Haraldur Bessason fæddist í Kýrholti í Viðvíkursveit í Skagafirði 14. apríl 1931. Hann lést í Toronto í Kanada 8. apríl sl. Foreldrar: Elinborg Björnsdóttir kennari, f. 1886, d. 1942, og Bessi Gíslason hreppstjóri, f. 1894, d. 1978. Systkin: Björn endurskoðandi á Akureyri, f. 1916, d. 1979, Margrét Bessadóttir Fjeldsted húsmóðir í Reykjavík, f. 1918, d. 1979, og Gísli bóndi í Kýrholti, f. 1920. Hálfsystur samfeðra: Elinborg, f. 1945, d. 1946, og Elinborg húsmóðir í Hofsstaðaseli í Skagafirði, f. 1947. Fyrri kona Haralds var Ásgerður, f. 1933, d. 1988, dóttir Haralds Ágústssonar stórkaupmanns og Steinunnar Helgadóttur. Dætur þeirra Haralds: Steinunn Bessason listfræðingur, f. 1954, búsett á Gimli; Elinborg Berry innanhússarkitekt, f. 1956, búsett í Calgary; og Kristín Nabess kerfisfræðingur, f. 1960, búsett í Winnipeg. Seinni kona Haralds er Margrét kennari, f. 1944, dóttir Björgvins Magnússonar pípulagningamanns og Kristínar Pétursdóttur skipsþernu. Dóttir þeirra Haralds: Sigrún Stella Haraldsdóttir háskólanemi og söngkona, f. 1979, búsett í Toronto. Börn Margrétar af fyrra hjónabandi: Guðrún Ólafsdóttir leirlistakona, f. 1965 og Brandur Ólafsson fjármálastjóri, f. 1967, bæði í Toronto. Haraldur varð stúdent frá MA 1951 og cand. mag. frá HÍ 1956. Hann var prófessor og deildarformaður íslenskudeildar Manitobaháskóla 1956-1987, forstöðumaður og síðan fyrsti rektor Háskólans á Akureyri 1988-1994; fluttist 2003 til Toronto og stundaði kennslu og ritstörf uns yfir lauk. Haraldur gegndi ótal trúnaðarstörfum í þágu Vestur-Íslendinga, kom að ritstjórn fjölda tímarita (The Icelandic Canadian Magazine 1958-1976; Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1959-1969; Scandinavian Studies 1967-1981; Mosaic 1971-1974; Lögberg-Heimskringla 1979-1981) og var upphafsmaður að The University of Manitoba Icelandic Studies Series árið 1972, þar sem birtust m.a. þýðingar á Grágás og Landnámu og greinasafn um eddukvæði. Hann gegndi formennsku í félögum málfræðinga vestra og hélt fjölda fyrirlestra á fræðasviði sínu. Haraldur vann að og stóð fyrir grunnrannsóknum á máli og menningu Vestur-Íslendinga, skrifaði greinar og bókarkafla, m.a. um verk Halldórs Laxness í European Writers. The Twentieth Century (1990), þýddi A History of the Old Icelandic Commonwealth (1974) eftir Jón Jóhannesson, og ritstýrði (ásamt Baldri Hafstað) geinasöfnunum Heiðin minni (1999), og Úr manna minnum (2002). Sagnalist Haralds birtist í Bréfum til Brands (1999), og Dagstund á Fort Garry (2007). Væntanlegt er safn greina eftir Harald sem félagar við HA standa fyrir. Haraldur Bessason hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu og varð heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1972; heiðursfélagi Íslendingadagsnefndar í Manitoba og heiðursborgari Winnipeg 1987; heiðursdoktor við Manitobaháskóla 1990 og við HA 1999. Haralds Bessasonar verður minnst í dag í útfararstofu Neil Bardal Inc. í Winnipeg og í Toronto hinn 9. maí. Minningarathafnir verða í Akureyrarkirkju og í Áskirkju í Reykjavík í dag, 25. apríl, kl. 13.

Þá er Haraldur frændi horfinn okkur yfir móðuna miklu. Ég ætla hér aðeins að skrifa fátæklegar línur í minningu föðurbróður míns.

