Bergljót Viktorsdóttir fæddist á Siglufirði 5. nóvember 1957. Hún lést á krabbameinslækningadeild Landspítalans við Hringbraut 12. mars 2009. Foreldrar hennar voru Ólöf Anna Ólafsdóttir verslunarkona, f. á Ísafirði 6. nóvember 1929, d. 22. janúar 2005, og Viktor Þorkelsson apótekari, f. í Siglufirði 25. mars 1923, d. 13. júlí 1994. Systkini Bergljótar eru Ólafur Guðlaugur Viktorsson, f. 9. janúar 1949, Steinar Viktorsson f. 30. mars 1952, og Hafsteinn Viktorsson, f. 13. janúar 1965. Eiginmaður Bergljótar er Eysteinn Þórir Yngvason atvinnurekandi, f. í Reykjavík 8. maí 1955. Foreldrar hans eru Guðrún Jóhanna Helgadóttir prestsfrú, f. í Keflavík 7. september 1927, og Séra Yngvi Þórir Árnason, f. í Reykjavík 17. september 1916, d. 4. febrúar 1991. Bergljót og Eysteinn eignuðust þrjá syni, þeir eru: 1) Ægir Þór Eysteinsson fréttamaður, f. 3. nóvember 1977, sambýliskona Margrét Hannesdóttir. 2) Gísli Jóhann Eysteinsson viðskiptafræðingur, f. 30. september 1980, sambýliskona Margrét Reynisdóttir, þau eiga nýfætt stúlkubarn. 3) Yngvi Þórir Eysteinsson útvarpsmaður, f. 2. nóvember 1987, sambýliskona Jónína Berta Stefánsdóttir. Bergljót og Eysteinn bjuggu alla tíð í Reykjavík. Fyrstu árin á Laugavegi í miðbæ Reykjavíkur og síðar í Breiðholti. Þau fluttu svo á Kleppsveg í Laugarneshverfi og bjuggu þar um árabil, þar til þau fluttu á Sunnuveg 17 í Langholtshverfi vorið 1996. Bergljót starfaði hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar í nokkur ár, eða þar til hún og eiginmaður hennar hófu sjálfstæðan atvinnurekstur. Útför Bergljótar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, 24. mars, og hefst athöfnin klukkan 15.

Frænka mín og vinkona er látin, langt um aldur fram. Fregnin um alvarleg veikindi hennar kom eins og þungt högg á okkur öll sem þekktum hana og aðeins nokkrum dögum seinna var hún öll.

Okkur finnst forlögin grimm, að  taka 51 árs gamla konu frá fjölskyldu sinni og fyrsta barnabarninu, sem var á leiðinni í heiminn, en okkur er ekki ætlað að skilja svona ákvörðun.

Bella var nett og falleg kona, alltaf vel klædd og flott. Hún var hvers manns hugljúfi, glaðleg og ræðin. Lét hún sér annt um fólkið sitt og vildi allt gera fyrir vini sína og fjölskyldu. Nú er hennar sárt saknað og er hugur okkar hjá Eysteini, sonunum og allri fjölskyldunni, því þeirra missir er sárastur.

Hvíl í friði, elsku Bella.

Edda frænka.