Guðmundur Svavar Jónsson, fyrrum hafrannsóknarmaður, fæddist í Reykjavík 11. október 1931. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu, Laufási að Laugarvatni, í morgunsárið 7. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Jónsson frá Gemlufalli í Dýrafirði og Fanney Guðmundsdóttir úr Hafnarfirði. Eftirlifandi bræður Guðmundar Svavars eru Páll Viggó, Björn, Þorgrímur og Gunnar Jónssynir. Guðmundur Svavar og bræður hans ólust upp í foreldrahúsum í hjarta Reykjavíkur að Ránargötu 1A þar sem hann og kona hans Sigríður Guðrún Sveinsdóttir stofnuðu síðar sitt fyrsta heimili og enn síðar sonur þeirra og kona hans. Enn í dag búa niðjar Jóns og Fanneyjar í fjölskylduhúsinu að Ránargötu. Guðmundur Svavar greindist með berkla 17 ára gamall og eyddi næstu 12 árum í baráttu við þessi veikindi ýmist á Vífilsstöðum eða Reykjalundi. Á Vífilsstöðum kynntist hann ástinni sinni, Sigríði Guðrúnu og fæddist þeim sonur árið 1954, Hafþór Birgir. Þau gengu í hjónaband í september árið 1961 eftir fullnaðarsigur á berklunum og sameinaðist þá litla fjölskyldan, en einkasonurinn hafði búið hjá afa sinum og ömmu fyrstu 7 árin vegna veikinda foreldra sinna. Hafþór Birgir er kvæntur Sigríði V. Bragadóttur og eiga þau fjóra syni sem urðu augasteinar afa síns og ömmu. Þeir eru: Bragi Dór, kvæntur Vöku Ágústsdóttur og börn þeirra eru Hera Dís og Kristján Helgi. Næstur í röðinni er Guðmundur Sveinn, í sambúð með Karen Ýr Lárusdóttur, þeirra barn er Heiða Dögg. Sá þriðji er Árni Páll, í sambúð með Díönu Gestsdóttur, og yngsti sonurinn er Sigurður Orri, enn í heimahúsum en kærasta hans er Agnes Erlingsdóttir. Guðmundur Svavar hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun Íslands árið 1961 þar sem hann starfaði óslitið til aldamóta. Lengst af sem rannsóknarmaður með sérhæfingu í svifdýrinu átu og rannsóknum á íslensku síldinni. Hann kom ennfremur að ýmiskonar verkefnum fyrir Hafró m.a. selatalningu úr lofti, mælingum á hafstraumum og uppbyggingu og ráðgjöf við endurnýjun á skipakosti stofnunarinnar. Árin 1969–1970 dvaldist hann í Bremerhafen í Þýskalandi þar sem smíði rannsóknarskipsins Bjarna Sæmundssonar fór fram og á árunum 1997 til 1999 þeyttist hann heimsálfa á milli vegna útboðs á smíði rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar. Hann var skipaður verkefnastjóri við þessa uppbyggingu skipsins og dvaldi í Chile í rúmt ár 1998–1999 sem á síðari árum varð ljóslifandi minning í huga hans. Utan vinnu lágu áhugamál í fræðslu og öflun hennar. Ferðalög voru stunduð innanlands sem utan og þekking um menn og málefni viðkomandi staða sótt víða áður en af stað var haldið enda fróðleiksfús maður með eindæmum. En umfram allt áttu málefni og félagsstörf Sambands íslenskra berklasjúklinga, SÍBS, hug hans allan þar sem hann sat í stjórn frá 1962 til 1974 og svo aftur frá 2000 til 2004. Auk þess tók hann að sér ýmiskonar stjórnar- og nefndarstörf, meðal annars í uppstillinganefnd enda rómaður sáttasemjari. Guðmundur Svavar var formaður Berklavarnar þegar hann lést. Árið 2000 létu Guðmundur Svavar og Sigríður kona hann af störfum, hann sem rannsóknarmaður hjá Hafró en hún sem verkstjóri hjá Múlalundi, og létu gamlan draum um lítið hús með garði rætast. Þau festu kaup á einbýlishúsi að Laugarvatni þar sem fjölskylda sonarins býr. Þar nutu þau sveitasælunnar þar til Sigríður lést í júlí 2004, en hann sem ekkill bjó áfram í húsinu til dauðadags. Útför Guðmundar Svavars fer fram frá Skálholtskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður í grafreitnum að Laugarvatni.

Nú er Svavar bróðir horfinn á braut. Hann var elstur okkar bræðra en ég var örverpið 20 árum yngri. Aldursmunurinn gerði það að verkum að sem barn leit ég á Svavar bróður sem merkilegan mann sem taldi það ekki eftir sér að hafa mig með við ýmis tækifæri. Skíðaferð í Hveradali með Siggu og Hafþóri syni þeirra eða ferð á Þingvöll kemur í hugann og var mikil upphefð fyrir mig.