Miklir hæfileikar, góðmennska og kímni einkenndu hann þannig að margs er að minnast. Undanfarið höfum við skipst á tölvupóstum og alltaf var hann glaður og hress. Síðasta bréf hans var svo fullt af húmor að ég og móðir mín hlógum lengi eftir lestur þess. Það er notaleg síðasta kveðja.

Þegar ég var á barnsaldri var hann stóri frændi í Vesturheimi sem kom öðru hverju í heimsókn. Faðir minn heitinn og hann höfðu mikil samskipti með bréfum, pistlum og bókum sem þeir sendu hvor öðrum. Elsta dóttir hans, Steinunn er jafngömul mér og kom hér oft á unglingsárum sínum í heimsókn á sumrin. Við fórum hefðbundnar ferðir í Mývatnssveitina og Eydals-fjölskyldan dvaldi saman í Bjarkarlundi í Vaglaskógi. Áttum við góða tíma saman.

Enn höfum við Steina bréfa- og tölvusamskipti. Árið 1975 fórum við, ég og foreldrar mínir í stóra ferð til í Kanada og í þeirri ferð heimsóttum við Harald frænda. Hann og þáverandi kona hans, Ása tóku á móti okkur eins  og höfðingjar værum. Slíkur var velgjörningurinn að gengið var úr rúmum fyrir okkur og dekrað á alla lund. Það var dýrðlegt að hitta þau og á heimili þeirra hjóna hittum við marga þjóðkunna fræðimenn sem gaman var að kynnast. Þetta var mikið ævintýri og ógleymanlegt.

Eftir að Haraldur tók við rektorsstöðu Háskólans á Akureyri urðu samskipti við hann meiri. Áttum við afar ánægjulegar stundir með honum, Margréti konu hans og dóttur þeirra Sigrúnu Stellu.

Ég vil hér með þakka Haraldi frænda fyrir gefandi og skemmtileg kynni.

Ég og móðir mín,  Þyri Eydal, sendum Margréti og Sigrúnu Stellu, Steinunni,  Elínborgu,  Kristínu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Þyri Guðbjörg Björnsdóttir

Margs er að minnast
margt er hér að þakka
hafðu þökk fyrir allt og allt

(Valdimar Briem).

Þegar við kveðjum Harald föðurbróður okkar renna margar myndir í gegnum hugann af þessum merka frænda,  sem sagði sögur betur en flestir aðrir, tók eftir smáatriðum í fari fólks, las í atferli þess og dró sínar ályktanir af því. Haraldur átti djúpar rætur í Kýrholti þó svo að hann hafi lengst af ævi sinnar búið annars staðar. Faðir okkar segir að Haraldur hafi verið kraftmikið barn og duglegt, hafi verið fljótur að læra og verið eftirtektarsamur og skynjað umhverfið og fólkið í kringum sig á sérstakan hátt, eins og kemur svo vel fram í skrifum hans. Þegar Haraldur hóf  skólagöngu sína í Viðvíkursveitinni þá gekk hún vel og yfirleitt hafi hann verið með hæstu einkunnina enda var hann alla tíð mjög minnugur og virtist muna eftir flestu sem gerðist í lífi hans eftir fjögurra ára aldur. Hann hefur því líklega ekki þurft að lesa sama efnið oft. Haraldur var hrókur alls fagnaðar og myndaði sterk tengsl við sveitunga sína á uppvaxtarrárunum.

Við minnumst þess þegar hann kom í heimsókn í Kýrholt löngu eftir að hann var fluttur til Winnipeg að töluverð eftirvænting  lá í loftinu yfir komu hans. Í Kýrholti var öllu því besta tjaldað til, faðir hans Bessi hafði lagt inn  beiðni löngu áður, um það, við bóndann á Lóni að fá lax í soðið, en það var ekki svo auðsótt í þá daga, en alltaf gekk það eftir. Einnig væntu sveitungarnir, sumir hverjir að minnsta kosti, þess að hann kæmi í heimsókn sem og hann gerði. Hann fór fljótt að hitta Halla í Tumabrekku og þar söfnuðust  karlarnir saman og sögðu sögur fram á rauðan morgun enda frásagnarhæfileiki  Haralds óumdeilanlegur. Við sem þetta ritum urðum ekki  samferða honum í Kýrholti því hann fór snemma að heiman  til náms og flutti ungur til Winnipeg en mikið heyrðum við af þessum frænda okkar. Það var okkur því mikil ánægja þegar við fórum til Kanada í fyrra með Bændaferðum og hittum þau hjón Harald og Margréti en þar var Margrét  fararstjóri. Haraldur var með í ferðinni í nokkra daga, þegar við fórum um Winnipeg og nágrenni, og engum duldist að þar fór maður sem var vel heima í sögu og búskaparháttum Vestur-Íslendinga fyrri tíma. Oft kom saga um fyrri ábúendur þeirra bæja sem ekið var fram hjá og ættartengsl þeirra rakin til Íslands. Gjarnan flaut líka með saga af vini hans Dr.Richard Beck.

