Óli Kristjánsson fæddist í Haganesi í Mývatnssveit 16.04. 1920. Hann lést miðvikudaginn 30. september 2009 á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Foreldrar Óla voru Kristján Helgason bóndi í Haganesi fæddur 05.08. 1882 d. 26.08. 1966 og kona hans Árnína Soffía fædd 5. 11 1881 d. 4. 12. 1964 frá Klömbur í Aðaldal. Bræður Óla voru Jón fæddur 10.12. 1910 d 11.10. 1995 og Yngvi fæddur 17. 03.1916 d 09.04. 1999. Kona Yngva var Ingveldur Björnsdóttir frá Ósi í Skilmannahreppi fædd 10. 02. 1919 d 09.01. 2005. Óli kvæntist aldrei og eignaðist engin börn. 10 ára gamall fluttist Óli með fjölskyldu sinni frá Haganesi í Skútustaði. Skólaganga Óla var stutt. Óli var bóndi á Skútustöðum alla sína ævi. Hann var dýravinur mikill og oft var leitað til hans þegar lækna þurfti skepnur, t.d doðakýr, beinbrot o.fl. Löngum voru þarfanaut sveitarinnar í fóðri í fjósi Óla. Það vakti athygli nágranna hversu gott lag Óli hafði á þessum stóru gripum sem margir hræddust og ekki af ástæðulausu. Óli var mikill áhugamaður um alla ræktun, ræktaði ber og grænmeti í gróðurhúsi, þekkti mikið af blómum og trjárækt var mikið áhugamál. Óli var mjög félagslyndur maður, gekk ungur í ungmennafélag Mývetninga og var þar gerður að heiðursfélaga á efri árum. Hann var mjög virkur í leiklistarlífi Mývetnings og ófáar voru þær sýningar sem hann tók þátt í á langri æfi. Hann var einn af stofnendum Leikfimifélags Mývatnssveitar og var þar mjög virkur meðan það starfaði. Óli var listhneigður. Kominn á efri ár fór hann að mála myndir, aðallega af blómum og landslagi sem í dag prýða mörg heimili. Einnig fékkst hann nokkuð við vísnagerð þó ekki færi það hátt. Kirkjan var honum mjög kær og var hann meðhjálpari í Skútustaðakirkju í full 40 ár. Hann var í stjórn Lestrarfélags Mývatnssveitar um árabil, einnig í stjórn mjólkurdeildar KÞ í Mývatnssveit. Útför Óla fer fram frá Skútustaðakirkju í Mývatnssveit laugardaginn 10. október kl 11.

Elsku Óli

Kallið er komið og þín er sárt saknað.
Minningarnar hellast yfir mig þessa dagana um allan þann góða tíma sem við áttum saman. Ég var svo lánsöm að fá að alast upp á sama heimili og þú Óli fyrstu 6 ár ævi minnar. Ég svaf í næsta herbergi við þig og Jónka, með pabba, mömmu og Ragga bróðir. Afi, amma og Gylfi voru á efri hæðinni. Þarna bjó stórfjölskyldan saman undir sama þaki og átt þú stóran þátt í uppeldi mínu, þó svo Jónki hafi alla tíð tekið mig undir sinn verndarvæng. Eftir þessi sex ár fluttumst við kjarnafjölskyldan mín á efri hæðina í Selinu, íbúð sem pabbi hafði byggt yfir okkur. Við fluttumst því ekki langt, heldur aðeins yfir í næsta hús. Ég hélt samt áfram að búa hjá ykkur öll sumur fram að unglingsárum og sótti í að vera öllum stundum hjá ykkur. Þið voruð og eruð fjölskyldan mín.

Það er skrítið að hugsa til þess að nú eru allir öldungar ,,Skúta" farnir úr sínu jarðvistarlífi. Pabbi er meira að segja næst elstur af ,,Skútunum" í dag. Ég sat í Skútustaðakirkju í dag (9/10) og æfði mig fyrir kistulagningu þína. Ég átti erfitt með að einbeita mér að æfingunni, þar sem ég hugsaði svo stíft til þín allan tímann. Þú varst kirkjunnar maður, varst meðhjálpari, hringjari og umsjónarmaður Skútustaðakirkju til fjölda ára. Ekki eru mörg ár síðan þú hringdir kirkjuklukkunum síðast. Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir kirkjunni og starfi hennar. Vera þæg og hljóðlát og taka þátt í því starfi sem þar fór fram. Þú varst alltaf svo yfirvegaður og friðsæll í kirkjunni, manni leið alltaf vel nálægt þér í því umhverfi. Ég sat ófáa dagana með þér og ömmu Ingu við að pússa og fægja kirkjusilfrið. Kertastjakarnir voru fægðir af natni og mikilli nærgætni. Þið amma kennduð mér að fægja silfur svo það glansaði og sást hvergi á svartan blett. Þegar ég hugsa til kirkjunnar fer hugurinn að reika til brúðkaups míns. Þar áttir þú stórt hlutverk Óli. Þóranna hárgreiðslukona greiddi mér í stofunni þinni heima á Skútustöðum og svo voruð það þið amma sem hjálpuðu okkur við að klæða mig í kjólinn. Það gekk ekki þrautalaust, því hárgreiðslan mátti ekki skemmast. En þú, Óli hafðir ráð við öllu og sást til að klæða mig þannig að það haggaðist ekki hár á höfði mínu.

