Unnur (Stefánsdóttir) Pristavec, frá Hrísum í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi, fæddist í Ólafsvík 23. júní 1922. Hún lést í Arizona í Bandaríkjunum 14. júlí 2009. Foreldrar hennar voru Kristín Elínborg Sigurðardóttir, f. 1894, d. 1966 og Stefán Jónsson, f. 1891, d. 1964, í Hrísum í Fróðárhreppi. Unnur átti 10 systkini og 1 uppeldisbróður. Þau eru: Sigrún, Karl, d. 1973, Lúðvík, d. 1940, Sigurður, d.1977, Ingveldur, d. 2002, Jón, Laufey, Hallfríður, d. 2002, Reimar, Erla og Hjörtur. Unnur giftist 2.9. 1946 Paul Peter Pristavec, f. 15.6. 1925, d. 3.1. 1990, og hafa þau búið á ýmsum stöðum í Bandaríkjunum en lengst af í Newmark í Delaware og síðustu árin í Glendale og Peoria í Arizona. Unnur og Paul eignuðust 5 syni, Paul Peter jr., f. 27.9. 1947, Wayne Anthony, f. 15.9. 1951, d. 25.9. 1982, David Joseph, f. 11.4. 1954, Raymond John, f. 18.10. 1957, d. 28.2. 1997og James Peter, f. 21.10. 1959. Barnabörnin eru 7. Unnur var jarðsett í National Cemetery í Phoenix í Arizona 24. júlí.
Kveðja frá systkinunum.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Hvíl í friði,Guð geymi þig, elsku systir.
Sigrún, Jón, Laufey, Reimar, Erla og Hjörtur.
Elsku Unnur frænka, nú ertu farin frá okkur. Þú hafðir búið í útlöndum alla mína tíð og vegna þess að ég er skýrð í höfuðið á þér fannst mér ég verða að kynnast þér. Sendum við svo hvorri annari jólakort með smá fréttum frá því að ég var átján ára. Það er hlutur sem ég sé ekki eftir enda á ég öll bréfin frá þér.
Þá varð ég, Valdimar maðurinn minn, Berglind systir mín, og Unnur vinkona okkar þess aðnjótandi að gista hjá ykkur Paul eina nótt í Newark þegar við vorum að koma heim frá Flórída í janúar 1979. Þetta var alveg ógleymanlegt því að þú og Paul dekruðuð við okkur allan tímann. Þú sagðir okkur að ég og Berglind værum einu ættingjarnir sem komið höfðu í heimsókn þessi 32 ár sem þið höfuð búið úti, og vorum við mjög ánægðar með það. Þegar við fórum frá ykkur snemma um morguninn til að fara heim til Íslands þá smurðir handa þú okkur samlokur með nautakjöti og einhverju öðru góðgæti og ég man ennþá hvernig þær brögðuðust því að þær voru svo góðar. Þegar þú komst til Íslands á ættarmót mörgum árum seinna fannst mér yndislegt að hitta þig og þú ekkert hafa breyst, alltaf svo myndarleg.
Elsku Unnur takk fyrir allt og megir þú hvíla í Guðs friði.
Þín nafna,
Unnur Eiríksdóttir
Látin er í Arizona í Bandaríkjunum, móðursystir mín, Unnur (Stefánsdóttir) Pristavec. Hún fæddist í Ólafsvík en ólst upp í Hrísum í Fróðárhrepp. Þau voru 11 talsins systkinin og var hún 4. í röðinni. Það voru því margir munnar að metta á stóru heimili. Ung fór frænka mín að heiman í vist eins og ungar sveitastúlkur gerðu gjarnan á þessum tíma. Hún var í vist bæði á Akranesi og í Reykjavík.
Á þessum tíma var höfuðborgin full af hermönnum og kynntist frænka mín mannsefninu sínu þar. Hann hét Paul Peter Pristavec og var í bandaríska hernum. Þau giftu sig í Bandaríkjunum 1946. Þau bjuggu mjög víða, þar sem hann var í hernum og var fluttur á milli staða, meðal annars bjuggu þau í Tokyo í Japan og Cubi Point á Filippseyjum. Síðustu árin bjó Unnur í Peoria í Arizona.
Unnur var falleg kona og fínleg, einstaklega glaðleg, glettin og spaugsöm. Hún hafði góða nærveru og átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðina á hlutunum.
Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um frænku mína. Hún missti tvo syni sína sviplega, Wayne árið 1982 og Raymond árið 1997. Mann sinn missti hún svo árið 1990.
Á þessum árum ferðaðist fólk ekki mikið og hún með stórt heimili svo það liðu því alltof mörg ár þangað til hún kom til landsins aftur. Hún kom í heimsókn 1991 á ættarmót og þá fengum við systkinabörnin að njóta þess að kynnast henni. Hún kom tvisvar aftur í heimsókn áður en yfir lauk.
Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að vera í bréfasambandi við hana og syni hennar í gegnum árin og er ég mjög þakklát fyrir það.
Síðasta ár var henni erfitt, hún fékk heilablóðfall og eftir það dvaldi hún á hjúkrunarheimili. Það reyndist þessari lífsglöðu konu erfitt að geta ekki gert hlutina sjálf og vera upp á aðra komin.
Elsku frænka mín, ég þakka þér fyrir öll bréfin þín í gegnum árin og alla þína vinsemd. Eftirlifandi sonum þínum Paul Peter Jr., David og James, tengdadóttur þinni Alice og barnabörnum þínum Carmettu, Erin, David Jr., Kristin, Katherine, Oliva og Raymond Jr. sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Hugur minn er hjá ykkur á þessari stundu.
Sofðu nú blundinum væra,
blessuð sé sálin þín hrein.
Minningin, milda og tæra,
merluð, í minningar stein.
(Bryndís Halldóra Jónsdóttir.)
Blessuð sé minning þín.
Eygló Tómasdóttir