Ólafur Helgi Kristjánsson, fyrrverandi skólasjóri Reykjaskóla í Hrútafirði, fæddist á Þambárvöllum í Bitrufirði, Strandasýslu þann 11. desember 1913. Hann andaðist á Vífilsstöðum 5. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin, Kristján Helgason, bóndi á Þambárvöllum, f. 23. maí 1880, d. 28. janúar 1940, og Ásta Margrét Ólafsdóttir, f. 9. ágúst 1878, d. 29. júní 1962. Bróðir Ólafs var Magnús, f. 18. júní 1905, d. 12. ágúst 2001. Uppeldissystir var Halldóra Björnsdóttir, f. 9. nóvember 1920, d. 30. desember. 2007. Ólafur kvæntist Sólveigu Kristjánsdóttur, kennara, þann 7. júní 1941. Hún var fædd 27. mars 1918, d. 11. ágúst 2001. Þeirra synir eru: 1) Kristján, lögfræðingur, f. 1943, kvæntur Helgu Snorradóttur. Synir hans og fyrri konu, Bryndísar Guðmundsdóttur, eru: Ólafur Helgi, f. 1968, og Hrafnkell, f. 1975. Börn Helgu af fyrra hjónabandi eru: Rakel Ýr, f. 1975, Rebekka Ýr, f. 1979 og Kristófer, f. 1989. 2) Sigurður Páll , kennari, f. 1945, kvæntur Guðjónu Benediktsdóttur. Þeirra börn eru: Sólveig, f. 1965, Hrafnhildur, f. 1968, Berglind, f. 1975 og Kristján, f. 1979. 3) Þórður, f. 1948, sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington, D.C, kvæntur Láru Alexandersdóttur. Þeirra börn eru: Gígja, f. 1973; Orri, f. 1975 og Silja, f. 1982. 4) Ástmar Einar, f. 1956, tónlistarkennari Perth, Skotlandi, kvæntur Helen Anne Ólafsson. Þeirra börn eru: Magnús Eric, f. 1990 og Anna Elizabeth, f. 1993. Auk þess ólst upp á heimili þeirra Ólafs og Sólveigar frá 9 ára aldri, Hulda Friðþjófsdóttir, sjúkraliði, f. 1943, gift Gunnari Friðrikssyni. Þeirra börn eru: Kristín Ólöf, f. 1966 og Gerður Sif, f. 1971. Ólafur var nemandi héraðsskólans að Reykjum í Hrútafirði fyrstu tvö starfsár hans, 1931-1932. Tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1936. Var þingritari og heimiliskennari með kennaranáminu 1932-1936. Sótti ýmis námskeið fyrir kennara í Svíþjóð, Noregi og Danmörku á árunum 1937-1938 og aftur árið 1967. Námskeið á Englandi 1949, m.a. á vegum British Council. Forfallakennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík 1937-1938; kennari í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði 1938-1939; héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði 1939-1956 og skólastjóri héraðsskólans að Reykjum í Hrútafirði frá 1956 til ársins 1981 er hann lét af störfum og bjó eftir það í Kópavogi. Félagsstörf Ólafs voru margvísleg. Hann var gjaldkeri Ungmennasambands Vestfjarða 1944-1956; hreppsnefndarmaður Mýrarhreppi, Dýrafirði 1950-1956 og hreppsstjóri sama hrepps 1954-1956. Formaður Ungmennasambands Vestur Húnvetninga 1960-1962, í sýslunefnd V-Hún. 1958-1978. Í sóknarnefnd Staðarsóknar, Hrútafirði 1978-1981. Í stjórn byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna 1964-1981. Formaður þjóðhátíðarnefndar V.-Hún. 1974. Í fræðsluráði Nl. vestra 1975-1982. Ólafur var sæmdur Riddarakrossi hinnar Íslensku Fálkaorðu fyrir störf að mennta- og félagsmálum. Útför Ólafs fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, föstudaginn 17. apríl 2009, og hefst hún kl. 15.

Haustið 1964 komum við til náms í Reykjaskóla, flest úr Húnavatns- og Strandasýslu en einstaka Önfirðingur eins og ég slæddist með. Ólafur hafði sem ungur maður kennt við Núpsskóla og orðstýr hans varð til þess að önfirskir bændur treystu honum öðrum betur til að uppfræða börn sín og innræta góða siði. Átti þar einnig þátt að hann flutti með sér eina af glæsilegri heimasætum sveitarinnar, Sólveigu Kristjánsdóttur úr Tröð sem kenndi stúlkunum handmennt og var þeim einnig góður félagi. Synir þeirra, Kristján og Páll kenndu okkur um tíma. Færum við öllum bræðrunum og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.

