Hjörtur Frímann Guðmundsson fæddist á Þorkelshóli Breiðabólsstaðarsókn, V-Hún, þann 15.júlí 1918. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund þann 4.október 2009. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson, f. 28.júlí 1892, d. 6.apríl 1936 og Helga Theodóra Gísladóttir f. 1.ágúst 1875, d. 13.febrúar 1923. Hjörtur kvæntist Ágústu Sigurðardóttur f. 17.júní 1933, hinn 1.maí 1960. Þau slitu samvistum. Börn Hjartar og Ágústu eru 1) Jóna Sigrún f. 12.maí 1959. Maki Ólafur Jónasson f. 12.október 1960. Börn þeirra eru a) Hulda Sigríður f. 7.september 1981 b) Arnar Már f. 3.apríl 1988 c) Hjördís Ósk f. 14.júní 1994. 2) Hjörtur f. 23.júlí 1960. Maki Guðný Þórarinsdóttir f. 13.október 1956. Barn þeirra er Þórarinn f. 30.mars 1991. Guðný átti fyrir Guðrúnu Dalíu f. 8.janúar 1981. 3) Ingibjörg Halla f. 12.október 1962. Maki Heimir Bjarnason f. 7.júní 1960. Börn þeira eru a) Hildur f. 23.september 1988 b) Halla f. 5.september 1997. 4) Sigurður f. 15.nóvember 1966. Maki Ingibjörg Gunnarsdóttir f. 24. september 1967. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru a) Gunnar Sigurður f. 31. ágúst 1987 b) Matthías Máni f. 31. ágúst 1991 c) Kristján Freyr f. 14. október 2002. Ágústa átti fyrir tvö börn. 1) Guðmunda Kristjánsdóttir f. 21.nóvember 1952. Börn hennar eru a) Ágústa f. 7.maí 1972 b) Valgeir f. 2.desember 1980. Maki Guðmundu er Páll Jóhann Pálsson f. 25.nóvember 1957. Þeirra börn eru c) Páll Hreinn f. 20.október 1983 d) Eggert Daði f. 5.nóvember 1985. 2) Helgi Kristjánsson f. 4.janúar 1954. Maki Kristín Helgadóttir f. 24.desember 1954. Þeirra börn eru a) Aníta Björk f. 1.mars 1974 b) Hrafnhildur f. 29.desember 1977 c) Fjóla Kristín f. 25.maí 1981. Börn, barnabörn og barnabarnabörn eru alls 33. Fyrri hluta ævinnar starfaði Hjörtur við almenn sveitastörf, bæði hjá öðrum og með eigin bústofn, lengst af á Geitaskarði í Langadal. Árið 1955 fluttist hann suður í Garð og vann þar ýmis verkamannastörf. Upp úr 1960 gerðist Hjörtur leigubifreiðastjóri, fyrst hjá Steindóri og síðar hjá Bæjarleiðum, þar sem hann starfaði óslitið til 75 ára aldurs. Allt fram undir nírætt hélt Hjörtur hross og starfaði við gegningar fyrir aðra. Útför Hjartar Guðmundssonar var gerð frá Fossvogskapellu þann 7.október 2009 og jarðsett að Útskálum í Garði 8.október 2009. Jarðarförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Afi minn, Hjörtur Guðmundsson, er látinn í hárri elli. Þegar ég lít um farinn veg uppgötva ég hversu margt ég hef lært af honum. Afi var alinn upp í fátækt og setti það mark sitt á hvernig hann hugsaði. Hann sagði mér margar sögur af bernsku sinni og æsku og minnti það mig á hvað ég hafði það í rauninni gott. Ég fékk nóg að borða, fékk að ganga í skóla og var alltaf vel klædd. Ég hef alltaf átt mjög erfitt með að henda mat og það eru bein áhrif frá elsku afa!
Afi var hestamaður og unni sér vel í sveitinni. Við fórum oft upp í Borgarfjörð í bústaðinn hans afa. Þar kunni afi vel við sig og bauð okkur afkomendunum að vera þar eins mikið og við vildum. Það verð ég alltaf þakklát fyrir, enda á ég margar og dýrmætar bernskuminningar úr sveitinni.
Afi minn var ekki sú manngerð sem lætur tilfinningar sínar mikið í ljós en þegar aldurinn fór að færast yfir hann minntist hann gjarnan á það við mig hvað hann væri stoltur af börnum sínum og barnabörnum. Sérstaklega þótti honum lofsvert hversu mörg af hans barnabörnum, og gott ef ekki bara við öll, stunduðum tónlistarnám. Þetta gladdi mig mikið að heyra og hvatti mig til dáða í mínu námi.
Nú hefur afi fengið hvíldina og verður hans sárt saknað. Ég gleðst mikið þegar ég rifja upp allar góðu stundirnar og allar frábæru sögurnar sem hann hafði safnað saman í huganum og sagði frá þegar hann var í skapi til þess. Guð blessi þig elsku afi og megir þú hvíla í friði.
Þín dótturdóttir,
Hildur Heimisdóttir