handknattleik hér ásamt Dvergunum sjö en Jón var þar geysiöflugur og talið er að hann hafi aldrei misst marks í vítakasti. Jóns er minnst sem öflugs íþróttamanns og hestamanns, frumherja í alifuglarækt, trausts stjórnamálamanns og góðs vinar.
Ég og fjölskylda mín sendum Málfríði og hennar fólki okkar samúðarkveðjur og þakkir fyrir liðna tíð.
Gylfi Guðjónsson, Mosfellsbæ.
Hvað segjum við Kjalnesingar nú í dag nafni minn, sagði hann oft við mig og átti þá við að hann var bústjóri föður síns á jörðunum Víðinesi og Þerney sem fjölskyldan átti um skeið, árin 1940 til 1943. En Jón var þá nýkominn frá búfræðinámi á Hvanneyri. Þessi ár tengdu hann því við Kjalarnesið og nágranna sína á Álfsnessvæðinu í þá daga. Það var því ánægjuleg stund þegar við Jón í Brautarholti áttum þess kost að færa honum eintak bókarinnar Kjalnesingar, heiðursgjöf vegna stuðnings hans við útgáfuna.
Þó 22 ára aldursmunur væri á milli okkar Jóns vorum við alla tíð samferðamenn vegna samskipta foreldra minna og Jóns í fyrstu, þá okkar Jóns, barna hans og nú síðustu árin barnabarna og á ég nú nafna á Reykjum, tvær kynslóðir Jóna og einn Sverri. Fyrstu kynni okkar Jóns voru á sviði hestamennsku en samskipti föður míns og Jóns voru náin og vegna áhuga þeirra á skeiðíþróttinni og mikilli rækt við hana. Hafði Jón sama hátt á og föðurbróðir minn, Þorgeir í Gufunesi, að koma efnilegum skeiðhestum í Varmadal og þá til fullrar eignar. Því eignuðumst við fallegan rauðblesóttan fola sem gjöf frá Jóni, sem auðvitað var skírður Reykur og þurfti Jón svo að etja kappi við sinn fyrri hest í skeiði á árlegum kappreiðum Hestamannafélagsins Harðar við Arnarhamar. Þó ótrúlegt sé þá æfðum við Jón á Reykjum saman handbolta á vegum Aftureldingar í Hálogalandi, hann elstur og ég yngstur og er Jón öllum minnistæður frá þessum 1. deildar leikjum. Þá sungum við Jón saman um árabil í Karlakórnum Stefni og er fallegur einsöngur hans í laginu Nú andar suðrið mér sérlega minnistæður á tónleikum Stefnis eitt sinn. Sem sveitarstjórnarmaður var Jón eftirminnilegur og óhræddur við að taka ákvarðanir og þakka ég honum stuðning hans við staðarval Flugklúbbs Mosfellsbæjar. Seinna bað ég Jón að halda fyrirlestur sem heiðursgestur á árshátíð Flugklúbbsins að Tungubökkum, Jón og Málfríður komu til hátíðarinnar og hafi einhver efast um að stórbóndinn Jón myndi tala um flug var efinn frá eftir hátíðarræðuna því Jón sagði okkur frá hvar hann var staddur þegar Graf Zepperlin flaug yfir Reykjavík og einnig um flutninga á ungum frá búi sínu út um allt land á Douglas D3, allt til Fagurhólsmýrar sem var þá svo afskekkt. Hjónin á Reykjum voru hyllt með löngu lófaklappi og allir í sjöunda himni. Jón reyndist okkur ungu mönnunum í Hengli sf vel er við stofnuðum fyrirtæki okkar, meðmæli voru forsenda þess að fá lán til fjármögnunar hjá Búnaðarbankanum á þessum tíma. Hnyttin orðatiltæki Jóns kann ég mörg og geymi hjá mér, þau ættu vel við í afmælisgrein en ekki í minningargrein.
Að lokum vil ég þakka þeim hjónum á Reykjum ræktarsemi þeirra við frænda minn, Benedikt Kristjánsson frá Álfsnesi en þau önnuðust hann vel og hjá þeim hélt hann til síðustu æviár sín. Hjónin héldu honum m.a glæsilega veislu á stórafmæli hans.
Samúðarkveðjur,
Fjölskyldurnar í Varmadal og Reykholti,
Jón Sverrir Jónsson.
Með fáeinum línum viljum við bræður kveðja afa okkar, Jón M. Guðmundsson, bónda á Reykjum. Það er söknuður í okkar huga, en við geymum vel í minni allar þær stundir sem við áttum með honum.