Aginn sem ríkti á skólanum fannst okkur nokkuð mikill en eftir á að hyggja var það okkur hollt. Hann axlaði ábyrgð á 120 nemendum sem sumir hverjir voru óstýrilátir. Fyrst vorið okkar fylltist Hrútafjörðurinn af hafís. Okkur var bannað að fara út á ísinn en í útivist um miðjan daginn sá Ólafur á eftir nokkum eldri nemendum sem komnir voru það langt frá landi að þeir heyrðu ekki hróp hans. Það hafa verið langar og þungbærar mínútur sem hann sat í bjöllunni sinni út á Sæbergi þar til þeir birtust milli ísjakanna úr Hrúteyjarferð. Ekki sagði hann orð við þá í fjörunni en þeir gengu lúpulegir inn veginn og hann ók á eftir. Í borðstofunni gerði hann okkur ljóst hver hætta var þar á ferð.

Ólafur var þéttur á velli og þegar hann lagði áherslu á orðin, tyllti hann sér gjanan á tær, svipmikill og háleitur. Lærður íþróttakennari og því urðu fimleikar, sund og körfubolti ríkur þáttur í skólastarfinu. Á sunnudögum flutti hann okkur hugvekjur á sal sem voru í anda ungmennafélagshugsjónarinnar og gömlu gildanna sem nú á síðustu tímum eru aftur að sanna gildi sitt. Við nemendurnir tókum þátt í heimilishaldinu, skúruðum gólf og þvoðum upp í eldhúsi. Hljómsveitin, kvöldvökurnar og böllin, árshátíð með leikriti og Silungnum eftir Schubert sem Jónína söng, tafl og bridge klúbbur, allt yljar þetta okkur í endurminningunni. Skólablaðið Nýgræðingur og teikningabókin Eintrjáningur komu í minn hlut og sérstakt leyfi fékk ég til að safna plötum fyrir böllin, jafnt á stráka sem stelpnavistum.

Allt þetta blómlega starf sem Ólafur hlúði að og gaf okkur frjálsræði til að stunda, skilaði okkur þroskaðri út í lífið og veitti okkur sjálfstraust. Varla er það tilviljun hve mörg okkar gerðu kennslu að ævistarfi sínu.

Síðustu önnina okkar tók hann sér frí og kom það í hlut Gunnlaugs Sigurðssonar að útskrifa þennan eina árgang. Segir það okkur etv. hve öflugur og krefjandi árgangurinn okkar var.

Þegar við undirbjuggum 40 ára útskriftarafmæli okkar þá heimsótti ég Ólaf að Vífilsstöðum og flutti síðan hópnum kveðju hans. Sjón og heyrn voru farin að dvína en þegar ég nefndi þá sem væru í forsvari og ég mundi ekki frá hvað bæ þau voru, þá bætti hann úr. Við skulum hafa í huga þann fjölda sem naut handleiðslu hans. Eftir gjöfult ævistarf náði hann háum aldri við góða heilsu. Við minnumst hans með virðingu og þökk.

F.h. útskriftarárgangs 1967 frá RSK Össur Sigurður Stefánsson

Lokið er langri vegferð Ólafs, í hartnær heila öld. Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir 46 árum. Ég minnist enn þétta handtaksins, virðuleikans, traustsins og hlýjunnar sem stafaði frá honum við fyrstu kynni. Hann var ekki allra og flíkaði ekki tilfinningum sínum en ég fann fljótt að í honum átti ég bandamann og traustan vin sem var vakinn og sofinn yfir velferð sinna nánustu.

Ólafur fæddist og átti sín uppvaxtarár norður við ysta haf, sem hefur án efa mótað hann og lífsviðhorfin að einhverju marki. Hann setti sér ungur markmið um að komast til náms, var í fyrsta nemendahópi sem lauk námi frá Héraðsskólanum að Reykjum, lauk námi frá Kennaraskólanum og gerði kennslu og skólastjórn að ævistarfi. Lífsförunautinn Sólveigu sína fann hann í vestfirskum fjallasal, á Núpi í Dýrafirði, þar fæddust þeim synirnir fjórir og þar hófst þeirra farsæla samstarf, sem var einstakt og órjúfanlegt í sextíu ár. Svo náið og samofið var lífsstarf þeirra Ólafs og Sólveigar að tæplega verður annars þeirra minnst án þess að geta hins. Eftir 17 ára kennslustörf á Núpi réðst Ólafur til starfa við  uppbyggingu og stjórn annars heimavistarskóla, Reykjaskóla í Hrútafirði, sem þau hjón stýrðu af miklum myndarskap í aldarfjórðung. Í því erilsama og óeigingjarna starfi kom vel í ljós hversu samstíga þau voru og allt í senn stjórnendur, fræðarar, umhyggjusamir uppalendur og eins og foreldrar þeirra fjölmörgu ungmenna sem þeim var treyst fyrir.