Á heimili dætra hans þeirra Steinunnar og Kristínar, sem búsettar eru í Gimli og Winnipeg, naut Haraldur virðingar og hlýju. Þar var slegið upp veislu fyrir ættinga og vini úr Skagafirði og ekki var hægt að finna að frásagnarhæfileiki og minni væri farið að dofna þegar Haraldur töfraði fram óborganlegar sögur af samferðarmönnum og vinnufélögum hjá Ræktunarsambandi Skagafjarðar þar sem sjá mátti fyrir sér jarðýtustjóra fyrri tíma og heyra vélarhljóð jarðýtunnar þegar hún sléttaði þúfnakollana.

Við systkinin frá Kýrholti og fjölskyldur okkar flytjum Margréti, dætrum og fjölskyldu, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bessi, Guðrún og Elinborg..

Það var komið vor á sléttunni og ísinn á Winnipegvatni var byrjaður að bráðna. Árnar sem renna gegnum borgina flæddu næstum upp fyrir bakka sína og Haraldur hélt erindi um íslensku og fáein önnur tungumál. Margrét var hér líka með honum. Heimurinn var einhvern veginn í réttu horfi, á réttum stað, og kannski þess vegna var augnablikið viðkvæmt fyrir hnjaski. Deildin brá á það ráð að bjóða þeim hjónum í mat og þegar búið var að leggja á borð, lyfti Haraldur glasi og sagði: Hér sé Óðinn! Gjörningurinn var líkastur helgiathöfn og sem slíkur var hann merkilega undarlegur í okkar frábæra samtíma; líkt og guð skáldskaparins væri á sveimi hér og nú. Hann var seiðandi og fagur og sameinaði okkur tímalausum krafti menningar, krafti sem fyrir margt löngu fleygði okkur inn í veröldina, krafti sem varð brú okkar yfir úthafið. Á þessu augnabliki skynjaði ég að með því einu að Haraldur var hann sjálfur, með veru sinni, ferjaði hann fólk beinustu leið inn í hjarta skáldskaparins. Hver annar en hann hefði getað sagt: Með Völuspá sigraði íslensk tunga heiminn. Staðhæfingin er fögur. Hún gefur einnig til kynna óvenjulega kímnigáfu Haraldar. Öll vitum við, að íslenskan verður seint opinbert tungumál á leiðtogafundi iðnríkjanna. Kímni mannsins var hins vegar enginn farartálmi fyrir djúpum skilningi á möguleikum skáldskapar og tungumáls. Þar kemur til kasta virðingin fyrir því sem mannfólkið getur alla jafna reitt sig á, eða hinu skáldlega réttlæti: Í einu stöku ljóði má sjá veröldina verða til, eyða sjálfri sér og rísa aftur. Þar má einnig skynja lífið eins og því er lifað, eins og við þekkjum það af sorgum þess og gjöfum. Var það ekki annars Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, sem sagði eitthvað á þá veruna, að hver sá sem les ljóð hljóti samstundis að kannast við návist einhvers sem er tilkomumeira og dýpra en orðin sjálf?

Íslenskudeild Manitóbaháskóla hlýtur að þakka fyrir það lán að hafa fengið að njóta krafta manns eins og Haraldar Bessasonar. Hann þjónaði málstaðnum af fágætu örlæti og varð okkur fyrirmynd um það sem skiptir máli: Hér sé ást, galdur og glaðvær viska. Við kveðjum hann með söknuði og vottum Margréti, börnum þeirra og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd íslenskudeildar Manitóbaháskóla,

Birna Bjarnadóttir.