Þegar árin liðu og ég fullorðnaðist og lagði út í lífið lærði ég að meta Svavar á annan hátt. Hann hafði ungur glímt við og sigrast á erfiðum sjúkdómi, kynnst Siggu lífsförunaut sínum og eignaðist son. Samheldni Svavars og Siggu var einstök og ljóst var að Hafþór sonur þeirra var þeirra líf og yndi. Mér fannst að sá sem ætti svona heimili væri ríkur maður. Ekki var starfsferill Svavars síðri en hann vann allan sinn starfsferil hjá Hafrannsóknastofnuninni og sinnti þar ýmsum störfum. Lokaverkefni Svavars var að hafa eftirlit með smíði rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar og það þótti honum vænt um því hann hafði einnig haft umsjón með smíði Bjarna Sæmundsonar rúmlega 30 árum fyrr í Þýskalandi.

Svavar var ákveðin kjölfesta í fjölskyldunni hann þekkti uppruna okkar og hélt tengslum við ættmenni okkar og einfaldast var að leita til hans ef mann þyrsti í upplýsingar um upprunann.

En það sem ávallt mun standa uppúr í minningunni eru heimsóknirnar til ykkar Siggu, hlýjunnar sem Sigga átti svo mikið af og skoðanaskipti okkar um starfið og áhugamál. Það var mikið frá þér tekið þegar Sigga hvarf úr okkar lífi og þín verður sárt saknað kæri bróðir. En nú ertu farinn að hitta Siggu þína og það verða fagnaðarfundir þegar þið þessi órjúfanlega heild farið saman í ferðalagið langa.

Kæri bróðir, takk fyrir ómetanlegt ferðalag í gengum lífið.

Gunnar Jónsson.

Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína.
Við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.
/
Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta.
Varast spjátur, hæðni, hlátur;
heimskir menn sig státa.
(Hallgrímur Pétursson.)

Mér koma þessar tvær vísur úr heilræða ljóði Hallgríms Péturssonar í huga þegar ég sest niður og pára nokkur fátækleg orð á blað til að kveðja þig kæri mágur og hana stóru systur mína sem þú varst giftur svo lengi, en dó fyrir 5 árum, þær eiga svo vel við þig og lýsa þér svo vel. Ekki bauð mér í grun að ég væri að tala við þig í síðasta sinn þegar við áttum eitt af okkar reglulegu og góðu símtölum, þremur dögum fyrir andlát þitt, þar sem þú að venju sýndir þinn alkunna áhuga fyrir velferð okkar og öllu sem við vorum að gera, komst með ráðleggingar og tillögur og stundum réttmætar aðvaranir. Ekki datt mér heldur í hug að þú ættir ekki eftir að koma með okkur vestur aftur eins og þú hefur gert undanfarin ár. En Ok ég skil að þú vildir mæta í afmælið hennar Siggu systur (8. águst) sem þú elskaðir og þér þótti svo afar vænt um og saknaðir svo mikið.

Það eru svo margar góðar minningar sem leita á hugan þegar maður hugsar um þig og Siggu systur, og ég er svo þakklátur Guði fyrir þau forréttindi að leyfa mér og minni fjölskyldu að ganga veginn með ykkur, þið voruð okkur svo góð og hjálpsöm, og sérstaklega mér á erfiðum tímum á uppvaxtarárum mínum, þá var gott að eiga stóra systur og mág sem oft komu mér í foreldra stað, og svo seinna þegar ég gekk í gegnum veikindi mín, þú gerðir þér far um að setja þig inní sjúkdóm minn til að geta skilið hann betur og hjálpað okkur. Það var alltaf hægt að koma á Ránargötuna og fá uppörvun, ráðleggingar og hlýju frá ykkur Siggu, þið eigið stóran þátt í því að líf mitt er fallegt og innihaldsríkt í dag, eftir að hafa haft svo góðar fyrirmyndir gegnum lífið. Heimurinn væri betri ef allir væru sem þið, heiðarleikinn, ábyrgðartilfinningin, hjálpsemin og lífsbaráttuviljinn í toppi, þó erfiðleikarnir sýndust stundum óyfirstíganlegir og veikindin sem hrjáðu ykkur mest alla lífsleiðina, þá brutust þið áfram sem sannar hetjur, enda finnst mér eiga svo vel við ykkur orðin sem Páll postuli ritar til Kórmintumanna í 2 kór 12:7-11 því að mátturinn fullkomnast í veikleika o.s.frv.

