Áslaug Guðjónsdóttir Bachmann fæddist í Borgarnesi 19. desember 1910. Hún andaðist á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi miðvikudaginn 13. maí. Foreldara Guðrún G. Bachmann f. 20. júlí 1879 d. 10. apríl 1961 og Guðjón J. Bachmann f. 23. júní 1868 d. 21. september 1963 Áslaug var sjötta í röðinni af tólf systkinum. Þau eru: Sigríður, Jón, Guðlaug, Ragnheiður, Geir, Sigurður, Guðlaug, Guðmundur, Skúli, þau eru öll látin . Bjarni og Þórhildur Kristín eru þau einu sem eftir lifa. Áslaug giftist 3. des. 1932 Karli Eyjólfi Jónssyni f. 20. júní 1910 í Borgarnesi d. 30. ágúst 1986 foreldrar hans voru: Þórdís María Jónsdóttir f. 1. mars 1879 d. 8. feb. 1961 og Jón Eyjólfsson f. 2. okt. 1876 d. 1967. Börn þeirra: 1) Jón Þór, maki Helga Ólafsdóttir, börn: Karl Þorvaldur, Lilja, Þórdís María, Ólafur Páll og Ágúst Sturla 2) Guðrún, maki Sigurþór B. Gunnarsson (látinn) þau skildu, börn: Áslaug, Gunnar og Sigríður Hulda (látinn) 3) Guðjón, maki Bára Guðmundsdóttir, börn: Áslaug Bachmann og Guðmundur Ebenezer Ásgeir, 4) Hjördís, maki Viðar Loftsson (látinn) þau skildu, börn: Loftur og Þórdís María 5) Sturla, maki Birna Gunnarsdóttir. Barnabörn voru 13, barnabörn voru 20., barnabarnabörn 6. Áslaug átti alla tíð heima í Borgarnesi. Ásamt heimilisstörfum og barnauppeldi vann hún hjá Vegagerðinni sem matráðskona í vegavinnuflokkum í mörg sumur. Þá tók hún að sér að hafa sængurkonur heima og aðstoðaði ljósmóðurina, fæddust alls 13 börn heima hjá þeim hjónum. Jarðarför Áslaugar fer fram frá Borgarneskirkju í dag, laugardaginn 23. maí og hefst athöfnin kl. 14:00

Nú þú hjá englunum sefur

Sofðu vært
og sofðu rótt
fljúgðu á vængjum
engils inn í ljúfa nótt

Nú þú hjá
englunum sefur
og þá
Guð þig nú hefur

Sofðu vært
og sofðu rótt
Þú ert engill næturinnar
sem mun vaka hjá
mér í nótt

Þín langömmubörn,

Hanna Lilja, Kalli, Victor og Veronica.

Fyrir tæplega ári síðan þá var ég svo rík af ömmum, átti tvær yndislegar ömmur, og sjálf enginn krakki lengur, en í dag kveð ég Ásu ömmu mína og þær hittast á ný enda alltaf miklar vinkonur. Það er margs að minnast þegar að æska mín og uppvöxtur sem fléttaðist þéttum vef með ömmu og afa á Berugötuni, við bjuggum í sama húsi frá því að ég var ca. 4 ára og þar til ég varð unglingur, en alltaf var þetta mitt heimili sama hve langt eða stutt ég flutti í langan tíma eða stuttann. Þau amma og afi bjuggu uppi á efri hæðinni en við mamma og Lolli bróðir niðri, það var mikið öryggi að vita af þeim uppi þegar mamma var að vinna á kvöldin og fram á nótt, og við gátum alltaf sofið í okkar rúmum. Amma var mikill dugnaðarforkur, stundum svo mikill að maður fékk bara svima yfir því sem hún gat afrekað yfir daginn, hún var mjög árstíðarbundin í verkum sínum og maður vissi alltaf að þegar fór að líða að vori þá voru það kartöflurnar og allt grænmetið og auðvita garðurinn, svo kom smá sumarfrí, haustvertíðin byrjaði venjulega með berjatínslu og eða kartöfluupptöku, í framhaldi af því var sultugerð og svo slátur og súrsun og svo var skrokkunum raðað inn í eldhús, bitaðir niður og settir í salt og frysti, nú þegar líða tók á árslok þá var það bakstur og þrif, því jólaundurbúningurinn var alltaf tekinn með trompi, sem sagt hún var alltaf að og ég hef oft sagt að málshátturinn um "margar hendur sem vinna létt verk" eiga nú ekkert sérstaklega vel við hana, en minn málsháttur til hennar er svona "litlar hendur vinna mörg verk". Amma var prakkari inn við beinið og skemmtileg í tilsvörum, hún elskaði litla krakka og hafði einstaklega gaman af því þegar þau sögðu orð sem voru ekki allveg við þeirra aldur þá átti hún til að segja, "hvað segir þú vinur/vinan, ég heyrði ekki", svo barnið segði aftur orðið sem hún hafði svo gaman af að heyra, svo tísti í henni.

Hún amma var snilldarkokkur og þegar ég var unglingur þá stríddi ég henni oft á því hvað hún gat lesið matreiðslubækur endalaust, hún sat í eldhúsinu og drakk í sig uppskriftir og fór með matreiðslubækur í rúmið og las þær eins og spennusögur, en viti menn, þetta er nú bara farið að endurtaka sig all verulega heima hjá mér og get ég ekki annað en brosað út í annað þegar að ég hugsa um hvað hún hlær núna þegar hún veit að ég er ekkert betri.

Ég kveð mína elskulegu Ásu ömmu með þakklæti í huga.

Ég elska þig amma mín.

Þín,

Þórdís María.