Björgvin Ólafsson fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 3. júní 1922. Hann lést á heimili sínu á Kleppsvegi 62 í Reykjavík 16. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru: Anna Bjarnadóttir, f. á Geirlandi á Síðu 14. maí 1898, d. 14. ágúst 1935, og Ólafur Ólafsson, bóndi á Efri-Steinsmýri, f. í Fagurhlíð í Landbroti 31. okt. 1880, d. 24. okt. 1923. Systkini hans voru Steinunn tvíburasystir, d. 29. okt. 1992, og hálfbróðir, sammæðra, Sigurður Sveinsson, f. 15. apríl 1931, d. 13. feb. 2006. Björgvin kvæntist hinn 30. apríl 1947 Guðfinnu Guðlaugsdóttur, f. í Vík í Mýrdal 22. ágúst 1923, d. 30. mars 1998. Foreldrar hennar voru Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir, f. í Suðurvík í Mýrdal 24. ágúst 1892, d. 6. feb. 1938, og Guðlaugur Gunnar Jónsson, f. á Suður-Fossi í Mýrdal 8. feb. 1894, d. 24. apríl 1984. Börn Guðfinnu og Björgvins eru: 1) Guðlaugur, f. 18. okt. 1944, d. 29. sept. 1958. 2) Anna Ólöf hjúkrunarfræðingur, f. 18. ágúst 1946, sambýlismaður Jón R. Eyjólfsson. Anna á tvö börn og tvö barnabörn. 3) Oddný Hrönn bókasafnsfræðingur, f. 28. janúar 1949, gift Gunnari Magnúsi Gröndal, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 4) Bryndís Dagný þroskaþjálfi, f. 4. okt. 1950, gift Guðbrandi Þorvaldssyni, þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. 5) Guðmundur Már forstöðumaður, f. 22. janúar 1955, kvæntur Júlíönu Þorvaldsdóttur, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 6) Davíð Þór lögfræðingur, f. 9. apríl 1956, kvæntur Svölu Ólafsdóttur, þau eiga fjögur börn. 7) Guðlaug þroskaþjálfi, f. 4. júní 1958, gift Halldóri Halldórssyni, þau eiga þrjú börn. Áður hafði Björgvin eignast soninn Jón Stefán húsasmið, f. 30. maí 1943, kvæntur Ingibjörgu H. Kristjánsdóttur, þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. Systursonur Björgvins er Ólafur Arnars, f. 21. sept. 1946, d. 27. júní 1998, ólst að nokkru leyti upp hjá Björgvini og Guðfinnu. Ekkja Ólafs er Elín Stella Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru fjögur og barnabörn sjö. Við lát Björgvins eru barnabörn hans 21 að tölu og langafabörnin 17. Eftir tveggja ára farskólanám naut Björgvin tilsagnar Eyjólfs Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Eftir það sótti hann skóla á Laugarvatni um tveggja vetra skeið og lauk þar gagnfræðaprófi með glæsilegum vitnisburði árið 1940. Björgvin hélt síðan til Reykjavíkur og átti heima þar alla tíð síðan. Hann starfaði m.a. fyrir breska herinn á stríðsárunum og vann almenna verkamannavinnu til ársins 1948. Þá réðst hann sem vagnstjóri til Strætisvagna Reykjavíkur. Hann gerði hlé á því starfi 1960 til 1974 og vann þá fyrst hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar og síðar hjá Landssímanum. 1974 hóf hann akstur strætisvagna á ný og starfaði síðan óslitið hjá SVR uns hann lét af störfum vegna aldurs 1992. Síðustu árin meðan heilsan leyfði tók Björgvin virkan þátt í sjálfboðastarfi á sviði kærleiksþjónustu í Áskirkjusöfnuði í Reykjavík. Útför Ólafs fór fram í kyrrþey 22. ágúst og var hann lagður til hinstu hvílu við hlið konu sinnar, Guðfinnu, og sonars síns Guðlaugs í Víkurkirkjugarði í Mýrdal.