Afi á Reykjum var stórmenni. Slíkan sess á hann vafalítið í huga flestra sem kynntust honum á lífsleiðinni. Þegar við í barnæsku heimsóttum afa og Fríðu á Reykjum, kunnum við svo sem ekki skil á því hversu mikill brautryðjandi hann var í búskap eða mikilvirkur í félagsmálum. En það þurfti ekki háan aldur til að skynja á viðmóti gestanna á Reykjum, að þar fór mikilsvirtur maður. Og maður þurfti heldur ekki að vera mjög hár í loftinu til að hljóta virðingu hans. Afi á Reykjum kom alltaf fram við okkur sem jafningja sína. Þótt við höfum aðeins verið börn að aldri ræddi hann við okkur eins og við hefðum sitthvað til málanna að leggja, til jafns við hann. Hann sýndi okkur ávallt góðsemi og á bak við stórbrotið yfirbragð fundum við mikla hlýju.
Það er ekki svo langt úr Fossvogi í Mosfellssveitina, en samt voru ferðir okkar þangað ósviknar sveitarferðir, miklu meiri ævintýri en heimsóknir í höfuðborginni. Fyrir borgarbörn eins og okkur var merkilegt að eiga afa sem var bóndi og átti stórt og myndarlegt bú. Slíkt var ekki algengt í okkar umdæmi. Báðir urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna að sumarlagi á búinu, þótt hvorki hafi það verið oft eða mikið. Hvorugur okkar telur sig heldur hafa verið til mjög mikils gagns. Nonni Maggi sem nú hefur tekið við búrekstrinum gerði stundum grín að okkur í baráttunni við fuglana. En Afi lét okkur hins vegar ekki finna annað en störf okkar væru metin eins og fullgildra vinnumanna og umbunaði þegar það átti við. Á kvöldin spjallaði hann svo við okkur og reyndi eins og alltaf að búa okkur veganesti út í lífið.
Í samtölum okkar lagði hann okkur lífsreglurnar, spurði krefjandi spurninga og vildi skýr svör, en það var stutt í gamansemina. Það var ekki óalgengt þegar við litum inn að Reykjum í kaffisopa í seinni tíð, að við værum krafðir um erindið. Fríða átti þá til að hvá og útskýra fyrir afa að við værum bara að koma í heimsókn og þyrftum ekkert að eiga sérstakt erindi til þess. Iðulega kom þá bros á varir hans eða hann yggldi sig í framan til að við skildum hvers eðlis væri. Hann var stríðinn og skemmtilegur og við nutum samvista við hann. Það eru ekki mörg ár síðan, á meðan hann hafði krafta til, að hann gerði sér reglulega ferðir úr sveitinni til fundar á lögmannsstofunni til að ræða málin og bera undir okkur erindi sín, en ætíð til að gefa holl ráð að auki. Þau hafa alltaf dugað vel. Nú óskum við þess að stundirnir hefðu verið fleiri, en þær sem við áttum eru ógleymanlegar.
Við sendum Fríðu, sem hefur alltaf hugað vel að okkur systkinunum og börnum okkar, dýpstu samúðarkveðju. Einnig mömmu, systkinum hennar og fjölskyldum, öðrum ættingjum og vinum.
Birgir Tjörvi Pétursson Guðmundur Hrannar Pétursson
Nú er hann afi minn á Reykjum fallinn frá.
Ég var svo heppin að alast upp á Reykjum í næsta húsi við ömmu og afa. Við afi vorum alltaf miklir mátar og margt sem við brölluðum saman og á ég margar góðar minningar frá þessum tíma.
Ein af mínum minningum úr æsku um afa er hvað hann var mikið alltaf að skrifa. Líklega hefur mér fundist ritvélin hans svo spennandi að ég tók eftir þessu. Þegar ég svo varð eldri og fluttist erlendis í nokkurn tíma þá hafði dugnaður hans við skriftir ekki mikið dvínað því hann sendi mér bréf nokkuð oft og held ég bara að enginn hafi sent mér eins mörg bréf og hann.
Minnisstæðast er eitt af bréfunum sem hann sendi mér til Bandaríkjanna. Ég hafði verið þar í nokkra mánuði þegar hann hafði spurnir af því að í kvikmyndahúsunum væri sýnd mynd sem einmitt gerðist þar sem ég bjó. Afi sló til og bauð ömmu í bíó. Honum fannst nú ekki mikið til myndarinnar koma enda ekki mikill aðdáandi mynda um raðmorðingja en hann sendi mér afrifurnar af bíómiðunum og var hæst ánægður með að hafa séð hvar ég byggi. Mikið hvað svona bréf ylja manni um hjartaræturnar.
