Anna Karlsdóttir fæddist að Þóroddstungu í Vatnsdal 23. febrúar 1908 og lést á Héraðshælinu á Blönduósi þann 23. júní 2009. Foreldrar hennar voru Karl Jónsson, bóndi f. 1884 d. 1950 og kona hans Guðrún Sigurðardóttir, f. 1882, d 1979. Anna var ein tíu barna þeirra hjóna. Eiginmaður hennar var Ellert Bergsson, f. 1903, d. 1950. Anna lifði sem ekkja í tæp 60 ár og sá fyrir tveimur börnum þeirra: Sigtryggi f. 1931, maki hans er Brynhildur Friðriksdóttir f. 1940 og eiga þau tvö börn, Margréti Ágústu og Ellert Unnar. Herdísi f. 1934, maki hennar er Jón Kr. Jónsson f. 1931, en hún átti einn son fyrir hjónaband, Ellert Björn Svavarsson f. 1962. Anna var jarðsungin frá Blönduóskirkju 4. júlí sl.
Að loknu barnaskólanámi sá Anna fyrir sér með vinnu við algeng sveitastörf þar til hún giftist Ellert um 1930 og hófu þau búskap í húsi sem gekk undir nafninu Slétta á Blönduósi og þar bjó Anna til ársins 1972. Þá fluttist hún ásamt dóttur sinni Herdísi og dóttursyni úr þrengslunum í glæsilegt raðhús sem Herdís hafði komið sér upp á Blönduósi. Sem einstæð móðir sýndi hún af sér mikla hörku og dugnað við byggingarframkvæmdirnar.
Síðustu tíu æviárin dvaldi Anna á Héraðshælinu á Blönduósi í góðu yfirlæti. Við frænkurnar (systkinabörn Önnu) áttum margt saman að sælda í öll þessi ár á Blönduósi og fór vel á með okkur þó aldursmunurinn hafi verið töluverður. Anna var ern alla sína ævi og var góður félagsskapur þeim sem hún átti í samskiptum við. Starfsorku hafði Anna fram eftir öllum aldri, að störfum var hún hljóðlát en afkastadrjúg. Aðal vinnuvertíð hennar var að hausti hjá Sláturfélagi Austur- Húnvetninga og þá skammt í vinnu frá Sléttu. Skapgerð frænku minnar er best lýst með að segja að hún hafi verið kona dul en ljúf í allri umgengni. Athygli vakti hve vel hún fylgdist með öllu í umhverfi sínu án þess þó að vera margorð um hlutina.
Með okkur Önnu var mikill kærleikur, enda fór þar góð mannvera að allri gerð. Megi hún eiga góða heimkomu á nýju tilverustigi. Vandamönnum öllum við ég færa innilegar samúðarkveðjur.
Jóninna Steingrímsdóttir