Jón H. Björnsson fæddist í Reykjavík 19. desember 1922. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. júlí síðastliðinn. Móðir Jóns var Ingibjörg Jónheiður Árnadóttir fædd í Narfakoti Innri Njarðvík 1896, d. 1980. Faðir Jóns var Björn Björnsson gullsmiður og teiknikennari fæddur á Ísafirði 1886, d.1939. Systkini Jóns eru Sigríður Vava f. 1921, d. 2003, Árni Sigurbjörn f. 1927, búsettur í Bandaríkjunum og Aðalheiður f. 1934, d. sama ár. Jón giftist 1949 Margréti Gunnlaugsdóttur f. 1927. Þau skildu. Börn þeirra eru 1) Sigríður Lóa sálfræðingur f. 1952. Maður hennar er Sigurður Ingi Ásgeirsson f. 1950. Dóttir þeirra er Eva Margrét Mona f. 1983. 2) Gunnlaugur Björn arkitekt f. 1954. Dóttir hans og Guðlaugar Kjartansdóttur f. 1954 er Hildur f. 1979. Sonur hans og Kristrúnar Jónsdóttur f. 1957 er Stefán Freyr f. 1993. 3) Ingibjörg Svala prófessor í vistfræði f. 1955. Maður hennar er Ólafur Ingólfsson f. 1953. Synir þeirra eru Ragnar f. 1981, Ingólfur f. 1987 og Jón Björn f. 1992. 4) Sigrún myndlista- og sérkennari f. 1957. Jón giftist 1974 Elínu Þorsteinsdóttur f. 6.8.1939. Sonur þeirra er Björn Þór tölvumaður f. 1975. Börn Elínar og fósturbörn Jóns eru 1) Elísa Ólöf Guðmundsdóttir f. 1960. Maður hennar er Vignir Kristjánsson f. 1959. Dætur þeirra eru Elín Dís f. 1986, Sandra f. 1988, Fríða Líf f. 1993 og Karen Kristín f. 1997. 2) Þorsteinn Ólafsson f. 1964. Kona hans er Sandra Shobha Kumari f. 1967. Jón lauk prófi frá Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði 1944. Árið eftir hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann hóf nám á skrúðgarðyrkjubraut við Long Island Agricultural and Technical Institute í Farmingdale, New York. Hann lauk þaðan prófi 1947. Að því loknu hóf hann við College of Agriculture við Cornell University og lauk þar B.Sc. prófi í landslagsarkitektúr 1950 og M.Sc. prófi í garðplöntuuppeldi frá sama háskóla 1951. Um sumarið fór Jón ásamt Árna bróður sínum akandi norður til Alaska. Þar unnu þeir við skógarhögg og safna síðan trjáfræjum um haustið sem þeir fluttu til Íslands. Þegar Jón kom heim til Íslands vorið 1952 kenndi hann við Garðyrkjuskólann. Hann stofnar Alaska gróðrastöðina árið 1953 og starfrækti samhliða teiknistofu og lagði þar grundvöll að garðskipulagi hér á landi. Jón öðlaðist fyrstur manna starfsheitið Landslagsarkitekt hér á landi og var eini starfandi landslagsarkitektinn í um áratug. Eftir hann liggur mikill fjöldi verka og má m.a. nefna Hallargarðinn sem hann skipulagði snemma á sjötta áratug síðustu aldar. Það er svo kallaður landslagsgarður sem var einkenni verka hans. Eftir páskahretið 1963 gerði hann hlé á rekstri Alaska um árabil og kenndi m.a. í Vogaskóla. Hann lauk prófi í uppeldis- og kennnslufræði frá Háskóla Íslands 1967. Jón hélt víða fyrirlestra og erindi í útvarp sem tengdust fagsviði hans og ritaði greinar í blöð og tímarit. Hann hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf sitt. Útför Jóns fer fram frá Bústaðakirkju föstudaginn 24. júlí og hefst athöfnin kl. 13.

