Jóhanna Katrín Björnsdóttir var fædd í Reykjavík 6. janúar 1955. Hún lést í Sjálfsbjargarheimilinu, Hátúni 12, 14. apríl 2009. Foreldrar hennar voru Björn Lúðvík Jónsson bifvélavirki, f. 7. apríl 1929, d. 6. febrúar 1991, og Steinunn Lilja Jónasdóttir saumakona, f. 16. apríl 1922. Alsystkini Jóhönnu Katrínar eru Þórður Björnsson, f. 6. júní 1952, og Hrefna Birna Björnsdóttir, f. 9. júní 1962. Hálfsystkini hennar, sammæðra, eru Björn Biering Hallgrímsson, f. 6. mars 1944, og Guðný Jóna Hallgrímsdóttir, f. 16. nóvember 1945. Hinn 18. desember 1976 giftist Jóhanna Katrín Oddi Jónasi Eggertssyni húsgagnasmið, f. 25. mars 1949. Þau eignuðust fjögur börn. 1) Geirlaug Dröfn Oddsdóttir iðjuþjálfi, f. 18. október 1975. Maður hennar er Helgi Magnússon, f. 9. janúar 1972. Börn þeirra eru Arna Dögg Helgadóttir, f. 14. maí 1997, og Helena Ýr Helgadóttir, f. 4. nóvember 2001. 2) Jónas Þór Oddsson tölvunarfræðingur, f. 3. október 1977. Kona hans er Lilja Guðríður Karlsdóttir, f. 31. mars 1975. Börn þeirra eru Magni Snær Jónasson, f. 9. mars 2003, og Sunna Katrín Jónasdóttir, f. 4. júlí 2006. 3) Atli Már Odddsson myndlistarmaður, f. 7. mars 1985. Sambýliskona hans er Maila Oen Hellesöy f. 27. mars 1984. 4) Ari Freyr Oddsson nemi, f. 18. janúar 1990. Jóhanna Katrín vann á leikskólum í Breiðholti, í Seljaskóla og á hjúkrunardeild Seljahlíðar. Útför hennar fór fram í kyrrþey. mbl.is/minningar

Síðustu dagar hafa verið erfiðir, hugurinn dvalið við liðnar samverustundir sem eru orðnar ansi margar. Útilegur, sumarbústaðaferðir og svo ótal margar aðrar samverustundir af hinum ýmsu tilefnum, sem og tilefnislausar. Afmælisferðir til annarra landa þar sem síðasta ferðin okkar var þegar þú varst fimmtug og orðin sárlasin en samt til í tuskið. Á ferðum okkar frændsystkina og maka erlendis virtist samferðafólkið okkar hafa það á tæru að þú varst stelpan í hópnum og lá við smá abbó hjá okkur Dóru þegar þú varst kölluð sæta stelpa en við því var ekkert að segja, þú varst jú yngst í hópnum og langflottust. Það var alltaf gaman hjá okkur og mikið grín jafnvel þó þú værir orðin svona lasin. Það er svo ómetanlegt að eiga trausta vini sem alltaf eru til staðar þegar maður þarf á félagsskap að halda og að missa einn úr hópnum er mikill missir. Allra þessara stunda er saknað, vitandi að þær verða ekki fleiri og það er svo óendanlega sárt.  Ég er eiginlega öskureið yfir því hvernig síðustu árin þín hafa verið en það vegur létt. Reyni bara að trúa því að það sé einhver tilgangur með þessu öllu saman.

Elsku Kata mín, takk fyrir þetta allt og  síðasta samverustundin okkar, þar sem við skáluðum fyrir afmælisbarni dagsins, mun aldrei, aldrei gleymast. Guð blessi minningu þína. Kæri Oddur, Geirlaug, Jónas, Atli, Ari, tengdabörn, barnabörn, Steinunn, systkini og aðrir aðstandendur, okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi góður Guð styðja ykkur og styrkja á þessum erfiðu stundum.

Sigrún Ágústsdóttir.