Bréfin frá afa eru mér sem gull. Blessuð sé minning hans.
Málfríður Guðmundsdóttir.
Aðfararnótt hins 22. apríl sl. lést að hjúkrunarheimilun Eir í Reykjavík föðurbróðir minn, Jón M. Guðmundsson, bóndi á Reykjum í Mosfellsbæ. Þar sem okkur var vel til vina er mér bæði ljúft og skylt að setja á blað nokkur orð í þakklætis og virðingarskyni um þennan heiðursmann, sem ávalt reyndist mér svo vel. Ég hef verið honum samferða frá því ég fæddist og aldrei hefur borið skugga á vinskap okkar og frændsemi og ég hef satt að segja alla tíð verið hreykinn af honum frænda mínum. Hann var einhvern veginn aðalmaðurinn.
Alltaf glæsilegur, hress og skemmtilegur og það gustaði af honum hvar sem hann fór, enda átti það fyrir honum að liggja að verða forystumaður á flestum þeim sviðum er hann lét til sín taka.
Það þekktu allir Jón á Reykjum og það gladdi lítinn frænda.
Ég var svo lánssamur að eiga þess kost að vera á Reykjum meira og minna frá barnæsku og fram á unglingsár. Þar var ég í góðu yfirlæti undir verndarvæng frænda míns, hans elskulegu eiginkonu Fríðu og ömmu minnar Ingibjargar.
Frá þessum árum á Reykjum á ég einungis góðar minningar og þar kom frændi minn sterkur inn. Tíminn leið við leik og störf og hafði Jón einstakt lag á að blanda því saman svo vel færi og ef hressilega hafði verið tekið til hendinni var gjarnan lagt á hrossin og skroppið í reiðtúr. Hann réði mig í vinnu 9 ára gamlan, sem kúasmala, sem var auðvitað mikil upphefð og svo leiddi eitt af öðru og fljótlega var ég farinn að líta á mig sem fullgildan kaupamann. Á Reykjum lærði ég að vinna og naut þar ljúflegra leiðbeininga frænda míns við hin ýmsu störf sem til féllu í sveitinni. Hann gat verið strangur ef eitthvað fór úrskeiðis, en var alltaf sanngjarn og leiðrétti í rólegheitum það sem miður fór.
Jón frændi minn áttaði sig á því að nauðsynlegt var að treysta fólki, en jafnframt að gæta þess að ábyrgðin yrði því ekki ofviða. Hann úthlutaði gjarnan verkefnum sem í fólst ákveðin áskorun og voru erfið, en hann vissi að við réðum við. Þannig lagði hann sitt af mörkum til að koma mér og öllum þeim fjölda unglinga, sem í tímans rás dvaldi á Reykjum í lengri eða skemmri tíma til manns og fyrir það er þakkað að leiðarlokum.
Jón á Reykjum var á yngri árum afreksmaður í íþróttum, keppnismaður í frjálsíþróttum, knattspyrnu og handknattleik með félaginu sínu Aftureldingu og var lykilmaður í sterku handknattleiksliði félagsins í kringum 1950, sem á þeim árum var í fremstu röð á Íslandi. Það þarf því ekki að koma á óvart að íþróttir voru iðkaðar af miklu kappi á Reykjum í gamla daga undir forystu Jóns frænda míns. Flötin fyrir framan íbúðarhúsið á Reykjum breyttist í knattspyrnuvöll og slíkt var kappið að trjágróður sem amma mín hafði komið upp með ærinni fyrirhöfn varð að víkja fyrir íþróttagörpunum. Tvisvar í viku var Willysinn fylltur af krökkum og ekið niður á Tungubakka, en þar var frábært íþróttasvæði frá náttúrunnar hendi og sprakað, hlaupið, stokkið og kastað eins og lífið ætti að leysa meðan kraftar leyfðu. Á eftir var svo boðið upp á Spur í Álafoss-sjoppunni. Og alltaf var þess gætt að allir kæmust með, því alltaf var pláss í jeppanum og væri einhver seinn fyrir var bara beðið þar til allir voru mættir.