Það er svo erfitt að skrifa stutta minningagrein um mann sem er búinn að vera svona lengi stór hluti og áhrifavaldur í lífi manns, þú Gummi minn komst svo snemma inn í fjölskylduna að ég man ekki svo gjörla eftir því, enda nánast pelabarn og þar af leiðandi svo ótal minningar sem koma upp í hugann á nærri sextíu ára samfylgd að maður þyrfti allt blaðið til að rekja það allt. Svo fátt eitt sé nefnt þá langar mig og Gyðu að þakka ykkur fyrir hvað þið voruð alltaf góð við dætur okkar. Þegar þær voru litlar og þið voruð ekki enn búin að fá ykkar barnabörn (sólargeislana ykkar, strákana fjóra) þá voru þær ykkur kærari en allt annað og áttu stóran sess í hjarta ykkar og fastan dag hjá ykkur, og eiga þær þessar góðu minningar. (Siggu og Gumma dagurinn) flestalla fimmtudaga kom Sigga eða þú og sóttuð þær og dekruðuð við þær, og svo komum við að sækja þær og áttum góða kvöldstund með ykkur. Ég man líka hvað ég var stoltur af þér þegar við komum öll fjögur með Siggu niður á bryggju að taka á móti þér þegar þú komst með rannsóknarskipið Bjarna Sæmundsson til heimahafnar sem þú hafðir verið að hafa eftirlit með smíði á, í Þýskalandi, og mig minnir að þú hafir líka átt stóran þátt í að teikna og skipuleggja, ómenntaður maðurinn að öðru leyti en menntun úr lífsins skóla. Þú gleymdir ekki litlu dömunum þínum þá, komst með afar fallegar grænar kápur á þær, valdar af smekkvísi. Og einhver leikföng líka, því þú vissir að það er ekkert gaman að fá bara mjúka pakka. Ég veit Gummi minn að þér var ekkert um lof eða hrós gefið, en ég ætla samt að minnast líka á það hvað ég var ánægður með hvað þú sýndir menamönnunum úr Suðurgötuskólanum að við fólkið sem eins og þú, höfðum ekki tækifæri til að læra vegna veikinda eða annarra orsaka getum engu að síður verið klár og gert hlutina vel, það var ekki svo lítil lætin og gagnrýnin frá mennta elítunni á það, að þú ómenntaður maðurinn skyldir vera ráðinn framkvæmdastjóri fyrir smíði hafrannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar og fylgdir smíðinni eftir úti í Chile og þér fórst það vel úr hendi, að ég best veit, það er nefnilega til nokkuð sem heitir Guðsgjafir sem við fáum í vöggugjöf og af þeim fékkst þú margar, eins og þá, hvað þú lagðir mikla alúð í allt sem þú tókst þér fyrir hendur og varst duglegur að kynna þér hlutina. Þú varst örugglega miklu menntaðari en þeir sem voru að gagnrýna þó þú hefðir ekki prófgráðuna, alla vega kom ég afar sjaldan að tómum kofanum þegar ég þurfti á ráðleggingum eða upplýsingum að halda og það var oft, því ég hef vasast í mörgu í gegnum tíðina og oft þurft á ráðleggingum að halda, þú virtist vera inni í öllum hlutum.

Ég get ekki hætt án þess að þakka fyrir hvað þið Sigga sýnduð alla tíð mikinn áhuga og lögðuð mikinn metnað, alúð og vinnu í félagið ykkar berklavörn, SÍBS og uppbygginguna á Reykjalundi sem ég hef notið góðs af í tvígang í mínum veikindum. Verst af öllu þykir mér það, að með heimferð þinni á vit feðranna er enn að fækka þeim göfugu, heiðarlegu og sönnu mönnum sem hægt var að gera samninga við og skrifa undir með handabandinu einu, og allt stóð eins og stafur á bók, þjóðfélagið okkar og heimurinn allur væri betur settur ef við ættum í dag fleiri menn eins og þig.

Elsku stóra systir, mig langar líka að kveðja þig sérstaklega með nokkrum fátæklegum orðum þótt seint sé. Þökk sé Guði fyrir að lokið er þeirri miklu þrautagöngu sem þú þurftir að ganga mest alla ævina og sérstaklega síðustu árin sem þú lifðir, en hún hófst um það leyti er þú lést klippa síðu lokkana af litla bróður, því að þú varst svo stolt af því, að eiga lítinn bróður og þoldir ekki þegar fólk var sí og æ að spyrja þig hvað heitir litla systir. Þetta var þegar þú spásseraðir um með mig í kerrunni um götur Hafnarfjarðar, nýbúin að missa kæra litla systur sem ég fékk bara að sjá á mynd, en eignast bróður nokkru seinna, með eiginlega sama nafninu, það munaði bara einu essi. Í öllum erfiðleikum er líka einhverstaðar ljós og þú fannst ljósið.

Ég trúi því að góður Guð hafi leitt ykkur Gumma saman þegar þið voruð bæði veik af sama sjúkdómnum, allavega er það ljóst núna að þið Gummi hafið stutt hvort annað í gegnum lífið og átt gleði og gæfurík ár saman með góðum ávöxtum þrátt fyrir veikindin.

Elsku kæra systir og mágur, ég trú því að sagan sem Jesús Kristur kennir okkur í Lúkasar Guðspjalli 16:19-31 eigi við ykkur núna, að þið hvílið þreytta líkama í faðmi Abrahams föður allra sem á það trúa að Biblían segi okkur sannleikann.

Elsku Hafþór, Sigga og fjölskylda, ég og fjölskylda mín, biðjum algóðan Guð að leiða ykkur og styrkja á erfiðri stundu.

Marías.