Særún Hannesdóttir fæddist á Húsavík 2. júlí 1962. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 29. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Friðrika Sæþórsdóttir, f. 25. október 1937, og Hannes Gestur Sigurbjörnsson, f. 10. maí 1938, d. 25. janúar 2005. Særún átti eina hálfsystur, samfeðra, Júlíönu Sigríði Hannesdóttur, f. 23. apríl 1973. Fyrstu æviárin ólst Særún upp í Austurhaga í Aðaldal eða til fjögurra ára aldurs. Þá fluttist hún ásamt móður sinni og móðurfólki í Fagranes II í sömu sveit. Þar bjó Særún til 17 ára aldurs er hún fluttist til Akureyrar þar sem hún bjó til æviloka. Særún starfaði lengst af sem fiskvinnslumaður, fyrst hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og síðar hjá Brimi hf. Á unglingsárum stundaði Særún nám við Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal. Útför Særúnar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, í dag, 10. ágúst, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Hún Særún var tekin frá okkur í blóma lífsins.

Ég kynntist Særúnu þegar við fórum að vinna saman haustið 2005.  Hún kom mér alltaf fyrir sjónir sem lífsglöð, ákveðin, fylgin sér og dugleg.  Hún hafði mikinn húmor, ekki síst fyrir sjálfri sér og sagði stundum í gríni að hún væri bæði ofvirk og með athyglisbrest - gæti ekki unnið nema á fullum hraða og vildi helst ekki stoppa.  Það var því alltaf gaman að eiga samskipti við Særúnu, hún gat verið ákveðin og föst á sínu en aldrei langt í húmorinn.  Hún var áberandi starfsmaður í okkar rúmlega hundrað manna hópi hjá Brimi á Akureyri og það voru því þungar fréttir sem bárust einn daginn þess efnis að Særún hefði greinst með alvarlegan sjúkdóm í blóma lífsins.  Við trúðum því varla að þessi öfluga kona sem stundaði líkamsrækt af kappi og geislaði af heilbrigði væri skyndilega orðin fárveik.

Ég minnist Særúnar með söknuði og votta aðstandendum samúð á þessum erfiðu tímum.

Ágúst Torfi Hauksson.