Hann Jón afi minn gaf mér svo margt. Þá á ég ekki bara við mitt fyrsta páskaegg, sem ég var hálf hrædd við þar sem það var svo stórt, eða Georg, hvíta apann minn sem að ég fékk um jólin þegar ég var tveggja ára og dró og druslaðist með út um allan heim og situr enn á rúminu hjá mér hér í London. Nei, hann afi gaf mér margt fleira og þá sérstaklega stolt, stolt af því að vera barnabarn hans. Hann var svo góður pabbi sagði móðir mín er hann féll frá og ég get einnig sagt að hann hafi verið einstaklega góður og ljúfur afi. Samband hans við fósturbörn sín og börn þeirra var einnig einstaklega fallegt og sönnun fyrir því hversu góður maður hann var. Við eigum öll eftir að sakna hans.

Það var ekki fyrr en nýlega að ég áttaði mig á því hversu mikil áhrif afi hafði á ökkur öll, börn hans og barnabörn. Afi kunni að meta lífið og hélt sér hraustum og heilbrigðum með reglulegu sundi, göngu og ferðalögum. Þetta viðhorf hefur haft áhrif börnin hans sem voru oft hvött til þess að stunda útivist. Einnig hafa störf hans greinilega kveikt í okkur mörgum. Hægt er að finna arkitekta af ýmsum gerðum, líffræðinga og kennara í fjölskyldunni. En það sem ég áttaði mig á nýlega var að starfsferill minn á sér líka rætur í vinnu afa, þar sem hann var jú fyrsti kvikmyndagerðamaðurinn í fjölskyldu minni.

Ég á eftir að sakna hans afa eins og aðrir, en ég hugga mig við minningarnar um það margbreytilega og orkumikla líf sem hann lifði. Hann átti svo marga að sem að elskuðu hann eins og kom sérstaklega í ljós síðustu daga hans á Líknardeildinni. Það voru sérstök forréttindi að hafa fengið að vera hjá honum þegar hann skildi við og ég trúi því að hann hafi vitað að ég og við öll vorum hjá honum síðustu stundirnar. Eina óskin mín var sú að hann hefði náð að klára málverkið sem hann var langt kominn með fyrir mig.

Eva Margrét Mona Sigurðardóttir.

Jón Hallgrímur Björnsson landslagsarkitekt og frumkvöðull innan garðyrkjunnar hefur nú kvatt okkur. Ég var að koma úr ferðalagi á Vestfjörðum og frétti ekki af láti hans né jarðarför fyrr en ég var kominn til baka. Ég kynntist Jóni á margan hátt, hann var í félagi í Agoges ásamt föður mínum, frændum og bróður. Ég vann hjá Jóni í Alaska við Miklatorg í jólafríum frá skólanum sem unglingur við að selja jólatré og síðan við jólaskreytingar. Síðan sem teiknari þá nýútskrifaður sem skrúðgarðyrkjumaður frá Garðyrkjuskóla Ríkisins, þegar Jón opnaði aftur teiknistofu í Alaska í Breiðholti eftir nokkuð langt hlé. Jón var í eðli sínu kennari, hann hafði unun af því að útskýra og fræða. Samt var hann alltaf svo yfirvegaður og rólegur, eins og hann hefði alltaf nægan tíma. Hann sýndi mér teikningar frá eldri teiknurum, sem unnið höfðu hjá honum sem voru fjölmargir eins og t.d. Diether Roth sem voru sérstaklega listrænar, enda hann þá þegar orðið nafn í listaheiminum. Jón var stórhuga í hugsunum og stundum held ég að Ísland hafi verið of lítið fyrir hann, hann hefði þurft land með stærri markaði t.d. ef hann hefði verið áfram í Bandaríkjunum. En Jón valdi að koma heim til föðurlandsins og var frumkvöðull í uppbyggingu gróðrarstöðva, blómasölu, skrúðgarðyrkju og sem fyrsti landslagsarkitektinn, þá ruddi hann brautina. Með Jóni komu ferskir vindar og þekking sem síðan var hvati fyrir þá sem á eftir komu. Jón var góður landslagsarkitekt, listrænn, hann var ákaflega upptekinn af forminu, og heildarhugsuninni í því sem hann var að gera, og lagði áherslu á að kaupandinn fengi ekki bara grunnmyndir heldur þyrfti að fá teikningar í þrívídd eða ísometrískar teikningar, til að skýra betur heildarhugsunina í teikningunni. Ég þakka Jóni fyrir að fá að kynnast honum, fyrir að fá að hafa unnið fyrir hann, nú er góður maður horfinn á braut.

Pétur Jónsson landslagsarkitekt.