Björg Svavarsdóttir fæddist á Höfn 12. ágúst 1951. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut laugardaginn 15. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru; Guðrún Hálfdanardóttir, húsfreyja f. 30. janúar 1928 og Svavar Vigfússon, sjómaður, f. 20. júlí 1918, d. 14. apríl 1984. Systkini Bjargar eru; Guðný Hafdís, f. 24. mars 1949, Vigfús, f. 2. október 1955 og Snæfríður Hlín, f. 26. júlí 1966. Björg giftist á Sjómannadag, 3. júní 1973, Hauki Helga Þorvaldssyni, f. 30. september 1943. Börn þeirra: 1)Birnir Smári f. 5. september 1971, sambýliskona Jana Nielsen, f. 5. mars 1973. Synir þeirra eru Haukur Jákup, f. 20. ágúst 1996 og David Thor, f. 18. október 2003. 2)Þorvaldur Borgar f. 7. júní 1974, giftur Fanneyju Sjöfn, f. 17. júní 1976. Börn þeirra eru Andrea Rún, f. 30. janúar 2000 og Haukur Helgi, f. 22. september 2006. 3)Kristján Rúnar, f. 28. febrúar 1980. Björg starfaði við fiskvinnslu- og afgreiðslustörf hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga eins og margt ungt fólk á þeim tíma. Hún tók þátt í uppbyggingu útgerðarfélagsins Stemmu og starfaði þar við síldarsöltun og fleira. Björg lauk sjúkraliðanámi frá Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu 1993. Hún starfaði á Skjólgarði, hjúkrunarheimilinu á Höfn, síðar Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, við umönnun og handavinnukennslu. Auk þess starfaði hún síðustu ár við textíl- og handavinnukennslu við Grunnskóla Hornafjarðar. Björg átti sæti í félagsmálaráði Hornafjarðar og sat eitt kjörtímabil sem varabæjarfulltrúi. Hún var einnig í stjórn menningarnefndar Austur-Skaftafellsýslu. Björg var mikil hannyrðakona og prjónaði og saumaði mikið og nutu margir góðs af hagleik hennar. Vann hún til viðurkenninga á því sviði. Björg unni umhverfi sínu og hafði mikið dálæti á blóma- og trjárækt. Hún lét sér mjög annt um heimili sitt, fjölskyldu og var vinatraust. Björg verður jarðsungin frá Hafnarkirkju í dag 22. ágúst og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku besta vinkona mín. Það er erfitt og sárt að vera að skrifa minningargrein um þig þótt maður vissi að hverju stefndi er maður aldrei tilbúin en nú er stríði þínu lokið og þín er sárt saknað.

Ekki grunaði mig það þegar ég og Ella mágkona þín komum til ykkar Hauks 1976 og dvöldum hjá ykkur í viku að þú mundir svo verða mín allra besta vinkona í framtíðinni.

Þegar ég flutti á Höfn 1980 hittumst við aftur,og þú varst vinkona sem maður leit upp til. Þú bauðst mér í saumaklúbbinn þinn og þegar þú kynntir mig sagðir þú að ég hefði verið skírð í höfuðið á ykkur systrum. Þú sást alltaf spaugilega hlið á öllu. Þetta var  mjög skemmtilegur klúbbur með frábærum konum. Þú sagðir að þar væri gerð handavinna svo ég skyldi nú setja eitthvað upp á prjóna og fékk ég alltaf dygga og góða aðstoð frá þér og Guðnýju systur þinni. Ef þú fórst og keyptir efni í flík gerði ég það líka og þú hjálpaðir mér að sauma.

Eftir að þú útskrifaðist sem sjúkraliði unnum við saman á elló, þar var nú mikið gaman hvort sem maður var með þér á dag eða næturvakt, það var alltaf stutt í brosið þitt og glensið í augunum.

Þegar þú greindist aftur og minnkaðir vinnuna kom ég oftast við hjá þér á leið heim úr vinnu bara til að segja halló og fá nýlagað kaffi yfirleitt var nú til nýbakað og eitthvað flott á prjónum sem barnabörnin áttu að fá sent frá ömmu. Þvílíkar listaflíkur sem þú framleiddir, eða það sem var saumað. Þú varst algjör snillingur í höndunum.

Á föstudögum fórum við oft í göngu kölluðum við það föstudagurinn langi á gangi. Þá var komið við í öllum búðum á Höfn. Einu sinni er við fórum framhjá Olís var þar bílasýning og þá datt þér í hug að við ættum að fá að prófa bíl og skreppa út í húsgagnaverslun til Ólu og fá okkur kaffi (þér fannst heldur langt að labba þangað.) Við fengum flottasta jeppann og höguðum okkur eins og prímadonnur. Þú varst alltaf til í að fíflast svolítið og vorum við oft búnar að hlæja mikið að þessu uppátæki ásamt mörgum öðrum.

Elsku Björg mín ég gæti skrífað endalaust um þig ég á svo mikið af minningum en þær geymi ég í hjarta mínu.

Elsku Haukur, Binni, Valdi og Stjáni ég vil þakka ykkur fyrir að leyfa mér að vera með ykkur þegar elsku Björg okkar kvaddi það er mér mjög dýrmætt og hjálpar mér að takast á við sorgina. Ég bið góðan Guð að styrkja ykkur og styðja á þessum erfiðu tímum. Einnig fjölskyldum ykkur,svo og Rúnu,Guðnýju,Vigfúsi, Snæju og fjölskyldum.

Við kveðjum frábæra konu og minnumst hennar með mikilli hlýju.

Þín vinkona að eilífu,

Guðný Björg Jensdóttir