Þú hefur tekið þátt í mínu innsta lífi. Þú gerðir þér meira að segja far um að koma í skírn sonar míns í Kópavog árið 1999. Þú lagðir nú ekki oft land undir fót, en þú lést það eftir þér að koma og heimsækja mig. Þessi heimsókn var mér ómetanleg, mér þótti svo vænt um að þú kæmir og hef sjálf sagt aldrei sagt þér almennilega hve þakklát ég var. Þú passaðir einnig alla tíð vel upp á mig. Ég man að nábýlið var mér stundum um of og reyndi ég nokkrum sinnum að stinga af að heiman. Þú komst alltaf á eftir mér og talaðir um fyrir mér, svo ég gat ekki annað en snúið heim aftur. Einnig gastu alltaf náð úr mér allri fílu og frekju þegar það kom yfir mig.

Það var fleira sem þú kenndir mér, en við krakkarnir vorum alltaf látin reka kýrnar á morgnana upp á Bása og svo heim aftur seinni partinn. Það var þitt verk að sjá um kýrnar og mjólka og gerðir það vel. Þú hafði reyndar mikinn aga á uppeldinu við kýrnar og þótti mér stundum nóg um og fannst það mætti nú ekki stugga mikið við kúnum. En þú vissir hvað til þurfti og gerðir það sem þurfti að gera. Það þarf víst líka að hafa aga í fjósinu eins og inni á heimilinu.

Við krakkarnir vorum alltaf látin taka virkan þátt í bústörfunum og við þrif og umgengni á heimilinu. Amma sá til þess að ég var látin sópa alla daga, hengja út þvott ef var þurrkur, vaska upp og get ég þakkað henni og ykkur bræðrum fyrir það að hafa komið mér til manns. Ég bý að þessu uppeldi alla tíð. Ekki má svo gleyma heyskapnum. Óli, þú sást um að kenna okkur krökkunum að raka og sjá til þess að við gerðum það almennilega. Það þurfti að ná öllu því heyi sem slegið var. Það voru svo skemmtilegar stundinar sem við áttum í heyskap, sérstaklega í Heiðinni. Þá reyndar vann maður vel og hlakkaði allan tímann eftir að fá nestið sem amma Inga sendi okkur með. Það var alltaf brúnka, hjónabandssæla, kleinur og oft smurt brauð með silungi. Og talandi um silung. Mér hefur alla tíð þótt silungur einstaklega góður, þrátt fyrir að hafa borðað hann öll sumur sex daga vikunnar. Á veturna fékk maður hann svo siginn og það þótti mér alveg sælgæti. Þú sást til þess að ég ætti alltaf siginn silung þegar ég var við nám í Menntaskólunum við Sund. Sendir mér á veturna og spurðir af og til eftir því hvort mig vantaði meira.

Svo eru það steinarnir, þú sást líka alltaf til þess að ég væri með hrafntinnu á því heimili sem ég bjó hverju sinni. Ýmsar aðrar steinategundir gafstu mér og sagðir mér frá hve góð áhrif steinarnir hefðu á okkur og heimili okkar. Amma Inga hélt þessu líka vel á lofti og ræddum við oft um steina og virkni þeirra. Ég er alltaf með geislastein í eldhúsglugganum hjá mér sem þú gafst mér og hrafntinnu í stofunni. Takk fyrir það Óli. Ég passa sjálf upp á hér eftir að hafa hrafntinnuna hjá mér. Ég ætla líka að senda smá hrafntinnumola með þínum jarðnesku leifum. Ég veit þér þykir vænt um það. Ég vona að einhver hafi rænu á að senda mig með einn mola þegar ég fer. Sjáum til hvort einhver man það þegar þar að kemur. Fólk er farið að gleyma hvaða áhrif steinar hafa á okkur og hve mikilvægir þeir eru í tilveru okkur. Þú kenndir mér að bera virðingu fyrir þeim og umgangast þá með gætni. Ég á svo eftir að kenna mínum börnum betur um umgengnina við náttúru okkur og þá sér í lagi við steinana.
Já, Óli, minningarnar eru margar. Ég á þér svo margt að þakka. Mig langar að kveðja þig með sálmi nr.510 sem er eftirfarandi:

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)

Þín,

Jóhanna Sigríður