Jón var landsfrægur hestamaður og átti alltaf góða hesta og betri kennara í umgengni við hestana og reiðmennsku var ekki hægt að hugsa sér. Hann treysti okkur strákunum og var ekkert að spara gæðingana sína undir okkur, ef að svo bar undir. Þetta kunnum við svo sannarlega að meta, enda var það ekki algengt á þessum árum. Enn í dag 50 árum eftir dvölina á Reykjum hittumst við árlega nokkrir fyrrum kúasmalar og förum í útreiðartúr um fornar slóðir og ég hef verið beðinn fyrir hönd þess hóps að koma á framfæri samúðarkveðjum og þökkum fyrir allar góðu stundirnar á Reykjum.
En árin líða og að því kom að sumardvalir mínar á Reykjum hættu. Það breytti þó engu um vinskap okkar Jóns og ávallt fylgdist hann vel með því sem ég og mín fjölskylda tókum okkur fyrir hendur í leik og starfi og varla leið sú vika að við ekki hefðum samband. Var fyrstur til að samfagna jákvæðum áföngum og fyrstur til hvatningar ef eitthvað bjátaði á.
Jón frændi minn átti viðburðarríka ævi og upplifði miklar breytingar í þjóðfélaginu og kom fleiru í verk en flestir aðrir. Hann var frumkvöðull í búskaparháttum og óhræddur við að innleiða nýjungar. Stóð í brúnni þegar Mosfellssveit breyttist úr sveit í bæ og fórst það vel úr hendi.
Í einkalífinu var hann mikill gæfumaður. Átti yndislega konu og glæsilega afkomendur, sem nú kveðja ástkæran eiginmann, föður, afa og langafa. Lengst af var hann við góða heilsu, en seinustu árin hafa þó verið honum erfið þegar líkaminn gat ekki lengur fylgt huganum eftir og því kunni hann illa.
Á kveðjustund er margt sem kemur upp í hugann. Þessi fátæklegu kveðjuorð eru sett á blað í byrjun sumars þegar lóan er farin að kvaka, grasið að grænka og sólin hækkar á lofti. Það er sjálfsagt vegna þess að hugurinn leitar nokkura áratugi aftur í tímann þegar lítill strákur vestur í bæ beið fullur tilhlökkunar eftir því að komast í sveitina. Jón bóndi var væntanlegur á jeppanum að sækja strákinn og loksins kom hann í kakijakkanum með sixpensarann á höfðinu, útitekinn og brosmildur og þá urðu miklir fagnaðarfundir og þannig mun ég geyma í huga mínum minninguna um Jón frænda minn og þakka jafnframt forsjóninni fyrir að hafa fengið að vera honum samferða um tíð.
Það voru mikil forréttindi.
Hvíl í friði, kæri frændi.
Guðmundur Pétursson.
Bændahöfðinginn Jón á Reykjum er allur. Hann var hávaxinn, svipmikill og tígulegur, og sópaði að honum hvar sem hann fór. Árið 1944 keypti SÍBS, Samband íslenskra berklasjúklinga, 32 hektara land undir vinnuheimili af eigendum Reykja í Mosfellssveit, þeim Bjarna Ásgeirssyni, alþingismanni, og Guðmundi Jónssyni, skipstjóra, föður Jóns. Seljendur sýndu SÍBS þá rausn að gefa því um það bil helming af andvirði landsins. Þann 1. febrúar 1945 hófst rekstur vinnuheimilisins og þá fékk staðurinn hið þekkta nafn sitt Reykjalundur samkvæmt tillögu prófastsins, séra Hálfdáns Helgasonar.
Oft minntust foreldrar mínir á þennan rausnarskap þeirra Reykjabænda. Um leið og ég gat borið 5 lítra brúsa var ég sendur í eldhúsið á Reykjalundi til að sækja mjólkina, sem auðvitað kom frá Jóni á Reykjum. Mörg sporin átti ég á Reykjum, ýmist til að spóka mig um í fjósinu, leika mér í hlöðunni eða að fá lánaða hesta. Aldrei fór ég bónleiður frá Jóni og oftast sagði hann eitthvað skemmtilegt með sinni djúpu hljómmiklu rödd og brosti í kampinn.
Pabbi og Jón unnu mikið saman að hinum ýmsu samfélagsmálum, voru meðal annars saman í stjórn Vinnuheimilisins að Reykjalundi þar sem Jón átti sæti í 12 ár.
Ég er fyrsta barnið sem fæddist á Reykjalundi og öll mín bernskuspor liggja í túnfæti Reykja. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur að hafa fengið að alast upp við þessar lúxusaðstæður á meðal sjúklinga í rótgrónu, traustu bændasamfélagi.
Fyrir hönd barna Odds og Ragnheiðar votta ég Málfríði og fjölskyldu innilega samúð.
Ólafur Hergill Oddsson.