Lífsstarf Ólafs var fjölþætt og umfangsmikið og þar nutu sín vel hans mörgu og góðu eðliskostir. Knúinn áfram af hugsjón og eldmóði byggði hann upp sinn gamla skóla sem var um langt árabil einn af virtari og vinsælli héraðsskólum á Íslandi.

Ég á góðar minningar frá Reykjum og naut þar leiðsagnar í leik og starfi.

Ólafur var víðlesinn og stálminnugur, hafði ríka kímnigáfu og sagði mjög skemmtilega frá, var því oft glatt á hjalla og mikið hlegið. Alvörumál voru ekki síður til umræðu og oftar en ekki voru það áhugamál og lífsstarf okkar beggja, skólamál. Það var mér ómetanlegt ungri og óreyndri í upphafi starfsferils að kynnast eldmóði skólamannsins og fá tækifæri til að læra af reynslu hans og þekkingu. Hann var óspar á leiðsögn og einstaklega góður hlustandi.  Hann hafði ríkan skilning á væntingum og þörfum yngri kynslóðarinnar og ævinlega fús að lána fararskjóta til langferða og leysa vanda ef upp kom.

Síðustu ár voru Ólafi ekki auðveld, heilsan þvarr, sjónin brást og langir dagar í myrkri og einangrun. Þá var aðdáunarvert æðruleysið og auðmýktin sem hann sýndi hlutskipti sínu.

Dýrmætar minningar gömlu góðu áranna lifa, þar eigum við mynd af  hinum trausta, jákvæða, styðjandi og hlýja fjölskylduföður og afa sem gaf mikið.

Fyrir það erum við þakklát.  Minning um mætan mann lifir. Hvíl í friði.

Bryndís Guðmundsdóttir Ljósaberg 22, 221 Hafnarfjörður Sími 8633951/5553951/4111713

Látinn er í hárri elli Ólafur H Kristjánsson fyrrum skólastjóri að Reykjum í Hrútafirði. Ólafur var með réttu oftast kenndur við Reykjaskóla; þann stað hvar hann stóð í forsvari lungann úr sinni starfsævi eða í liðlega aldarfjórðung. Fyrir skólastjóratíð sína átti hann nær 17 ára starfsferil sem kennari á  Núpi í Dýrafirði.  Þar er undirritaður borinn og barnfæddur og átti sitt æskuheimili. Á neðri hæðinni bjó Ólafur og fjölskylda. Stiginn á milli hæða skild i íbúðirnar að en við börnin gengum nánast á milli  eins og þetta væri eitt stórt heimili. Fullorðna fólkið reyndi þó eitthvað  að hafa skikk á hlutunum og ég man að okkur krökkunum var uppálagt að halda okkur á "réttri" hæð á matmálstímum. Annars voru samskipti okkar barnanna mjög frjálsleg milli hæða en eftir á að hyggja hefur þetta nábýli og ráp okkar barnanna milli íbúðanna ef til vill verið nokkuð uppáþrengjandi á stundum í augum hinna fullorðnu. Aldrei fann maður þó fyrir slíku og það yljaði ætíð um hjartarætur þegar Sólveig kona Ólafs sagði gjarnan við mann þá sjaldan fundum bar saman mörgum áratugum síðar hér í  Reykjavík: "Mér finnst alltaf eins og þið systkinin séuð nánast eins og uppeldisbörnin mín;  þið voruð svo miklir heimagangar hjá okkur í gamla daga."

