Ragnheiður Elsa Gísladóttir fæddist á Eyvindarstöðum í Blöndudal 6. október 1927. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð 23. mars 2009. Foeldrar hennar voru Gísli Jónsson bóndi og kona hans Guðlaug Karlesdóttir. Hún var næst elst fjögurra systkina en þau eru Haukur látinn, Gíslína, Svanhildur og Lilja. Eftirlifandi eiginmaður er Friðrik Blöndal skrifstofumaður fæddur 10. mars 1928. Þau eignuðust tvær dætur. 1) Borghildi, maki Páll Heimir Pálsson. Börn þeirra eru Friðrik Heiðar og Íris Ósk. 2) Anna, maki Þórarinn Jóhannesson. Börn þeirra eru Agnes Björk, Jónas Friðrik, Elísabet og Anna Borg. Langömmubörnin eru átta Úför hennar fór fram í kyrrþey frá Höfðakapellu 1. apríl 2009.

ið systkinin hugsum til Elsu frænku, þessarar glæsilegu og elskulegu konu, með miklum kærleika. Við eigum öll okkar skemmtilegu og fallegu minningarbrot um hana í gegnum tíðina. Í kringum hana leiftraði lífsgleði og heimsborgarabragur. Í hugskotum má enn heyra bregða fyrir þessum ótrúlega hressa og smitandi hlátri frænku, þessari hvetjandi röddu sem fór ekki fram hjá neinum. Heimsóknir í Löngumýri 2 til Elsu og Friðriks voru sérstök tilhlökkunarefni fyrir okkur sem börn, ávallt tóku þau hjónin yndislega á móti okkur með brosi og faðmlagi.  Í barnshuganum var húsið þeirra í Löngumýrinni ævintýrahús með enn ævintýralegri garði á bakvið. Endalaust há tré og lítið gróðurhús - draumaveröld sem hægt var að gleyma sér í löngum stundum, hoppandi í kringum húsið, tiplandi á steinhellum. Saumaherbergið hennar frænku var móskulegt í kjallaranum; fullt af tvinnakeflum í tugavís í regnbogans litum, hálfsaumaðum flíkum. Saumaherbergið bjó yfir mikilli dulúð kjallarastemningin hefur vafalaust lagt sitt af mörkum þar, en þetta herbergi bar merki mikillar og listrænnar vinnu frænku í saumaskap í gegnum árin. Við tókum að eldast og hættum að leika í garðinum, en góðar minningar okkar sem barna bjuggu áfram með okkur þegar komið var til Elsu frænku í Löngumýrina. Við minnumst þess hversu góð kona hún Elsa var og reyndist okkur systkinunum oft mikill haukur í horni. Oft var glatt á hjalla, hlátur og gleði og samtöl og frásagnir færðar í stílinn með setningum krydduðum kjarnyrtum íslenskum orðum. Talað var tæputungulaust um pólitík, landafræði og frægar sögupersónur úr mannkynssögunni, sem og afrek fjölskyldumeðlima sem rædd voru yfir kaffi og kleinum. Hún hugsaði um okkur eins og við værum hennar eigin og hafði væntingar til okkar í framtíðinni með sama hætti. Við ungan Yngva lagði hún hendi hans í lófa sinn og strauk blíðlega yfir og sagði: Láttu nú eitthvað gott af þér leiða þegar þú verður stór. Þú skalt verða tannlæknir og þú verður góður tannlæknir, sem gefur frænku þinni falskar. Hún skellihló sínum hvella hlátri og sló sér á lær.  Þannig var hún Elsa frænka. Hlátur hennar og lífsgleði, umhyggja og ákveðni áttu sér engin takmörk.

Með þessum örfáum orðum kveðjum við elskulegu Elsu frænku okkar með þakklæti í huga. Góðar minningar lifa áfram í hjörtum okkar. Við sendum Friðriki, Bobbý og Önnu og fjölskyldum þeirra, okkar hugheilustu samúðarkveðjur.

Yngvi Örn, Anna Guðlaug, Gísli Már og Kristín.