16. ágúst sl. lést á heimili sínu í Reykjavík tengdafaðir minn, Björgvin Ólafsson, 87 ára að aldri. Lát hans bar nokkuð brátt að þrátt fyrir háan aldur, en hann var lengst af við góða líkamlega heilsu. Björgvin fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 3. júní 1922. Ungur missti Björgvin föður sinn og ólst upp hjá móður sinni og síðar stjúpföður til ársins. Þegar Björgvin var á 14. aldursári veiktist móðir hans og var flutt á spítala í Reykjavík þar sem hún lést. Eftir viðskilnað við móður sína ólst Björgvin upp hjá vandalausum við fátækt og vinnuhörku og var dapurlegt að heyra hann minnast þessara uppvaxtarára sinna. Árið 1938 tókst Björgvin að komast í nám í Héraðsskólann að Laugarvatni þar sem hann dvaldi í tvo vetur og lauk gagnfræðaprófi með framúrskarandi vitnisburði enda var Björgvin bráðgreindur og stálminnugur. Að loknu námi hélt hann til Reykjavíkur þar sem hann vann ýmsa vinnu næstu árin, eða til ársins 1948 er hann réðst til Strætisvagna Reykjavíkur þar sem hann vann með hléum til ársins 1992 er hann fór á eftirlaun.
Björgvin kvæntist konu sinni, Guðfinnu Guðlaugsdóttur frá Vík í Mýrdal, árið 1947 og varð þeim 7 barna auðið. Öll komust börnin til manns utan það elsta, Guðlaugur, sem lést árið 1958. Áður hafði Björgvin eignast einn son.
Björgvin og Guðfinna bjuggu lengst af í Reykjavík, síðast að Kleppsvegi 62. Guðfinna lést árið 1998 eftir erfið veikindi. Björgvin annaðist konu sína af mikilli natni í veikindum hennar þar til hún var lögð inn á sjúkrastofnun. Eftir lát hennar bjó Björgvin einn í íbúð sinni og sá að öllu leyti um sig sjálfur af miklum dugnaði. Hann átti eigin bíl sem gerði honum kleift að fara allra sinna ferða þegar honum sjálfum hentaði. Hann var virkur í félagsstarfi sóknarkirkju sinnar og var í heimsóknarhópi hennar. Auk þess heimsótti hann börn sín og tengdabörn eftir föngum.
Fyrir um tveimur árum lenti Björgvin í smávægilegu umferðaróhappi og ákvað þá sjálfur að hætta að aka bíl. Við það urðu mikil umskipti til hins verra í lífi hans. Hann einangraðist meira en góðu hófi gegndi, og það varð honum æ erfiðaðra að komast leiðar sinnar. Dapurlegt var að horfa upp á þennan dugmikla mann draga sig til hlé og smám saman missa kjarkinn. Því má ætla að hann hafi verið orðinn saddur lífdaga er kallið kom.
Björgvin var greiðvikinn og vildi hvers manns vanda leysa. Á árum húsnæðiseklu eftir stríð tóku þau hjón inn á heimili sitt föðurbróður Björgvins, Davíð, er hann fluttist aldraður til Reykjavíkur, þrátt fyrir að vera sjálf með stóran barnahóp í litlu húsnæði. Einnig var á heimili þeirra hjóna í nokkur ár systursonur Björgvins, Ólafur. Þá bjó á heimilinu í tvö ár hálfbróðir Björgvins, Sigurður, á meðan hann var við nám í samvinnuskólanum sem þá var í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu.
Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir kynni sem aldrei bar skugga á, og enn fremur fyrir þá stoð sem fjölskylda mín hefur átt í þessum grandvara og góða manni um áratuga skeið. Blessuð sé minning hans.Gunnar M. Gröndal.