Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri á Akranesi, fæddist á Akranesi 16. des. 1944 og lést á heimili sínu 4. apríl sl. Foreldrar: Jón Zophonías Sigríksson, stýrimaður og síðar verkamaður á Akranesi og k.h. Kristjana Vigdís Hafliðadóttir. Systkini: Hrönn, handavinnukennari, f. 1940, Ester, f. 1943, d. sama ár og Þorsteinn, rithöfundur, f. 1953. Börkur kvæntist 25. des. 1965, Valgerði Sólveigu Sigurðardóttur, verslunarmanni, f. 28. júní 1945 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Sigurður Guðni Jónsson, skipstjóri á Akranesi og k.h. Sigríður Ólöf Sigurðardóttir. Börn þeirra: 1) Freysteinn Barkar, viðskiptafræðinemi í Reykjavík, f. 26. nóv. 1962 á Akranesi, var kvæntur Árnýju Ólínu Ármannsdóttir, sem er látin. Dóttir þeirra: Monika, læknanemi. 2) Friðmey Barkar, verslunarmaður á Akranesi, f. 5. okt. 1965 á Akranesi, gift Ólafi Þórðarsyni, bifreiðastjóra og knattspyrnuþjálfara. Börn þeirra: Valgeir, bifreiðastjóri, Ester María, nemi og Vigdís, nemi. 3) Brynhildur Barkar, hjúkrunarfræðingur á Akranesi, f. 13. febr. 1971 á Akranesi. Fyrri maður: Þorkell Pétursson, skipstjóri. Sonur þeirra: Patrekur Sveinn. Seinni maður: Rúnar Þór Óskarsson, viðskiptafræðingur. Börn þeirra: Ísólfur Darri og Benedikt Víkingur. 4) Harpa Barkar, hárgreiðslumeistari í Reykjavík, f. 21. nóv. 1973 á Akranesi. Fyrri maður: Ómar Svavarsson, viðskiptafræðingur. Synir þeirra: Börkur Tryggvi og Svavar Tryggvi. Seinni maður: Kolbeinn Árnason, trésmiður. Börn þeirra: Elín Birta og Árni Dagur. 5) Mjöll Barkar, uppeldisfræðingur á Eskifirði, f. 1. febr. 1975 á Akranesi. Maður hennar: Sigurbjörn Hallsson, rafmagnstæknifræðingur. Börn þeirra: Hallur Freyr, nemi Börkur Hrafn, nemi Sjöfn Sólveig, nemi og Hringur Logi. Sonur Barkar og Þóru Elísabetar Hallgrímsdóttur: 6) Vignir, rafvirki á Akranesi, f. 25. jan. 1964 á Akranesi. Kona hans var Birna Gunnlaugsdóttir, kennari. Sonur þeirra: Matthías Finnur. Fósturdóttir Vignis: Regína Björk Vignis Sigurðardóttir. Dóttir Vignis: Birgitta Þura og dóttir hennar er Hafdís María. Börkur ólst upp á Akranesi, lauk þar gagnfræðaprófi og síðar námi í netagerð. Næstu ár vann hann að iðn sinni á Nótastöðinni á Akranesi. Þegar Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga var stofnsett fór hann til Noregs til að kynna sér slíka starfsemi og var síðan um mörg ár verkstjóri í Járnblendiverksmiðjunni, en hætti þar störfum árið 2000 og gerði út eigin sendibíl um eins árs skeið. Hann hafði lengi átt smábáta og gert út frá Akranesi, en árið 2002 sneri hann sér alfarið að útgerð, en lengst af átti hann Hörpu AK 55. Hann stofnsetti síðan fiskverkunarfyrirtækið Hafnyt ehf. Útgerðina seldi hann árið 2005 og stofnaði Ísagn ehf. um uppfinningaverkefni sín, m.a. beituframleiðsluvél, en eftir hann liggur mikið hugvit í uppfinningum. Árið 2006 stofnaði hann Kjarnafisk ehf. um nýja þurrkunartækni til harðfiskgerðar sem hann starfrækti ásamt konu sinni til æviloka. Tveimur dögum áður en Börkur féll frá var fyrirtæki hans Kjarnafiskur ehf. valið Frumkvöðull Vesturlands 2008.
Elsku pabbi minn er dáinn. Pabbi minn var merkur maður, traustur, heiðarlegur, sterkur og hlýr, klettur ef á þurfti að halda, ósérhlífinn og duglegur. Hann var mjög strangur á sjálfan sig og aðra sem leiddi það af sér að ég vissi alltaf hvar ég hafði hann, já þýddi já og nei þýddi nei. Ekkert kannski svar var til í hans orðabók. Pabbi var mikill verkfræðingur án háskólaprófs, hann gat allt.
Ef ég gæti aðeins fengið að hitta hann einu sinni enn til að segja honum hvað ég elska hann mikið og fengið að halda utan um sterka skrokkinn hans og halda í stóru hendurnar hans þá mundi ég aldrei, aldrei sleppa. Ég er ekki búin að fá nægjanlega langan tíma með honum. Ég bíð eftir að vakna af þessari martröð sem aldrei virðist enda.
Pabbi var stoð mín og stytta í gegnum erfitt tímabil í mínu lífi sem að ég hélt að yrði það erfiðasta sem ég þyrfti að ganga í gegnum, en að missa hann er það erfiðasta sem ég hef upplifað.
Börnin mín hafa misst mikið, afi Börkur er og verður alltaf bestur, hlýjastur og sterkastur. Pabbi var svo stoltur af því að eiga svona stóran hóp af afkomendum, stoltur af hverjum og einum.
Þegar ég rifja upp stundirnar með pabba í æsku þá var ansi margt brallað, margar minningar eru tengdar Andarkílsá þar sem veiddur var lax og mér kennt að kasta flugu og maríulaxinum var landað í Glerá 1983, 10 punda hrygna með aðstoð pabba, það var gaman. Oft fór hann með okkur niður á bryggju að dorga og þá lágu margir marhnútar í valnum. Hann fór líka með okkur í Akrafjallið að tína egg, hann var snillingur í að sjá hvar hreiður lá. Pabbi hafði ofboðslega sterka tilfinningu fyrir náttúrunni hvort sem var til sjós, lands eða lofts. Pabbi var uppátækjasamur, eitt skiptið var mús í stóra hveitisekknum inni í geymslu, hún var fönguð og pabbi fór beint útí skúr að smíða eitt stykki búr með mörgum herbergjum fyrir músina sem fékk nafnið Doddi og þá var komið gæludýr, sem reyndar dó af ofáti.
Pabbi átti alla tíð trillu og hann fékk gæs í netið hjá sér og minn maður mætti með enn eitt gæludýrið heim, vatn látið renna í baðkarið og aumingjan fuglinn fékk nýtt heimili, en ekki lengi því fuglinn skeit út um allt hús ef hann fékk að vera frjáls, mömmu til mikils ama.
Pabbi naut þess að vera til og ætlaði að verða háaldraður maður en því miður gekk það ekki eftir.
Elsku besti pabbi minn, við systkinin öll 6 höfum erft þína stærstu kosti, útsjónasemi, dugnað og heiðarleika og fyrir það þakka ég þér. Að eiga pabba einsog þig er best í heimi.
Elsku pabbi minn, ég sakna þín sárt, ég fyrirgef þér ákvörðun þína að kveðja þennan heim og mun muna þig alla tíð fyrir það hver þú varst. Nú skaltu hvíla í friði og megi góður guð gæta þín, blómstra í himins gili elsku besti pabbi minn.
Þín elskandi dóttir,
Harpa Barkar.