Sólveig lést 2001 og nú þegar Ólafur er allur setur mann hljóðan og hugurinn reikar aftur til gömlu daganna heima á Núpi. Með Ólafi eru þá, öll með tölu, gengin á vit sinna feðra hjónin tvenn sem áttu þennan barnahóp sem þarna ólst upp saman í liðlega 10 ár. Barnsminningarnar eru ljúfar þar sem hlýjan ein er alsráðandi. Viðmót þeirra hjóna í garð okkar systkinanna var alltaf þýtt, þar féll aldrei höstugt orð þó ef til vill hefði stundum verið ástæða til. Tíminn og örlögin höguðu því svo til að sem fullorðinn maður átti ég ekki mikil samskipti við þessi ágætu hjón; aðeins tilfallandi stuttir fundir eins og gengur þar sem jafnvel áratugir liðu á milli. Á þessum stopulu endurfundum síðari tíma kom Ólafur mér fyrir sjónir sem mikill hæglætismaður en traustur um fram allt. Við lok starfsævi fluttu foreldrar mínir að vestan og í Kópavog en þar bjuggu þá fyrir  ekki víðsfjarri  gömlu skólastjórahjónin frá Reykjum þau Ólafur og Sólveig. Þau höfðu töluvert samband sín á milli eftir því sem aðstæður leyfðu og fyrir það erum við í fjölskyldunni ævinlega þakklát. Við systkinin frá Núpi vottum aðstandendum og sonunum fjórum æskuleikfélögum okkar og vinum   samúð við fráfall föður, þar er góður maður genginn.

Einar Jónsson og systkini

Sárt er vinar að sakna.
Sorgin er djúp og hljóð.
Minningar mætar vakna.
Margar úr gleymsku rakna.
Svo var þín samfylgd góð.


Góða minning að geyma
gefur syrgjendum fró.
Til þín munu þakkir streyma.
Þér munum við ei gleyma.
Sofðu í sælli ró.
(Höf. ók.)


Þín tengdadóttir

Helga Snorradóttir

Kærar minningar frá góðum tíma á Reykjaskóla sækja nú á hugann. Við eigum það m.a. sameiginlegt að hafa verið í hópi fyrstu nemenda Ólafs H. Kristjánssonar haustið 1956 og ljúka námi frá Reykjaskóla í Hrútafirði vorið 1958 og komum öll úr Strandasýslu.

Það var ekki heiglum hent að taka að sér skólastjórn á Reykjaskóla haustið 1956. Skólastarf hafði fallið niður veturinn 1954-1955 og eftir erfitt skólaár 1955-1956 hættu allir kennarar og starfsmenn skólans. En Ólafur var vandanum vaxinn. Hæfileikar hans fólust m.a. í því að fá til liðs við sig einvala lið kennara og starfsmanna sem margir hverjir fylgdu honum vel og lengi. Sjálfur stóð Ólafur vaktina sem skólastjóri í full 25 ár með slíkum ágætum að tæpast verður á betra kosið. Hvílík orka, staðfesta, greind og hæfileikar til samskipta við nemendur, kennara og samferðamenn, sem Ólafur bjó yfir. Það má þó ekki gleyma því að Ólafur hafði traust bakland og naut ómælds stuðning frá konu sinni, Sólveigu Kristjánsdóttur, sem hann mat að verðleikum. Sannast hér orð Einars Benediktssonar: Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meira en hann sjálfur. Ólafur var frábær fyrirmynd, ekki bara okkur sem hann var að búa undir almennt lífsstrit, líka og ekki síður öllum þeim sem nú um stundir, á erfiðum tímum, eru í ábyrgðarstöðum fyrir land og lýð.

Stjórnunarstíll Ólafs einkenndist af ábyrgð og festu sem kom m.a. fram í einbeittum svip og svipbrigðum og haukfránu augnaráði. Í fyrirrúmi var þó umhyggja og metnaður fyrir nemendum og samstarfsfólki. Skilaboðin/takmarkið: Efla sál og líkama; nýta hæfileika okkar og tíma til góðra verka.

Eftir því sem árin líða verður okkur æ betur ljóst að það fólk sem við metum mest eru þeir heilsteyptu, heiðarlegu og hreinskilnu, þ.e. gömlu góðu manngildin, sem voru svo einkennandi fyrir Ólaf.

Það er m.a. til marks um jákæða uppskeru af störfum Ólafs að nokkur undanfarin ár höfum við, fyrstu árgangar Ólafs frá Reykjaskóla, hittst og gert okkur dagamun árlega til þess að minnast okkar góðu stunda á Reykjaskóla.

Með þessum, heldur fátæklegu orðum, viljum við þakka Ólafi fyrir gefandi samfylgd sem við metum mikils. Sendum börnum hans og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Erla, Ragna Unnur, Sigrún, Sólveig og Hilmar Friðrik.